Blik 1948/Eyjatíðindi
Eyjatíðindi
LANDAKIRKJA
Hér fæddust á s.l. ári 91. barn, 46 sveinbörn og 45, meybörn. 56 börn fermdust, 30 sveinar og 26 meyjar. Samtals dóu 28 manns, 11 karlkyns og 17 kvenkyns. Vígð voru af presti 33 hjón, en 4 stofnuðu borgaralegt hjónaband.
26 barnaguðsþjónustur fóru fram í kirkjunni og sóttu 252 börn guðsþjónustu að meðaltali eða samtals allt árið 6553 börn. Samtala kirkjusóknarinnar við hádegismessur er svipuð og mun að meðaltali hafa komið til hverrar messu 160 manns.
Formaður söngkórs kirkjunnar er frú Sigurbjörg Ásta Sigurðardóttir, Oddgeirshólum. Söngstj. er Ragnar G. Jónsson. Söngur kórsins þykir takast með mestu prýði.
Kvenfélag Landakirkju befir innt af hendi mikið og merkilegt starf. Á síðastliðnu ári lét það steypa garð umhverfis lóð Landakirkju. Formaður þess félags er frú Lára Kolbeins.
Þá hefur sóknarnefndin gert sitt til að hlynna að kirkjunni og gera hana vistlegri. Á s. l. ári lét hún steypa gólf í hana og mála alla. Formaður sóknarnefndar er Páll Eyjólfsson. forstj. Sjúkrasamlags Vestmannaeyja. — Kirkjuna málaði Engilbert Gíslason málarameistari.
GAGNFRÆÐASKÓLINN
Við síðastliðin áramót námu hinir ýmsu sjóðir skólans samtals kr. 13004,57.
Sú upphæð skiptist þannig:
Minningarsjóður Þórunnar Friðriksdóttur frá Löndum kr. 2235,68
Minningarsjóður Herm.Guðmundssonar frá Háeyri 1892,96
Minningarsjóður Hauks Lindbergs 3068,05
Smásjársjóður 705,00
Ferðasjóður nem. 657,00
Blaðsjóður skólans 2267,68
Umbótasj. skólans 2178,20
Samtals: 13004,57
Sjóðir þessir eru geymdir í Sparisjóði Vestmannaeyja og Útvegsbanka Vestmannaeyja.
1. desember s. l. héldu nemendur Gagnfræðaskólans ársfagnað sinn.
1. febrúar s. l. minntust nemendur bindindisstarfs og bindindishugsjónar æskulýðsins. Skólinn hafði boðið stúkunum Báru og Sunnu að senda sér gesti í tilefni dagsins. Þessir góðtemplarar sátu bindindisfund nemenda:
F. h. Báru nr. 2. Séra Halldór Kolbeins og Óskar Jónsson. F.h. Sunnu nr. 204, hjónin Árni J. Johnsen og Margrét Johnsen.
28. febr. s. l. héldu nemendur glímudansleik í skólanum, hinn fyrsta í sögu Gagnfræðaskólans.
10. marz s. l. héldu nemendur skólans almenna skemmtun í Samkomuhúsi Vestmannaeyja til tekna fyrir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Til skemmtunar: Leikfimi, söngur, kvikmyndasýning, gítarleikur, kvæðaþáttur og danssýning. Aðsókn var ágæt og voru Barnahjálpinni afhentar kr. 3100,00. Þá var allur kostnaður greiddur.
ÍBÚATALA Eyjanna við s. l. áramót var 3476 manns alls, eða 1718 karlar og 1758 konur.
ÁFENGISNEYZLA í Eyjum nam s. l. ár um kr. 1 millj. og 500 þús. kr.
SPARISJ.VESTMANNAEYJA Inn- og útborganir námu s. l. ár 14 millj. 185 þús. kr.
SAMGÖNGUR
Flugfélagið Loftleiðir flutti 5636 farþega milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur á s. l. ári. Flutningur farþega nam 44.379 kg. Póstur 1669 kg. Flugtími samtals 665 klst. 750 sinnum lentu flugvélar félagsins á vellinum hér: oftast Kristinn Ólsen flugmaður eða 260 sinnum.
Flugfélag Íslands hóf fastar flugferðir milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur 8. júlí f. á. Flugvélar þess fluttu 2516 farþega milli Reykjavíkur og Vestm.eyja. Flutningur farþega nam 24.306 kg. Póstur 6058 kg. Annar flutningur 453 kg.
- ———————————
ÞÓR (við Árna): Ég skal veðja við þig, að þú skalt ekki geta stokkið yfir stafinn minn, þó að ég leggi hann á gólfið.
ÁRNI: Já, ég þori að veðja.
ÞÓR: Hverju viltu veðja?
ÁRNI: Einum dansi við Döddu.
ÞÓR: Ég geng að því.
Síðan lagði Þór stafinn sinn á gólfið fast upp við vegginn og Árni tapaði veðmálinu.