Langvía

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. júlí 2005 kl. 17:14 eftir Pmj (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. júlí 2005 kl. 17:14 eftir Pmj (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Langvía (Uria aalge)


Lýsing

Langvía er af svartfuglaætt. Langvían er löng og rennileg og bolurinn er ílangur. Hálsinn tegist fram, nefið er langt og oddhvasst og fæturnir mjög aftarlega. Kviðurinn er hvítur, en að öðru leyti er langvían svört. Þegar langvían fer í vetrarbúninginn verður hálsinn og hluti af höfði einnig hvítur. Sérstakt litaafbrigði er algengt meðal langvíunnar, kallast það hringvía. Hringvían dregur nafn sitt af hvítum hring í kringum augun og mjóum hvítun taum aftur af. Langvían er í stærra lagi, eða um 42 cm á lengd og 700-1100 grömm.


Fæða

Fæðan er allskyns fiskur, einkum uppsjávarfiskur sem gengur í torfum nálægt yfirborðinu. Einnig leggur hún sér til munns krabbadýr, skeldýr og orma.


Lífsferill

Langvían kann best við sig í þverhníptum sjávarbjörgum og verpir þar á mjóum syllum, sem oft verða þéttsetnar. Langvían eyðir fyrri part vetrar á hafi úti en snýr til varpstöðvanna í janúar og febrúar og þegar tekur að vora hefst baráttan um varpsvæði. Þá gengur mikið á, bæði í landaþrætum og ástarleikjum. Um miðjan maí verpir hún einu eggi á bera klöppina. Eggin eru keilulaga og kemur það í veg fyrir að þau velti auðveldlega út af syllunni. Þau eru margvísleg á lit til að auðvelda foreldrunum að rata á rétt egg. Útungunartími er u.þ.b. einn mánuður. Þegar unginn skríður úr egginu er hann vel þroskaður með þykkan dún og opin augu. Foreldrarnir gæta ungans vel en eftir aðeins 15 til 17 daga er unginn tilbúinn að stökkva í sjóinn. Unginn getur ekki flogið þó svo hann sé tilbúinn að yfirgefa sylluna. Foreldrarnir sitja á sjónum og kalla til ungans og hvetja hann þannig til að stökkva fram af. Vængirnir eru lítt þroskaðir og því steypir unginn sér fram af bjarginu og er fallið í sumum tilvikum yfir 100 metrar. Í nokkrar vikur halda foreldrarnir áfram að fæða og annast ungann á sjónum. Eftir 50 til 70 daga er unginn orðinn fleygur og óhaður foreldronum. Það eru mikil afföll hjá langvíuungunum, 30-50% eggjanna tapast og aðeins hluti unganna nær kynþroskaaldri.


Nytjar

Nytjar eru fyrst og fremst eggjataka, einnig er talsvert af fugli skotinn á sjó og þykir langvían herramannsmatur sem og annar svartfugl.