Blik 1941, 1. tbl/Á gægjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. október 2009 kl. 22:42 eftir Saerun (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. október 2009 kl. 22:42 eftir Saerun (spjall | framlög) (Ný síða: '''Á gœgjum.''' Þær höfðu stungið því að mér, stúlkurnar, að í 2. bekk Gagnfræðaskólans starfaði söngkór, sem Björgvin hef...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Á gœgjum.

Þær höfðu stungið því að mér, stúlkurnar, að í 2. bekk Gagnfræðaskólans starfaði söngkór, sem Björgvin hefði stofnað og stjórnað með mikilli kostgæfni. Ég brá mér því í skyndi upp í skóla einn daginn, þegar ég hafði lokið við uppþvottinn eftir hádegið. Ég skeggræddi við hana Júllu um stund, þar til hleypt var út úr kennslustund. Þá strunsuðu nokkrir drengir niður í kjallarann. „Hvaða pattar eru nú þetta?“ spurði ég hana Dúnu, sem þarna stóð. ,,Það er Kjallarakórinn,“ sagði hún. „Er þetta þessi frægi söngflokkur? Já, einmitt, og æfir í þvottahúsinu ?“ „Já,“ sögðu þær Dúna og Inga. „Þetta eru þvottabirnir hvort eð er, en flýttu þér nú niður til að hlusta á þá syngja!“ Ég gerði það. Ég sannfærðist brátt um það, að Gagnfræðaskólinn hefir á að skipa miklum og góðum söngkröftum, sérstaklega þarna í 2. bekk. Þar kvað líka vera miklir andans menn á mörgum öðrum sviðum. Þegar inn kom í þvottahúsið, kallaði söngstjórinn, hann herra Beggi: „Halli, á dyrnar!“ Þá lagðist á hurðina þriggja álna raumur og studdi fast að. „Þetta er hann Halli litli í 2. bekk,“ sögðu stúlkurnar, hún Hlínsa og hún Ella litla í Berjanesi. Þá gaf söngstjórinn tóninn með því að slá þvöru í balabotn, sem kvað vera eina hljóðfærið, sem kórinn ræður yfir. Hebbi byrjar með sinni miklu rödd uppáhaldslag kórsins „Old King Cole“. „Tónninn of lágur,“ hrópa þeir Erlingur og Siggi. Þá byrjar Egill með skrækri rödd. En í þetta sinni reyndist tónninn of hár, því að Guðni sprakk á honum. Í þriðja sinn er byrjað, og nú er það Eiríkur, sem byrjar með mjúkum og dreymandi tónum. Betri hendi söngstjórans líður um loftið, og nú er sungið af tilfinningu. Næsta lag er: „It's a long way“. Það syngur Addi með hinni þýðu rödd sólómannsins, og Doddi tekur undir með þrumandi bassarödd. Þá þegja hinir allir og hlusta með hrifningu, þegar þessir snillingar snillinganna stilla strengi sína saman.
Skyndilega er hringt og meðlimir „Kjallarakórsins“ skunda upp, til þess að eiga ei á hættu að komast á „svarta lista“ hjá hinum dygga umsjónarmanni 2. bekkjar.

Tobba Teits.