Blik 1976/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. nóvember 2009 kl. 17:00 eftir Birna (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. nóvember 2009 kl. 17:00 eftir Birna (spjall | framlög) (Ný síða: Í ágústmánuði um sumarið gekk stjórn kaupfélagsins frá að ráða framkvæmdastjóra fyrir félagið frá 1 .janúar 1931. Ráðinn var Bjarni Jónsson, skrifstofumaður að Sva...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Í ágústmánuði um sumarið gekk stjórn kaupfélagsins frá að ráða framkvæmdastjóra fyrir félagið frá 1 .janúar 1931. Ráðinn var Bjarni Jónsson, skrifstofumaður að Svalbarða hér í bæ, enda hafði S.Í.S. ekki hirt um það til þess tíma samkvæmt tilkynningu stjórnarinnar að ráða neinn mann í stöðu Ísleifs Högnasonar, þrátt fyrir beiðni félagsstjórnarinnar.

Þegar stjórn kaupfélagsins hafði gengið frá starfssamningi við Bjarna Jónson, boðaði hún til almenns fundar í félaginu. Sá fundur var haldinn 8. ágúst 1930 í Kvikmyndahúsinu Borg að Heimagötu 3.

Á fundi þessum kom berlega í ljós, að kaupfélagsmenn voru klofnir í tvær pólitískar fylkingar. sem tókust á í orðasennum á fundinum, og vönduðu foringjarnir lítt kveðjurnar hver öðrum. Hinn nýráðni kaupfélagsstjóri sat fund þennan og fékk óþvegin hnýfilyrði í sinn garð, svo að hann kvartaði sáran. Hann var þó viðurkenndur hið mesta ljúfmenni, sem starfað hefði í bænum tugi ára við góðan orðstír. En nú var fundarmönnum heitt í hamsi og þá lítið um það hirt, hvar og hvernig stungið var og mannskemmt. Kaupfélagið var nú mulið niður vegna pólitísks ágreinings.

Á fundi þessum bar hinn fráfarandi framkvæmdastjóri fram þessa tillögu frá sér sjálfum og nokkrum öðrum félagsmönnum:

„Fundurinn samþykkir að skipta Kaupfélaginu Drífanda í tvö sjálfstæð kaupfélög, sem yfirtaki skuldir og eignir félagsins eftir nánari ákvörðunum. Ástæðurnar eru þessar: Deila sú, sem risið hefur milli stjórnar kaupfélagsins annars vegar og ýmissa félagsmanna hins vegar verður eigi á annan hátt betur jöfnuð en þann. að deiluaðiljar skilji og eignum og skuldum félagsins verði skipt í réttum hlutföllum við skiptingu félagsmanna í deildinni. Vegna hinna stöðugt vaxandi skulda ýmissa félagsmanna við félagið og samfara því, að nokkur hluti félagsmanna hefur engin not af félagsskapnum, skulda ekkert, hafa myndast hagsmunaandstæður innan félagsins, sem eigi verða jafnaðar á annan hátt en með skiptingu."

Miklar umræður áttu sér stað um tilögu þessa. Hinn fráfarandi framkvæmdastjóri gat þess, að Sigurður Kristinsson, forstjóri S.Í.S., væri meðmæltur slíkum skiptum á félaginu, og skoraði á formann kaupfélagsins að bera upp tillöguna þegar í stað til samþykktar.

Þá bar Guðmundur stjórnarmaður Sigurðsson frá Heiðardal upp þessa breytingartillögu við tillögu hins fráfarandi framkvæmdastjóra: „Fundurinn samþykkir, að Kaupfélagið Drífandi starfi óskipt til næsta aðalfundar og tillaga Ísleifs Högnasonar o. fl. verði þá tekin til umræðu."

„Breytingatillaga þessi var síðan borin upp til atkvæða og samþykkt með 2/3 hluta fundarmanna gegn 1/3 sem atkvæði greiddu," segir í frumheimild.

Um haustið 1. okt. 1930 hóf Bjarni Jónsson störf í skrifstofu kaupfélagsins og starfaði með stjórnarmönnum að athugun á skuldum félagsmanna og greiðslugetu þeirra.

Í desember (1930) tjáði formaður kaupfélagsins félagsstjórninni þá ákvörðun forstjóra S.Í.S.. að Sambandið mundi ekki lána Kaupfélaginu Drífanda neinar vörur eftir næstu áramót (1930/1931). Þessi tilkynning forstjórans kostaði félagsstjórnarmenn nokkrar ferðir til Reykjavíkur á fund forstjórans, og býsna mörg símtöl.

Jafnframt var rætt við bankastjóra Útvegsbankans í Eyjum (Viggó Björnsson) um rekstrarlán til handa kaupfélaginu. Niðurstaðan af þessum umræðum og ráðagerðum varð sú, að forstjóri S.Í.S. afréð að halda áfram að lána kaupfélaginu vörur gegn tryggingu. Þá samþykkti bankastjórinn jafnframt að lána kaupfélaginu fé út á afurðir eins og öðrum. sem þær hefðu til veðsetningar.

Eftir áramótin 1931 hélt svo rekstur og starf kaupfélagsins áfram eins og ekkert hefði í skorizt, en þó með meiri gætni um öll lánaviðskipti og meiri kröfur um auknar tryggingar fyrir skuldum og lánum, ekki sízt lánum til útgerðar.

Endurskoðandi frá S.Í.S. starfaði að því öðru hvoru fyrri hluta árs 1931 að endurskoða reikninga kaupfélagsins og gera sér grein fyrir rekstri þess og fjárhag. Mikill halli hafði orðið á rekstri félagsins árið 1930. Í viðtali við stjórnarformann kaupfélagsins og hinn nýja framkvæmdastjóra þess lét forstjóri S.I.S. í ljós þá skoðun sína, að starfsfólk kaupfélagsins væri allt of margt, svo að vonlaust væri, að reksturinn gæti borið sig með ekki meiri veltu. Leiddi þetta viðtal til þess, að öllu starfsfólki kaupfélagsins nema hinum nýráðna kaupfélagsstjóra var sagt upp starfi (1931) með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Hinn 15. ágúst (1931) hélt stjórn kaupfélagsins aðalfund fyrir árið 1930. Ýmsir höfðu hugsað til þessa fundar með nokkrum spenningi. Hvað um framtíð kaupfélagsins eftir þann fund? Yrði því skipt eða það lagt niður?

Framkvæmdastjórinn, Bj. J., las upp reikninga félagsins og skýrði þá eftir beztu getu. Úr stjórninni skyldi ganga hinn reyndi verkalýðsforingi Guðmundur Sigurðsson frá Heiðardal, sem vikið hafði verið úr Verkamannafélaginu Drífanda að undirlagi „Félaga Stalíns", og Guðmundur Magnússon á Goðalandi. Báðir voru þeir endurkosnir í einu hljóði. Stungið var upp á fyrrverandi framkvæmdastjóra í stjórnina. En sú tillaga fékk ekki byr á fundinum. Það sannar okkur, að mesti vindurinn var tekinn að minnka i „Félögum Stalíns" í þessum deilumálum.

Fundarmenn litu samt fyrrverandi framkvæmdastjóra Í. H., velvildaraugum, þrátt fyrir allt, sem á undan var gengið, sökum mikilhæfni í framkvæmdastjórastörfum og einlægs velvildarhugar til verkalýðsins í kaupstaðnum.

Að fundarlokum minntist fundarstjóri á það, að stjórn félagsins hefði heitið félagsmönnum á síðasta félagsfundi að ræða skiptingu kaupfélagsins og gaf því orðið laust til að ræða það mál. Ísleifur Högnason tók þá til máls og kvaðst ekki vera undir það búinn að ræða skiptinguna að svo stöddu. Hann bar upp tillögu um að fresta því máli til næsta fundar. Sú tillaga var samþykkt í einu hljóði.

Í nóvember haustið 1931 tilkynnti