Blik 1980/Bréf til vinar míns og frænda, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. júlí 2007 kl. 10:43 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. júlí 2007 kl. 10:43 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Næst í þessu máli skyldi fara fram munnlegur málflutningur. Þá skyldi ég fá að mæta sjálfum hæstaréttarlögmanninum í almætti sínu og lögfræðilegri tign. Pá yrði lögfræðileg speki á borð borin. - Gárungar geta stundum verið svo orðmargir og orðheppnir. – Þessi maður var fyrrverandi bæjarfógeti í Vestmannaeyjakaupstað, og þá og fyrr og síðar hæstaréttarmálaflutningsmaður eins og þeir voru titlaðir í mínu ungdæmi. Ég var stórhrifinn í allri smæð minni.

Hinn munnlegri málflutningur í bæjarþinginu átti sér ekki stað fyrr en 18. maí árið eftir (1955). Sá dagur er mér í mesta máta minnisstæður. Þjónar bæjarþingsins voru seztir við borðin sín, dómarinn, sem var fulltrúi bæjarfógeta, og svo réttarvitnin. Bæjarþingsalurinn var þéttsetinn, svo að hvert sæti var skipað.
Ég sat þarna í námunda við réttarþjónana og auður stóll var á móti mér við borðið. - Við biðum með eftirvæntingu eftir sóknarherra lyfsalans, hæstaréttarlögmanninum. - Og svo gekk hann loks í salinn og settist í auða stólinn gegnt mér.

Mér féll strax illa svipurinn á hæstaréttarlögmanninum. Drambið og þóttinn leyndu sér þar ekki. Hann var auðsýnilega sá, sem bjó yfir vitinu mikla, hinni lögfræðilegu alvizku og hinni óskeikulu dómgreind. - Illir straumar runnu mér í blóð.

Svo hóf hæstaréttarlögmaðurinn mál sitt og talaði stanzlaust í þrjár klukkustundir. Margir voru þá horfnir úr salnum, hundleiðir og þreyttir á sál og líkama. Aðrir höfðu skotizt þarna inn til þess að skoða fólkið og hlusta á ræðuna. Það reyndi vissulega á sálarlífið að hlusta á allt þetta málæði, þar sem fjallað var um heima og geima, sem ekkert komu málefninu við, og mjög fjarri því.

Eftir sem sé þrjár stundir hóf ég varnarræðu mína, þreyttur og hundleiður á málæðinu. Fyrst í stað var mér þá ríkast í huga að lækka eilítið rostann í andstæðingnum, hleypa úr honum mesta hrokanum með því að lítillækka hann. – Hin illa gerð mannssálarinnar leynir sér sjaldnast, vinur minn, ef hún er þarna á annað borð, - og sálartetrinu er misboðið.

Ég hóf mál mitt með því að lýsa yfir samúð minni með okkur öllum, sem höfðum neyðzt til að sitja þarna í þrjár stundir til þess að hlusta á þessa endemisþvælu úr hæstaréttarlögmanninum, þar sem málefnið var að mestu leyti gjörsamlega skágengið, en þess í stað farið með mærðarrollu og málþóf, sem engu tali tók. „Hvað kemur það t.d. þessu máli við, hversu margar bækur hver prófessor við Háskóla Íslands hefur skrifað á undanförnum árum og önnur þvæla í þeim dúr? Hvernig hrekur sú fræðsla staðreyndirnar um allt það böl, allar þær hörmungar, sem áfengissala lyfjabúðarinnar hér í bæ veldur fjölskyldum og heimilum í kaupstaðnum? Sú staðreynd stendur óhrakin brátt fyrir þriggja stunda þvælu þessa hæstaréttarlögmanns hér í bæjarþingssalnum.“

Svo reyndi ég eftir mætti að draga dár að orðskrípinu stefnöndu, sem ekki finnst í orðabókum. Ég spurði, hvort ekki hæfði hér hið viðurkennda orð stefnandi af því að kona ætti hér hlut að máli? – Hrokasvipur hæstaréttarlögmannsins og dramb vakti þannig illar hvatir hjá mér til að knésetja hann og lítillækka. Áheyrendur hlógu og virtust skemmta sér mæta vel.

Vissulega var ég í essinu mínu, enda átti ég tíu þúsund krónur geymdar í bók, sem ég ætlaði að nota til þess að skjóta þessu máli til Hæstaréttar, ef tilefni gæfist. Þá skyldi það líka gert að landskunnu blaðamáli.

Síðast lagði ég fram í réttinn niðurstöður af réttarhaldinu yfir sjálfum lyfsalanum og starfsstúlkum hans, og svo svörum lögregluþjónanna við spurningum mínum. Öll voru svör þessa fólks málstað mínum til framdráttar. – Síðast lagði ég fram yfirlýsingu þeirra kvenna, sem mest höfðu liðið á undanförnum árum fyrir áfengissölu lyfjabúðarinnar og laga- og reglugjörðabrot lyfsalans án þess að hinir háttsettu löggæzlumenn í kaupstaðnum hreyfðu hönd né fót til að afmá hneykslið. (Vitað var, að lyfsalinn var fasttengdur leyniklíku oddborgaranna í bænum, konsúla- og kaupmannavaldinu, sem átti bækistöð við Heimagötu neðanverða)

Þetta var almenn ályktun í bænum, er menn ræddu hörmungarnar, sem af áfengissölu þessari hlutust. Var hæstaréttarlögmaðurinn meðlimur samsvarandi klíku í Reykjavík? Maður spurði mann.

Ég segi þér ekki, frændi minn og vinur, nöfn þeirra kvenna, sem afhentu mér þessi vottorð undirrituð. Þær voru hinar líðandi sálir. Ekki færðu heldur að vita nafn bifreiðastjórans, sem studdi mig drengilega í málabrasi þessu. Þau eru að sjálfsögðu geymd í fórum skjalasafns bæjarfógetaembættisins í Vestmannaeyjum.

Þessi vottorð segja okkur hins vegar athyglisverða sögu böls og hörmunga, sem gengið höfðu yfir þessi Eyjaheimili í mörg ár. Fyrirbrigðin voru svívirðilegur blettur á bæjarlífinu og menningu fólksins í heild.

Hér koma þá vottorðin, sem ég lagði fram. Og síðan var málið lagt í dóm.

Nr. 10. Lagt fram í bæjarþingi Vestmannaeyja 25. nóv. 1954.
Ég undirrituð, sem er eiginkona hér í bæ, vil fúslega lýsa yfir því, að drykkjuskapur eiginmanns míns er mesta heimilisböl okkar.

Umliðið sumar var hann ölvaður hvern dag samfleytt 13 vikur. Hann drakk þá eingöngu suðuspritt (lampaspritt), sem hann keypti hér í Lyfjabúðinni.

Þegar þessi yfirlýsing er gefin, hefur eiginmaður minn hafið ölvunarskeið á ný. Er hann nú ölvaður hvern dag og drekkur einvörðungu lampaspritt, er hann kaupir í lyfjabúðinni hér. Venjulega verð ég vör við, að hann fær allt að fjórum „skömmtum“ á dag, og nægir það honum til ölvunar daglangt.

Til þess að hann geti öðlast þetta áfengi úr lyfjabúðinni hér, neyðist ég til að afhenda honum daglega 40 krónur frá daglegum nauðþurftum heimilisins, en við erum sára fátæk og höfum stundum lifað við skort, þegar heimilisfaðirinn eyðir tekjunum fyrir áfengi, sem næstum eingöngu er lampaspritt, sem keypt er í lyfjabúðinni hér.

Ekkert veldur mér og börnum okkar meira heimilisböli en það, að eiginmaður minn skuli geta fengið, ég held, ótakmarkað lampaspritt keypt í lyfjabúðinni hér.

Á þennan hátt veldur hún mér mestu heimilisböli.

Vestmannaeyjum, 6. okt. 1954
(Undirskrift)

Nr. 11 Lagt fram í bæjarþingi Vestmannaeyja 25. nóv. 1954.
Það er öllum vitað í þessum bæ, hve mikill drykkjumaður eiginmaður minn ….. er. Drykkjuskapur hans er okkar mesta og einasta heimilisböl. Mestmegnis drekkur hann brennsluspritt, sem hann kaupir í lyfjabúðinni hér. Iðulega kemur hann heim með tvö og þrjú glös af brennsluspritti, þegar hann er ölvaður. Hann er stundum dögum og vikum saman ölvaður, og drekkur þá sem sé mestmegnis brennsluspritt, og eru brennslusprittglösin merkt lyfjabúðinni hér. Svo langt gengur þetta og sárt er heimilisböl okkar af völdum þessarar áfengissölu lyfjabúðarinnar hér, að ég hef neyðzt til að biðja lögreglustjórann hér um aðstoð, þegar áfengisneyzla mannsins míns, brennslusprittneyzla hans, gerir mér lífið óbærilegt.

Ég hefi aldrei orðið annars vör, en að sala brennsluspritts í lyfjabúðinni hér til hans ætti sér engin takmörk, enda þótt allir viti, hvílíkur drykkjumaður hann er og hversu óskaplegt heimilisböl stafar af völdum brennslusprittsneyzlu hans. Ég óska einskis fremur, en að hætt verði að selja áfenga vökva í lyfjabúðinni nema gegn lyfseðli eða á annan þann hátt, að drykkjumenn næðu sem sízt í það til neyzlu.

Vestmannaeyjum, 18. okt. 1954
(Undirskrift)

Nr. 12. Lagt fram í bæjarþingi neyta sprittsins. Vestmannaeyja 25. nóv. 1954.

Drykkjuskapur mannsins míns, ....., hefur í fleiri ár verið okkar mesta heimilisböl. Á seinni árum hefur hann stundum verið undir áhrifum víns eða ölvaður dögum og jafnvel vikum saman. Þá hefur hann iðulega drukkið eingöngu lampaspritt, sem hann hefur keypt í lyfjabúðinni hér. Aldrei virðist mér brennslusprittsala hafa verið takmörkuð í lyfjabúðinni til mannsins míns, þegar hann hefur fýst þess að kaupa það og drekka. Sú áfengissala lyfjabúðarinnar hefur valdið mér og börnum mínum hinu mesta heimilisböli.

Enga ósk á ég innilegri en þá, að sprittið í lyfjabúðinni verði selt með þeim hætti, að drykkfeldir menn geti ekki keypt sér það til neyzlu, eins og því miður hefur átt sér stað.

Vestmannaeyjum, 15. okt. 1954
(Undirskrift)

Nr. 13. Lagt fram í bæjarþingi Vestmannaeyja 25. nóv. 1954.
Fyrir nokkrum dögum ók ég á bifreið minni um bæinn hér með M.O….. Hann bað mig að nema staðar fyrir utan lyfjabúðina. Það gerði ég. Óskaði hann þess þá, að ég færi fyrir hann inn í búðina og keypti einn ,skammt" af lampaspritti. Ég neitaði því, með því að ég veit eins og allir vita hér, að þessi maður er kunnur drykkjumaður, og ég var viss um, að hann ætlaði að neyta sprittsins. - O. veigraði sér sjálfur við að fara inn í lyfjabúðina, því að hann hafði keypt þar sprittskammt fyrir skammri stundu. - Þegar ég var ófáanlegur til þess að kaupa sprittið, fór hann sjálfur inn í búðina. Að vörmu spori kom hann aftur út og með glas fullt af lampaspritti. Var hann hinn hreyknasti, sagði að sama stúlkan hefði selt sér skammtinn og fyrir drykklangri stundu.

Vestmannaeyjum, 16. okt. 1954
(Undirskrift)

Dómur féll í máli þessu sumarið 1955. Þegar ég hafði lesið forsendur hans, hló ég hjartanlega. Ein fimm eða sex ummæli mín voru dæmd „dauð og ómerk“ og „ber að refsa fyrir þau“, þar sem „ásakanirnar ganga langt út fyrir takmörk leyfilegrar gagnrýni“, segir dómarinn, Þó var hvergi eitt einasta orð hrakið af fullyrðingum mínum. Og svo komu orð eins og þessi: „er engan veginn réttlætanlegt að telja lyfjabúðina hinn mesta heimilisbölvald… sem er ærumeiðandi aðdróttun“. - Svo eru talin upp sex orðasambönd, sem „ber að ómerkja og refsa fyrir“. Þessu átti ég von á, þrátt fyrir sagðan sannleikann í hverju orði.

Og birti ég hér
Dómsorð:
„Framangreind ummæli skulu dauð og ómerk. Stefndur, Þorsteinn Þ. Víglundsson greiði 1000,oo kr. sekt í ríkissjóð og komi 8 daga varðhald í stað sektarinnar ef hún greiðist ekki innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa.

Stefndur greiði stefnanda, Aase Sigfússon, kr. 150,oo til að standa kostnað af birtingu dóms þessa í opinberu blaði eða riti og kr. 500,oo í málskostnað innan 15 daga frá lögbirtingu hans... “

Daginn eftir að mér var birtur dómurinn, gekk ég á fund bæjarfógetans, en hann hafði ekki fellt dóminn heldur fulltrúi hans, eins og ég hefi tekið fram. Ég kvaðst kominn til þess að greiða meiðyrðasektina. „Þú greiðir ekkert“, sagði bæjarfógeti. - „Nú? Dómarinn hefur afráðið, að ég greiði ríkissjóði kr. 1000,oo í sekt fyrir skrifuð orð um sprittsölu lyfjabúðarinnar og alla þá óhamingju, sem af sölu þessari sprettur. Og hvers vegna svo ekki að greiða sektina?“

„Svona dómar eru felldir til þess að fullnægja lagastafnum, þar sem svo er kveðið á í lögum, að jafnvel fyrir heilagan sannleika skuli menn einnig dæmdir til að greiða sektir. En eitthvað verður gert í þessu sprittmáli, það er víst og satt,“ sagði bæjarfógeti. Enda kom það á daginn. - Þar með lauk þessu máli.

Togaraútgerð og togarasala Vestmannaeyjakaupstaðar

Þá kem ég að togaraútgerð og togarasölu Vestmannaeyjakaupstaðar.

Þá vil ég loks skrifa þér um þá sögulegu atburði, þegar Vestmannaeyjakaupstaður hóf togaraútgerð til þess að tryggja næga atvinnu í bænum og auðgast um leið, ef ég mætti gizka þannig á. Þú hefur oft imprað á því, að ég léti til leiðast og sendi þér sögulega greinargerð fyrir þætti mínum í sölu bæjartogaranna á sínum tíma, togaranna Elliðaeyjar og Bjarnareyjar. Ég hefi lengi velt þessari beiðni þinni fyrir mér. Fyrir hart nær 10 árum fékk ég lánaðar fundargjörðarbækur hjá bæjarstjóra til þess að kynna mér þessi mál og á þeim byggi ég skrif mín hér að þessu sinni.

Enn lifa innra með mér hin sáru minni, er ég varð að láta samvizku mína ráða gjörðum mínum gegn vilja og ályktunum vina minna og velgjörðafólks í kaupstaðnum. Ef til vill hefi ég aldrei á ævi minni verið í meiri vanda staddur en þá, er ég afréð að beita mér fyrir sölu togaranna úr bænum, fyrst ekki reyndist kleift að selja þá innan bæjar. Fjárhagur bæjarfélagsins var á heljarþröm sökum útgerðartapanna og atvinna lítil af útgerð beirra. Kem ég að því síðar í máli mínu hér.

Ég var kosinn í bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar í janúar 1950. Brautargengi mitt hlaut ég m.a. hjá verkafólki í bænum, sem vildi hjálpa mér til að koma upp Gagnfræðaskólabyggingunni með því að kjósa Framsóknarflokkinn og spyrna þannig gegn því, að andspyrnuöflin gömlu í bænum næðu aftur tangarhaldi á valdaaðstöðunni eftir fjögurra ára stjórn Alþýðuflokksins og Sócialistaflokksins, sem sameinuðust um meiri hlutann í bæjarstjórninni kjörtímabilið 1946-1950. Þeir bæjarfulltrúar höfðu reynzt mér einstaklega vel og hjálpað mér til þess að ná takmarki mínu í skólamálum bæjarins á undanförnum árum.

Margt af sama fólkinu, sem veitti mér stuðning til að ná settu marki í þróun skólamálanna í bænum, hafði glaðzt stórlega, er bæjarsjóður gat fest kaup á tveim togurum til atvinnuöryggis, en það áttu togarakaupin að hafa í för með sér í bænum.

Sárast er það hverjum samvizkusömum manni að bregðast öðrum, valda öðrum vonbrigðum, og þá ekki sízt þeim, sem allt gott eiga skilið af hinum sama aðila. Svo var þetta um mig. Hins vegar olli það mér miklu hugarangri og sárum vandræðum, þegar í ljós kom, að togaraútgerðin malaði niður allan fjárhag bæjarsjóðs og þá um leið efnahag bæjarbúa, Vestmannaeyinga í heild. Þá voru mörg framfaramálin komin vel á rekspöl í kaupstaðnum og nokkur í hvítavoðunum, ef svo mætti orða það, höfðu látið á sér kræla síðasta kjörtímabilið. Á ýmsum öðrum sviðum hafði orðið afturför hjá okkur, t.d. um þá nauðsyn að tryggja Eyjabúum nægilega mjólk eftir afturkippinn mikla í ræktunarmálum Eyjamanna á stríðsárunum, svo að eitt sé nefnt.

Þegar „Nýsköpunarstjórnin“ svokallaða afréð að festa kaup á 30 nýjum togurum til landsins eftir heimsstyrjöldina (1939-1945), samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyja um miðjan desember 1945 að gera sitt ítrasta til þess, að tveir af togurum þessum yrðu keyptir til Eyja. Vissulega var þetta gjört í góðri trú og með hallkvæmri hugsun. Leitað var til fyrirtækja og einstaklinga í bænum um þátttöku í hlutafélagi til þess að festa kaup á togurunum og standa straum af rekstri þeirra. Meiri hluti bæjarstjórnar hallaðist þá fremur að þeim hætti um rekstur togaranna en bæjarrekstri.

Þetta reyndist ókleift. Enginn einstaklingur í kaupstaðnum eða fyrirtæki vildi leggja fram fé til togarakaupanna. Bæjarsjóður varð því sjálfur að festa kaup á þeim og stofna til útgerðar á þeim eða verða án þeirra ella. - Hvað olli þessum daufu undirtektum einstaklinga og félaga í bænum? Við vitum það ekki, svo að rök séu fyrir því. En mér kemur í hug vitneskja Eyjamanna um giftusnauða hlutdeild Eyjamanna í Draupnisútgerðinni nafnkunnu og eftirminnileg örlög hennar.

Báðir bæjartogararnir munu hafa kostað um 6 milljónir króna. Af kaupverðinu mun ríkissjóður hafa lánað 3/4 eða nálægt því, en bænum var gert að skyldu að greiða einhvern veginn 1/4 af andvirði skipanna. Ekki hefi ég átt þess kost að kynna mér, hvernig bæjarstjórninni tókst að útvega það fé.

Bæjartogarinn Elliðaey flaut inn á Vestmannaeyjahöfn 8. sept. 1947. Þá hélt bæjarstjórn veglega veizlu og almenningur var í hátíðarskapi yfir því, að svo stórvægileg og afkastamikil framleiðslutæki voru keypt til bæjarins.

Blaðamaður í Eyjum skrifaði: „Einu verður ekki gengið fram hjá að minnast á í sambandi við þessi hátíðarhöld, og það var hin almenna þátttaka bæjarbúa í þeim og gleði fólksins yfir, að jafn glæsilegt skip sem Elliðaey skyldi eiga að verða gert út frá Vestmannaeyjum.“ - Þessi orð blaðamannsins voru dagsönn.

Hinn 14. marz 1948 kom seinni togari Bæjarútgerðarinnar, Bjarnarey, til Vestmannaeyja. Þá gaf að lesa í einu Eyjablaðinu: „Kaup hinna tveggja nýju og fullkomnu botnvörpunga marka tímamót í útgerðarsögu Eyjamanna. Báðir Bæjartogararnir jafngilda æðistórum bátaflota.“ Svo var nú það.

Fyrsta útgerðarárið virtist togaraútgerðin ganga bærilega, og Eyjabúar voru í háum himni yfir öllum þessum glæsileik fyrirtækisins, og gróðinn, maður lifandi, hann var ekkert smáræði! Hinir grunnhyggnustu létu sér koma til hugar, að hætt yrði að leggja á útsvör í bænum! Allt flyti fram á togaragróðanum! Og forstjórinn og allir hinir, sem næstir stóðu aflanum og allri árgæzkunni, gerðu vissulega ekki of lítið úr giftunni og genginu, sem sveif bar yfir öllum vötnum. Útgerðin þoldi meira að segja, að slegið væri slöku við allt nostur og allan nánasarskap í viðskiptum við svo arðvænlegt fyrirtæki! Og þó svo hefði verið, að margur matarbitinn í ýmsum myndum hrykki frá skipseldhúsinu eða kostkaupunum, þá sá þar vissulega ekki högg á vatni, þar sem gróðinn var svo gegndarlaus á þessum risavöxnu framleiðslutækjum! Já, hér var yfir að gleðjast, og það stórkostlega, því að afli skipanna var verulega mikill fyrst í stað og fyrstu árin. Ekki varð annað sagt.

Þegar svo upp voru gerðir reikningarnir, kom ýmislegt í ljós, sem ástæður voru til að velta vöngum yfir. Hvað var það þá? Það var vissulega ekki mikið! Aðeins nokkurra milljóna tap á rekstrinum. - Og undan fæti hallaði æ meir og meir. Bæjarsjóður Vestmannaeyja var að verða öreigi. Eyjabúar voru að verða öreigalýður og þurfalingar ríkisins. Þessu trúðu þeir ekki sjálfir, margir hverjir. Ýmsir töldu það glæp að halda slíku fram. Og svo var það orðið „prinsippmál“ þeirra, sem trúðu á opinberan rekstur í einu og öllu, að bærinn gerði út togarana, hvort sem hann græddi eða tapaði á þeim og hvort nokkur þörf var á þeim til eflingar atvinnulífinu. Það skipti engu máli. Opinber rekstur á þeim virtist skipta öllu máli, hvað sem öðru leið. Þessi hugsun var ríkjandi hjá býsna stórum hóp alþýðufólks í Eyjum þá.

Og svo hættu Eyjasjómenn sjálfir að vilja vinna á bæjartogurunum. Þeir kusu fremur vélbátana. Einhvernveginn voru vélbátarnir þeim geðfelldari til veiða á Eyjamiðum og þeim ógeðfelldara að stunda fjarlæg togaramið. - Nú, engin ástæða var þá til þess að drepast úr ráðaleysi. Heill hópur ölvaðra manna slangraði þá dag og nótt um Hafnarstrætið í Reykjavík og biðu eftir hásetastöðu á togurum. Margir þeirra voru ráðnir á Vestmannaeyjatogarana. Þeir voru teknir á leiðinni á Vesturmiðin, t.d. Halamiðin. útlifaðar mannskræfur. - „Prinsippmál“ samt, að bærinn gerði út togarana, sögðu vissir bæjarfulltrúar. Tapið á rekstri fyrirtækisins var algjört aukaatriði.

Í janúar 1950 tók ný bæjarstjórn við völdum í bænum. Þessa bæjarstjórn skipuðu tveir fulltrúar Framsóknarflokksins, sem engan fulltrúa hafði átt í bæjarstjórn Vestmannaeyja síðasta kjörtímabil, tveir Sósíalistar og einn Alþýðuflokksmaður. Þessir fulltrúar tóku sig saman og mynduðu meiri hluta í bæjarstjórninni. Í minni hlutanum voru þá fjórir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

Eitt hið fyrsta verkefni hins nýja meiri hluta í bæjarstjórninni var að glíma við vanskilaskuldir bæjarsjóðs og fjárhagsörðugleikana á öllum sviðum vegna stórkostlegra tapa á togararekstinum á undanförnum árum. Töpin námu milljónum króna. - Hvað var til ráða?

Vissulega þurfti að bjarga bæjarfélaginu undan bölvun þeirra miklu „blessunar“, sem Bæjarútgerðin var talin vera fyrstu 2-3 árin eða lengur, því að ráðandi menn virtust ekki skilja það ástand, er ríkti orðið í bæjarfélaginu og hjá bæjarsjóði, sem ekki gat orðið greitt starfsfólki sínu laun á réttum tíma. Auðvitað var það hinn mikli hallarekstur á togurunum, sem olli allri þessari ógæfu. En okkur var mikill vandi á höndum. Enn trúði fjöldi Eyjafólks á togaraútgerðina og alla þá blessun, sem það taldi víst að stafaði af henni. Hvernig á hinn almenni kjósandi að átta sig á aðsteðjandi ógæfu í rekstri risafyrirtækis, ef stjórnendur þess gera það naumast eða ekki.

Þegar leið fram á vorið 1950 impraði ég á því við samstarfsmenn mína í bæjarstjórn kaupstaðarins, með hálfum hug þó, hvort ekki væri rétt að gera tilraun til að selja annan togarann innan bæjar. Af ótta við kjósendur okkar og þá andstöðu í bæjarstjórn, sem þessi hugsun mætti þar, var ekki hættulaust vegna samvinnu vinstri flokkanna um bæjarstjórnarvaldið að ganga lengra eða tala ljósar. Þetta var verulega viðkvæmt vandamál. Annars vegar auðsýnilegt fjárhagslegt gjaldbrot bæjarfélagsins á vissan hátt, hinsvegar „prinsipp-mál“ vissra bæjarfulltrúa eða flokksleiðtoga, og þó engin glóra í „prinsippinu“.

Með gætilegri málaleitan og þeim blæ á orðalagi, að verið væri að leita ráða hjá sér vitrari bæjarfulltrúum, há tókst að þoka þessu hagsmunamáli bæjarfélagins fram á við. Hinn 5. maí 1950 bar meiri hluti bæjarstjórnar fram þessa tillögu á bæjarstjórnarfundi: „Bæjarstjórn felur útgerðarstjórn og framkvæmdastjóra útgerðarinnar að leita fyrir sér um sölumöguleika á togurunum, öðrum eða báðum. Lögð verði áherzla á sölu innanbæjar. Niðurstöður útgerðarstjórnar verði lagðar fyrir bæjarstjórn við fyrsta tækifæri.“

Tillagan var samþykkt samhljóða. Öfl voru þarna andstæð hugsuninni, en létu ekki á sér kræla fyrst í stað innan bæjarstjórnarinnar. Það var þó bót í máli, að togararnir voru ekki boðnir til kaups utan bæjarfélagsins!

Eitthvað gerði útgerðarstjórn og framkvæmdarstjóri að því að fá kaupendur að togurunum innanbæjar, en allt var há án árangurs. Útgerðin hélt áfram að tapa á kostnað bæjarsjóðs og há alls almennings og milljónaskuldirnar fóru vaxandi frá mánuði til mánaðar. Andstæðingar meiri hlutans í bæjarstjórn héldu því fram, að illa væri á spilunum haldið, miklu verr en efni stæðu til. Þeir vildu breyta til um menn í útgerðarstjórn. En hver vill láta ýta sér til hliðar frá vasi í fjármálum eða meðferð og stjórn fjárhagsmála, enda þótt hann beri ekki meir skyn á þau en kötturinn á gang himintunglanna? Hver trúði því, að fjármálaskyn væri sérgáfa? Ekki a.m.k. stjórnar menn bæjarútgerðar Vestmannakaupstaðar. Það er víst og satt. Í hástjórn voru menn kosnir eftir allt öðrum sólarmerkjum en sannan legri reynslu og drýgðum dáðum á sviði fjármála. Ef til vill hið gagnstæða.

Haustið 1950 (20. okt.) fluttu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar svolátandi tillögu á bæjarstjórnarfundi: „Með því að bæjarstjórnin getur ekki fallizt á breytingu á Útgerðarstjórninni, en hins vegar verður að teljast vonlaust, að hún verði þess megnug að ráða fram úr fjárhagsörðugleikum útgerðarinnar, leggjum við til að undinn verði að því bráður bugur með skírskotun til fyrri samþykktar bæjarstjórnarinnar að selja annan togarann innan bæjar eða utan til þess að koma í veg fyrir, að bærinn missi eignarréttinn á skipunum, sem af hlyti að leiða stórfellt eignatjón fyrir allan almenning.“

Um þessa tillögu urðu nokkrar umræður og heitar á köflum. Línurnar skírðust nú betur en áður, af því að andstæðingar meiri hlutans fluttu tillöguna. Loks samþykkti bæjarstjórn að fresta máli þessu með 5 atkvæðum gegn 2.

Síðan var málið svæft og togaraútgerðin hélt áfram að mala niður fjárhag bæjarfélagsins í heild. Enn var þó til stór hópur manna í bænum, hópur „háttvirtra kjósenda“, sem ekki mátti heyra það nefnt að selja togarana burt úr bænum. Eignarhald bæjarsjóðs á togurunum virtist vera þessum kjósendum stefna eða trúaratriði eins og foringjunum, sem stóðu með okkur að meiri hluta bæjarstjórnar. Málið var því bæði viðkvæmt og hættulegt meirihlutanum.

Nú sagði Lúther, sem kunnugt er, að það væri háskasamlegt að breyta gegn samvizku sinni. Frá því að ég las mannkynssöguna í skóla hefi ég ávallt dáð Martin Lúther fyrir það, hvernig hann brást við vandanum á stórkostlegustu örlagastundum í lífi sínu. öll lifum við örlagastundir, og misjafnlega bregðumst við við þeim. Þá verða viðbrögð æðimargra þeim sjálfum til vanvirðu og ógæfu, en annarra þeim sjálfum til hagnaðar og halds, orðstírs og sigurs, svo sem Lúthers á sínum tíma. Hér lúta hinir smáu eins og hinir háu sömu lögmálum mannlífsins.

Framhald