Blik 1980/Ágrip af sögu landbúnaðar í Vestmannaeyjum, III. hluti
Kartöflusýki veldur miklum skaða.
Sumrin 1915 og 1916 varð vart við töluverða kartöflusýki í görðum í Vestmannaeyjum. Þó olli hún þá ekki tilfinnanlegu tjóni. - En sumarið 1917 keyrði alveg um þverbak í þessum efnum. Þá brást kartöfluuppskeran tilfinnanlega af þessum sökum, svo að til vandræða horfði. Þá nam kartöfluuppskera Eyjafólks ekki nema hluta af þeirri uppskeru, sem það hafði fengið á undanförnum árum.(Sjá skrá yfir kartöfluuppskeru Eyjamanna á bls. 86)
- Þá hafði heimsstyrjöldin geisað undanfarin þrjú ár og þrengt mjög kjör manna, valdið miklum erfiðleikum á marga lund. Skortur á nauðsynlegum heimilisþurftum gjörði þá árlega mjög vart við sig, svo að vanlíðan margra hlauzt af.
Kartöflusýkin í Eyjum rýrði mjög afkomu margra heimilisfeðra þar og olli miklum áhyggjum þeim mönnum, sem báru hag byggðarlagsins fyrir brjósti. Björn H. Jónsson, skólastjóri barnaskóla Eyjabúa, skrifaði um kartöflusýkina í blaðið Skeggja haustið 1917. Þar gerði hann fólki grein fyrir sveppi þeim, sem ylli kartöflusýkinni. Hann sá helzt engin ráð önnur gegn henni en að leggja alla kartöflurækt á Heimaey til hliðar að þessu sinni og sá rófnafræi í garðana.
Skólastjóri hvetur Eyjamenn til þess að ræða þessi vandræði sín á almennum fundi og leita ráða, og taka svo fasta ákvörðun. Hann endar grein sína með þessum orðum: „Því næst verða að koma framkvæmdir svo frekar, að þessi óþokkagestur (kartöflusýkissveppurinn) verði gerður landrækur og eignist hér ekki friðland framar. en til þess þarf öflug samtök og félagsskap. Væri það vel til fallið, að sá félagsskapur næði yfir fleira viðvíkjandi jarðræktinni hér.“
Enn var sem sé hvatt til félagsskapar í byggðarlaginu um jarðræktar- og garðræktarmálin. Og enn fengu þær tillögur enga áheyrn hjá almenningi í Eyjum.
Bjargráðanefnd, sem svo var kölluð, var þá starfandi í Eyjum á vegum hins opinbera eins og víða í hreppsfélögum landsins sökum hinna miklu erfiðleika af völdum heimsstyrjaldarinnar 1914-1918. - Eftir nokkrar vangaveltur var það ráð tekið til bjargar kartöflurækt Eyjafólks að festa kaup á 300 tunnum af útsæðiskartöflum frá Danmörku handa Eyjamönnum, og njóta síðan umsjónar og fræðslu Einars Helgasonar, garðyrkjufræðings og ráðunauts í Reykajvík um notkun þessa útsæðis og hirðingu og eftirlit í kartöflugörðum Eyjamanna. Þessi ráð tókust mætavel, og fengu Eyjamenn um 2/3 þeirrar uppskeru haustið 1918, sem þeir höfðu fengið að jafnaði á undanförnum árum, áður en „kartöflu- plágan mikla“ dundi yfir.
Mörgu var ábótavant. Engin samtök. Hver baukar sér. Allt eftirlit skortir.
Árið 1920 fluttist Páll V. G. Kolka læknir til Vestmannaeyja og settist þar að. Hann varð þar kunnur sjúkrahússlæknir. Læknir þessi ól með sér brennandi áhuga á velferðarmálum fólksins, svo sem atvinnumálum, fræðslu- og heilbrigðismálum. - Eftir að læknirinn settist að i Eyjum, tók hann brátt að skrifa um ýmis velferðarmál Eyjamanna. M.a. skrifaði hann um mjólkurmálin þar, mjólkurskortinn í bænum og þörf á miklu meiri ræktunarframkvæmdum á Heimaey en þá áttu sér stað.
Þegar hann hafði búið í Eyjum í fjögur ár, gerðist hann einn af stofnendum Búnaðarfélags Vestmannaeyja. Það var sem sé árið 1924.
Eftir 12 ára dvöl í kaupstaðnum skrifaði læknirinn grein um mjólkurmálin í byggðarlaginu á Heimaey. Sú grein vakti mikla athygli. Lækninum fannst lítið hafa munað fram á við í þeim efnum á undanförnum árum, þó að Búnaðarfélagið væri þá búið að starfa í 8 ár. - Þó viðurkenndi læknirinn í skrifum sínum, að ýmislegt hefði miðað vel fram á við í ræktunarframkvæmdum og störfum búnaðarfélagsstjórnarinnar síðan Búnaðarfélagið var stofnað. En margt sat þar líka enn við sama gamla heygarðshornið, t.d. dreifing mjólkurinnar til kaupendanna, heilbrigðiseftirlit, meðferð mjólkurinnar, hreinlætiseftirlit o.m.fl. Ekkert af þessu átti sér stað eða var framkvæmt í byggðarlaginu.
Ekki er ófróðlegt að lesa þessi skrif læknisins og íhuga þau. Þau eru líka sálfræðilegs efnis.
Hann segir þar: „Menn eru margir þannig gerðir hér, að ef þeir eiga eina belju og áttunda part í bát, þótt hann sé allur í skuld, þá þykjast þeir vera kapitalistar og sjálfum sér nógir og finnst það hinn mesti óþarfi að hafa samtök við þá, sem líkt er ástatt fyrir. Þess vegna byggir hver sér fjós og hlöðu fyrir sína eigin belju, og er þessum stórhýsum dreift um allan bæ til skrauts og prýði. Á sumrin rekur hver og einn sér sína einu belju suður fyrir Fell eða inn í Dal og sækir hana aftur að kvöldi.
Bændurnir fyrir ofan hraun rorra hver með sína mjólk daglega niður í bæinn og flytja hana heim í húsin til kaupendanna. Niðurstaðan af þessu samtakaleysi er sú, að það fer heilt dagsverk í það að þjóna einni eða tveimur beljum, nema á stærri búunum. Með þessu verður mjólkurframleiðslan óeðlilega dýr og lendir það bæði á kaupanda og seljanda. Mjólkurframleiðendur hér fá hærra verð fyrir mjólk sína en nokkurir aðrir bændur á landinu, en eru samt engu betur staddir, því að kostnaðurinn á hverja kú er hærri hér en nokkurs staðar annars staðar.
Þrátt fyrir hátt mjólkurverð, hafa kaupendur enga tryggingu fyrir því að fá góða og ósvikna vöru fyrir peninga sína aðra en þá, sem felst í persónulegu trausti á seljandanum. Hér er ekkert eftirlit með sölu mjólkur eða annarra matvæla, því að heilbrigðisnefnd, sem þetta heyrir undir, virðist skoða sig sjálfa frekar til stáss en til starfs, og er þó vissulega til hennar vandað, þar sem tveir helztu embættismennirnir í bænum eiga sæti í henni. Auk þess hefur bærinn fastráðinn heilbrigðisfulltrúa, sem aðallega á að líta eftir því, að ákvæðum heilbrigðisreglugerðarinnar sé fylgt, en hann kvartar jafnaðarlega undan því, að hann fái enga áheyrn hjá nefndinni með kærur sínar.
Þar sem seld er mjólk úr 200-300kúm án þess að nokkurt opinbert eftirlit sé haft með kúnum, fjósunum eða meðferð mjólkurinnar, þá gefur það að skilja, að almenningur á það á hættu, að mjólkin geti verið úr berklaveikum kúm eða smituð af berklum á heimili mjólkurframleiðendanna, ennfremur að hún geti verið svikin, óhrein eða á annan hátt ekki sæmileg vara. Ég segi þetta ekki til þess að vekja tortryggni á neinum þeim, sem hér eiga hlut að máli, því að skoðun mín er sú, að á þessu beri miklu minna en við mætti búast, heldur til að benda á þá hættu, sem ekkert er gert til að afstýra.
Hin mðrgu smáfjós með tilheyrandi haugum um allan bæ, eru mesta óhæfa. Að réttu lagi væri mátulegt að hafa hér aðeins tvö fjós fyrir 150-200 kýr hvort, annað austur á Kirkjubæ en hitt fyrir ofan Hraun, og 2-3 mjólkurútsölustaði niðri í bænum. Þetta fyrirkomulag væri, þegar til lengdar léti, ódýrara en hið núverandi og gæfi auk þess fullkomna tryggingu fyrir góðri og heilnæmri mjólk. Með því móti væri einnig hægt að koma við nauðsynlegum kynbótum á kúnum, en hvergi er jafnmikill munur á gagnsemi skepna sömu tegundar eins og góðrar kýr og ónýtrar.
Ég geri nú ekki ráð fyrir, að svo róttæk breyting sem þessi, komist á í bráðina. En núverandi ástand er óþolandi og verður að breytast í rétta átt. Hið fyrsta, sem þarf að gera, er að innleiða berklarannsóknir á kúnum, heilbrigðiseftirlit með fjósunum og meðferð mjólkurinnar og koma upp 2-3 útsölustöðum, sem öll sú mjólk, sem seld er í bænum, fari í gegnum. Yrði þar hægt að hafa eftirlit með, að mjólkin væri hrein og ósvikin....... Annars er mjólkurframleiðslan alls ekki of mikil, því að hér þyrfti að réttu lagi 400 kýr, ef mjólk, hin ágæta og holla fæða, væri notuð eins og vert er í staðinn fyrir kaffisullið, sem allt of mikið er drukkið af.“
Þetta var þá „mjólkurhugvekja“ Kolka læknis 1932. Efni hennar er rétt og sannsögulegt og sannar okkur, hversu mörgu var ábótavant hjá Eyjamönnum á þessum árum og gamlir hættir steinrunnir.
Skrif Kolka læknis höfðu þá sín áhrif og vöktu menn til íhugunar. Um árabil hafði óskiljanlegur kúadauði átt sér stað í Eyjum. Kýr lágu dauðar á bás sínum, þegar í fjós var komið að morgni. Hvað olli? Það vissi enginn enn. Engin rannsókn hafði farið fram á þessu fyrirbrigði. Eftir þessi skrif læknisins skaut þeirri hugmynd upp, að nauðsynlegt væri að ráða dýralækni til starfa í Eyjum til lengri eða skemmri tíma. Gæti hann þá rannsakað hinn óeðlilega mikla kúadauða, rannsakað mjólkurgæði og beitt áhrifum sínum til aukins hreinlætis í fjósum Eyjamanna.