Blik 1939, 6. tbl./1. desember

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. október 2009 kl. 10:55 eftir Saerun (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. október 2009 kl. 10:55 eftir Saerun (spjall | framlög) (Ný síða: Hermann Guðmundsson: '''1. desember.''' (Erindi flutt í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum). Kæru samnemendur, kennarar og aðrir...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Hermann Guðmundsson:

1. desember.

(Erindi flutt í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum).


Kæru samnemendur, kennarar og aðrir gestir!
Hvers ber okkur að minnast 1. desember, á þeim degi, sem færði hinni íslenzku þjóð aftur fullveldi sitt, eftir rúmlega hálfrar sjöundu aldar ófrelsi? Sjálfsagt verður hverjum manni fyrst fyrir að hugsa til allra þeirra, er á liðnum öldum hafa ótrauðast barizt fyrir þessu endurheimta frelsi, og þá ekki sízt ungum námsmönnum, sem sjálfir setja sér markið hátt. Það verður fyrsta og helzta verk okkar 1. desemeber að rifja upp nöfn brautryðjendanna, hinna íslenzku vormanna, sem lögðu í það allan þrótt sinn, líf og sál, að berjast fyrir frelsi þjóðarinnar. Við minnumst í því sambandi manna eins og Jóns Arasonar, sem lagði höfuð sitt undir öxina í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands. Sömuleiðis minnumst vér Skúla Magnússonar, Eggerts Ólafssonar, Tómasar, Bjarna, Jónasar og Baldvins Einarssonar, svo að ég nefni dæmi frá síðari tímum. Og ekki má gleyma frelsishetjunni, Jóni Sigurðssyni, sem ávallt mun bera höfuð hæst af þjóðhetjum þeim, sem íslenzk minning geymir við barm sinn. Allra þessara manna og fjölmargra annarra minnumst vér í dag og heiðrum minningu þeirra. Og minning þeirra heiðrum við bezt með því, að reyna af fremsta megni að feta í fótspor þeirra, með því að kappkosta ætíð að vera dyggir og góðir borgarar og sannir synir ættjarðarinnar. Við þurfum kannske ekki að berjast gegn erlendri kúgun á sama hátt og þessir Íslendingar, sem ég nefndi, en við munum vissulega, er út í lífið kemur, fá nógu mörg andstæð og ill öfl við að berjast, og það er ósk mín í dag, að við megum öll reynast eins þrautseig í baráttunni við hin illu öfl í okkar eigin lífi, eins og hinir íslenzku vormenn í frelsisbaráttu þjóðarinnar.
Þá verður okkur næst fyrir að hugleiða: Fyrir hverju voru þessir beztu synir ættjarðarinnar að berjast, og undan hverjum ógna öflum voru þeir að leysa hina íslenzku þjóð? Þeir voru að leysa hana undan alls konar ófrelsi, andlega og veraldlega, óréttlátu stjórnarfari, óheilbrigðum verzlunarháttum, óheyrilegri kúgun erlends valds og hinni sárustu eymd. Og þá viljum við að lokum athuga, hver var orsökin til allrar þessarar kúgunar og neyðar, — hvers vegna hafði hin fornfrjálsa íslenzka þjóð mátt sæta slíkum hörmungum? Og við verðum að játa, að orsökina er fyrst og fremst að finna hjá Íslendingum sjálfum. Orsökin var innanlandsófriður og sundrung Sturlungaaldarinnar, ásamt dekri hinna íslenzku höfðingja við erlenda valdamenn. Hefðu höfðingjar Sturlungaaldarinnar átt vizku og framsýni í sama mæli og Einar Þveræingur, þá hefði öðru vísi farið. Þetta er okkur Íslendingum dýrkeyptari reynsla en svo, að við megum vanrækja að láta okkur hana að kenningu verða. Munum því ávallt að forðast alla sundrung, en vinna alltaf bróðurlega að velferðarmálum lands vors og þjóðar. Á þann hátt vinnum við bezt að sjálfstæði Íslands eins og hinar íslenzku frelsishetjur gerðu. Megi Ísland á komandi árum eignast fleiri menn líka Jóni Sigurðssyni, — þá er hinu íslenzka sjálfstæði borgið.