Blik 1980/Ágrip af sögu landbúnaðar í Vestmannaeyjum, II. hluti
Aðilar að Búnaðarfélagi Íslands
Stjórn Framfarafélagsins hafði hug á að veita félagsmönnum dálitla fræðslu í garðrækt. Það átti kost á garðyrkjuráðunaut til Eyja frá Búnaðarfélagi Íslands, ef það gerðist aðili að þeim samtökum. Hinn 23. des. 1903 samþykkti félagsfundur, að félagið gengi í Búnaðarfélag Íslands, eins og það var orðað. Í ágústmánuði 1904 sendi stjórn Búnaðarfélags Íslands garðyrkjuráðunaut sinn, Einar Helgason, til Eyja til þess að flytja fyrirlestur um garðyrkju og veita Eyjamönnum fræðslu í garðrækt fyrst og fremst. Hann var fyrsti búnaðarlærði maðurinn, sem gisti Vestmannaeyjar, að fullyrt var.
En nú eru stórvægilegar breytingar í aðsigi í kauptúninu á Heimaey. Hugur allra er brátt svo háftekinn og heillaður, að ekkert annað kemst þar að. Vélbátaútvegurinn er að hefjast. Aflaföngin fara hraðvaxandi. Allt annað víkur til hliðar. Líka áhuginn á landbúnaðinum og öllum hugsjóna - og framfaramálum þeim, sem forgöngumenn Framfarafélagsins báru helzt fyrir brjósti.
Vélbátaútvegurinn ryður sér til rúms. Hann tekur einnig hugi bænda. Hann markar brátt spor um bætta afkomu og fljóttekinn hagnað af starfi og striti. Árið 1910 boðaði stjórn Framfarafélagsinns tvívegis til fundar. Enginn sinnti því fundarboði. Allur áhugi fyrir félaginu því og framfaramálum þess var gjörsamlega hjaðnaður. Ekki svo mikið, að stjórnarmennirnir létu sjá sig, enda höfðu sumir þá þegar sagt sig úr félaginu. Þó tókst að halda aðalfund félagsins vorið 1911. Síðan lá félagsstarfið niðri í 3 ár án funda.
Hinn 26. apríl 1914 tókst að kalla saman nokkra félagsmenn á fund til þess að geta slitið félagsskapnum að nokkurn veginn eðlilegum hætti. Þá hafði enginn félagsmaður greitt ársgjaldið sitt, og sumir ekki síðustu árin. Samþykkt var þarna, að láta allt kyrrt liggja og slíta þar með félagsskapnum.
Alls hélt Framfarafélag Vestmannaeyja 46 fundi. Öll árin var Sigurður Sigurfinnsson á Heiði formaður þess. Og trúnaðarmenn félagsins, sem mældu jarðabæturnar hjá jarðræktar- garðræktarmönnum, voru þeir bændurnir Guðmundur Þórarinsson á Vesturhúsum (í 13 ár), Jón Jónsson, bóndi í Dölum (í 12 ár) og Bjarni bóndi Einarsson í Hlaðbæ (í 5 ár). Þrír aðrir unnu þessi trúnaðarstörf fyrir samtökin styttri tíma.
Alls urðu æviár Framfarafélags Vestmannaeyja 21. Ekki hefur mér lánazt að finna skrá yfir unnar jarðabætur á vegum þess nema fyrstu 15 árin. Ef til vill hefur ríkt algjör kyrrstaða í öllum ræktunarframkvæmdum félagsmanna, eftir að vélbátaútvegurinn og hinn mikli gróði útgerðarmanna af honum tók allan hug framkvæmdasamra Eyjabúa, - og líka Eyjabænda, eins og ég hef drepið á - svo að flest annað varð að þoka.
Hér birtum við skrá yfir tölu félagsmanna Framfarafélagsins á starfsárum þess, skrá yfir unnar jarðabætur og aðrar framkvæmdir til eflingar búskapnum.
Jarðræktarframkvæmdir Framfarafélagsmanna
Varnargarðar í lengdarmetrum |
Áburðargryfjur | Þúfnasléttur | |||
---|---|---|---|---|---|
Einhlaðnir grjótgarðar |
Tvíhlaðnir grjótgarðar |
Úr torfi og grjóti |
Rúmmetrar | Hektarar | |
1893 | 220,3 m | 60,3 m | 128,0 | ||
1894 | 449,0 m | 74,4 m | 108,7 | 1,26 | |
1895 | 235,4 m | 45,2 m | 40,5 m | 72,0 | 1,12 |
1896 | 138,4 m | 61,2 m | 0,96 | ||
1897 | 334,3 m | 107,3 m | 15,0 m | 0,45 | |
1898 | |||||
1899 | |||||
1900 | 222,2 m | 11,3 m | 1,14 | ||
1901 | 384,4 m | 128,0 m | 24,5 m | 93,0 | 0,89 |
1902 | 13,2 m | 103,8 | 1,50 | ||
1903 | |||||
1904 | 17,0 m | 49,0 m | 108,9 | 1,15 | |
1905 | 1,13 | ||||
1906 | 175,0 m | 41,4 m | 30,0 m | 98,6 | 1,40 |
1907 | |||||
1908 | 60,3 m | 19,7 | 0,84 | ||
1909 | 0,73 | ||||
Alls | 2213,5 m | 554,5 m | 110,0 m | 732,7 | 12,57 |
Tala félagsmanna Framfarafélagsins |
Þeim greiddur styrkur |
Unnin dagsverk | |
---|---|---|---|
1893 | 12 | 271,0 | |
1894 | 15 | 67,10 | 493,5 |
1895 | 18 | 110,50 | 396,0 |
1896 | 20 | 103,90 | 316,0 |
1897 | 16 | 83,10 | 240,5 |
1898 | 16 | 150,22 | |
1899 | 19 | ||
1900 | 116,52 | 318,0 | |
1901 | 22 | 487,0 | |
1902 | 22 | 150,54 | 386,0 |
1903 | 17 | 111,54 | |
1904 | 19 | 105,83 | 324,5 |
1905 | 115,53 | ||
1906 | 24 | 397,0 | |
1907 | 107,80 | 234,5 | |
1908 | 14 | 237,0 | |
1909 | 43,26 | ||
Alls | Kr. 1265,74 | 4101 dagsverk alls |
((Sjá nánar grein um Framfarafélag Vestmannaeyja í Bliki, ársriti Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum, árganginum 1953, bls. 1-14).
Ég get fullyrt, að fáir Eyjamenn báru hagsældir og framfarir með fólkinu í Eyjum meir fyrir brjósti enSigurður bóndi Sigurfinnsson á Heiði, skipstjóri og hreppstjóri. Á árunum 1891-1897 skrifaði hann fréttapistla í blaðið Fjallkonuna í Reykjavík. Efni þeirra var að miklu leyti um athafnalíf Eyjafólks, sjávarafla og landbúnað. Þar stendur m.a. skrifað:
„Svo sem byggingarbréf Eyjabænda bera með sér, þá voru Eyjajarðir ekki leigðar á erfðafestu. Þennan skort á réttindum litu margir Eyjabændur heldur óhýru auga. Þeim fannst ekki taka því að fórna miklu starfi og fjármunum í aukna ræktun, þar sem erfingjar þeirra fengu ekki að njóta þeirra framkvæmda, heldur kæmu þær landsdrottni fyrst og fremst til góða, þar sem jarðarleigan hækkaði, ef mikið hafði verið unnið til bóta jörðinni. Það voru því einskærar tilviljanir, er börn bændanna, eitt eða fleiri, sóttust eftir að fá ábúðarrétt þar að foreldrunum látnum. - Og fleira var það, sem beindi huga bændasonanna frá landbúnaði í Eyjum. Auknar jarðabætur og framkvæmdir við ræktunarstörf voru skattlagðar af ríkisvaldinu.“ Sigurður Sigurfinnsson skrifar í Fjallkonuna í nóvember 1891: „En til hvers er að vinna að því að stækka tún? Tólffalt eftirgjald við það, sem jörðin álízt að geta hækkað í verði fyrir jarðabótina. Óviss eftirtekja og lítil laun fyrir jafn kostnaðarsamt verk, sem grjótuppbrot er hér og sléttun á úthögum. Svo ganga erfingjar örsnauðir frá, ef ónýtir svaramenn eiga hlut að máli. Fengist það tún, sem ræktað væri, með erfðafestu, væri það miki hvöt til umbóta.....“ Ennfremur skrifar hann 1891:
Æskilegt var sumarveðrið í ágúst og fram í september. Sumir bændur fengu 16-40 tunnur af garðávexti. Má nú segja, að garðræktin sé aðalbjargræðisvegur hjá allmörgum hér í Eyjum. Sá atvinnuvegur hefur vaxið mjög s.l. 12 ár, þó að jarðarbóndi hver verði að greiða 50 aura í sveitarsjóð fyrir hverja 10 ferfaðma í kálgarði, er hann hefur utan túns. En 75 ferfaðma má hver hafa tollfría....“
„Hver þurrabúðarmaður má hafa 200 ferfaðma án sérlegs gjalds, en greiða skal hann skatt fyrir hverja 10 ferfaðma bar umfram, 50 aura fyrir ferfaðminn í sveitarsjóð“. Alls nam þetta aukagjald í sveitarsjóðinn kr. 115.00 haustið 1891.
Á öðrum stað sama ár segir Sigurður Eyjabóndi: „Rýrar ær, léleg fénaðarhöld. Kýr mjólka mjög illa, eins og venjulega. Kýr mjólka hér betur á veturna.“
Rýrir úthagar ollu því, að kýr Eyjamanna mjólkuðu illa að sumrinu, enda var þá kraftfóðurgjöf ekki þekktur þáttur í mjólkurframleiðslunni. Sökum látlauss skorts á eldiviði í byggðarlaginu, var taðið tínt í eldinn af úthaganum alla tíma ársins. Á veturna var það há helzt hrossatað, en hross gengu þar úti alla tíma árs.
Í byrjun maímánaðar 1892 gaf að lesa sérlega auglýsingu á útihurð Landakirkju. Kirkjugestir voru því vanir, að þar stæðu skráðar skíru letri allar tilkynningar frá stjórnarvöldunum. Og þar stóð nú sú, sem kom illa við marga, ekki sízt húsmæðurnar í stétt þurrabúðarmanna: „Bannað að tína tað af útlandi eða beitilandi Heimaeyjar. Bændur mega búast til útbyggingar af jörðunum, ef þeir láta ekki hlýða þessu banni.“ Undir þessa tilkynningu til bændanna skrifaði sjálfur sýslumaðurinn Jón Magnússon.
Sumarið 1892 var mjög þurrkasamt, svo að afleiðingarnar hjá Eyjafólki urðu tilfinnanlegar. Kálgarðar brugðust sökum hinna miklu þurrka. Ekki gat fólkið vökvað þá sökum skorts á vatni. Engir voru vatnsgeymar við húsin nema tunnur, og torfbökin skiluðu litlu regnvatni, sem ekki var meira en svo, að það hrökk naumast til að fullnægja sárustu heimilisþörfum hvers og eins.
Þetta sumar (1892) spratt gras mjög illa í úteyjum Eyjamanna sðkum óvenjulega mikils grasmaðks. Þá leið fé þar einnig og þreifst illa sökum þorsta af völdum þurrkanna og skilaði þess vegna litlum arði um haustið, var óvenju rýrt. (Sjá blaðið Fjallkonuna 9. okt. 1892).
Hinn 19. nóvember 1893 skrifar Sigurður bóndi: „Kálgarðar með allra bezta móti en sjávarafli rýr. Sumir bændur fengu frá 20 til 40 tunnur af rófum og kartöflum Þá segir hann: „Girt eru lönd og ræktuð til garðræktar á Heimaey, og betri nýting á slógi og öllum öðrum áburði en fyrr.“ Þarna finnur bóndi þá þegar árangur af stofnun Framfarafélagsins, en hann var potturinn og pannan í þeim búnaðarsamtökum Eyjamanna. - Og enn segir hann: „Hér er sífellt mjólkurleysi, því að 27 kýr eru mjólkandi hér nú.“ - Þá voru 550 manns búsettir í Vestmannaeyjum. Til þess að undirstrika afturförina um mjólkurframleiðsluna tekur bóndi fram, að árið 1852 hafi veríð 52 kýr og kelfdar kvígur í Eyjabyggð. Þá bjuggu bar 362 manns. Og árið 1791 voru þar 60 kýr og kelfdar kvígur, segir hann, og þá aðeins 193 manns búsettir. Svo bætir hann víð: „Áhugi dofnar fyrir kúm. Hætt að hirða handa þeim hrogn, lifur o.fl. fiskkyns, og þá einnig kjarna í fjöru, fjörugrös, söl o.fl.“ - Hér gefur að lesa milli línanna, þegar veruleg rækt var lögð við kúahaldið í Eyjum.
Árið eftir að Sigurður Sigurfinnsson og félagar hans stofnuðu Framfarafélagið, skrifaði hann Fjallkonunni: „Með mesta móti unnið að jarðabótum s.l. haust. Margir unnu að þúfnasléttun fram að jólum eftir því sem tíð leyfði. Bændur stækka tún sín og hlaða varnargarða, - grjótgarða.“ - Og svo næsta ár (1895):
„Túnin voru slegin tvívegis í sumar, sem er sjaldgæft. Kartöflur og rófur spruttu ágætlega. Margir fengu 20 tunna uppskeru og allt að 60 tunnur af kartöflum og rófum.... Garðávöxtur er hér orðinn aðalbjargræði margra, þegar sjórinn bregst. Hér er ríkjandi sífelldur áburðarskortur sökum aflaskorts. Kúm og öðrum nautgripum fjölgar. Sauðfé fækkar.“ (Ef við lítum á búpeningsskrána hér á bls. 79, verður tæpast séð, að þessi fullyrðing standist).
Og 1897 skrifar Sigurður: „Tún eru nú slétt hjá flestum bændum, og þess vegna tekur slátturinn styttri tíma en fyrr. Það sem bjargar nú afkomu Eyjafólks, eru þeir peningar, sem það vinnur sér inn á Austfjörðum hvert sumar og svo garðræktin hér í Eyjum.....“
Og 1903 skrifar hann: „Hver bóndi má bæta við tún sitt tveim dagsláttum og hafa margir notfært sér þá kosti. Nú eru í Eyjum 50 tún talsins......“
Þessi tala vekur dálitla eftirtekt. Frá fornu fari voru 48 tún í Eyjum eða jafnmörg jörðunum. Fertugustu og níundu jörðinni fylgdi ekkert tún, Yztakletti. Þrem árum eftir aldamótin hafa sem sé tveir „þurrabúðarmenn“ lokið við að rækta sér tún. Ef til vill er annar þeirra sýslumaðurinn?
Alls unnu Eyjamenn 4101 dagsverk að túnasléttun, nýrækt, safngryfju- og garðahleðslu þau 21 ár, sem Framfarafélagið var við lýði. Þó fengust ekki allir bændur í Eyjum til þes að vera með í þessum samtökum. - Íhuga ber, að jarð- yrkjutækin þá voru ekki á marga fiska, ef þau eru borin saman við jarðyrkju- og garðyrkjutækin okkar nú á dögum. Stungupállinn var enn til og járnrekan var að ryðja sér til rúms og undanristuspaðinn. Járnkarlinn var gamalt tæki í hönd- um grjótruðningsmanna.
Alla tíð höfðu Eyjamenn verið í vandræðum með flutninga um Heimaey. Þó að þeir vissu vel af reynslunni, hve fiskslóg t.d. var kjarnmikill áburður á tún og í garða, voru þeir í vandræðum með að flytja það. Engir voru vegirnir um Heimaey og engin flutningatækin nema þá hesturinn. Burðarskrínan var í rauninni eina tækið, sem almenningur þekkti. Öll heimilin notuðust við hana, þegar sækja þurfti nauðsynjar í verzlunina. Sumir freistuðust einnig til að notast við hana í smáum stíl til þess að bera í henni slóg í garða, en auðvitað gat sú notkun aldrei átt sér stað nema í mjög smáum mæli.
Víst hðfðu bændur hesta á Heimaey og riðu þeim milli bæja og fluttu stundum á þeim verzlunarvöru heim til sín, þegar svo bar undir. En að reiða á þeim fiskslóg og annan slíkan úrgang, þótti jafnan neyðarúrræði, sem fáir báru við. Það var fátítt framtak. Heldur var þá slógið látið grotna niður við höfnina eða í henni.
Vélbátaútvegurinn hefst
Árið 1906 hófst vélbátaútvegurinn í Vestmannaeyjum. Á þeirri vertíð voru bátarnir aðeins tveir. Á næstu vertíð (1907) gerðu Eyjamenn út 22 vélbáta og voru eigendur þeirra 119 talsins. Að tveim árum liðnum voru vélbátar Eyjamanna orðnir 47. Það var fjórða vertíð vélbátaútvegsins. Svo ör var þesi þróun. Tekjur útgerðarmannanna, bátaeigendanna, urðu alveg ótrúlega miklar af þessum atvinnu- rekstri. Nokkur hluti þeirra voru jafnframt bændur á Heimaey eða höfðu jörð til afnota. Landbúnaður þeirra féll að miklu leyti í skuggann fyrir þessum gróðasæla atvinnuvegi, vélbátaútveginum. Ekki minnst sökum þessarra stórvægilegu breytinga á atvinnulífi Eyjamanna, lognaðist starf Framfarafélags Vestmannaeyja, búnaðarfélagsins, alveg útaf árið 1914 og í rauninni fimm árum fyrr eins og áður er getið.
Áhugi almennings með bændum og búaliði á rekstri landbúnaðar, og þar með allri mjólkurframleiðslu, hvarf með hínni miklu atvinnu og gróða af rekstri vélbátaútvegsins þar til afleiðingarnar tóku að segja til sín með því að heilsu manna fór hrakandi sökum mjólkurskortsins. Á sama tíma tvöfaldaðist mannfjöldinn í kauptúninu á fáum árum.
Haustið 1906 voru 657 manns heimilisfastir í Vestmannaeyjum. Fjórum árum síðar eða haustið 1910 voru þar heimilisfastir 1319 manns. Hinn öri vöxtur vélbátaút- vegsins hafði þessi áhrif á fólksfjölgunina í byggðarlaginu. Á þessum fjórum fyrstu árum þessa útvegs fjölgaði mjólkurkúm aðeins um 10. Þannig féll „kúahald“ Eyjabúa strax í skuggann fyrir hinum nýja útvegi.
Auðvitað sótti til Eyja fjöldi aðkomumanna á hverri vertíð, sem þá dvaldist þar við sjóróðra og fiskvinnslu, og hvarf svo heim til sín að vertíðarlokum.
Þessari öru þróun fylgdi ýmislegt, sem miður fór á vertíðínni. T.d. var mjólkurskorturinn tilfinnanlegur. Sérstaklega fengu börnin og aldraða fólkið að kenna á því alvarlega fyrirbrigði.
Fjöldi ungra hjóna fluttist til Eyja á þessum uppgangsárum vélbátaútvegsins og barnafjöldinn í kauptúninu var mikill í hlutfalli við fólksfjöldann í heild. T.d bjuggu rúmlega 2000 manns í Eyjum árið 1918. Af þeim mannfjölda voru 633 börn innan 10 ára aldurs eða tæplega þriðjungur hins heimilisfasta fólks. Þá munu um 500 manns utan af landi hafa sótt atvinnu til Eyja á vetrarvertíð.
Haustið 1917 voru í Eyjum 102 kýr og kelfdar kvígur. Þá var mjólkurskorturinn þar gjörður að blaðamáli. Komizt var þannig að orði í blaðagrein, að næstum fimm manns væru þar um hvern kýrspena, eins og greinarhöfundur orðaði það. Og fleira var það þá, sem skerti fæðuöflun Eyjafólks af landbúnaði. Sumarið 1917 hnekkti kartöflusýkin allri þeirri uppskeru, svo að til vandræða horfði. Margir kartöflugarðarnir voru þá ekki notaðir næsta sumar, eða einungis notaðir til rófna- og kálræktar.
Oftast var bændatalan i Eyjum 48 alls og jarðirnar taldar jafnmargar. Þó ber smávegis hér á milli stundum. Flestar jarðirnar voru taldar saman i jarðarvelli svokallaða. Þeir voru 24 að tölu, því að tvær samliggjandi jarðir töldust jarðarvöllur. Hver völlur var talinn fleyta fram 4 nautgripum og þeir allir þá 96 gripum alls.
Heyskapur í úteyjum var þá oft stundaður hvert sumar. Vissar úteyjar höfðu þau hlunnindi til handa bændum. - Í sumum fjöllunum voru einnig notandi slægjur.
Með auknum kúafjölda Eyjafólks eftir aldamótin fór það fyrirbrigði í vöxt, að Eyjamenn keyptu hey úr sveitum Suðurlandsins og fluttu til Eyja að haustinu. Mest af því heyi var flutt undan Eyjafjöllum, en annars úr sveitunum austan frá Pétursey og vestur að Stokkseyri. Þá átti það sér einnig stað, að kúaeigendur í Eyjum heyjuðu sjálfir í sveitum Suðurlands og fluttu heyaflann til Eyja að slætti loknum. T.d. voru fluttir til Eyja haustið 1924 alls 4154 hestburðir af heyi, og mest af því undan Eyjafjöllum. Stundum hlutust mannskaðar við þessa heyflutninga, t.d. sumarið 1923. Þessir heyflutningar munu hafa átt sér stað um 20 ára skeið.
Þau ákvæði í byggingarbréfum Eyjabænda, sem ákváðu bústofn þeirra hvers um sig, drógu óefað úr hug þeirra og vilja til aukins bústofns og meiri búframleiðslu. Þessi ákvæði voru klippt og skorin: Ein kýr, einn hestur og 12 kindur á sjálfri Heimaeynni og svo 15 fjár í útey. En mörg voru samt þau hlunnindi, sem fylgdu því að vera bóndi í Eyjum. Bændastéttin þar hafði einkarétt til allrar eggjatekju og fuglaveiða á Heímaey og í úteyjum. Og engir aðrir máttu beita þar fé eða afla heyja. Frá fornu fari giltu þarna fastar reglur um ítök og notkun úteyjanna, - svo og um það, hvar hver bóndi hafði rétt til hlunnindanna í úteyjum. Þar munu elztu,jarðirnar hafa frá landnámsöld setið að hlunnindunum í beztu og auðnýttustu úteyjunum, svo sem Elliðaey og Bjarnarey og í klettunum, Heimakletti og Yztakletti, þar til umboðsmaður konungsvaldsins tók hlunnindin af þeim kletti undir verndarvæng sinn, sjálfum sér til nytja og svo einokunarkaupmanninum síðar, þegar það hentaði valdinu mikla.