Vilborgarstaðir
Árið 1704 voru 8 aðskildir bæir á Vilborgarstöðum og sá 9. sem tilheyrði staðnum var Háfagarður. Þar voru reiknuð 16 kýrfóður. Jörðinni fylgdu 9 hjallar á Skipasandi og fiskigarðar undir Há. Eitt húsmannsbýli, í eyði fallið 1704, tilheyrði Vilborgarstöðum. Vilborgarstaðabæirnir voru: Norðurbær, Vestasti-, Nyrsti-, Austasti-, Syðsti- og Miðhlaðbær, Háigarður, Miðbær og Austastibær. Nöfnin voru lítið notuð því alltaf var talað um Vilborgarstaðabæina.
Aðrar upplýsingar
Heimaklettur og Miðklettur fylgdu Vilborgarstöðum. Þeir áttu að þola 40 sauða beit. Auk þess höfðu íbúar beitarleyfi fyrir 25 sauði í Suðurey. Á Vilborgarstöðum var þingstaður fram um miðja 16. öld. Þá var þingstaðurinn fluttur að svokölluðum Hvítingum.