Magnús Guðmundsson (Vesturhúsum)
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Magnús Guðmundsson“
Magnús Guðmundsson fæddist 27. júní 1872 að Vesturhúsum og lést 24. apríl 1955. Magnús var bóndi og formaður. Foreldrar hans voru Guðmundur bóndi Þórarinsson á Vesturhúsum og Guðrún Erlendsdóttir. Magnús giftist Jórunni Hannesdóttur hafnsögumanns Jónssonar. Þau hjón bjuggu allan sinn búskap á Vesturhúsum í Eyjum, nema nokkur ár er þau bjuggu í húsinu Helgafelli við Helgafellsöxl en þau byggðu húsið. Þau bjuggu þar í nokkur ár frá árinu 1936 en fluttu aftur á Vesturhús. Jórunn lést 24. janúar 1962.
Magnús byrjaði að stunda sjóinn um fermingaraldur. Fljótlega varð hann formaður. Magnús var um áratugi með allra snjöllustu formönnum og fyrstur til að stunda veiðar við Vestmannaeyjar með þorskalínu árið 1897. Einnig byrjaði Magnús á því að leggja þorskanet í sjó við Eyjar. Magnús var aflakóngur 1908.
Magnús varð formaður á Hannibal, sem var lítill sexæringur 1890, þá 18 ára, til 1891. Formaður á Ingólfi (eldri) 1892-1904. Ingólfur var sexræðingur, smíðaður af eigandanum Ólafi Magnússyni í London, sem einnig átti Hannibal. Eftir vertíðina 1904 var Ingólfi lagt. Ingólfur (yngri) var tíæringur, smíðaður í Eyjum 1904, með færeysku lagi. Eigandi og formaður var Magnús Guðmundsson 1905-1906. Ingólfur seldur eftir vertíðina 1906, Magnús var formaður með m/b Hansínu VE 100, 1907 – 1912, og ½ vertíð 1915-1916. Eftir vertíðina 1916 var Hansína seld til Keflavíkur. Með Hansínu VE 200, sem smíðuð var í Vestmannaeyjum 1916, var Magnús 1917-1921. Hann átti 1/6 part í fyrri bátnum, en 1/5 í þeim seinni. ( “ Enskt línuveiðagufuskip strandaði hér í ágústmánuði 1896. Bjargaðist úr því flest lauslegt, þar á meðal öll línan og keyptu þeir Gísli Lárusson formaður með Frið, Hannes Jónsson formaður með Gideon og Magnús Guðmundsson formaður með Ingólf línuna, með það fyrir augum að reyna hana næstu vetrarvertíð.” (Formannsævi í Eyjum, bls.29.) Magnús var fyrstur til að reyna línuna á vertíðinni 1897. Magnús var einn af þremur formönnum, sem hófu þorskanetaveiðar árið 1916. Hinir voru Stefán Guðlaugsson í Gerði, á Halkion VE 140 og Gísli Magnússon í Skálholti, á Óskari VE 185,
Heimildir
- Eyjólfur Gíslason. Hannes Lóðs. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1954.
- Jón Sigurðsson. Aflakóngar Vestmannaeyja 1906-1929. Sjómannadagsblaðið 1961. 10. árg.
- Sjómannablaðið Víkingur. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.
- Þorsteinn Víglundsson. Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum. Blik. 23. árg 1962.
- Gísli Eyjólfsson frá Bessastöðum