Verslunarsaga
Eins og annars staðar á Íslandi bjó fólk í Eyjum við kröpp kjör. Drepsóttir, fákunnátta og verslunaránauð þjakaði Eyjabúa. Barnadauði var mjög algengur af völdum ginklofa og þegar ástandið var verst dóu öll börn stuttu eftir fæðinguna. Fyrsta manntalið, frá árinu 1703, ber þess ljóslega vitni að lífsbaráttan hefur verið hörð. Þá voru Vestmannaeyingar 318 talsins og fjölskyldurnar 56. Móðuharðindin, sem komu í kjölfar eldgoss í Lakagígum árið 1783, leiddu af sér aflaleysi og féllu bæði menn og dýr úr hor. Íbúar voru því einungis 173 um 1800. Síðar fjölgaði aftur og árið 1901 voru íbúar orðnir 607.
Tvö kaupskip komu til Eyja á ári að jafnaði á tíma einokunarverslunarinnar, en það komu að meðaltali sex skip til Íslands á ári á þeim tíma. Þau fluttu vörur og varning til Eyja af ýmsum toga, en fluttu fyrst og fremst fisk og fiskafurðir burt frá Eyjum. (tekið saman af bls 205 í neðangreindri bók)
Afli áraskipa jókst umtalsvert þegar tekin var upp notkun línu eftir margra alda hlé árið 1897. Fyrsti vélbáturinn kom til Vestmannaeyja árið 1904 og braut sá atburður blað í sögunni. Byggðin stækkaði ört. Á vetrarvertíðinni tók bæjarlífið stakkaskiptum því mikið líf var í kringum sjómennina. Eyjamiðin gáfu vel af sér og að sama skapi fjölgaði bátunum. Sjósókn á þessum litlu bátum var afar erfið. Frostaveturinn mikli árið 1918 kól sjómenn illa í sjóróðrum og voru þeir frá vinnu í allt að þrjár vikur. Hinir ófullkomnu vélbátar voru án stýrishúss í fyrstu en um 1920 var byrjað að setja stýrishús á bátana. Björgunarfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1918 í kjölfar hinna miklu og tíðu slysa samfara vélvæðingu útgerðarinnar. Fyrsta björgunar- og varðskip Íslendinga, varðskipið Þór, var keypt árið eftir. Hin öra þróun vélbátaútgerðarinnar hafði náð hámarki um 1930. Sama ár var íbúatala í Vestmannaeyjum um 3.400 manns og fyrir áhrif heimskreppunnar hélst hún næstum óbreytt næstu tuttugu árin.
Heimildir:
- Saga Vestmannaeyja e. Sigfús M. Johnssen.