Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Starf vélstjórnarbrautar Framhaldskólans 2006-07

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. ágúst 2019 kl. 14:49 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. ágúst 2019 kl. 14:49 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
GÍSLI EIRÍKSSON


Starf vélstjórnarbrautar Framhaldsskólans 2006-2007


Kennsla á vorönn Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum hófst 4. jan 2006. Vegna góðrar þátttöku var ákveðið að kenna fyrsta stig vélstjórnar á vorönninni en venjulega er það aðeins kennt á haustönn. Þrettán nemendur voru skráðir til náms á fyrsta stigi og tveir á öðru stigi auk þess voru fjórir nemendur í grunndeild rafiðna og nemendur úr 10. bekk í valáfanga í málmsmíði. Skólaslit vorannar voru 20 maí. Þá útskrifuðust fimm af vélavarðabraut, einn af öðru stigi auk nemenda úr grunndeild rafiðna.
Haustönnin hófst að loknum sumarleyfum með hefðbundnum hætti þann 21. ágúst 2006. Aðsókn á vélstjórnarbrautina var nokkuð góð þar sem 14 nemendur voru á fyrsta stigi vélstjórnar, þrír við nám í kjarnagreinum á öðru stigi, einn í vélsmíði og fjórir í fjarnámi til þriðja stigs sem er í samstarfi Framhaldsskólans og Fjöltækniskóla Íslands. Á skólaslitum haustannar, sem voru þann 16. desember, útskrifuðust níu nemendur úr fyrsta stigi vélstjórnar, einn lauk grunndeild rafiðna og einn nemandi útskrifaðist úr námi í vélsmíði, þá luku tveir nemendur áföngum í rafmagns- og vélfræði til annars stigs.
Á vorönn, sem var sett 4. janúar 2007, voru skráðir 14 nemendur til náms á öðru stigi vélstjórnar, þar af tveir starfandi vélstjórar í P áfanga en þeir ætla að auka við vélstjórnarréttindi sín. Einn nemandi er í vélvirkjanámi og nokkrir nemendur 10. bekkjar eru í valáfanga í málmsmíði.
Framhaldsskólinn og þar með vélstjórnarbrautin hafa á liðnum árum átt marga velgjörðarmenn sem sýnt hafa honum áhuga og stutt við bakið á því starfi sem þar fer fram og er svo enn. Kristbergur Einarsson, eigandi Hlýra VE, gaf vélina og skrúfuna úr bátnum þegar honum var lagt. Þá gaf Gísli Óskarsson, kennari við Barnaskólann, vélstjórnarbrautinni dísilvél og Vestmannaeyjahöfn gaf skólanum Caterpillarvélina úr gamla grafskipinu þegar saga þess varð öll. Allt eru þetta tæki sem koma sér vel við kennsluna og færum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir höfðingskapinn og þann velvilja sem þeir sýna starfinu í skólanum. Starfið á þessu skólaári hefur verið nokkuð hefðbundið þar sem leitast hefur verið við að tengja saman bóklega og verklega hluta námsins m.a. með því að taka í sundur, ástandsskoða, mæla og meta hina ýmsu vélahluti. Þá hefur verið farið í skoðunarferðir um borð í skip og báta, vélbúnaðurinn skoðaður og rætt við vélstjórana um vinnslumáta búnaðarins og starfið almennt.
Aðsókn að vélstjórnarbrautinni hefur verið þokkalega góð síðustu tvær annir og vonandi að svo verði áfram enda námið fjölbreytt og krefjandi, jafnframt því sem tekjumöguleikar að því loknu eru góðir. Talsverð vöntun er á mönnum með vélstjórnarréttindi bæði til sjós og lands og atvinnuhorfur því góðar. Þetta skapast meðal annars af því að sérhæfingin er almennt að aukast, virkjanir og stórfyrirtæki þurfa meira af tækni- og iðnmenntuðu fólki og þá ekki síst sú ánægjulega þróun sem snýr beint að okkur Eyjamönnum þar sem stórhuga og framsýnir útgerðarmenn hér í bæ hafa verið að endurnýja og fjölga í fiskiskipaflotanum. Óskum við útgerðarmönnum til hamingju með nýju skipin bæði þau sem nú þegar eru komin og þau sem væntanleg eru. Þetta kemur ekki bara útgerðarmönnunum vel heldur okkur öllum sem búum hér í Eyjum. Þessi nýju og tæknilega fullkomnu skip krefjast sjálfstæðra vélstjóra með góða menntun og þekkingu á þeim búnaði sem í þeim er. Nemendur og starfsmenn Framhaldsskólans óska sjómönnum til hamingju með daginn, gæfu og auðnu um ókomna tíð.