Blik 1969/Fjallamenn í verzlunarferð til Vestmannaeyja
Þegar leið fram á vorið 1867, hugðu bændur undir Eyjafjöllum til verzlunarferðar til Vestmannaeyja. Tíð var óþurrkasöm; það seinkaði því, að ullin næði að þorna og verða gild verzlunarvara.
Þegar langt var liðið fram í júnímánuð og sumir bændur höfðu loks lokið við að þurrka meginið af ullinni, ókyrrði sjó og tók af leiði, svo að dögum skipti.
Loks með óttugeislum miðsumarsólarinnar aðfaranótt 1. júlí ýttu Fjallamenn úr vör og héldu vestur með ströndinni í átt til Eyja.
Verzlunarferð þessi hafði verið undirbúin vel og lengi. Bændur höfðu flutt afurðir sínar að skipi, svo að þær væru tiltækar til útskipunar, þegar gæfi, nema þá þeir, sem ekki höfðu meira að selja eða verzla fyrir í Eyjum en sem svaraði klyfjum á einn eða tvo hesta.
Daginn áður, 30. júní, var boð látið ganga um byggð Út- og Austurfjalla og Vestmannaeyjaferðin tilkynnt, því að afráðið hafði verið samskipsflot bænda úr báðum byggðum eða hreppum að þessu sinni.