Blik 1980/Bréf til vinar míns og frænda, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. júlí 2007 kl. 09:37 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. júlí 2007 kl. 09:37 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Auðvitað ber þessi vörn mín það með sér, að hún er ekki samin af löglærðum manni eða með lögfræðing við hlið sér.

Eins og greinargerð hæstaréttarlögmannsins ber með sér, þá leggur hann mikla áherzlu á þau sálarlegu sárindi, -miska, - sem grein mín hafi valdið lyfsalanum. Þess vegna taldi ég það veigamikið atriði í vörn minni að tjá dómaranum þau sárindi, þann sálarlega miska, sem áfengissala lyfjabúðarinnar hefði ávallt valdið mér, löghlýðnum og samúðarríkum bindindismanni, sem varð að vita af og horfa á þessi lögbrot framin án allrar tillitssemi og miskunnar.

Áður en lengra er haldið, þykir mér rétt að skjóta hér inn dálítið athyglisverðum atburði. - Eftir að stefnuvottarnir afhentu konu minni stefnuna, þar sem mér var stefnt fyrir bæjarþingið, fann ég, að eitthvað þungt hvíldi á hjarta hennar. Það lét ég ekki fram hjá mér fara íhugunar- og afskiptalaust. Hvað amaði að? Það var þá kvíðinn fyrir því, að ég yrði dæmdur til að greiða kr. 25.000,oo í sekt fyrir afskipti mín af sprittsölu lyfjabúðarinnar. Þessi upphæð nam þá 8 - 10 mánaða launum gagnfræðaskólakennara. Þessi vanlíðan konu minnar féll mér þungt, svo að ég var sár. Við höfðum staðið í húsbyggingarframkvæmdum á undanförnum árum og efnahagurinn var þröngur þess vegna. Það var heldur engin furða, þó að hún tortryggði réttar farið í bænum í slíkum málum, þar sem vitað var, að kunnir áfengisneytendur áttu þess kost að dæma bindindismann fyrir árás á áfengissala.

Þegar ég settist við skrifborð mitt í Sparisjóði Vestmannaeyja þennan dag, hafði ég aldrei þessu vant litla eirð í sálu minni og engan hug til starfa. Ég fann til með konunni minni.

Dagblað lá þarna á borðinu hjá mér. Ég tók að glugga í það annars hugar. – Þarna var m.a. tilkynning þess efnis, að dregið hafði verið í happdrættisláni ríkissjóðs og þarna var vinningaskráin birt. Mér varð starsýnt á eitt númerið í skránni, nr. 51283. Var þetta ekki númer á einu happdrættisbréfi okkar hjóna? Ég stakk vinningaskránni í veskið mitt.

Að loknu verki í Sparisjóðnum þennan dag, skundaði ég heim eins og vant var. Jú, rétt reyndist það. Við áttum þetta happdrættisnúmer á einu skuldabréfinu okkar frá ríkissjóði og við höfðum unnið kr. 10.000,oo. Vissulega lét ég ekki dragast úr hömlu fyrir mér að tjá konunni minni happið. Og nú skrái ég orðin upp úr dagbókinni minni: „þarna sérðu, konan mín, að forsjónin stendur með mér eða þjónar hennar i dularheimum. Þeir vilja, - þeir óska þess, að ég segi sannleikann og standi fastur á málstað þeirra, sem líða, en síðan hjálpa þeir mér að rísa undir afleiðingunum. Þessu máttu trúa, konan mín, eins og ég. Nú hefurðu þreifað á því.“

Konan mín átti naumast orð. Svo undrandi varð hún. Hún kvaðst alltaf hafa verið gæfunnar barn. Þau orð hennar glöddu mig innilega.

Nú afréð ég með sjálfum mér að nota þennan happdrættisvinning til þess að skjóta „sprittmálinu“ til Hæstaréttar, ef mér félli ekki vel dómur undirréttarins, því að tortryggni lét á sér kræla innra með mér af sérstökum ástæðum. Nú skyldi þetta mál svo sannarlega fá að ganga sér til húðar.

Daginn eftir að happdrættisvinningurinn féll okkur í skaut, hringdi til mín einn af forustumönnum bindindisstarfsins í landinu. Það var Brynleifur heitinn Tobíasson, sem þá var áfengisráðunautur ríkisins. Hann tjáði mér, að Vilmundur Jónsson, landlæknir, hefði lesið grein mína í Framsóknarblaðinu 15. sept. s.l. Síðan hefði hann fylgzt með málaferlunum og þeir allir í forustuliði bindindisstarfsins í landinu. – Áfengisráðunauturinn kvað landlækni hafa skrifað lyfsalanum í Eyjum harðort bréf varðandi þessi áfengismál, þessa látlausu og ólöglegu sprittsölu.

Ég stóð þá heldur ekki einn hérna megin tilverunnar, hugsaði ég í trú minni.

Nú hófst mikið starf. Ég stefndi „sprittsalanum“ til réttarhalds, þar sem ég lagði fyrir hann margar spurningar varðandi bessa verzlun hans. Þá stefndi ég líka til réttarhaldsins tveim afgreiðslustúlkum lyfjabúðarinnar. Svör þeirra við áleitnum spurningum mínum urðu einnig málstað mínum til framdráttar. T.d. var sá framburður þeirra bókaður, að þær seldu á stundum sama drykkjumanninum mörg sprittglös á dag til þess að fá frið í búðinni, þegar ekki náðist í lögreglu eða hennar var ekki óskað, eins og oftast var.

Þá mættu í réttinum þrír lögreglubjónar í bænum. Þeim þurfti ég ekki að stefna fyrir réttinn. Þeir komu án þess. - Lögregluþjónarnir fullyrtu, að þeir hefðu „oft tekið ölvaða menn úr umferð, sem hafa verið með 1-2 og allt upp 14 glös af brennsluspritti á sér úr lyfjabúðinni hér, suma mikið ölvaða.“
(Þessi fullyrðing þeirra er hér tekin orðrétt upp úr réttarhaldsbókinni).

Þá fullyrtu lögregluþjónarnir, að þeir hefðu oft orðið vitni að miklum „heimilisófriði og heimilisvandræðum“, eins og þar er bókað, og alltaf af völdum áfengisneyzlu, og „stundum hafi þeir, sem heimilisófriðnum ollu eða heimilisvandræðunum, haft undir hendi brennsluspritt en glösin, sem þeir voru með, voru merkt lyfjabúðinni.“ - Þetta var vitnisburður lögregluþjónanna.

Næst í þessu máli skyldi fara fram munnlegur málflutningur. Þá skyldi ég fá að mæta sjálfum hæstaréttarlögmanninum í almætti sínu og lögfræðilegri tign. Pá yrði lögfræðileg speki á borð borin. - Gárungar geta stundum verið svo orðmargir og orðheppnir. – Þessi maður var fyrrverandi bæjarfógeti í Vestmannaeyjakaupstað, og þá og fyrr og síðar hæstaréttarmálaflutningsmaður eins og þeir voru titlaðir í mínu ungdæmi. Ég var stórhrifinn í allri smæð minni.

Hinn munnlegri málflutningur í bæjarþinginu átti sér ekki stað fyrr en 18. maí árið eftir (1955). Sá dagur er mér í mesta máta minnisstæður. Þjónar bæjarþingsins voru seztir við borðin sín, dómarinn, sem var fulltrúi bæjarfógeta, og svo réttarvitnin. Bæjarþingsalurinn var þéttsetinn, svo að hvert sæti var skipað.
Ég sat þarna í námunda við réttarþjónana og auður stóll var á móti mér við borðið. - Við biðum með eftirvæntingu eftir sóknarherra lyfsalans, hæstaréttarlögmanninum. - Og svo gekk hann loks í salinn og settist í auða stólinn gegnt mér.

Mér féll strax illa svipurinn á hæstaréttarlögmanninum. Drambið og þóttinn leyndu sér þar ekki. Hann var auðsýnilega sá, sem bjó yfir vitinu mikla, hinni lögfræðilegu alvizku og hinni óskeikulu dómgreind. - Illir straumar runnu mér í blóð.

Svo hóf hæstaréttarlögmaðurinn mál sitt og talaði stanzlaust í þrjár klukkustundir. Margir voru þá horfnir úr salnum, hundleiðir og þreyttir á sál og líkama. Aðrir höfðu skotizt þarna inn til þess að skoða fólkið og hlusta á ræðuna. Það reyndi vissulega á sálarlífið að hlusta á allt þetta málæði, þar sem fjallað var um heima og geima, sem ekkert komu málefninu við, og mjög fjarri því.

Eftir sem sé þrjár stundir hóf ég varnarræðu mína, þreyttur og hundleiður á málæðinu. Fyrst í stað var mér þá ríkast í huga að lækka eilítið rostann í andstæðingnum, hleypa úr honum mesta hrokanum með því að lítillækka hann. – Hin illa gerð mannssálarinnar leynir sér sjaldnast, vinur minn, ef hún er þarna á annað borð, - og sálartetrinu er misboðið.

Ég hóf mál mitt með því að lýsa yfir samúð minni með okkur öllum, sem höfðum neyðzt til að sitja þarna í þrjár stundir til þess að hlusta á þessa endemisþvælu úr hæstaréttarlögmanninum, þar sem málefnið var að mestu leyti gjörsamlega skágengið, en þess í stað farið með mærðarrollu og málþóf, sem engu tali tók. „Hvað kemur það t.d. þessu máli við, hversu margar bækur hver prófessor við Háskóla Íslands hefur skrifað á undanförnum árum og önnur þvæla í þeim dúr? Hvernig hrekur sú fræðsla staðreyndirnar um allt það böl, allar þær hörmungar, sem áfengissala lyfjabúðarinnar hér í bæ veldur fjölskyldum og heimilum í kaupstaðnum? Sú staðreynd stendur óhrakin brátt fyrir þriggja stunda þvælu þessa hæstaréttarlögmanns hér í bæjarþingssalnum.“

Svo reyndi ég eftir mætti að draga dár að orðskrípinu stefnöndu, sem ekki finnst í orðabókum. Ég spurði, hvort ekki hæfði hér hið viðurkennda orð stefnandi af því að kona ætti hér hlut að máli? – Hrokasvipur hæstaréttarlögmannsins og dramb vakti þannig illar hvatir hjá mér til að knésetja hann og lítillækka. Áheyrendur hlógu og virtust skemmta sér mæta vel.

Vissulega var ég í essinu mínu, enda átti ég tíu þúsund krónur geymdar í bók, sem ég ætlaði að nota til þess að skjóta þessu máli til Hæstaréttar, ef tilefni gæfist. Þá skyldi það líka gert að landskunnu blaðamáli.

Síðast lagði ég fram í réttinn niðurstöður af réttarhaldinu yfir sjálfum lyfsalanum og starfsstúlkum hans, og svo svörum lögregluþjónanna við spurningum mínum. Öll voru svör þessa fólks málstað mínum til framdráttar. – Síðast lagði ég fram yfirlýsingu þeirra kvenna, sem mest höfðu liðið á undanförnum árum fyrir áfengissölu lyfjabúðarinnar og laga- og reglugjörðabrot lyfsalans án þess að hinir háttsettu löggæzlumenn í kaupstaðnum hreyfðu hönd né fót til að afmá hneykslið. (Vitað var, að lyfsalinn var fasttengdur leyniklíku oddborgaranna í bænum, konsúla- og kaupmannavaldinu, sem átti bækistöð við Heimagötu neðanverða)

Þetta var almenn ályktun í bænum, er menn ræddu hörmungarnar, sem af áfengissölu þessari hlutust. Var hæstaréttarlögmaðurinn meðlimur samsvarandi klíku í Reykjavík? Maður spurði mann.

Ég segi þér ekki, frændi minn og vinur, nöfn þeirra kvenna, sem afhentu mér þessi vottorð undirrituð. Þær voru hinar líðandi sálir. Ekki færðu heldur að vita nafn bifreiðastjórans, sem studdi mig drengilega í málabrasi þessu. Þau eru að sjálfsögðu geymd í fórum skjalasafns bæjarfógetaembættisins í Vestmannaeyjum.

Þessi vottorð segja okkur hins vegar athyglisverða sögu böls og hörmunga, sem gengið höfðu yfir þessi Eyjaheimili í mörg ár. Fyrirbrigðin voru svívirðilegur blettur á bæjarlífinu og menningu fólksins í heild.

Hér koma þá vottorðin, sem ég lagði fram. Og síðan var málið lagt í dóm.

Nr. 10. Lagt fram í bæjarþingi Vestmannaeyja 25. nóv. 1954.
Ég undirrituð, sem er eiginkona hér í bæ, vil fúslega lýsa yfir því, að drykkjuskapur eiginmanns míns er mesta heimilisböl okkar.

Umliðið sumar var hann ölvaður hvern dag samfleytt 13 vikur. Hann drakk þá eingöngu suðuspritt (lampaspritt), sem hann keypti hér í Lyfjabúðinni.

Þegar þessi yfirlýsing er gefin, hefur eiginmaður minn hafið ölvunarskeið á ný. Er hann nú ölvaður hvern dag og drekkur einvörðungu lampaspritt, er hann kaupir í lyfjabúðinni hér. Venjulega verð ég vör við, að hann fær allt að fjórum „skömmtum“ á dag, og nægir það honum til ölvunar daglangt.

Til þess að hann geti öðlast þetta áfengi úr lyfjabúðinni hér, neyðist ég til að afhenda honum daglega 40 krónur frá daglegum nauðþurftum heimilisins, en við erum sára fátæk og höfum stundum lifað við skort, þegar heimilisfaðirinn eyðir tekjunum fyrir áfengi, sem næstum eingöngu er lampaspritt, sem keypt er í lyfjabúðinni hér.

Ekkert veldur mér og börnum okkar meira heimilisböli en það, að eiginmaður minn skuli geta fengið, ég held, ótakmarkað lampaspritt keypt í lyfjabúðinni hér.

Á þennan hátt veldur hún mér mestu heimilisböli.

Vestmannaeyjum, 6. okt. 1954
(Undirskrift)

Nr. 11 Lagt fram í bæjarþingi Vestmannaeyja 25. nóv. 1954.
Það er öllum vitað í þessum bæ, hve mikill drykkjumaður eiginmaður minn ….. er. Drykkjuskapur hans er okkar mesta og einasta heimilisböl. Mestmegnis drekkur hann brennsluspritt, sem hann kaupir í lyfjabúðinni hér. Iðulega kemur hann heim með tvö og þrjú glös af brennsluspritti, þegar hann er ölvaður. Hann er stundum dögum og vikum saman ölvaður, og drekkur þá sem sé mestmegnis brennsluspritt, og eru brennslusprittglösin merkt lyfjabúðinni hér. Svo langt gengur þetta og sárt er heimilisböl okkar af völdum þessarar áfengissölu lyfjabúðarinnar hér, að ég hef neyðzt til að biðja lögreglustjórann hér um aðstoð, þegar áfengisneyzla mannsins míns, brennslusprittneyzla hans, gerir mér lífið óbærilegt.

Ég hefi aldrei orðið annars vör, en að sala brennsluspritts í lyfjabúðinni hér til hans ætti sér engin takmörk, enda þótt allir viti, hvílíkur drykkjumaður hann er og hversu óskaplegt heimilisböl stafar af völdum brennslusprittsneyzlu hans. Ég óska einskis fremur, en að hætt verði að selja áfenga vökva í lyfjabúðinni nema gegn lyfseðli eða á annan þann hátt, að drykkjumenn næðu sem sízt í það til neyzlu.

Vestmannaeyjum, 18. okt. 1954
(Undirskrift)

Nr. 12. Lagt fram í bæjarþingi neyta sprittsins. Vestmannaeyja 25. nóv. 1954.

Drykkjuskapur mannsins míns, ....., hefur í fleiri ár verið okkar mesta heimilisböl. Á seinni árum hefur hann stundum verið undir áhrifum víns eða ölvaður dögum og jafnvel vikum saman. Þá hefur hann iðulega drukkið eingöngu lampaspritt, sem hann hefur keypt í lyfjabúðinni hér. Aldrei virðist mér brennslusprittsala hafa verið takmörkuð í lyfjabúðinni til mannsins míns, þegar hann hefur fýst þess að kaupa það og drekka. Sú áfengissala lyfjabúðarinnar hefur valdið mér og börnum mínum hinu mesta heimilisböli.

Enga ósk á ég innilegri en þá, að sprittið í lyfjabúðinni verði selt með þeim hætti, að drykkfeldir menn geti ekki keypt sér það til neyzlu, eins og því miður hefur átt sér stað.

Vestmannaeyjum, 15. okt. 1954
(Undirskrift)

Nr. 13. Lagt fram í bæjarþingi Vestmannaeyja 25. nóv. 1954.
Fyrir nokkrum dögum ók ég á bifreið minni um bæinn hér með M.O….. Hann bað mig að nema staðar fyrir utan lyfjabúðina. Það gerði ég. Óskaði hann þess þá, að ég færi fyrir hann inn í búðina og keypti einn ,skammt" af lampaspritti. Ég neitaði því, með því að ég veit eins og allir vita hér, að þessi maður er kunnur drykkjumaður, og ég var viss um, að hann ætlaði að neyta sprittsins. - O. veigraði sér sjálfur við að fara inn í lyfjabúðina, því að hann hafði keypt þar sprittskammt fyrir skammri stundu. - Þegar ég var ófáanlegur til þess að kaupa sprittið, fór hann sjálfur inn í búðina. Að vörmu spori kom hann aftur út og með glas fullt af lampaspritti. Var hann hinn hreyknasti, sagði að sama stúlkan hefði selt sér skammtinn og fyrir drykklangri stundu.

Vestmannaeyjum, 16. okt. 1954
(Undirskrift)

Dómur féll í máli þessu sumarið 1955. Þegar ég hafði lesið forsendur hans, hló ég hjartanlega. Ein fimm eða sex ummæli mín voru dæmd „dauð og ómerk“ og „ber að refsa fyrir þau“, þar sem „ásakanirnar ganga langt út fyrir takmörk leyfilegrar gagnrýni“, segir dómarinn, Þó var hvergi eitt einasta orð hrakið af fullyrðingum mínum. Og svo komu orð eins og þessi: „er engan veginn réttlætanlegt að telja lyfjabúðina hinn mesta heimilisbölvald… sem er ærumeiðandi aðdróttun“. - Svo eru talin upp sex orðasambönd, sem „ber að ómerkja og refsa fyrir“. Þessu átti ég von á, þrátt fyrir sagðan sannleikann í hverju orði.

Og birti ég hér
Dómsorð:
„Framangreind ummæli skulu dauð og ómerk. Stefndur, Þorsteinn Þ. Víglundsson greiði 1000,oo kr. sekt í ríkissjóð og komi 8 daga varðhald í stað sektarinnar ef hún greiðist ekki innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa.

Stefndur greiði stefnanda, Aase Sigfússon, kr. 150,oo til að standa kostnað af birtingu dóms þessa í opinberu blaði eða riti og kr. 500,oo í málskostnað innan 15 daga frá lögbirtingu hans... “

Daginn eftir að mér var birtur dómurinn, gekk ég á fund bæjarfógetans, en hann hafði ekki fellt dóminn heldur fulltrúi hans, eins og ég hefi tekið fram. Ég kvaðst kominn til þess að greiða meiðyrðasektina. „Þú greiðir ekkert“, sagði bæjarfógeti. - „Nú? Dómarinn hefur afráðið, að ég greiði ríkissjóði kr. 1000,oo í sekt fyrir skrifuð orð um sprittsölu lyfjabúðarinnar og alla þá óhamingju, sem af sölu þessari sprettur. Og hvers vegna svo ekki að greiða sektina?“

„Svona dómar eru felldir til þess að fullnægja lagastafnum, þar sem svo er kveðið á í lögum, að jafnvel fyrir heilagan sannleika skuli menn einnig dæmdir til að greiða sektir. En eitthvað verður gert í þessu sprittmáli, það er víst og satt,“ sagði bæjarfógeti. Enda kom það á daginn. - Þar með lauk þessu máli.