Guðmundur Búason
Guðmundur Búason fæddist á Myrkárbakka í Hörgárdal 13. apríl 1946. Foreldrar hans voru Búi Guðmundsson bóndi og kona hans Árdís Ármannsdóttir húsmóðir. Hann ólst upp á Akureyri og lauk stúdentsprófi frá öldungadeild MA 1980 og námi í rekstrar og viðskiptafræði HÍ 1995. Guðmundur starfaði sem verslunarstjóri hjá KEA á Akureyri, en fluttist til Vestmannaeyja 1980 þegar hann tók við stöðu kaupfélagsstjóra í Vestmannaeyjum og gegndi því starfi til 1988, er hann tók við starfi fjármálastjóra KÁ á Selfossi, á sama tíma og KÁ yfirtók rekstur kaupfélags Vestmannaeyja. Kaupfélag Vestmannaeyja rak á þessum tíma matvörumarkað og verslun að Bárugötu 7, kjötvinnslu á sama stað, vefnaðarvöruverslun og búsáhaldadeild að Bárugötu 6 en einnig byggingavöru- og timburverslun við Flatir. Guðmundur sat í mörgum nefndum á vegum Vestmannaeyjabæjar, m.a. varamaður í bæjarráði og sat síðar í bæjarráði Selfoss. Hann tók tvisvar sæti sem varaþingmaður fyrir Suðurland í nóvember 1983 og aftur 1985 fyrir framsóknarflokkinn. Guðmundur tefldi töluvert fyrir norðan fyrir UMSE og varð skákmeistari Norðurlands 1971. Hann var formaður Taflfélags Vestmannaeyja 22. september 1982 til 15. september 1984 og varð skákmeistari Vestmannaeyja 1983.