Blik 1976/Sýningin Íslendingar og hafið
Þorsteinn Þ. Víglundsson
Sýningin Íslendingar og hafið
Í maímánuði 1968 var efnt til mikillar sýningar í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Sýning sú hlaut nafnið „Íslendingar og hafið“. Nafnið á henni greinir frá efni hennar. Hún fjallaði um samband íslenzku þjóðarinnar við hafið, fiskveiðar, siglingar o. fl. þvílíkt. Byggðarsafn Vestmannaeyja var beðið að lána fiska og skeljasafn sitt til sýningarinnar. Við unnum að því eftir megni að fullnægja beiðni forustumanna sýningarinnar í þeim efnum. Við lánuðum til sýningarinnar um 70 tegundir uppsettra fiska, og svo skelja og kuðungasafn Byggðarsafnsins. Þessi söfn okkar voru flutt til Reykjavíkur með flugvél 24. maí og þeim komið fyrir á góðum stað í sýningarhöllinni. Söfn þessi virtust vekja mikla athygli sýningargesta.
Þessi mynd, sem birt er hér á bls. 199, var tekin á þessari sýningu.
Vissulega kostaði þessi greiði okkar við forstöðumenn sýningarinnar mikla vinnu og fyrirhöfn. Við Valdimar smiður og kennari Kristjánsson frá Kirkjubóli á Kirkjubæjum í Eyjum, sem var mér hjálparhellan mikla í þeim átökum, töldum þá vinnu alla ekki eftir okkur, þar sem við væntum þess, að þátttakan yrði bæjarfélaginu okkar til sóma og vekti á því athygli með sýningargestum. Sú von okkar varð sér ekki til skammar. Það er víst og satt. Fiskarnir okkar vöktu óskipta athygli mjög margra. Aldraðir sjómenn höfðu orð á því við okkur, að aldrei hefðu þeir gert sér í hugarlund, að þessi „fyrirbæri“ væri að finna í hafinu við Ísland. Sama var sagt um skelja og kuðungasafnið.