Blik 1940, 8. tbl./Enginn er annars bróðir í leik
Enginn er annars bróðir í leik
Það átti að vera skólaskemmtun og ég var venjulega leiður og gramur í skapi, þegar svo stóð á, sökum þess að ég var mjög smár vexti og seinþroska, svo að engri stelpu þótti sér sæma að dansa við mig eða tala, öðru vísi en í skopi. Jæja, hvað sem undanförnum dansleikjum leið, þá var ég nú í sjöunda himni, — svo glaður, að ég vissi helzt ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga. Það var kominn stelpa í skólann, sem kunni að meta hina mörgu góðu og miklu kosti mína, og svo var hún reglulega lagleg, — nei, það er of lítið sagt, hún var falleg. Nú ætlaði þessi yndislega vera að dansa við mig. Á leiðinni gat ég þess við bróður minn, sem var ári eldri en ég, og hafði stundað nám í skólanum síðastliðið ár, en hafði nú aðgang að öllum okkar skemmtunum, að ég þyrfti ekki að kvíða kveldinu. Ég varð síðbúinn að heiman, enda lá ekkert á. Ég vissi, að hún mundi bíða mín og neita hinum strákunum um dans, þegar þeir kæmu unnvörpum til hennar með bæn í augum og á vörum. Ó, hversu þeir mundu mæna og öfunda mig, þegar ég svifi í dansinn með hana. Skyldi bróðir minn ekki verða undrandi, þegar hann sæi stúlkuna mína? Um leið og ég gekk út, sleit ég rauðan rósarknapp af gluggablóminu hennar mömmu. Hann skyldi sú útvalda fá til minningar um kvöldið. Þetta líktist hinum fornu riddaravenjum. Þegar ég kom upp að skólanum, sá ég einhverjar tvær mannverur klaka og brýna goggana fyrir sunnan við húshornið. Ég gerðist forvitinn. Hvaða skötuhjú skyldu þetta vera? Ég leitaði á, en þau fóru undan í flæmingi. Nú vildi ég gjarna hafa eitthvað til að segja henni frá í dansinum. Ég tók því undir mig stökk og hljóp fram hjá þeim, svo sem eins og í öðrum erindagjörðum. Ósjálfrátt kreisti ég sundur knúppinn í hendi mér, svo að ég stakk mig til blóðs á þyrni, sem leyndist á rósarstilkinum. Bróðir minn hafði tekið stúlkuna mína frá mér.
- S. E., 2. bekk.