Blik 1976/Frænda- og vinafólk í Eyjum
Þorsteinn Þ. Víglundsson
Frænda- og vinafólk í Eyjum
Eyjafólk það, sem sýnt er á mynd þessari, var á sinum tíma nafnkunnugt fólk í byggðarlagi sínu og sumt af því landkunnugt.
Jóhann Jörgen Johnsen var fyrirmálsbarn frú Guðfinnu Jónsdóttur Austmanns, heimasætu að Ofanleiti. Hún giftist síðar Árna Einarssyni frá Vilborgarstöðum. Mynd af þessum nafnkunnu og mætu hjónum er birt í Bliki árið 1967, bls. 11.
Árni Einarsson var bóndi, meðhjálpari í Landakirkju um langt árabil og alþingismaður Eyjabúa um skeið. Sonur þeirra hjóna var Sigfús Árnason, organisti Landakirkju, söngstjóri hins elzta karlakórs í Eyjum, póstmeistari frá 1896-1904, útgerðarmaður og formaður á stærsta teinæring í verstöðinni, tíæringnum Auróru. Þeir voru þannig hálfbræður Jóhann Jörgen Johnsen í Frydendal og Sigfús Árnason frá Vestri-Löndum. Móðir þeirra var sem sé frú Guðfinna Jónsdóttir prests Austmanns að Ofanleiti, húsfreyja á Vilborgarstöðum.
Sigfús Árnason var kvæntur frú Jónínu K. N. Brynjólfsdóttur prests Jónssonar að Ofanleiti. (Sjá greinina Frumherjar í Bliki árið 1967).