Annar áratugurinn
Á tímabilinu 1910-1920 hófu veiðar 45 nýjir bátar og voru margir þeirra nokkuð stærri en þeir sem fyrir voru og var m/b Óskar, sem smíðaður var í Eyjum þeirra stærstur eða 16 tonn. Einnig var m/b Emma keypt til Eyja á þessu tímabili og var hún um 16 tonn. Báðir voru þessir bátar frábrugðnir þeim sem fyrir voru að því leyti að þeir voru ,,kútter"-byggðir og auk þess tvímastra og hvorugt mastrið hægt að leggja niður, og var seglabúnaðurinn í samræmi við það. Voru þetta fyrstu bátarnir af þessari gerð sem Vestmannaeyingar eignuðust, en seinna urðu þeir þó mun fleiri.
Bætt hafnaraðstaða hvetur til stærri báta
Árið 1914 var hafist handa um gerð syðri hafnargarðsins og tók það nokkur ár, og var verkinu vart lokið fyrr en 1920. Veittti garðurinn mun betra skjól í innri höfninni en áður var, og var hafnarfestunum komið fyrir þar. Lágu þær frá austri til vesturs. Átti hver bátur sitt legufæru sem tengt var hafnarfestunum og var millibil milli festinga hvers báts haft það langt að ekki var hætta á að bátarnir rækjust saman. Höfnin var þó enn mjög grunn, en hinir smærri bátar flutu þá ávalt við legufæri sín , en þeir stærri tóku niðri um fjöru og var því reynt að hafa þá þar sem mest dýpi var.
Bæjarbryggjan steypt
Stokkhellubryggjan gamla, eða bæjarbryggjan eins og hún var síðar nefnd, var steypt upp og síðar endurbætt mjög árið 1911, þannig að smærri bátarnir flutu oftast nær að henni og þeir stærri þegar hásjávað var og bætti þetta mjög alla aðstöðu til að losna við aflann þegar að landi var komið. Hvatti þessi bætta aðstaða menn einnig til að afla sér stærri og afkastameiri báta
Stærri og afkastameiri bátar
Vélbátar voru í lok áratugarins 61 að tölu og var brúttó-stærð þeirra samtals 609 tonn og meðalstærð því alveg um 10 tonn.
Heildarafli Vestmannaeyjaflotans varð þennan áratug samtals 93.543 tonn, og var aflinn á þessum árum nær allur verkaður í salt og sólþurrkaður til útflutnings á þar til gerðum þerrireitum. Það sést einnig á þessum tölum að heildarafli flotans á þessum tveimur áratugum hefur aukist um 37.553 tonn.