Annáll ÍBV íþróttafélags í 20 ár/2001 -

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. júlí 2019 kl. 14:50 eftir Gisli (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. júlí 2019 kl. 14:50 eftir Gisli (spjall | framlög) (→‎2001)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

2001 -

Flottur þrettándi

Þrettándinn var haldinn hátíðlegur að venju í Vestmannaeyjum og segja lögreglumenn þau hátíðahöld hafa verið til mikillar fyrirmyndar. Er það ekki síst þakkað því hve veður var gott á þrettándanum. Sjaldan eða aldrei hafa fleiri fylgst með hátíðahöldunum enda langt síðan Grýla og Leppalúði hafa fengið annað eins blíðviðri. Þeir dansleikir, sem haldnir voru í tengslum við þrettándann, fóru einnig vel fram.

Fréttapíramídi til handboltans

Handboltinn hlaut Fréttapíramída Frétta fyrir árið 2000 á hófi sem haldið var í byrjun janúar. Var það  fyrir framlag til íþrótta en meistaraflokkur kvenna ÍBV í handbolta varð Íslandsmeistari á árinu 2000.  Mikill hluti liðsins var mættur við þessa afhendingu, auk þjálfara, stjórnenda handknattleiksdeildar og stuðningsmanna.

Dapurt gengi í innanhússknattspyrnunni

Árangur meistaraflokka ÍBV í Íslandsmótinu í innanhúsknattspyrnu í ár var heldur slakur, hvorugt liðið komst upp úr sínum riðli en bæði lið spiluðu reyndar með Íslandsmeisturunum í riðli. Karlaliðið lék í riðli með Þór Akureyri, Víkingi og Fylki en fyrirfram var búist við að baráttan um efsta sæti riðilsins yrði milli ÍBV og Fylkis. En annað kom á daginn, liðin mættust í síðasta leik riðilsins og voru þá bæði búin að tapa báðum leikjum sínum og leikurinn því hreinn úrslitaleikur um hvort liðið félli í 2. deild en Fylkir átti möguleika á átta liða úrslitum. ÍBV sigraði 5 - 1 sem varð til þess að Fylkir féll. Var það snilldarmarkvarsla Hlyns Stefánssonar í lokin en hann sýndi ótrúlega færni í nýrri stöðu.

Kvennaliðið var hins vegar í riðli með KR, Val, RKV og Sindra og var búist við þriggja liða baráttu um tvö laus sæti í undanúrslitum. Því miður var það ÍBV sem sat eftir en liðið tapaði fyrir KR og Val en sigraði hin tvö liðin. 

Unnu sálfræðistríðið

ÍBV tók á móti Stjörnunni í Nissandeild kvenna í fyrsta handboltaleik ársins en þessi lið mætast einmitt í undanúrslitum bikarkeppninnar eftir þrjár vikur og má því segja að sálfræðistríðið sé þegar hafið. Leikmenn ÍBV sýndu hins vegar styrk sinn í leiknum og unnu reynslumikið lið Stjörnunnar með sjö mörkum, 28 - 21.

Boltinn á fullu

Það var í nógu að snúast hjá  ÍBV um mánaðamótin janúar/febrúar en þá fóru fram tvö fjölliðamót á vegum félagsins. Annars vegar var Íslandsmótið í knattspyrnu í þriðja flokki karla og hins vegar var fjölliðamót fjórða flokks í handknattleik kvenna. Óhætt er að áætla að hér hafi verið í kringum 150 manns en öll liðin gistu í Hamarskóla. Í handboltanum fór mest fyrir heimaliðinu og er óhætt að segja að ÍBV sé nánast óstöðvandi í vetur en þetta var þriðja fjölliðamót liðsins sem hefur alltaf skipað efstu sætin. Um helgina vann liðið alla sína leiki örugglega en úrslit leikjanna voru þessi: ÍBV-ÍR 17-11, ÍBV-Fram 13- 7, ÍBV-Grótta 10-7, ÍBV-Fjólnir 14-10. Markahæstar voru þær Margrét Lára með 16 mörk, María með 15 og Halla Björk með 10 en Karítas stóð í markinu og stóð sig vel.

Í einskonar upphitun fyrir fjölliðamótið spilaði meistaraflokkur ÍBV við  ÍR í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar. ÍBV sýndi mótherjum sínum enga miskunn og sigraði í leiknum með fjögurra markamun, 17-13.

Í fótboltanum gekk töluvert mikið á en riðillinn var jafn og spennandi og því hart barist. Baráttan stóð á milli Reykjavíkurfélaganna Leiknis og Víkings og náði dramatíkin hámarki í leik liðanna sem Víkingar unnu. Það dugði þeim þó ekki til sigurs í riðlinum þar sem HK sigraði Víking í síðasta leik riðilsins og Leiknismenn komust þar með í úrslit. ÍBV stóð sig ágætlega í mótinu, vann tvo leiki og tapaði tveimur og endaði í þriðja sæti af fimm liðum. Úrslit leikja ÍBV voru þessi: ÍBV-Víkingur 2-4, ÍBV Leiknir 4-6, ÍBV-Stjarnan 2-1 og ÍBV-HK5-2.

Á fljúgandi ferð

Meistaraflokkur kvenna í handknattleik er á góðri leið með að endurtaka ævintýrið frá því í fyrra en liðið fór þá á kostum eftir áramót og stóð uppi sem Íslandsmeistari eins og flestir vita. Í ár hefur liðið spilað fjóra leiki og sigrað í þeim öllum og ÍBV þokast upp töfluna.

Í byrjun febrúar lék liðið tvo leiki, fyrst gegn FH í Kaplakrika og svo tók liðið á móti KA/Þór á heimavelli.

FH leikurinn átti reyndar að fara fram á laugardegi en var frestað fimm daga í röð þannig að leikmenn beggja liða voru líklega orðnir óþreyjufullir að spila leikinn. Fyrir leikinn gegn FH hafði ÍBV unnið tvo leiki, báða á heimavelli þannig að segja má að: leikurinn hafi verið prófsteinn á getu liðsins. ÍBV byrjaði leikinn mun betur en heimastúlkur og náði fljótlega fjögurra marka forystu en með mikilli baráttu náðu FH-ingar að hanga í ÍBV allt þar til undir lok hálfleiksins. Í hálfleik munaði þremur mörkum á liðunum, ÍBV leiddi 12-15 eftir ágætan endasprett. Í upphafi seinni hálfleiks tóku stelpurnar öll völd á vellinum og náðu mest fimm marka forystu. En heimamenn neituðu að gefast upp og undir lok leiksins var munurinn aðeins eitt mark, 25-26 en Edda Garðarsdóttir skoraði síðasta markið og tryggði ÍBV tveggja marka sigur.

Mörk ÍBV: Tamara Mandichz 7/3, Edda B. Garðarsdóttir 5, Anita Andreassen 5, Amela Hegic 4/2, Ingibjörg Ýr Jóhannsdóttir 4, Aníta Ýr Eyþórsdóttir 1 og Bjarný Þorvarðar 1. Varin skot: Vigdís Sigurðardóttir 19/2.

ÍBV átti ekki að eiga í neinum vandræðum með mótherja sína í næsta leik þegar liðið mætti KA/Þór á heimavelli. Sú varð einnig raunin að Eyjastúlkur hreinlega keyrðu norðanliðið í kaf en leikur ÍBV byggðist mest á sterkri vörn og markvörslu, en einnig var keyrt grimmt á hraðaupphlaupum.

Alls fékk ÍBV á þriðja tug hraðaupphlaupa og alls urðu mörkin fjórtán úr slíkum færum en augljóslega mun ÍBV ekki fá jafn mörg tækifæri til leiftursóknar gegn sterkari liðum deildarinnar. Engu að síður var liðið vaxandi í leiknum en undir lokin var þreytan farin að segja til sín en þá fengu varamennirnir að spreyta sig. Leikurinn sjálfur var í raun mjög ójafn ef frá eru taldar upphafsmínúturnar en þegar fimm mínútur voru liðnar náði ÍBV undirtökunum og jókst munurinn jafnt og þétt út allan leikinn. Mestur varð munurinn undir lokin þegar ÍBV komst þrettán mörkum yfir og sá munur hélst á liðunum þar til flautað var til leiksloka. ÍBV sigraði 31 -18 og er í 2-4 sæti með átján stig en efst tróna Haukar með 24 stig. Mörk ÍBV: Anita Andreassen 9, Gunnleyg Berg 7, Ingibjörg Yr Jóhannsdóttir 5, Tamara Mandichz 3, Íris Sigurðardóttir 3, Amela Hegic 2/1, Bjarný Þorvarðardóttir 1, Edda B. Eggertsdóttir 1 . Varin skot: Vigdís Sigurðardóttir 19/1, Arún Guðgeirsdóttir 1.

Í fimmta leik Íslandsmótsins léku ÍBV stúlkur við Fram á útvelli og sigruðu 21-20. Dómarapar leiksins fékk ekki háa einkunn hjá íþróttafréttarita Frétta, fyrir sína frammistöðu, segir í blaðinu að leikmenn ÍBV hafi verið átján mínútur í kælingu á meðan heimaliðið var aðeins átta mínútur í kælingu.

24-23 sigur á Stjörnunni í undanúrslitum

6. febrúar var sannkallaður stórleikur í íþróttahöllinni þegar meistaraflokkur kvenna ÍBV tók á móti Stjörnunni í undanúrslitum bikarkeppninnar. Liðin höfðu tvisvar mæst í deildinni, fyrst sigraði Stjarnan í Garðabænum en ÍBV sigraði í Eyjum fyrir tæplega mánuði. Þá höfðu Stjörnustúlkur á orði að slíkt myndi ekki endurtaka sig en þær þurftu að éta þau orð ofan í sig því ÍBV sigraði í leiknum 24 - 23 eftir mjög dramatískan leik. Fyrir leikinn var bryddað upp á skemmtilegri nýbreytni en þegar ÍBV liðið var kynnt voru ljósin í salnum slökkt og boðið var upp á kynningu eins og tíðkast í NBA með tilheyrandi ljósasýningu.

Mörk ÍBV: Tamara Mandichz 10/3, Amela Hegic 6/5, Anita Andreassen 4, Bjarný Þorvarðardóttir 3, Gunnleyg Berg l. Varin skot: Vigdís Sigurðardóttir 16/1

Peningamál til umræðu

Á stjórnarfundi aðalstjórnar 21. febrúar var skýrt frá því að kostnaður  við móttöku á Íslands- og bikarmeisturum félagsins hafi hingað til lent á ÍBV íþróttafélagi. Nú hafi hinsvegar verið ákveðið að félagið borgi 50% af blómakostnaði á móti Íþróttabandalaginu og  flugeldakostnaður verði greiddur af  Vestmannaeyjabæ.

Á sama stjórnarfundi var samþykkt að kvennaknattspyrnan fái 50% af innkomu af sunnudagsinnrukkun á Þjóðhátíð á móti karlaknattspyrnunni.

Vængbrotið lið mætti  til leiks

Meistaraflokkur karla ÍBV tók á móti Valsmönnum í fyrsta leik síðan í nóvember en mikið hefur gengið á hjá liðinu síðan þá og ljóst að erfiður tími fer í hönd í karlaboltanum. Úrslitin urðu í samræmi við það. Valur hafði betur, 19 - 25 og hálfleik var staðan 6-14 gestunum í vil. Fjórir lykilleikmenn voru ekki með í leiknum, Aurimas leikur ekki meira með liðinu vegna meiðsla, Jón Andri er einnig meiddur og óvíst hvenær hann verður til í slaginn, Eymar Kruger og Daði Pálsson eru að öllum líkindum hættir með liðinu. Auk þeirra er Sigurður Sigurðsson varamarkvörður farinn frá liðinu og Sigþór Friðriksson er meiddur. Leikurinn gegn Val var leikur kattarins að músinni, ÍBV tapaði með sex mörkum en mestur varð munurinn tíu mörk í seinni hálfleik.

Mörk ÍBV: Guðfinnur Kristmannson 8/5, Mindaugas Andriuska 4/1, Svavar Vignisson 2, Sigurður Ari Stefánsson 1, Sindri Ólafsson 1, Davíð Þór Óskarsson 1, Kári Kristjánsson 1, Erlingur Richardsson 1. Varin skot: Gísli Guðmundsson 22/3.

Vigdís sett í lás

Það tók ÍBV rúmar 45 mínútur að hrista af sér bikarleikinn þegar liðið tók á móti Víkingum aðeins tveimur dögum eftir sigurinn gegn Stjörnunni í undanúrslitum bikarkeppninnar. Leikurinn var lengst af í járnum en undir lokin hristu stelpurnar, gestina af sér og sigruðu örugglega, 30-22. Byrjunin á leiknum lofaði heldur betur góðu og Eyjastúlkur höfðu undirtökin frá fyrstu mínútu. ÍBV leiddi leikinn með einu til tveimur mörkum, allt þar til hálfleikurinn var hálfnaður en þá brugðu gestirnir á það ráð að taka Tamöru og Amelu úr umferð. Við þetta riðlaðist sóknarleikur ÍBV töluvert og Víkingar komust tveimur mörkum yfir. En með mikilli baráttu og góðri vörn tókst stelpunum að ná eins marks forystu áður en flautað var til leikhlés. Staðan í hálfleik var 11-10.

Víkingar, með Eyjastúlkuna Guðbjörgu Guðmannsdóttur í broddi fylkingar, voru ákveðnari í upphafi seinni hálfleiks og náðu aftur tveggja marka forystu, 13-15. Tamara og Amela voru sem fyrr í strangri gæslu en sú fyrrnefnda var dugleg við að koma sér inn í leikinn enda skoraði hún átta mörk og átti auk þess fjölmargar stoðsendingar. ÍBV skoraði fjögur mörk í röð og lagði þar með grunninn að sigrinum. Jafnræði var með liðunum allt þar til tæpur stundarfjórðungur var eftir af leiknum en þá setti Vigdís Sigurðardóttir í lás og slá og varði nánast allt sem á markið kom. Víkingar komust lítið áleiðis gegn sterkri Eyjavörn, ÍBV nýtti tækifærin og skoraði fjögur mörk úr hraðaupphlaupum á stuttum tíma. Gestirnir gáfust nánast upp við mótlætið og eftirleikurinn varð auðveldur. ÍBV sigraði með átta mörkum, 30-22 og situr því eitt liða í öðru sæti.

Mörk ÍBV: Tamara Mandichz 8/3, Anita Andreassen 8, Ingibjörg Jóhannsdóttir 6, Amela Hegic 4, Edda B. Eggertsdóttir 2, Bjarný Þorvarðardóttir 1, Eyrún Sigurjónsdóttir 1. Varin skot: Vigdís Sigurðardóttir 20/1.

Þung staða í fjármálum

Á fundi aðalstjórnar 1. apríl var upplýst að félagið sé komið með yfirdrátt uppá 2 milljónir króna og lausaskuldir félagsins séu um 1 milljón króna. Ljóst sé að næstu tveir mánuðir,  verðir þungir í rekstrinum. 

Þjóðhátíðin nálgast

Á fundi aðalstjórnar 11. apríl mætti Þjóðhátíðarnefnd, til að fara yfir næstu Þjóðhátíð. Á fundinum kom fram vilji aðalstjórnar að fá bókhald Þjóðhátíðar inní félagið og einnig að koma af stað beiðnakerfi við undirbúning hennar og að engum verði heimilt að skrifa á félagið nema gegn beiðni. Samþykkt var að athuga hvort hægt verði að fá vinnuskólann eða hreinsunarnefnd bæjarins til að aðstoða við hreinsun Herjólfsdals eftir Þjóðhátíð. Einnig að tryggja að einhver frá barnaverndarnefnd, sálfræðingur og aðili frá áhaldahúsinu o.fl. séu til reiðu meðan á Þjóðhátíð stendur, en oft þarf að leita til þessara aðila. Rætt var um neyðaráætlun fyrir farþega sem ekki komast frá Eyjum eftir Þjóðhátíð vegna veðurs. Þá var upplýst að öll rafmagnstæki úr Dalnum væru ónýt eftir brunann í Ísfélaginu. Taka þarf stefnu í  rafmagnsmálum Dalsins.

Unnu alla leikina

Annar flokkur kvenna lék helgina 2. til 4. febrúar í A-riðli Íslandsmótsins í innanhússknattspyrnu. Þær gerðu sér lítið fyrir og unnu alla leiki sína og tryggðu sér þar með sæti í úrslitakeppninni. Sindri Grétarsson, nýráðinn þjálfari liðsins, sagði að liðið hefði verið að leika ágætlega. Úrslit leikjanna urðu þessi: ÍBV Stjarnan 5-1, ÍBV-Fram 3-1, ÍBV-Þróttur R. 4-1, ÍBV-Afturelding/Fjólnir2-l. Mörk IBV skoruðu þær Margrét Lára (10 mörk), Erna Dögg (4 mörk) og Elva Dögg (1 mark). 

Drógu 2. flokk úr keppni

Ákveðið hefur verið að 2. flokkur karla í handknattleik hætti keppni í Íslandsmótinu. Þessi ákvörðun er tekin vegna mikils álags sem yrði á leikmönnum flokksins ef ekkert yrði gert en flokkurinn er aðallega skipaður strákum úr þriðja flokki og eru aðeins einn til tveir gjaldgengir í 2.flokk.

Íslandsmeistarar

2. flokkur kvenna gerði góða ferð til Reykjavíkur um helgina en þá tók liðið þátt í úrslitum Íslandsmótsins í innanhúsknattspyrnu en áður hafði liðið unnið sinn riðil áður nokkuð sannfærandi. Alls voru sex lið í úrslitakeppninni og var leikið í þremur riðlum. ÍBV byrjaði ekki glæsilega og tap í fyrsta leik gegn Val setti liðið í vanda. Seinni leikur liðsins var gegn KS og endaði hann með 3-3 jafntefli en ÍBV komst áfram í undanúrslit þar sem Valur sigraði KS með einu marki meira en ÍBV. Í undanúrslitum mætti ÍBV KR í hörkuleik. ÍBV sigraði að lokum með einu marki, 1-0. Í sjálfum úrslitaleiknum mætti liðið svo erkifjendunum úr Breiðabliki og úr varð sannkallaður markaleikur. Sindri Grétarsson, þjálfari liðsins sagði í samtali við Fréttir að þrátt fyrir að hafa byrjað illa þá hafi liðið bætt sig í hverjum leik. „Við byrjuðum á móti KS, komumst í 3-0 en þær jöfnuðu á aðeins einni mínútu. Ég var viss um að við kæmumst áfram þrátt fyrir þetta enda var Valur með betra lið en KS. Í undanúrslitum spiluðum við mjög vel, skoruðum fljótlega og einbeittum okkur svo að varnarleiknum. Þær fengu varla færi í leiknum og við hefðum átt að vinna leikinn með tveimur til þremur mörkum. Úrslitaleikurinn var svo í járnum nánast allan tímann en við náðum góðum leikkafla í seinni hálfleik og tryggðum okkur titilinn." Þess má til gamans geta að þetta er fyrsta mót Sindra sem þjálfari og er óhætt að segja að byrjunin lofi góðu.

Liðið var þannig skipað: Margrét Lára Viðarsdóttir, Rakel Rut Stefánsdóttir, Erna Dögg Sigurjónsdóttir, Elva Dögg Grímsdóttir, Sara Sigurlásdóttir, Eva Ómarsdóttir, Hanna Guðný Guðmundsdóttir og Berglind Þórðardóttir og Bjartey Gylfadóttur.

Bikarinn til Eyja

Bikarúrslitaleikurinn milli ÍBV og Hauka í kvennaliðunum verður lengi í minnum hafður. Ekki verður hans minnst fyrir góðan handknattleik heldur fyrst og fremst vegna þess að hann var mikil skemmtun þar sem dramatíkin og spennan voru allsráðandi allt til loka. Það þarf varla að taka það fram að ÍBV sigraði í leiknum eftir mikla baráttu og framlengdan leik, 21 -19.

Strax í upphafi leiks var ljóst að taugar beggja liða voru þandar til hins ýtrasta. ÍBV byrjaði leikinn betur og fyrstu tvö skotin rötuðu rétta leið hjá leikmönnum liðsins. ÍBV komst í 2-0 en Haukar svöruðu með þremur mörkum og leiddu nánast allan hálfleikinn með tveimur til þremur mörkum. Í hálfleik var staðan 6- 8 fyrir Hauka, lítið skorað enda var sóknarleikur liðanna slakur en varnarleikur að sama skapi góður. Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri, Haukar leiddu nánast allan leikinn og ÍBV hélt sér inni í leiknum. ÍBV komst reyndar yfir um miðjan hálfleikinn þegar Edda B. Eggertsdóttir kom ÍBV í 14-13 en aftur náðu Haukar að svara fyrir sig með 2 mörkum og komust þar með yfir. Mikil taugaspenna var í liðunum í byrjun leiks en ekki minnkaði hún þegar á leið og var t.d. ekki skorað mark á níu mínútna kafla undir lok leiksins. Haukar skoraðu sitt sautjánda mark þegar aðeins tvær mínútur voru eftir til leiksloka og Eyjastúlkur héldu í sókn. Haukastúlkur spiluðu mjög ákveðna vörn, komu vel út á móti skyttunum og náðu að koma í veg fyrir að þær kæmust í gott skotfæri. Haukar unnu boltann svo þegar fimmtán sekúndur voru eftir en Tamara Mandichz virtist ná að vinna boltann aftur en slakir dómarar leiksins dæmdu hana brotlega. Haukar tóku sér leikhlé til að ráða ráðum sínum. Eyjastúlkur spiluðu vörnina hins vegar mjög skynsamlega undir lok venjulegs leiktíma, hleyptu hornamanni Hauka í gegn og treystu á að Vigdís myndi verja. Fyrirliðinn klikkaði ekki og það sem meira er þá skaust boltinn beint í hendur Ingibjargar sem kastaði boltanum fram á völlinn. Þar missti Gunnleyg af boltanum en Tamara stóð af sér skriðtæklingu Haukastúlkna og fiskaði á ótrúlegan hátt víti þegar klukkan í Laugardalshöll sýndi að aðeins 20 sekúndur voru eftir af leiknum. Ótrúleg dramatík. Tamara sýndi svo hversu reyndur leikmaður hún er og skoraði sjálf örugglega úr vítinu og tryggði ÍBV framlengingu.

Í fyrri hálfleik framlengingarinnar skoruðu Haukar fyrsta markið í sinni fyrstu sókn en Ingibjörg Ýr náði að jafna áður en hálfleikurinn var úti. ÍBV byrjaði svo seinni hálfleikinn einum leikmanni fleiri og nýttu þær sér liðsmuninn vel, skoruðu þrjú mörk í röð og tryggðu sér sigurinn áður en hálfleikurinn var hálfnaður. Haukar skorðu reyndar síðasta mark leiksins en það kom ekki að sök og sætur sigur ÍBV því staðreynd.

ÍBV lék ekki vel í leiknum gegn Haukum, sérstaklega var sóknarleikur liðsins slakur en þegar tekið er með í reikninginn hversu mikið er í húfi er það vel skiljanlegt. Varnarleikur liðsins var ágætur og Vigdís varði mjög vel og hélt liðinu inni í leiknum þegar mest á reyndi. Vigdís varði m.a. þrjú vítaskot og var án efa maður leiksins. Tamara, Amela og Anita voru áberandi í sóknarleiknum en Ingibjörg Ýr og Edda skoraðu mjög mikilvæg mörk þegar á reyndi. Sigurvilji og þrautseigja var það sem skildi liðin að. Eyjastúlkur gáfust ekki upp þrátt fyrir að eiga á brattann að sækja nánast allan leikinn og þegar tækifæri gafst tryggðu þær sér sigurinn og eiga því bikarmeistaratitilinn fyllilega skilið.

Mörk ÍBV: Tamara Mandichz 5/4, Anita Andreassen 4, Edda B. Eggertsdóttir 4, Ingibjörg Ýr Jóhannsdóttir 3, Amela Hegic 2, Gunnleyg Berg 2, Bjarný Þorvarðardóttir 1. Varin skot: Vigdís Sigurðardóttir 21/3.

Furðuskrif forseta ÍSÍ

Ellert B. Schram forseti ÍSÍ skrifaði sérkennilega grein á heimasíðu Hauka þar sem hann niðurlægir nýkrýnda bikarmeistara ÍBV og gerir lítið úr þeim sem Íslandsmeisturum.  Eftir mikil viðbrögð  við þessari grein hefur Ellert sent frá sér afsökunarbeiðni sem íþróttaforystan ætlar að taka góða og gilda en menn eru engu að síður mjög undrandi á þessu framtaki forsetans. Í heild er pistill Ellerts eftirfarandi:

„Kæru Haukadömur. Sú var tíðin, þegar spilaður var handbolti í Hálogalandi, að strákarnir á áhorfendapöllunum höfðu mestan áhuga á að kíkja á stelpurnar í sturtunni, enda hæg heimatökin í hriplekum og gisnum bragganum og strákar og stelpur þurftu að skiptast á um böðin. Í sturtunni var margt til sýnis og raunar miklu meira en á vellinum sjálfum, vegna þess að leikurinn var ekki beint í hæsta gæðaflokki og það var helst hún Sigga í Ármanni, sem gat skotið af eigin vallarhelmingi eða Gerða í KR og nokkrar stelpur í Þrótti, sem „gátu gripið." Nú getur enginn gripið ef maður tekur mark á Viggó og þó eru þær fleiri stelpurnar sem stunda handbolta en nokkru sinni fyrr og mér sýnist ekkert annað hægt að gera en horfa á þær leika, eftir að bannaður er allur aðgangur í sturtuböðin (nema fyrir þá sem eru að fara í sturtu)! Næst kom Sigga Sigurðar í Val, sem fór fremst meðal jafningja og svo kom Gurrý dóttir hennar og nú er ég að bíða eftir þriðju kynslóðinni, til að horfa á og dást að. Á meðan á þeirri bið stendur, fara reykvísku félögin halloka fyrir valkyrjum utan höfuðborgarinnar, ef ekki utan landsteinanna og var það ekki þannig lið útlendinga og nýbúa, sem vann Íslandsmótið í fyrra? Haukastúlkur rúlla yfir andstæðinga sína í hverjum leiknum á fætur öðrum og ef liðsskipanin er sú að hér eigist við hafnfirskar blómarósir gegn útlensku innrásarliði, þá neyðist forseti ÍSÍ til að halda með þeim hafnfirsku, þó ekki væri nema af þjóðernisástæðum. Haukadömur eru líka búnar að koma sér upp heimasíðu og mikið hefði ég viljað að stelpurnar í mínu ungdæmi hefðu boðið upp á svoleiðis aðgang að sér, enda hefði maður þá ekki þurft að skoða þær í sturtunum. Annars má ég ekki tala svona, nú er nefnilega verið að rannsaka kynferðislegt áreiti í íþróttum og kannski getur svona ábyrgðarlaust tal, talist áreiti af því taginu, ef það er misskilið og eru ekki allir að misskilja allt sem sagt er? Var ekki Viggó misskilinn, þegar hann hélt því fram að handboltastelpur „kynnu ekki að grípa?" Var hún ekki líka misskilin, stelpan í Val, sem hélt því fram að Valsliðið hefði fengið raðfullnægingu?! Ég mæti að sjálfsögðu í Höllina á laugardaginn og bíð spenntur að sjá hver kann að grípa og hver getur skorað og hver beri sigur úr býtum. Og segi eins og litli strákurinn minn: Pabbi, ég held ekki alltaf með KR. Ég held með þeim sem vinnur.

Með bestu þökk fyrir að fá að senda ykkur kveðju, með bestu óskum um gott gengi í úrslitaleiknum, have fun.

Til þess er jú leikurinn gerður. Ellert."

Þess skal getið að í 14 manna hóp ÍBV vora níu stúlkur fæddar og uppaldar í Eyjum en hjá Haukunum voru ekki nema þrjár sem hægt er að segja að séu uppaldar í Haukum.

Í afsökunarbeiðninni segir Ellert. „Að gefnu tilefni vil ég biðja handknattleiksdeild ÍBV, stúlkurnar í liðinu og Eyjamenn alla mikillar og einlægrar afsökunar á fljótfærnislegum skrifum mínum á heimasíðu Haukakvenna í vikunni sem leið. Eins og pistillinn ber með sér var um að ræða græskulaust grín af minni hálfu, þar sem reynt er að sjá skoplegu hliðina á samskiptum stráka og stúlkna í handbolta í gegnum árin, gert gys að ummælum Viggós Sigurðssonar og því umtali, sem hefur verið um að erlent íþróttafólk beri uppi íþróttaliðin hér heima. Þessi aulafyndni hefur því miður verið tekin alvarlega. Mér þykir leitt að hafa sært tilfinningar þeirra sem taka þetta til sín, enda er það fjarri mér að vera rasisti eða gera lítið úr frammistöðu þeirra kappliða sem koma frá Eyjum. Ég horfði á leikinn á laugardaginn og dáðist að frammistöðu Eyjastúlkna og óska þeim innilega til hamingju með glæsilegan sigur. Með iðrunarkveðju Ellert B Schram."

Spennufall eftir Haukaslag

Kvennalið IBV hefur verið á mikilli siglingu eftir áramót og hefur enn sem komið er ekki tapað leik. Góðu gengi fylgir oft mikið álag og fylgifiskur þess er oft einbeitningarleysi þegar andstæðingarnir eru af slakara taginu. Líklega hefur það verið reyndin þegar stelpurnar mættu Val á Hlíðarenda en Valur er í neðri hluta deildarinnar og liðið ekki líklegt til afreka í vetur. ÍBV sigraði þó í leiknum með tveimur mörkum 21-23 en tæpara mátti það ekki vera.  

Tap í Austurbergi

Karlalið ÍBV lék þessa sömu helgi en þeir náðu ekki að fylgja eftir góðum sigri sínum á Stjörnunni þegar liðið mætti ÍR á heimavelli þeirra í Austurbergi.  Eyjapeyjar töpuðu leiknum stórt, 20-31 urðu lokatölur og við tapið komust ÍR-ingar upp fyrir ÍBV í deildinni. ÍBV er eins og er í níunda sæti með fjórtán stig þegar fimm umferðir eru eftir. stórt, 20-31 urðu lokatölur og við tapið komust ÍR-ingar upp fyrir ÍBV í deildinni. ÍBV er eins og er í níunda sæti með fjórtán stig þegar fimm umferðir eru eftir.

Höfnuðu í 2. sæti

ÍBV tók á móti Gróttu/KR í síðustu umferð deildarkeppninnar í handknattleik kvenna, en sigur var nauðsynlegur fyrir ÍBV til að tryggja annað sætið. Leikurinn var ágætis skemmtun og spennandi á tímabili en stelpurnar brugðust ekki í þetta skiptið, frekar en í ellefu síðustu leikjum og sjö marka sigur vannst. Lokatölur urðu 26-19 og endaði ÍBV því deildarkeppnina í öðru sæti.

Lausir við falldrauginn?

Karlalið ÍBV tók á móti silfurhöfum bikarkeppninnar þegar HK kom í heimsókn í átjándu umferð Nissandeildarinnar. Deildarkeppnin hefur verið afleit hjá HK og er liðið næstneðst með aðeins átta stig en að undanförnu hefur liðið verið að sækja í sig veðrið og unnu þeir m.a. Hauka í síðustu umferð. Gengi ÍBV hefur hins vegar verið upp og ofan eftir áramót, góður útisigur á Stjörnunni yljaði stuðningsmönnum en þar fyrir utan hefur verið fátt um fína drætti. ÍBV vann viðureignina gegn HK hins vegar nokkuð örugglega, 26-22 en óhagstæð úrslit úr öðrum leikjum þar sem m.a. ÍR sigraði Hauka gerði það að völdum að ÍBV er enn í níunda sæti deildarinnar. Leikmenn og forráðamenn ÍBV geta hins vegar andað léttar í bili því með sigrinum hefur ÍBV líklega losað sig við falldrauginn, átta stig eru nú á milli ÍBV og HK þegar fjórar umferðir eru eftir en ólíklegt er að HK vinni alla þá leiki sem eftir eru.

Það var sýnilegt á leik liðanna að þarna voru mætt til leiks lið úr neðri hluta deildarinnar. Leikurinn var æði skrautlegur og mikið um mistök. ÍBV mætti sóknarmönnum HK mjög framarlega á vellinum, framar en venjulega og útkoman var ágæt þar sem gestirnir skoruðu aðeins ellefu mörk í fyrri hálfleik en ÍBV fjórtán eftir að jafnt hafði verið nánast allan fyrri hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks breytti ÍBV hins vegar um varnaraðferð en þá gerðu gestirnir sér lítið fyrir og jöfnuðu 15-15. En Eyjapeyjar náðu fljótlega aftur undirtökunum og lönduðu mikilvægum sigri.

Bestir hjá ÍBV voru þeir Gísli Guðmundsson, Mindaugas Andriuska og Svavar Vignisson sem fiskaði fjögur víti auk þess að skora fimm mörk. Mikið munar einnig um að Jón Andri Finnsson, Erlingur Richardsson og Daði Pálsson séu aftur komnir á fullt með liðinu. Erlingur Richardsson sem spilaði á ný með ÍBV eftir meiðsli sagði að ÍBV hefði lagt áherslu á baráttuna í leiknum. „Við erum búnir að reyna að spila handbolta að undanförnu en það sem hefur kannski vantað er baráttan og kannski smá slagsmál. Við lögðum því upp með það fyrir leikinn að berjast og ég tel að það hafi skilað okkur stigunum í kvöld. Með þessum sigri losnum við líka við falldrauginn í bili en við stefnum ótrauðir áfram í átta liða úrslit. Við eigum erfiða leiki eftir og gerum okkur grein fyrir því að við verðum að bæta okkar leik ef við ætlum í úrslit," sagði Erlingur.

Mörk ÍBV: Mindaugas Andriuska, 10/3, Svavar Vignisson 5, Guðfinnur Kristmannsson 4, Daði Pálsspn 3, Jón Andri Finnsson 2/1, Sigurður Ari Stefánsson 2. Varin skot: Gísli Guðmundsson 19/1.

Þriggja marka sigur

ÍBV tók á móti Aftureldingu í nítjándu umferð Nissandeildarinnar en þetta var jafnframt næstsíðasti leikur liðsins á heimavelli. Mosfellingar hafa verið á góðu skriði að undanförnu, sigruðu m.a. Hauka í síðustu umferð á meðan gengi ÍBV hefur verið frekar dapurt það sem af er vetri. Inn á milli hefur liðið hins vegar sýnt ágætis leik og þegar það gerist er það illviðráðanlegt. Það var einmitt uppi á teningnum þetta skiptið enda fór það svo að ÍBV sigraði í leiknum með þremur mörkum, 28-25. ÍBV byrjaði leikinn mjög vel og náði strax undirtökunum. Þriggja marka forysta ÍBV var þó fljót að fara í súginn því gestirnir náðu sér ágætlega á strik undir lok fyrri hálfleiks og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12-14. En Eyjapeyjar voru mjög ákveðnir í seinni hálfleik og það tók liðið aðeins tæpar fimm mínútur að ná aftur forustunni og eftir það varð ekki aftur snúið. ÍBV hafði undirtökin það sem eftir lifði leiks og náði mest fimm marka forystu. Gestirnir náðu að laga stöðuna aðeins áður en yfir lauk og þriggja marka sigur ÍBV því staðreynd.

Óstöðvandi stelpur

Það hefur oft einkennt Eyjaliðin að þegar nær dregur seinni hluta keppnistímabilsins verða þau illviðráðanleg. Þannig tryggði kvennalið ÍBV sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrra þegar enginn átti von á að liðið kæmist úr átta liða úrslitum en annað kom á daginn og liðið tapaði aðeins einum leik í úrslitakeppninni. Sagan virðist vera að endurtaka sig núna því ÍBV hefur ekki tapað leik eftir áramót og tryggðu stelpurnar sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins með tveimur sigrum á Gróttu/KR.

Í fyrri leiknum, sem fór fram hér í Eyjum fór ÍBV hreint á kostum í fyrri hálfleik. Varnarleikur liðsins var sem ókleift bjarg og sem dæmi um það má nefna að Grótta/KR hafði aðeins skorað tvö mörk eftir rúmlega tuttugu mínútna leik. En það er oft erfitt að halda slíkri einbeitingu út heilan leik, sérstaklega þegar leikurinn var nánast unninn í hálfleik en staðan þá var 13-5. Gestirnir náðu aðeins að rétta sinn hlut í seinni hálfleik, minnkuðu m.a. muninn niður í fimm mörk en þá tóku Eyjastúlkur aftur við sér, náðu aftur átta marka forystu og tryggðu sér góðan sigur. Lokatölur urðu 27-19 en til gamans má geta að þegar liðin mættust í deildarkeppninni á dögunum urðu lokatölur 26-19.

Tveimur dögum síðar mættust liðin svo á Seltjarnarnesinu og ljóst að róðurinn yrði ÍBV ekki jafn auðveldur og í síðasta leik. Enda fór það svo að leikurinn var jafn og spennandi en ÍBV var þó alltaf skrefi á undan á upphafsmínútunum. Um miðjan fyrri hálfleik kom svo slæmur leikkafli sem leikmenn Gróttu/KR nýttu sér vel og komust þremur mörkum yfir, 14-11. En með mikilli baráttu tókst Eyjastúlkum að skora tvö síðustu mörk  hálfleiksins og minnka þar með muninn niður í eitt mark fyrir leikhlé.

ÍBV byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti, skoruðu fyrstu þrjú mörkin og leiddu framanaf með tveimur til þremur mörkum. ÍBV var svo fjórum mörkum yfir þegar rúmlega fjórar mínútur voru til leiksloka en þá hrökk allt í baklás og Grótta/KR jafnaði leikinn. En Tamara Mandichz hefur reynst gulls ígildi þegar á henni þarf að halda og tryggði hún ÍBV sigurinn með marki beint úr aukakasti þegar aðeins ein sekúnda var til leiksloka. Lokatölur leiksins urðu 24- 25 og er ÍBV því komið í undanúrslit Íslandsmótsins hvar liðið mætir Fram á heimavelli í fyrsta leik.

Komnar í úrslitaleikinn

Í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik kvenna tók ÍBV á móti Fram og fór fyrsti leikurinn fram í Eyjum. Leiknum hafði áður verið frestað frá deginum áður þar sem ekki gaf til flugs og því varð leikurinn að fara fram klukkan 18.00. Þrátt fyrir það mætti fjöldi manns í Höllina að styðja stelpurnar og sjá þær sigra Fram í hörkuspennandi leik. Lokatölur leiksins urðu 27-25 og því þarf ÍBV aðeins að sigra Fram einu sinni enn til að komast í úrslit Íslandsmótsins. Það fór þó á annan veg því Fram sigraði leik nr. 2 með 21 marki gegn 19.

Þriðji leikurinn fór fram í Eyjum og þar réðst það hvort liðið færi í úrslitin og léki þar við Haukastúlkur.  Eftir jafnar upphafsmínútur náði ÍBV undirtökum sem liðið lét aldrei af hendi í leiknum. Framarar náðu reyndar nokkrum sinnum að narta í hælana á liðinu en þegar á reyndi var ÍBV sterkara liðið og því réttilega komið í úrslit Íslandsmótsins. Lokatölur leiksins urðu 26-22 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 13-12.

Of langt til Eyja

Nú fer senn að líða að því að handboltavertíðinni fari að ljúka. Unglingaflokkur lék gegn Fram. Fyrir leikinn var Fram í efsta sæti deildarinnar á meðan ÍBV sat í því neðsta. Fyrri leikur liðanna fór fram  strax á eftir meistaraflokksleiknum en það kom ekki að sök því jafntefli varð í leiknum, 23-23. Seinni leikurinn fór svo fram daginn eftir og endaði hann með fjögurra marka sigri Framstúlkna, 17-21. Markahæstar í leikjunum tveimur voru þær Halla Björk 10, Aníta Eyþórs 10 og Margrét Lára 7.

Þriðji flokkur karla átti svo að leika gegn ÍR. Í Fréttum var sagt að eins og svo margir halda virðist leiðin frá Reykjavík til Eyja vera mun lengri en frá Eyjum til Reykjavíkur. ÍR-ingar sáu sér ekki fært að halda í slíka langferð, alla leið frá Breiðholti, niður á flugvöll og svo í flugvél alla leið til Eyja og því sigraði ÍBV í annað sinn í vetur á því að lið mæta ekki til leiks.

10. sætið varð hlutskipti ÍBV

Eyjamenn áttu fyrir næstsíðustu umferðina í Nissandeild karla, veika von um að komast í átta liða úrslit Íslandsmótsins með sigri á Gróttu/KR, en svo fór að tap varð þeirra hlutskipti, 20-28.

ÍBV tók á móti hinu stjörnum prýdda liði Hauka í síðasta leik sínum í vetur. Það var ljóst fyrir leikinn að hann var þýðingalítill fyrir bæði lið þar sem ÍBV átti ekki lengur möguleika á sæti í úrslitum og þriðja sæti var hlutskipti Hauka. Þrátt fyrir það var mikil barátta í leiknum sem var jafn og spennandi en Haukarnir tryggðu sér sigurinn á lokasprettinum, 23-25.

Konurnar ekki Íslandsmeistarar

ÍBV mætti Haukum í fyrsta leik í úrslitum Íslandsmótsins en eini leikur liðanna í vetur sem fór fram á heimavelli Hauka endaði með sextán marka stórsigri heimastúlkna, 28-12. Svo virðist sem fortíðardraugurinn hafi verið að hrella leikmenn ÍBV því Haukar kaffærðu hið geysisterka lið ÍBV og lokatölur leiksins urðu 30-16. Allt frá fyrstu mínútu var ljóst að á brattann yrði að sækja hjá IBV. Haukar hafa verið á góðri siglingu að undanförnu og lítur út fyrir að liðið sé að toppa á réttum tíma. ÍBV lenti fljótlega undir í leiknum og staðan í hálfleik var 15-11 fyrir Hauka. Eyjastúlkur byrjuðu svo seinni hálfleikinn afar illa, skoruðu aðeins eitt mark í rúmar tíu mínútur og staðan var allt í einu orðin 21-12 fyrir Hauka og eftirleikurinn auðveldur fyrir þær.

Í öðrum leik liðanna sem fram fór í  Eyjum sigruðu Haukastúlkur 23-19. Sigbjörn Óskarsson þjálfari ÍBV var samt ekkert á því að gefast upp. Í viðtali við Morgunblaðið sagði hann: „Staðan er tvö núll en þessi rimma er upp í þrjú þannig að þetta er ekki búið ennþá. Þetta verður virkilega erfitt fyrir okkur en við erum ekkert búnar að gefast upp ennþá, en að fara 2:0 undir í Hafnarfjörðinn á laugardag er ekki öfundsvert. Við spiluðum ágætlega í fyrri hálfleik en vorum svolítið óheppnar með stangarskot. Í síðari hálfleik kom upp einhver þreyta í stelpunum og þær sýndu ekki sitt rétta andlit. Ég er virkilega ósáttur við mitt lið hvað leikinn í kvöld varðar en það þýðir ekkert að hengja haus.“

Í þriðja leiknum sigruðu Haukastúlkur með  6 marka mun, 28-22. Það er ljóst að tapið er mikil vonbrigði fyrir Eyjamenn því liðið hefur leikið best allra liða eftir áramót og í raun sorglegt að liðið skuli lenda í lægð þegar mest á reynir. Þrátt fyrir það þá geta leikmenn og forráðamenn liðsins borið höfuðið hátt í lok leiktímabilsins, liðið er bæði bikarmeistari og meistari meistaranna og þrátt fyrir að hafa tapað einvíginu 3 - 0 þá eru ÍBV og Haukar án efa tvö bestu lið landsins.

Haukar með breiðari hóp

Andrea Atladóttir kom inn í hópinn hjá ÍBV á síðustu stundu og stóð sig mjög vel þrátt fyrir að hafa ekki spilað handbolta í tæpt ár. Andrea sagði að breiddin hjá Haukunum hafi haft mikið að segja í úrslitunum. „Þær eru með mjög breiðan hóp, þó að við séum með betra byrjunarlið en þær gátu dreift álaginu í bæði undanúrslitum og átta liða úrslitum og svo spiluðu þær einum leik færra en við í undanúrslitum. Við gátum leyft okkur að fara erfiðu leiðina með fámennan hóp í fyrra en Haukarnir eru með miklu betra lið en Grótta/KR var með þá enda hefur nánast annar hver leikmaður í kvennahandboltanum farið til þeirra. Það er mjög slæmt fyrir deildina ef eitt lið er með þær fáu íslensku stelpur sem hafa verið að spila hvað best í gegnum árin en við ætlum að sjálfsögðu að koma í veg fyrir að Haukar einoki næsta tímabil. Ég er ekki endilega að segja að ég ætli að spila með liðinu á næsta tímabili, það er einfaldlega of mikið að gera hjá mér til að koma handboltanum að en ef það væri hægt að hliðra eitthvað til þá er aldrei að vita hvað maður gerir.“

Fjármálakrísa hjá knattspyrnuráði

Á stjórnarfundi aðalstjórnar 11. apríl lá fyrir bréf frá þeim Friðriki Friðrikssyni og Ívari Atlasyni knattspyrnuráðsmönnum, þar sem þeir tilkynna um mjög slæma fjárhagsstöðu knattspyrnudeildar karla. Þeir óska eftir því að mynduð verði ný nefnd sem komi til með að starfa með þeim til þess að vinna í gömlum skuldum. Ákveðið að ræða við Ásmund Friðriksson formann ráðsins um að fá bankalán fyrir skuldunum með UFEA peninga sem deildin á inni, um 5 milljónir króna, sem tryggingu. Sú upphæð ásamt vallarstyrk sem Vestmannaeyjabær greiðir mánaðarlega, um 400 þúsund krónur, gangi einnig upp í það lán

Svavar og Vigdís best

20. apríl  var uppskeruhátíð handboltans hjá IBV sem fyrir löngu hefur unnið sér sess sem ein af helstu skemmtunum Eyjamanna á hverju ári. Hæst bar að sjálfsögðu árangur meistaraflokks kvenna sem lenti í 2. sæti í Íslandsmótinu, hampaði bikarmeistaratitlinum árið 2001 og varð meistari meistaranna.

Uppskeruhátíð handboltans, sem fram fór í Týsheimilinu, var eins og svo oft áður undir stjórn Jóhanns Péturssonar lögmanns. Jón Ingi og Steinunn á Prófastinum sáu um mat og drykk sem hvort tveggja rann ljúflega niður. Sjálf skemmtunin hófst með myndasýningu þar sem farið var yfir síðustu leiktíð með skírskotun í eldri afrek og afreksmenn í handboltanum í Vestmannaeyjum. Þarna fór Jóhann Pétursson á kostum. Á eftir fylgdu ræður Leifs Gunnarssonar, stjórnarmanns hjá ÍBV-héraðssambandi og Ingibjargar Ýr Jónsdóttur, leikmanns meistaraflokks. Ingibjörg Ýr, sem gekk í raðir ÍBV í haust, þakkaði fyrir tímabilið sem hún sagði sitt skemmtilegasta á ferlinum. Það væri ekki síst að þakka frábærum hópi leikmanna og að öll umgjörð var til fyrirmyndar. „Og móttökurnar þegar við komum til Eyja með bikarinn er eitthvað sem engin okkar kemur til með að gleyma," sagði Ingibjörg. Þá voru veittar viðurkenningar fyrir frammistöðu vetrarins. Vigdís Sigurðardóttir og Svavar Vignisson fengu viðurkenninguna sem bestu leikmenn ÍBV 2000-2001. Mestu markaskorarar voru Minduagas Andriuskas og Tamara Mandsic, besti varnarmaður kvennaliðsins var Amela Hadsic, mestu framfarir þóttu sýna Edda Eggertsdóttir og Sigurður Ari Stefánsson, sem einnig var efnilegastur í 2. flokki.

Fréttabikarana, sem veittir eru efnilegasta handboltafólki ársins, hlutu Sindri Ólafsson og Bjarný Þorvarðardóttir.

Báðir meistaraflokkarnir duttu út í deildarbikarnum

ÍBV lék í vikunni gegn Grindavík í átta liða úrslitum deildarbikars karla og fór leikurinn fram í Reykjaneshöllinni. ÍBV komst tveimur mörkum yfir með mörkum Alexander Ilic en Grindvíkingar neituðu að gefast upp og jöfnuðu leikinn stuttu fyrir leikslok þegar dæmd var á ÍBV vafasöm vítaspyrna, þannig að grípa varð til framlengingar. Í framlengingunni komust Grindvíkingar einu marki yfir en eins og svo oft áður var það fyrirliðinn sem virtist ætla koma sínum mönnum til bjargar þegar hann jafnaði leikinn í 3-3. Það dugði hins vegar skammt því Grindvíkingar áttu síðasta orðið, skoruðu sigurmarkið þegar lítið var eftir af framlengingunni og þar við sat. Þar með er ÍBV úr leik í deildarbikarnum og ljóst að liðið missir þar með af kærkomnum æfingaleikjum fyrir komandi átök í sumar.

Undanfarin ár hafa leikir ÍBV og Stjörnunnar í kvennaboltanum einkennst af því að Eyjastúlkur eru betri aðilinn en yfirleitt hefur Stjarnan unnið leikina. Sú varð einmitt raunin þegar liðin mættust í deildarbikarnum. ÍBV var mun betri aðilinn en fékk á sig tvö ódýr mörk og staðan í hálfleik var 2-0. ÍBV jafnaði leikinn en Stjarnan skoraði síðasta mark leiksins og sigraði því 3-2. Mörk ÍBV skoruðu þær Íris Sæmundsdóttir og Svetlana Balinskaya.

Óheppnar

4. flokkur kvenna í handknattleik náði þeim stórgóða árangri að komast alla leið í bikarúrslit í vetur. Úrslitaleikurinn var svo leikinn um síðustu helgi og var leikið gegn Stjörnunni. Allt gekk hins vegar stelpunum í mót í leiknum enda voru þær einstaklega óheppnar. Staðan í hálfleik var 4-7 en leikurinn endaði með þriggja marka sigri Stjörnunnar, 15-12.

Framhaldsaðalfundur, ný stjórn

Framhaldsaðalfundur ÍBV íþróttafélags fyrir árið 1999, var haldinn 10. maí. Jóhann Jónsson var kjörinn fundarstjóri og Stefanía Guðjónsdóttir fundarritari.

Ný stjórn var kosin, hana skipa: Þór Í . Vilhjálmsson formaður, Birgir Guðjónsson varaformaður, Stefanía Guðjónsdóttir ritari, Tryggvi Már Sæmundsson og Ómar Garðarsson. Til vara, Aðalsteinn Sigurjónsson og Björn Þorgrímsson.

Skoðunarmenn voru kjörnir Gísli Valtýsson og Kristján Eggertsson. Til vara Ingi Sigurðsson. 

Efniviðurinn spennandi

Njáll  Eiðsson var ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu sumarið 2001. Hann var í viðtali í Fréttum í upphafi tímabilsins. Í viðtalinu segir Njáll  að efniviðurinn í Eyjum sé mjög spennandi. „Mér líst mjög vel á efniviðinn. Þetta eru auðvitað mjög ungir strákar en við höfum nýtt þá mikið í vetur. Það sem við horfum aftur á móti upp á er gífurleg breyting á liðinu milli ára, ÍBV sér nú á eftir einum átta leikmönnum sem tóku þátt í mótinu í fyrra, þar af eru fimm til sex fastamenn. Við höfum líka verið dálítið óheppnir með meiðsli á undirbúningstímabilinu, Hjalti Jónsson er að stíga upp úr fótbroti, Gunnar Heiðar hefur nánast ekkert spilað með okkur undanfarnar vikur. Hjalti Jóhannesson og Ingi Sigurðsson hafa líka átt við meiðsli að stríða þannig að við höfum kannski aldrei getað stillt upp okkar sterkasta liði í þessum leikjum okkar í vetur. Svo eigum við enn eftir að fá leikmenn til liðs við hópinn en auðvitað er efniviðurinn fyrir hendi hér í Eyjum. Það þarf bara tíma til að vinna með þá, það er nefnilega eitt að vera efnilegur og annað að vera góður. Þessir strákar hafa staðið sig mjög vel og þeir hafa verið að bæta sig milli leikja en þeim var kannski hent óvænt út í djúpu laugina núna í vetur enda eru þeir að spila sína fyrstu meistaraflokksleiki. Þeir virðast hins vegar ráða ágætlega við pressuna þó það reyni kannski ekki á þá fyrir alvöru fyrr en í sumar."

Aðalfundur fyrir árið 2000

Aðalfundurinn var haldinn 10. maí. Formenn handknattleiksráða karla og kvenna og knattspyrnuráða karla og kvenna fluttu skýrslur sínar. Samkvæmt þeim hafði starfið í þeim gengið vel. Helst var að fjárhagsstaða knattspyrnudeildar karla var þeim fjötur um fót. Í fyrirspurn til Ásmundar Friðrikssonar formanns deildarinnar um hvers vegna staða deildarinnar væri svona slæm, sagði Ásmundur að tekjur sem deildin vann sér inn árið 1998 en fengið 1999 voru allar færðar árið 1999. Menn töldu sig eiga um 15 milljónir króna en þeim hafði þá verið eytt árinu áður. Inga Sigurðssyni fannst undarlegt hvernig staða deildarinnar var og vildi meina að tekjurnar sem hafi lækkað mikið, eigi að geta verið mun meiri. Deildin  hafi náð góðri festu í tekjum og það sé synd hvernig búið sé að glata þeirri stöðu. Þá var upplýst að Þorsteinn  Gunnarsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar hefði sagt upp störfum.

Stefán Jónasson lýsti undrun sinni á að 5 ára gamalt félag, sem hefur landað mörgum góðum titlum skuli þurfa að sýna taptölur. Þá spurðu Stefán um launakostnað Þjóðhátíðarnefndar. Stefán Agnarsson, nefndarmaður sagði nefndina fá styrk vegna vinnutaps sem væri um 665 þúsund krónur í heildina, fyrir utan að ráðinn var launaður framkvæmdastjóri.

Ný stjórn var kosin, hana skipa; Þór Í Vilhjálmsson formaður, Óskar Freyr Brynjarsson, varaformaður; Stefanía Guðjónsdóttir ritari; Tryggvi Már Sæmundsson og Egill Arngrímsson. Til vara þeir Erlingur  Richardsson og Huginn Helgason. Skoðunarmenn voru kjörnir Kristján Eggertsson og Gísli Valtýsson og til vara Ingi  Sigurðsson.

Lokahóf HSÍ – Vigdís og  Sigbjörn

Lokahóf handknattleiksmanna fór fram á Broadway í byrjun maí og var mikið um dýrðir eins og vanalega. Eins og ávallt ber hæst þegar tilkynnt er um val á leikmönnum ársins sem leikmenn sjálfir kjósa. Það kom líklega fáum á óvart að fyrirliði kvennaliðs ÍBV, Vigdís Sigurðardóttir var valin leikmaður ársins í kvennaboltanum enda hefur hún farið fyrir liði sínu sem náði besta árangri sínum frá upphafi í vetur. Einnig var kraftaverkamaðurinn, Sigbjörn Óskarsson, valinn þjálfari ársins í kvennaboltanum enda ekki á hverra færi að púsla saman meistaraliði ár eftir ár. „Ég átti ekkert frekar von á að vera valinn besti þjálfarinn en ég hlaut auðvitað að koma til greina," sagði Sigbjörn um það að hafa verið valinn besti þjálfari kvennahandboltans í vetur.

Sibbi og Erlingur

Á vordögum var  tilkynnt að Sigbjörn Óskarsson yrði næsti þjálfari karlaliðs ÍBV í  handbolta og Erlingur Richardsson tæki við kvennaliðinu.

1-0 tap gegn Breiðabliki

Eyjamenn hafa síðustu ár aldrei riðið feitum hesti frá viðureignum sínum gegn Breiðabliki þegar leikið er í Kópavoginum og engin breyting varð þar á þegar liðin mættust í fyrstu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Leikurinn þótti tilþrifalítill og mikill vorbragur var á leik liðanna og hefði sigurinn getað lent hvoru megin sem var. Heimamenn sigruðu í leiknum með einu marki gegn engu og sat ÍBV því í næstneðsta sæti deildarinnar eftir fyrstu umferð en það var huggun harmi gegn að neðstir sátu KRingar.  

10 Eyjapeyjar í byrjunarliðinu

Eyjamenn tóku á móti frískum FH-ingum í sínum fyrsta heimaleik í ár. Síðustu ár hefur ÍBV verið ósigrandi á heimavelli, ef frá er talinn síðasti heimaleikur síðasta árs, og engin breyting varð þar á. Jafntefli, 0-0 varð niðurstaðan eftir frekar kaflaskiptan leik þar sem ÍBV var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik en gestirnir voru frískari í þeim síðari. Það er í frásögur færandi að í þessum leik voru tíu leikmenn í byrjunarliði ÍBV sem eru uppaldir hjá félaginu. Eru ár og dagar síðan það hefur gerst.          

Það leynist hins vegar engum að nú er uppbyggingartímabil í karlaboltanum og ánægjulegt að

sjá að fjórtán af sextán leikmönnum ÍBV voru Eyjapeyjar í húð og hár en Njáll Eiðsson er óhræddur við að láta ungu strákana axla ábyrgðina strax og þannig öðlast þeir dýrmæta reynslu.

Markaregn í austan  roki

Kvennalið ÍBV lék  sinn fyrsta heimaleik í endaðan maí og var leikið gegn FH í fyrstu umferð Símadeildarinnar. Nokkrar breytingar hafa orðið á hópi ÍBV frá því síðasta sumar, nú eru hjá liðinu þrír skoskir landsliðsmenn í stað þeirra ensku sem voru í fyrrasumar og virðast þær skosku falla nokkuð vel að leikstíl liðsins. Eyjastúlkur voru mun betri í leiknum sem endaði með átta marka sigri, 9 -1 og hefði getað verið enn stærri. 

Jafntefli gegn Val

Í öðrum leik ÍBV stúlkna í Íslandsmótinu léku þær gegn Val og fór leikurinn fram að Hlíðarenda. Valsliðið er af mörgum talið vera með hvað mestu breiddina í leikmannahópnum sem þykir einnig mjög sterkur og hefur liðinu verið spáð einu af efstu sætum deildarinnar. Eyjastúlkur sýndu þeim hins vegar litla virðingu og niðurstaðan varð því 2-2 jafntefli. 

3. flokkur byrjar vel

3. flokkur kvenna lék sinn fyrsta leik í sumar þegar liðið tók á móti Stjörnunni í Íslandsmótinu. 3. flokkur ÍBV hefur á að skipa mörgum mjög góðum knattspyrnumönnum framtíðarinnar og eru væntingar til flokksins nokkrar. Leikurinn gegn Stjörnunni var jafn og spennandi. Gestirnir komust yfir í upphafi leiks en með mikilli baráttu náðu stelpumar að snúa leiknum sér í hag og sigruðu með tveimur mörkum gegn einu eftir að hafa skorað sigurmarkið örfáum sekúndum áður en leikurinn var úti.

Sigur á Fram og Bjarni Geir fótbrotinn

Karlalið ÍBV sótti Fram heim í 3ju umferð Símadeildarinnar og fór leikurinn fram á Valbjarnarvellinum sem er vægast sagt í slöku ásigkomulagi eins og reyndar flestir knattspyrnuvellir fastalandsins. Vallarskilyrðin settu svip sinn á leikinn en þrátt fyrir það brá fyrir ágætis leikfléttum hjá Eyjamönnum. Framarar voru mun frískari í fyrri hálfleik en Eyjamenn tóku sig saman í andlitinu í þeim síðari. Tómas Ingi Tómasson skoraði í sínum fyrsta leik með ÍBV í sumar eftir glæsilegt samspil hans, Bjarnólfs og Alexander Ilic og er það ennfremur fyrsta mark sumarsins hjá ÍBV og nægði til sigurs.

Bjarni Geir Viðarsson, leikmaður ÍBV, meiddist illa á ökkla í upphafi síðari hálfleiksins. Hann lenti illa eftir viðskipti við leikmann og lá óvígur eftir í vellinum. Hann var fluttur sárþjáður í sjúkrabíl á slysadeild og við skoðun hjá lækni þar kom í ljós sprunga í beini í ökklanum. Þetta þýðir að Bjarni Geir verður frá knattspyrnuiðkun í allt að sex til átta vikur.  

Yngri flokkarnir

2.  flokkur karla lék tvo fyrstu leiki sína í A-deild Íslandsmótsins. Mótherjarnir í fyrsta leik voru Víkingar úr Reykjavík og áttu flestir von á örggum sigri Eyjapeyja. En annað kom á daginn, Víkingar spiluðu skynsamlega á meðan leikmenn ÍBV náðu sér ekki á strik og svo fór að eina mark leiksins skoruðu gestirnir og fóru því með stigin þrjú í farteskinu.

Seinni leikurinn var svo gegn FH  og var leikið í Hafnarfirði. Byrjunin lofaði ekki góðu í leiknum og í hálfleik var staðan 1-0 fyrir heimamenn. En Eyjapeyjar náðu að hrista sig í gang í seinni hálfleik og Gunnar Heiðar, markakóngur Íslandsmótsins í fyrra, skoraði tvö mörk og tryggði ÍBV sinn fyrsta sigur í sumar og FH-ingar töpuðu jafnframt sínum fyrsta.

3. flokkur karla lék einnig sinn fyrsta leik en þá tók liðið á móti Gróttu. Flokkurinn féll um deild í fyrra og í ár leikur liðið í B-deild. Strákarnir gerðu sér lítið fyrir og tóku Seltirninga í kennslustund, sigruðu með ellefu marka mun, 13-2 en þetta mun vera fyrsti heimasigur þriðja flokks í Íslandsmótinu í tvö ár. Liðið lék svo gegn Þrótti Reykjavík og fór leikurinn fram í höfuðborginni. Lokatölur leiksins urðu 2 - 0 fyrir heimamenn. Þá lék liðið gegn Fylki og fór sá leikur einnig fram í Reykjavík. Fylkismenn nýttu heimavöllinn sér til fullnustu og unnu leikinn með fjórum mörkum gegn engu.

Fóru illa að ráði sínu

Litið var á annan heimaleik kvennaliðs ÍBV, þegar stelpurnar fengu Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks í heimsókn, sem prófstein á getu liðsins fyrir sumarið. Bæði lið tefla fram nokkuð breyttum liðum í ár en hafa samt sem áður haldið áþekkum styrkleika. Leikir liðanna hafa undanfarin ár verið jafnir og spennandi enda varð engin breyting þar á í þetta skiptið. Blikagrýlan er hins vegar enn á lífi enda sigruðu gestirnir með þremur mörkum gegn tveimur mörkum ÍBV.

Heimir Hallgrímsson þjálfari liðsins sagði í viðtali við Fréttir eftir leikinn að það virtist ekki henta liðinu að komast yfir í leikjum „Við fórum einfaldlega illa að ráði okkar. Við vorum mun betri í byrjun, allt þangað til við skoruðum fyrra markið. Þá var eins og við þyrðum ekki að sækja lengur. Við lentum í sendingavandræðum og vorum í bullandi vandræðum mestan hluta seinni hálfleiks. Það er eins og ÍBV geti hreinlega ekki verið yfir í leikjum. Við virðumst alltaf þurfa að vinna upp eitthvað til að spila vel. Svo var þetta dýr mínúta þegar Breiðablik skoraði tvö mörk. En við verðum bara að líta í eigin barm eftir þetta enda spiluðum við illa í dag."  

Skeljungur styrkir ÍBV

Í byrjun júní efndi Skeljungur til samsætis á Hertoganum matsölustað þar sem viðskiptavinum félagsins var boðið að þiggja veitingar. Við það tækifæri var bikarmeisturum ÍBV í handknattleik kvenna afhent viðurkenning frá Skeljungi, sem var aðalstyrktaraðili liðsins á síðasta ári. Kom það í hlut Ingibjargar Jónsdóttur og Hlyns Sigmarssonar að taka við 500 þúsund krónum úr hendi fulltrúa Skeljungs. Við sama tækifæri var skrifað undir samstarfssamning milli Skeljungs og  ÍBV-íþróttafélags, til þriggja ára vegna Shellmótsins sem Skeljungur hefur styrkt til margra ára.

Sætur  sigur á Íslandsmeisturum

ÍBV tók á móti Íslandsmeisturum KR  og var sannkölluð hátíðarstemmning á Hásteinsvellinum, enda sjómannadagshelgi og fjölmennt á leiknum. Stuðningurinn skilaði sér heldur betur inn á völlinn enda vann ÍBV leikinn með einu marki gegn engu sem gerði helgina enn skemmtilegri en ella. Þrátt fyrir að ÍBV væri á heimavelli voru það KR-ingar sem voru meira með boltann og sóttu nánast látlaust allan leikinn. Eyjamenn vörðust hins vegar vel, Hlynur og Kjartan voru sem klettar í hjarta varnarinnar og Birkir greip vel inn í þegar á þurfti. Oft á tíðum voru varnarmenn ÍBV hins vegar orðnir tíu og þegar boltinn vannst aftarlega á vellinum vantaði einhvern til að senda á framar á vellinum. Það varð til þess að KR fékk boltann nánast alltaf á sínum vallarhelmingi og hóf sókn á nýjan leik. En vörnin var þétt og í hálfleik var staðan jöfn, 0-0.

Njáll Eiðsson sagði í lok leiksins að hann hefði ekki haft áhyggjur af KR-ingum. „Ég reyni að einbeita mér að mínu liði þegar það er að spila, þannig að ég hef lítið um KR liðið að segja.  Við gerðum það sem við þurftum og unnum, það er það sem gildir í fótbolta. Auðvitað getum við spilað miklu betur en við gerðum í þessum leik en við unnum, þannig að er ekki óhætt að segja að við höfum verið betra liðið? Við urðum að vinna þennan leik til að missa toppliðin ekki of langt frá okkur. Það er margt í okkar leik sem við verðum að lagfæra, við vitum það sjálfir en það er líka margt jákvætt hjá okkur. Við fáum ekki á okkur mörg mörk og í dag skoruðum við eitt þannig að á meðan það gengur eftir þá er þetta í lagi. En við viljum auðvitað sjá léttari sóknarleik þar sem boltinn fær að flæða betur í gegnum liðið."

Misjafnt gengi hjá 2. flokki

2. flokkur karla hefur nú leikið þrjá leiki í A-deiId Íslandsmótsins og hefur valdið nokkrum vonbrigðum. Einn sigur, eitt jafntefli og eitt tap er uppskeran en sigurleikurinn kom á útivelli. Reyndar er mikið álag á lykilmenn liðsins sem eru að æfa með meistaraflokki og spila með meistaraflokki og gæti skýrt gengið. En mikið býr í liðinu og ljóst að Sigurlás Þorleifsson er rétti maðurinn til að stýra liðinu á rétta braut. Um helgina lék liðið gegn Fram á heimavelli og eftir að hafa komist yfir á upphafsmínútunum, jöfnuðu gestirnir gegn gangi leiksins. Þrátt fyrir ágætis tilraunir tókst ÍBV ekki að skora og því situr liðið í fimmta sæti í átta liða deild með fjögur stig. Mark ÍBV skoraði Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

Annar flokkur kvenna gerði góða ferð á höfuðborgarsvæðið þegar hann mætti Breiðabliki en eins og undanfarin ár munu þessi tvö lið líklega verða í toppbaráttunni. Eyjastúlkur gerðu sér hins vegar lítið fyrir og sigruðu Blikana 2-4, en staðan í hálfleik var 0-3.  Mörk ÍBV í leiknum skoruðu Margrét Lára 2 og Elva Dögg og Erna Dögg sitt markið hvor.

Daginn eftir mætti liðið svo FH í Hafnarfirði og urðu heimasætur lítil fyrirstaða Eyjastúlkna. ÍBV tók FH í kennslustund í knattspyrnu og sigraði með fimm mörkum gegn engu. Mörk ÍBV í leiknum skoruðu Margrét Lára 2, Sara 2 og Elva Ásdís.

4.  og 5. flokkur karla tók þátt í Reebook-mótinu um helgina en það fór fram í Mosfellsbæ. A-, B- og D-lið 5. flokks varð í öðru sæti en C-Iiðið vann sinn riðil.

4. flokkur endaði einnig í öðru sæti.

Þá tók 6. flokkur ÍBV þátt í Lego-mótinu sem fór fram í Hafnarfirði. Gengi flokksins var misjafnt, A-liðið endaði í neðsta sæti en B-, C-, og D-liðin enduðu í öðru sæti. Þjálfari flokkanna þriggja er Jón Ólafur Daníelsson. 

Sigur á Grindavík og Ásthildur til liðs við ÍBV

ÍBV tók á móti efsta liði Símadeildar kvenna, Grindavík,  ÍBV var fyrir leikinn í fimmta sæti. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að leikmenn ÍBV þyrsti í sigur eftir frekar slakan leik gegn Breiðabliki í síðustu umferð en þá tapaði liðið fyrir þeim á heimavelli. ÍBV réði leiknum frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og 7-1 sigur síst of stór.

Ásthildur Helgadóttir, landsliðskona hefur gengið til liðs við ÍBV, en hún hafði ekki fengið leikheimild í leiknum gegn Grindavík. Samningur Ásthildar við ÍBV gildir út tímabilið.

Vilja setja upp skilti

ÍBV íþróttafélag sendi skipulags- og bygginganefnd beiðni um að koma fyrir nokkrum auglýsinga- og tilkynningaskiltum. Einu þeirra verði komið fyrir vinstra megin vegar þegar ekið er í bæinn frá Flugstöðinni. Hinum verði komið fyrir við fánaborg Íþróttamiðstöðvar, á horni Illugagötu og Hlíðarvegar, á horni Strandvegar og Heiðarvegar. Á horni Heiðarvegar og Kirkjuvegar og á horni Skólavegar og Vesturvegar. Skipulags- og bygginganefnd frestaði að afgreiða erindið.

Yngri flokkarnir á fullri ferð

Knattspyrnuvertíðin í yngri flokkunum er á fullri ferð  og næstu tvær helgar verða tvö stærstu knattspyrnumót landsins, Vöruvalsmótið og Shellmótið haldin hér í Eyjum. En flestir flokkar ÍBV hafa hafið leik í Íslandsmótinu og gengi þeirra er misjafnt eins og gefur að skilja.

3. flokkur karla spilar í B-deild þar sem flokkurinn féll síðasta sumar úr A-deild eftir hetjulega baráttu. Strákarnir byrjuðu tímabilið vel, sigruðu Gróttu 11-2 en töpuðu svo tveimur leikjum í röð og voru því í neðri hluta deildarinnar fyrir leikinn.

3. flokkur kvenna þykir vera mjög efnilegur í ár en áframhaldandi velgengni í yngri flokkum kvennaboltans virðist engan endi ætla að taka. Liðið spilaði tvo leiki um helgina, fyrst gegn Breiðabliki og svo gegn Val en leikirnir fóru báðir fram uppi á landi. Leikurinn gegn Breiðabliki byrjaði vel, stelpurnar komust í 1-2 en þá fuku tveir leikmenn ÍBV út af með rautt spjald og eftirleikurinn því auðveldari fyrir heimastúlkur. Leikurinn endaði með tveggja marka sigri Breiðabliks, 5-3. Mörk ÍBV skoraði Margrét Lára. Seinni leikurinn fór svo fram á laugardaginn og var leikið gegn Val. Þrátt fyrir hálfvængbrotið lið ÍBV þá léku stelpurnar mjög vel gegn sterku liði Vals og sigruðu 2-1. Mörk ÍBV skoruðu Margrét Lára og Ester.

4.  flokkur karla lék gegn Fjölni en leikurinn fór fram í austan roki og rigningu og voru strákarnir ekki öfundsverðir að spila í þessu veðri. Leikurinn var jafn og spennandi, ÍBV komst yfir en Fjölnismenn jöfnuðu úr víti. Jafnt var allt þar til um fimm mínútur voru til leiksloka að gestirnir tryggðu sér sigurinn með heppnismarki. Mark ÍBV skoraði Birkir.

4.  flokkur kvenna lék tvo leiki á fastalandinu um helgina. Fyrst var leikið gegn FH og spiluðu bæði A- og B-lið. A-liðið sigraði 2-0 með mörkum Heklu og Esterar en B-liðið tapaði 5-3. Mörk B-liðsins skoruðu Svava (2) og Olga. Seinni leikurinn var svo gegn Skagastúlkum en þá spilaði aðeins A-liðið. ÍBV sigraði eftir hörkuleik, 0-1 og skoraði Tanja sigurmarkið.

Sendur heim

Á heimasíðu ÍBV var sagt frá því að Dejan Djokic, júgóslavneski framherjinn verði sendur heim á næstu dögum Djokic var lengi á leiðinni til ÍBV en forráðamenn ÍBV höfðu varann á og réðu hann til reynslu um tíma. Nú hefur leikmaðurinn fengið á þriðju viku til að sanna sig en það hefur ekki tekist hjá honum og því verður hann sendur heim. Segir á heimasíðunni að leitað hafi verið til leikmannsins þegar ÍBV átti í hvað mestum framherjavandræðum en með tilkomu Tómasar Inga Tómassonar hafi skarðið verið fyllt og því ástæðulaust að bæta enn einum kostnaðarliðnum í bókhaldið.

Ásthildur stimplar sig inn

ÍBV sótti Stjörnuna heim um miðjan júní en undanfarin ár hafa ekki gefið Eyjaliðinu mikið í aðra hönd þegar Stjarnan er annars vegar. ÍBV liðið er hins vegar sterkara í ár en nokkru sinni fyrr og ekki síst með  tilkomu landsliðsfyrirliðans, Ásthildar Helgadóttur sem spilaði þarna sinn fyrsta leik með liðinu. Ásthildur átti eftir að stimpla sig inn í leiknum því hún skoraði eina mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks og tryggði ÍBV þar með dýrmætan sigur í toppbaráttunni. Er þetta fyrsti sigur Eyjastúlkna á Stjörnunni frá 1998.

Öruggt

Meistaraflokkur ÍBV lék gegn ungmennaliði Víkings  í 32ja liða úrslitum bikarkeppninnar og fór leikurinn fram á gamla heimavelli Njáls Eiðssonar, ÍR-vellinum. Njáll kann greinilega vel við sig á vellinum því ÍBV sigraði í leiknum 1-2 en úrslitin gefa kannski ekki rétta mynd af gangi leiksins. Njáll tók engan séns og stillti upp sínu sterkasta liði. Reyndar var Ingi Sigurðsson hvíldur en hann er að ná sér af meiðslum sem hann varð fyrir í KR-leiknum. Ungmennaliðin þykja ávallt nokkuð erfið viðureignar enda eru þau skipuð ungum og efnilegum knattspyrnumönnum sem eru gjarnan að sanna sig. Páll Almarsson kom ÍBV yfir á 15. mínútu og Atli Jóhannsson bætti öðru marki við eftir rúmlega hálftíma leik.

ÍBV sótti töluvert meira í leiknum og hafði ávallt undirtökin en þegar skammt var til leiksloka minnkuðu Víkingar muninn í 2-1 en lengra komust þeir ekki og því er ÍBV komið áfram í 16-liða úrslit.

Páll Hjarðar sagði í samtali við Fréttir að tölurnar gefi ekki rétta mynd af leiknum. „Mér fannst þetta vera öruggt hjá okkur allan tímann. Við vorum miklu meira með boltann og sóttum nánast stanslaust. Ég held að þeir hafi ekki einu sinni fengið horn í leiknum. Það var ánægjulegt að ná að setja eitt en þrátt fyrir að hafa verið bakvörður var ég skæðasti sóknarmaður liðsins. Ég átti m.a. að fá víti en maður líður oft fyrir það að vera stór og sterkur enda trúa menn því oft ekki að það sé hægt að fella mann." sagði Páll og hló við.

12. Pæjumótið/Vöruvalsmótið

Þriðju helgina í júní  fór fram í Eyjum hið árlega pæjumót sem síðustu ár hefur verið kallað Vöruvalsmót. Þetta mun hafa verið í tólfta sinn sem mótið fer fram og eftir sífellt fækkandi þátttakendum undanfarin ár, bregður nú svo við að stelpunum fjölgaði frá því í fyrra og er það líklega einna mest að þakka breyttum áherslum í dagskrá félaganna.

Mótið heppnaðist í alla staði mjög vel, Eyjastelpurnar stóðu svo sannarlega fyrir sínu og sluppu keppendur núna við jarðhræringar sem settu mark sitt á mótið í fyrra. Gísli Guðmundsson og Magnús Sigurðsson sáu að mestu um skipulagningu mótsins en þeir sáu sér leik á borði og breyttu dagskrá liðanna. Í stað þess að senda öll lið í sömu dagskrána, ár eftir ár var ákveðið að hver flokkur fyrir sig fengi ákveðinn dagskrárlið þannig að stelpurnar sem ganga upp um flokk kynnist einhverju nýju þegar þær koma að ári. Þannig fór sjötti flokkur í svokallaða ævintýraferð þar sem m.a. var boðið upp á stuttan útreiðartúr, fimmti flokkur fór í golfkennslu og sá fjórði fór í bátsferðina sígildu.

Veðrið hefur ávallt haft mikið að segja um hvernig til tekst og í ár var ágætis veður á meðan mótinu stóð þrátt fyrir slæma spá dagana fyrir það. Önnur nýbreytni var sú að öll liðin borðuðu í Höllinni hjá þeim Sigmari og Grími og var salurinn eins og hannaður fyrir mótið. Á sunnudeginum borðuðu stelpurnar svo í Höllinni og strax að matnum loknum fór fram verðlaunaafhending með öllu tilheyrandi.

Árangur ÍBV liðanna var með ágætum. ÍBV liðin fengu eitt silfur og eitt brons. A-liðin í 5. og 6. flokki fengu svo gull.

Misjafnt gengi á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 20. júní mætti ÍBV Grindvíkingum á hinum nýja og glæsilega heimavelli þeirra í Grindavík. ÍBV hefur aldrei gengið vel gegn Grindavík á þeirra heimavelli og virðist enn ætla að verða bið á því að sú grýla leggi upp laupana. Með sigri hefði ÍBV komist á meðal efstu liða en þrátt fyrir ágætis byrjun þá voru það heimamenn sem unnu leikinn með þremur mörkum gegn einu.

ÍBV tók á móti Keflavík 24. júní en undanfarin ár hafa leikir liðanna á Hásteinsvelli iðulega verið miklir markaleikir þar sem ÍBV hefur séð um að skora mörkin. Í ár hefur Eyjamönnum hins vegar gengið illa að skora mörk, reyndar ekkert afleitlega en liðinu hefur tekist að skora fjórum sinnum, jafnoft og KR-ingar og Valsmenn en bæði lið hafa fengið einu mikið meira á sig. En fjögur mörk í sex leikjum er eitthvað sem stuðningsmenn IBV eru ekki vanir eftir velgengni undanfarinna ára. Tómas Ingi skoraði sigurmarkið stuttu fyrir leikhlé og tryggði ÍBV mikilvægan 1-0 sigur.

Misjafnt gengi yngri flokkanna

2. flokkur karla lék gegn Keflavík og fór leikurinn fram hér í Eyjum. Liðið náði ekki að sýna sitt rétta andlit í leiknum og tapaði 0-2 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 0-1. ÍBV situr því í fimmta sæti með sjö stig eftir fimm leiki en deildin er jöfn og aðeins fjögur stig í annað sætið. 3. flokkur karla lék gegn nágrönnum sínum frá Selfossi og fór leikurinn fram þar. Þrátt fyrir að leika á útivelli voru strákarnir hvergi bangnir og unnu í miklum markaleik 3-5. Staðan í hálfleik var 2-4, Selfyssingar minnkuðu muninn í eitt mark en Eyjapeyjar tryggðu sér sigurinn með marki á lokamínútunum. Mörk ÍBV skoruðu þeir Andri Ólafs, Andri Eyvinds, Björgvin og Ágúst.

3. flokkur kvenna lék gegn Fjölni  en Fjölnisstúlkur eru rísandi veldi í kvennaknattspyrnunni. Þrátt fyrir það eiga þær enn langt í land með að ná ÍBV enda sigruðu ÍBV-stelpur.

4. flokkur karla lék tvo leiki um helgina og fóru báðir leikirnir fram á fastalandinu. Fyrst var leikið gegn Njarðvík og gerðu strákarnir sér lítið fyrir og sigruðu 1-2. Mörk ÍBV skoraði Einar Kristinn. Seinni leikurinn var svo gegn Selfossi en aðeins eitt mark var skorað í þeim leik. Birkir Ágústsson skoraði það og tryggði ÍBV þar með sigurinn.

5. flokkur karla lék gegn Val en í þetta sinn var aðeins keppt í A- og B-liðum. Bæði liðin töpuðu sínum leikjum, A-liðið tapaði 5-7 en B-liðið 0-5. Mörk A-liðsins skoruðu þeir Þórarinn (2), Gauti (2) og Hafsteinn.

Loksins

ÍBV tók á móti KR í toppslag Símadeildar kvenna um  mánaðamótin júní/júlí en fyrir leikinn hafði ÍBV aldrei náð að leggja vesturbæjarveldið af velli. Voru stuðningsmenn orðnir langeygir eftir að jarða KR-grýluna. ÍBV-liðið er gríðarlega sterkt í sumar og ekki skemmir fyrir að leikmenn virðast ná mjög vel saman inni á vellinum, sem er nokkuð sem hefur kannski vantað í gegnum árin. ÍBV vann leikinn nokkuð örugglega 3 - 1 og kom sér því fyrir í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Breiðabliki.

14 milljón króna lán

Rætt var um greiðslutilhögun á láni sem aðalstjórn tók á fundi hennar 3. júlí. Láninu er ætlað að greiða niður skuldir knattspyrnudeildar. Mun Íslandsbanki taka hluta af innkomu á Þjóðhátíð til tryggingar á láninu en einnig hluta af rekstrarstyrk Vestmannaeyjabæjar til félagsins. Lánið er til  8 ára og hljóðar uppá 14 milljónir. Þá var samþykkt að ef knattspyrnudeildin fái óvæntar tekjur af sölu leikmanna þá muni hluti af þeirri upphæð renna uppí lánið, einnig ef liðið kemst í Evrópukeppni.

SS styrkir ÍBV

Á stjórnarfundi aðalstjórnar 3. júlí var kynntur samningur SS-kjötvinnslu við ÍBV íþróttafélag. Mun SS styrkja félagið um 600 þúsund krónur. Skiptist greiðslan þannig, að knattspyrnudeild karla fær 200 þúsund, knattspyrnudeild kvenna 50 þúsund, handknattleiksdeild karla 200 þúsund og handknattleiksdeild kvenna 150 þúsund.

Glæsilegt Shellmót

Árlegt Shellmót fór fram síðustu helgina í  júní.  Mótið, sem er það átjánda í röðinni, var vel heppnað í alla staði. Veðrið reyndi þó að gera mönnum erfitt fyrir en reynslan er slík að fátt getur komið mönnum úr jafnvægi. Mótshaldið fór t.d. ekki mikið úr skorðum þrátt fyrir að ekki gaf til flugs miðvikudag og fimmtudag og síðustu liðin komu ekki fyrr en með Herjólfi á fimmtudeginum. Alls voru þátttakendur á mótinu um 1150 að meðtöldum þjálfurum og forráðamönnum liðanna en óhætt er að áætla að 2000 til 2500 manns hafi heimsótt Eyjarnar um helgina í tengslum við mótið. Annars var ekki hægt að kvarta undan veðrinu og strákarnir fengu ekta knattspyrnuveður, þurrt, logn og hitastigið mátulegt en á sunnudeginum fór lognið þó heldur hratt yfir.

Mótinu var svo slitið á lokahófi í íþróttahöllinni á sunnudagskvöldið þar sem hin ýmsu verðlaun voru afhent og ekki annað að sjá en að þreyttir en ánægðir strákar hafi yfirgefið mótsstað með bros á vör.

Annað árið í röð varð að fresta setningu mótsins frá miðvikudegi fram á fimmtudagskvöld en setningin var glæsileg að vanda og flugeldasýningin gladdi bæði augu og eyru peyjanna. Skrúðgangan var lengri en nokkru sinni fyrr og gaman að sjá hversu prúðir strákarnir voru. Leikirnir hófust svo á réttum tíma á fimmtudaginn og mótið gekk eins og vel smurð vél. Ekki var að heyra annað en að vel hafi farið um mótsgesti í skólum bæjarins sem ekki nægðu og kom það í hlut Fylkismanna að gista í Félagsheimilinu. Þór Akureyri sigraði í úrslitaleik A-liða 1-0 en þar mætti liðið ÍA. Leikur liðanna var bráðfjörugur þrátt fyrir erfið skilyrði í austan strekkingi. Að vanda voru fjölmargir áhorfendur á leiknum.

Eyjaliðin stóðu sig þokkalega, A-liðið tapaði aðeins tveimur leikjum en endaði þrátt fyrir það í nítjánda sæti. B-liðið endaði í fjórtánda sæti en bestum árangri náði C-liðið sem spilaði um þriðja sætið en tapaði þar fyrir sterku liði Fylkismanna. D-liðið komst í átta liða úrslit en endaði mótið í 7. til 8. sæti og E-liðið endaði í 11. til 12. sæti en C-, D- og E-liðin eru að mestu skipuð strákum á yngra ári 6. flokks.

 Komnar í efsta sætið

ÍBV lék  gegn sameiginlegu liði Þórs/KA/KS og fór leikurinn fram fyrir norðan. ÍBV átti möguleika á að komast í efsta sæti deildarinnar en það hefur í gegnum tíðina ekki verið á hverjum degi sem slíkt gerist. En ætlunarverkið tókst fullkomlega, ÍBV sigraði í leiknum 0-6 og sat því í efsta sætinu fram yfir helgi.

Njáll kátur

Í 8. umferð Símadeildarinnar mætti karlalið ÍBV liði Vals. Var leikið á Hásteinsvelli í austan roki. Þrátt fyrir það var leikurinn ágætlega leikinn af báðum liðum. Innkoma þeirra Stokemanna, Marc Goodfeliow og Lewis Neal í ÍBV liðið virkaði sem vítamínsprauta. ÍBV sigraði 2-0 en leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Í hálfleik var staðan 0-0. Mörk ÍBV skoruðu Lewis Neal og Gunnar Heiðar.

Njáll Eiðsson, þjálfari ÍBV, var kátur í leikslok enda sætt að sigra sína gömlu félaga. „Það er gleðiefni að fá tvö mörk en ég er að sjálfsögðu fyrst og fremst ánægður með sigurinn. Það er alltaf erfitt að rífa sig upp eftir stórt tap en ég held að þetta hafi verið sanngjarn sigur.“

Erlendir leikmenn eða Eyjamenn

Nokkur umræða var í bænum um kaup knattspyrnudeildar á erlendum leikmönnum. Mörgum hefur verið tíðrætt um þau langtímamarkmið sem talað var um fyrir tímabilið, þ.e.a.s. byggja upp öflugt lið þar sem uppistaðan væru Eyjamenn, fari fyrir ofan garð og neðan í ljósi leikmannakaupa ÍBV undanfarnar vikur.

Jóhann Ingi Árnason, nýráðinn framkvæmadastjóri knattspyrnudeildar karla sagðist í viðtali við Fréttir vissulega hafa áhyggjur af neikvæðri umræðu sem hefur verið í gangi undanfarið. „Fyrir tímabilið var lagt upp með það að taka inn þessa ungu og efnilegu stráka sem hafa verið að gera það gott með öðrum flokki félagsins. Í mörgum þessara leikja í sumar hafa Eyjamenn í byrjunarliðinu verið tíu og svo Kjartan Antonsson sem hefur verið lengi í herbúðum ÍBV þannig að mér finnst við vera að halda okkur við þau markmið sem voru sett. Undanfarið höfum við svo lent í því að margir af okkar sterkustu mönnum hafa verið að meiðast og á síðustu æfingu sátu fimm leikmenn, sem allir hafa verið í byrjunarliðinu, við hliðarlínuna og hvíldu vegna meiðsla. Það hljóta því allir að sjá það að við höfum þurft að styrkja leikmannahópinn til þess að lenda hreinlega ekki í fallbaráttu. Fyrir tímabilið var líka búið að ákveða að taka inn tvo júgóslavneska leikmenn og þá Goodfellow og Neal frá Stoke. Við sendum annan Júgóslavann heim og því er ekkert óeðlilegt að leita á önnur mið varðandi annan útlending," sagði Jóhann Ingi. 

Blikarnir malaðir

ÍBV spilaði einn sinn besta leik í sumar þegar strákarnir mættu Breiðabliki í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar. Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en eftir glæsilegt mark Goodfellow héldu ÍBV engin bönd. Allir leikmenn ÍBV voru að spila vel og steig liðið varla feilspor í leiknum. Lokatölur urðu 3-1 fyrir ÍBV, Breiðablik skoraði reyndar mark á síðustu andartökum leiksins sem hefði mátt koma í veg fyrir en það voru líka einu mistök ÍBV í leiknum.

Brokkgengur 2. flokkur

Það virðist vera annað hvort í ökkla eða eyra hjá 2. flokki karla um þessar mundir. Fyrir rúmri viku síðan lék liðið gegn KR á útivelli og gerðu sér lítið fyrir og sigruðu á KR-vellinum með einu marki gegn engu marki heimamanna. Sæþór Jóhannesson (bróðir Steingríms og Hjalta) skoraði sigurmarkið í seinni hálfleik. Nokkrum dögum síðar mætti liðið svo Skagamönnum og fór leikurinn fram á Hásteinsvellinum. Leikurinn fór heldur illa fyrir Eyjamenn, strákarnir töpuðu 0-5 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 0-2. Liðið er sem fyrr um miðja deild með tíu stig en með sigri hefði ÍBV komist í fyrsta sætið ásamt FH.

Geta borið höfuðið hátt

Fyrstu helgina í júlí fór fram hið árlega Esso-mót sem er haldið á Akureyri og er fyrir knattspyrnustráka í 5. flokki. Esso-mótið er með svipuðu sniði og Shellmótið en umfangið er

þó mun minna utan vallar. ÍBV hefur yfirleitt verið meðal keppenda á mótinu og svo var einnig í ár. Þjálfarar flokksins eru þeir Dragan Manojlovic og Jón Ólafur Daníelsson.

Fréttir náðu í Jón Óla við komuna til Eyja og hann sagðist vera þokkalega sáttur við gengi flokksins. „Þetta var fínt í heildina hjá okkur, ég hefði reyndar vilja sjá A-liðið komast í átta liða úrslit og það vantaði reyndar ekki mikið upp á það. Við töpuðum fyrsta leiknum en það er oft erfitt að byrja mótið þar sem fyrstu leikirnir fara fram sama dag og við komum á staðinn eftir langt ferðalag. Strákamir voru samt að bæta sig með hverjum leik og geta borið höfuðið hátt eftir það. Mótið sjálft er líkt og Shellmótið, reyndar er ekkert innimót og dagskráin utan vallar er ekki eins góð og á Shellmótinu enda eru strákarnir eldri og hafa kannski ekki eins gaman af því."

Staða ÍBV í mótinu var þessi: A-lið 9. sæti, B-lið 10. sæti, C-lið 11. sæti ogD-lið 12. sæti.

Heilladísir með ÍBV

Meistaraflokkur ÍBV karla mætti Skagamönnum í níundu umferð Símadeildarinnar og fór leikurinn fram uppá Skipaskaga. Leikir liðanna uppi á Skaga hafa verið jafnir og spennandi hin síðari ár en síðustu þrír leikir liðanna hafa endað með jafntefli.  Lokatölur urðu 0-0 jafntefli sem hljóta að teljast góð úrslit fyrir Eyjamenn miðað við gengi liðsins á útivelli í ár.

Þokkalegur árangur  yngri flokkanna

2. flokkur karla lék gegn Víkingi í Reykjavík um miðjan júlí, en liðin mættust í fyrstu umferð A-deildar hvar Víkingar báru sigur úr býtum hér í Eyjum. Gengi liðsins hefur verið upp og ofan í sumar en nú síðast tapaði liðið stórt fyrir Skagamönnum á heimavelli, 0-5.

2.  flokkur kvenna lék tvo leiki.  Fyrst var leikið gegn Val á Hlíðarenda en fyrir leikinn munaði aðeins einu stigi á liðunum. Daginn eftir lék liðið svo gegn Fjölni en báðir leikirnir fóru fram í Reykjavík.

3.  flokkur karla gerði góða ferð á Seltjarnarnesið þegar liðið mætti heimamönnum í Gróttu. Fyrri leikur liðanna, sem fór fram hér í Eyjum endaði með stórsigri ÍBV 11-2 og því ekki búist við að róðurinn yrði erfiður. Strákarnir voru líka ekki í vandræðum með heimamenn, sigruðu með sex mörkum gegn engu og Björgvin Þór skoraði hvorki fleiri né færri en fjögur mörk. Mörk ÍBV: Björgvin Már Þorvaldsson (4) og Ólafur Þór Berry (2)

3.  flokkur kvenna  lék gegn Fjölni. ÍBV átti ekki í vandræðum með lið gestanna og sigraði 5-1. Margrét Lára skoraði þrjú mörk, Hekla eitt en eitt markið var sjálfsmark gestanna. Tveim dögum síðar mætti liðið svo Val en þessi lið ásamt Breiðabliki hafa í gegnum tíðina verið áberandi best í yngri flokkum kvennaboltans. Þrátt fyrir að komast í 2-0 þá náðu gestirnir að svara í þrígang og tryggja sér þar með sigurinn. Mörk IBV skoruðu þær Margrét Lára og Erla Signý.

4. flokkur kvenna lék  gegn erkifjendunum úr KR. Leikið var í bæði A- og B-liðum og töpuðu stelpurnar báðum leikjunum. A-liðið tapaði með þremur mörkum gegn engu en B-liðið tapaði 2-0. Næsti keppinautur var svo lið Fjölnis.  Þar tapaði A-liðið 3-1 og skoraði Hekla eina mark ÍBV. B-liðið sigraði hins vegar 0-3 og markaskorarar voru þær Birgitta með tvö mörk og Ásthildur eitt.

5.  flokkur kvenna tók þátt í Hnátumóti KSÍ.  Flokkurinn er fjölmennur og því var hópnum skipt í tvennt þar sem annar hópurinn tekur þátt núna og hinn hópurinn eftir tvær vikur þegar mótið verður endurtekið. Engin verðlaun eru í boði en markmiðið er að sjálfsögðu að allir spili og hafi gaman af fótbolta. A-lið ÍBV vann einn leik, gerði eitt jafntefli og tapaði tveimur en B-liðið vann tvo og gerði eitt jafntefli.

7. flokkur karla tók þátt í hinu árlega Lotto-móti sem fram fer á Akranesi. 7. flokkur er yngsti flokkurinn hjá flestum félögum og því oft skemmtileg tilþrif sem sjást á vellinum. Mótið hófst á föstudegi og stóð fram á sunnudag. Jón Ólafur Daníelsson er þjálfari flokksins og hann sagði í samtali við Fréttir að D-liðið hefði náð bestum árangri. ,.D-liðið spilaði til úrslita hjá okkur en tapaði naumlega fyrir Breiðabliki 1-0 í aðalmótinu en í hraðamótinu enduðu þeir í þriðja sæti. A-liðið endaði í fimmta sæti í aðalmótinu en áttunda í hraðmótinu, B í því sjötta en fjórða í hraðamótinu og C-liðið endaði í sjöunda í aðalmótinu en þriðja í hraðamótinu."

Harðsóttur sigur

ÍBV tók á móti Breiðabliki í annað sinn á rétt rúmri viku, en liðin mættust í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar þar sem ÍBV sigraði örugglega 3-1. Í þetta skiptið mættu Blikarnir hins vegar mun skipulegri til leiks og höfðu greinilega legið yfir leikjum ÍBV til að finna veikleika á liðinu. T.d. voru þeir Goodfellow og Neal varla komnir með boltann þegar þrír varnarmenn umkringdu þá. En þrátt fyrir að hafa oft sýnt betri leik sigraði ÍBV 1-0 og heldur sér þar með í toppbaráttunni um sinn.

Jafntefli gegn FH

Kvennalið ÍBV hefur heldur betur verið að sækja í sig veðrið að undanförnu og sat m.a. á toppi deildarinnar fyrir leikinn gegn FH. Heimir Hallgrímsson þjálfari liðsins hafði sagt það að markmið liðsins í fyrri umferðinni væri að halda liðinu við toppinn þannig að árangur liðsins til þessa hefur gefið ástæðu til bjartsýni. En reynslan og hefðin er ekki á bandi ÍBV enda brotlenti liðið á föstudaginn gegn FH. Eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik náðu Eyjastúlkur að jafna og urðu lokatölur leiksins 1-1.

Úr leik í bikarnum

Þátttöku kvennaliðs ÍBV lauk í átta liða úrslitum í ár þegar liðið tapaði gegn Breiðabliki á útivelli. Lokatölur leiksins urðu 5-0 en staðan í hálfleik var 2-0. ÍBV átti aldrei möguleika í leiknum gegn Íslandsog bikarmeisturunum en hvorki Ásthildur Helgadóttir né Elfa Ásdís Ólafsdóttir léku með liðinu vegna meiðsla.

Veitingasala í Týsheimilinu

Að þessu sinni verður veitingasala í tengslum við þjóðhátíð ekki aðeins í veitingatjaldinu heldur einnig í Týsheimilinu. Það er ÍBV íþróttafélag sem mun sjá um veitingasöluna, bæði í tjaldinu og Týsheimilinu. Magnús Sigurðsson, framkvæmdastjóri ÍBV,  segir að veitingasalan í Týsheimilinu verði opin frá kl. 10 til 20 alla þjóðhátíðardagana. Þar verða á boðstólum svipaðar veitingar og er að hafa í þjóðhátíðartjaldinu, hamborgarar, samlokur, pizzur og fleira í þeim dúr en þessi veitingasala er rekin í samráði við Pizza 67. Magnús segir ekkert launungarmál að með þessu sé verið að reyna að auka tekjur félagsins til að mæta þeim kostnaði sem hlýst af þátttöku félagsins í löggæslu yfir þjóðhátíðina. „Okkur er gert að greiða fyrir löggæsluna, ekki inni í Dal, heldur í bænum yfir þessa daga. Veitingamenn og sjoppueigendur eru auðvitað ekkert mjög sáttir við þennan veitingarekstur en flestir þeirra segjast þó skilja okkar afstöðu. Við buðum þeim að taka þátt í greiðslu á þessum löggæslukostnaði gegn því að við hættum við veitingasölu í Týsheimilinu en þeir voru ekki reiðubúnir til þess. Við verðum einhvern veginn að reyna að ná inn fé fyrir þessum aukakostnaði sem er dengt á okkur vegna löggæslunnar og það varð úr að reyna þetta," segir Magnús.

(Fréttir greindu frá)

Viljum ekki vera blórabögglar

„Ég hef átt gott samstarf við þjóðhátíðarnefnd undanfarin ár og því kemur mér þessi uppsetning málsins verulega á óvart," segir Karl Gauti Hjaltason sýslumaður vegna þeirrar ástæðu ÍBV að selja veitingar í Týsheimilinu yfir þjóðhátíðina. Þar verður seldur bjór, pizzur og aðrar veitingar. Rök ÍBV-íþróttafélags er að þetta sé nauðsynlegt til að hafa upp í löggæslukostnað. Hefur ákvörðunin m.a. vakið hörð viðbrögð veitingamanna og sjoppueigenda. „Menn geta fundið sér ástæður fyrir öllum hlutum en það er nokkuð langsótt af framkvæmdastjóra ÍBV að kenna því um að löggæslukostnaður þvingi íþróttafélagið út í rekstur veitingastaðar utan þjóðhátíðarsvæðisins. Staðreyndin er sú að öll árin fyrir 1999 greiddi íþróttafélagið fullan löggæslukostnað vegna þjóðhátíðar og þurfti ekki að leita annarra fjáröflunarleiða til þess," segir Karl Gauti. Það gerðist fyrst árið 1999 að stofnaður er sérstakur fjárlagaliður til þess að mæta þessum kostnaði og hefur sýslumannsembættið í Eyjum fengið löggæslukostnaðinn endurgreiddan af þeim lið á árunum 1999 og 2000, fyrst 2.4 millj. og síðan 2.8 millj. Á árinu 1998, sem var síðasta árið þar sem samkomuhaldari greiddi þennan kostnað var hann 2.2 millj. „Það sem breyttist núna er það að sett var þak á greiðslur út af þessum fjárlagalið, 1.5 milljónir, og verður samkomuhaldari að greiða það sem umfram er, á þessu ári hér í Eyjum á bilinu 1.5-2 millj. Eðlilega eru menn ósáttir við það, en að líkja þessu við eitthvert meiri háttar áfall er fráleitt, því samkomuhaldarar hafa alltaf greitt þennan kostnað að fullu að undanskildum síðustu tveimur árum og reyndar greiða þeir ekki kostnaðinn nú, nema það sem er umfram 1.5 millj. Lögreglan telur alla jafna ekki eftir sér að vera blórabögglar fyrir allra handa hluti, en ég get fullvissað menn um það að lögreglan hefur ekki átt neinn þátt í opnun þessa veitingastaðar“ sagði Karl Gauti.

(Fréttir greindu frá) 

Duttu úr bikarnum

Eyjamenn duttu út úr Coca Cola bikarnum, er þeir töpuðu 1-0 fyrir FH í Hafnarfirði. Í Fréttum sagði að leikurinn hafi verið  leiðinlegur á að horfa, Hafnfirðingar skoruðu strax á 20. mínútu og eftir það lögðust þeir í vörn. Eyjamenn sóttu talsvert eftir markið en tókst ekki að skapa sér nein verulega hættuleg færi, skyndisóknir FH reyndust hættulegar og varði Birkir nokkrum sinnum glæsilega. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði reyndar mark þegar um 10 mínútur voru eftir en það var dæmt af réttilega vegna rangstöðu. En þrátt fyrir þunga sókn á lokamínútunum með Hlyn Stefánsson fyrirliða sem fremsta mann tókst Eyjamönnum ekki að jafna og því er bikardraumurinn úti þetta árið. Um leið urðu Eyjamenn að sætta sig við enn eitt tapið á útivelli. Liðið: Birkir, Páll, Hlynur, Kjartan, Hjalti Joh., Marc Goodfellow (Jón Helgi), Lewis Neal, Tommy Schram, Bjarnólfur (Hjalti Jóns), Gunnar, Atli.

Náðu fram hefndum

Eyjamenn voru að vonum vonsviknir með tapið gegn FH í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á dögunum enda í fyrsta sinn síðan 1995 sem liðið er ekki í það minnsta í undanúrslitum. Leikmenn voru því á þeim buxunum að koma fram hefndum og jafnframt sýna beittari leik en áður. Það gekk eftir, leikurinn var bráðfjörugur á köflum og Eyjamenn töluvert hættulegri upp við mark andstæðingsins. Það var samt sem áður aðeins eitt mark sem skildi liðin að í leikslok, Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði það og skaut vonandi útileikjagrýluna þar með á bólakaf, 1-0 fyrir ÍBV.

Of langt í toppinn

Í strekkingsvindi á Hásteinsvelli lyktaði leik ÍBV og Vals með jafntefli 1-1. Eftir þessi úrslit er ljóst að baráttan um titilinn er ÍBV nánast töpuð, liðið á 4 stig í Blika á toppi deildarinnar og eins og Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, orðaði það: „Blikar eru bara með allt of gott lið til að tapa þessu niður."

Minnkandi áhorfendafjöldi

Í gegnum tíðina hefur góðu gengi á knattspyrnuvellinum ávallt fylgt góð aðsókn á völlinn. Í ár hefur hinsvegar aðsókn á heimaleiki ÍBV karla verið lakari en oft áður þrátt fyrir að liðið hafi nánast allan tímann verið í toppbaráttunni. Áhorfendafjöldi á leikjum ÍBV í sumar hefur verið að meðaltali, samkvæmt talningu KSÍ, 546 manns og er þetta minnsti fjöldi áhorfenda í Símadeildinni. 

Yngri flokkarnir

2.  flokkur kvenna lék þrjá leiki rétt fyrir Þjóðhátíð.  Fyrst mætti liðið Val í Reykjavík og tapaðist sá leikur 3-0 en þessi tvö lið munu líklega berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Staðan í hálfleik var 0-0 en tvö  mörk heimastúlkna gerðu út um leikinn. Næst lékk  ÍBV og KR og gerðu stelpurnar sér lítið fyrir og unnu leikinn með fimm mörkum gegn engu gestanna. Mörkin skoruðu þær Margrét Lára (2), Sara (2) og Telma. Þriðji leikurinn var svo gegn Breiðabliki og tapaðist.

3. flokkur karla mætti KA í tveimur leikjum en leikirnir fóru fram á Akranesi til að spara félögunum ferðakostnað. Fyrri leikurinn var heimaleikur ÍBV. Strákarnir nýttu sér heimavöllinn og unnu örugglega 4-2. Mörkin skoruðu þeir Andri Ólafs., Adólf, Björgvin og Ólafur. Seinni leikurinn var jafnari en sá fyrri enda endaði hann með jafntefli, 2-2. Mörk ÍBV í þeim leik skoruðu Andri Eyvinds. og Grétar.

3.  flokkur kvenna lék gegn ÍA og fór leikurinn fram hér í Eyjum. Liðið hefur ekki alveg náð að sýna sitt rétta andlit í öllum leikjum sumarsins og fyrir leikinn var ÍBV í fjórða sæti A-riðils, ellefu stigum á eftir efsta liðinu en átti tvo leiki inni.

5.  flokkur karla lék um helgina gegn ÍR og Njarðvík. Leikið var gegn IR  og var  teflt fram A-,B-,C- og D-liðum. A-liðið sigraði 0-3 og skoruðu Gauti (2) og Þórarinn mörkin. B-liðið vann eftir spennandi leik 1-2 og skoruðu þeir Hafsteinn og Orri mörkin. C- og D-liðin töpuðu bæði, C-liðið 5-2 þar sem Ólafur og Guðmundur skoruðu og D-liðið 4-1 þar sem Theodór skoraði mark ÍBV.

Þá var leikið gegn Njarðvík og spiluðu bara A- og B-liðin. Bæði liðin unnu sína leiki, A-liðið 1-3 og B-liðið 0-8. Fyrir A-liðið skoruðu þeir Guðjón, Arnór og Þórarinn en B-liðið þeir Kristinn (2), Friðrik, Þorsteinn, Vignir, Hafsteinn (2), Ingólfur.

5.  flokkur kvenna tók þátt í seinni hluta Hnátumótsins en Erna Þorleifsdóttir þjálfari flokksins ákvað að eldri stelpumar færu fyrst og yngri stelpurnar núna. Stelpurnar stóðu sig mjög vel enda voru þær að keppa á móti eldri stelpum annarra liða. A-liðið tapaði einum leik og gerði tvö jafntefli. B-liðið vann einn, tapaði einum og gerði eitt jafntefli.

6.  flokkur karla tók þátt í Pollamóti KSÍ  en eins og hjá stelpunum þá er mótið tvískipt. Nú voru aðeins send A- og B-lið enda eru margar fjölskyldur í fríi á þessum árstíma. Árangurinn var þokkalegur, A-liðið tapaði tveimur leikjum en vann einn en B-liðið vann einn og tapaði tveimur. Jón Ólafur Daníelsson er þjálfari flokksins.

Veðurblíða einkenndi Þjóðhátíðina

Það sem einkenndi þjóðhátíðina 2001 var einmuna veðurblíða alla þjóðhátíðardagana.

Föstudagur í þjóðhátíð heilsaði bjartur og fagur og setti það skemmtilegan svip á setningu þjóðhátíðar sem var óvenjulega vel sótt. Heimafólk mætti prúðbúið til setningar eins og verið hefur undanfarnar hátíðir.  Setningin var hefðbundin með lúðrablæstri, kórsöng og hugvekju Kristjáns Björnssonar sóknarprests. Þór Vilhjálmsson, formaður ÍBV- íþróttafélags, setti hátíðina og Gunnlaugur Ástgeirsson flutti hátíðarræðuna. Gunnlaugur, sem er borinn og barnfæddur í Eyjum, sonur Asa í Bæ, hældi bæði sjálfum sér og öðrum Eyjamönnum sem skara fram úr öðrum á flestum sviðum. Eitthvað sem Vestmannaeyingum leiðist ekki að heyra. Þessu stjórnaði Árni Johnsen eins og ekkert hefði í skorist, en hann  hafði fyrr á árinu orðið uppvís að misgjörðum í starfi sínum sem formaður nefndar um lagfæringar á Þjóðleikhúsinu og í framhaldi af því sagt af sér þingmennsku.

Annars var þjóðhátíðin í hefðbundnu fari. Árni sá svo um brekkusönginn að venju og fékk  þar hlýjar móttökur.

Lífið er yndislegt var Þjóðhátíðarlagið 2001, eftir Hreim Heimisson.

Í viðtali sem Fréttir  áttu við Karl Gauta Hjaltason sýslumann sagði hann  að langflestir gestirnir hefðu verið til fyrirmyndar og greinilegt að betri helmingur af útihátíðargestum hafi verið í Eyjum um helgina. Karl Gauti segir umræðuna í fjölmiðlum eftir þessa helgi vera einhæfa, greinilegt sé að enginn áhugi sé á að ræða um þjóðhátíð þegar hún heppnast eins vel og í ár. „Það væri hægt að halda langar ræður um hversu vel hátíðin heppnaðist en fjölmiðlar hafa engan áhuga á þeim fréttum og eins vil ég vísa því til föðurhúsanna að nauðgunarbrot komi ekki upp á yfirborðið hér í Eyjum vegna þess að við gerum ekkert í því."

Ármann Höskuldsson var ábyrgur fyrir gæslumálum í dalnum, hann sagði við Fréttir, að  þetta væri með allra rólegustu þjóðhátíð sem menn hafi kynnst og það hafi í raun ekkert verið að gera fyrir þá 140 gæslumenn sem voru til staðar.

Gestir Þjóðhátíðarinnar voru um 6.600 talsins. Miðaverðið í Dalinn kostaði kr. 7.000 og kr. 6.500 í forsölu.

Það sem öðrum liðum hefur mistekist

Það voru ekki margir sem voru þeirrar skoðunar að næstneðsta lið Símadeildarinnar, Fram,  gæti gert það sem flestum öðrum íslenskum liðum hefur mistekist, það er að segja að leggja ÍBV að velli á Hásteinsvellinum. Það gerðu Framarar hinsvegar með stæl, nýttu þau fáu færi sem þeir fengu og uppskáru tveggja marka sigur á ÍBV 1-3.

Langt ferðalag

3.  flokkur kvenna lék tvo leiki rétt eftir Þjóðhátíð og fóru þeir báðir fram hér í Eyjum. Fyrst var tekið á móti Fylkisstúlkum og endaði leikurinn með tíu marka sigri ÍBV, 11-1. Mörk ÍBV skoruðu þær Margrét Lára (5), Berglind (3), María (2) Inga Ósk. Í hinum leiknum  komu svo erkifjendurnir úr Breiðabliki í heimsókn. Leikurinn var jafn og spennandi en Eyjastúlkur unnu leikinn með þremur mörkum gegn tveimur. Það er því enn veik von um að ÍBV vinni titilinn en þá þurfa Blikastúlkur að tapa þeim leikjum sem eftir eru og ÍBV að vinna rest.

4.  flokkur karla fór alla leið til Ísafjarðar  þar sem þeir mættu BÍ. Strákarnir töpuðu sex þrjú. komust reyndar yfir eftir aðeins eina mínútu en heimamenn svöruðu með fjórum mörkum. Í upphafi seinni hálfleiks skoruðu strákarnir en komust ekki nær Ísfirðingum og töpuðu eins og áður sagði með þremur mörkum. Mörk ÍBV skoruðu þeir Birkir (2) og Einar Kristinn 1. 

9-0

ÍBV-stelpurnar í meistaraflokki í knattspyrnu léku gegn nýliðum Grindvíkinga 14. ágúst  í Grindavík, - en  Suðurnesjastelpur  komu mjög á óvart í upphafi móts, síðan hefur leiðin legið niður á við hjá þeim. Ekki er hægt að segja að heimastúlkur hafi riðið feitum hesti frá viðureigninni, því Íris Sæmundsdóttir og Bryndís Jóhannesdóttir voru í miklum markaham og skoruðu 89 % marka ÍBV í 0-9 stórsigri.

Og svo kom jafntefli

Fyrri leikur ÍBV var gegn Breiðabliki og fór leikurinn fram í Kópavogi. Ekki er hægt að segja að tölfræðin hafi verið Eyjastúlkum hagstæð en ÍBV hafði fyrir leikinn aldrei náð stigi af Íslandsmeisturunum og síðasti leikur liðanna í Kópavogi endaði heldur illa, eða 6-0. Þrátt fyrir það voru Eyjastelpur ákveðnar í að vinna leikinn og hleypa spennu í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn en allt kom fyrir ekki og endaði leikurinn með markalausu jafntefli.

Palli með rautt

ÍBV lagði KR að velli í Frostskjólinu 2-0 þanng 12. ágúst og situr liðið þægilega í þriðja sætin. KR hinsvegar í botnbaráttunni.   Páll Almarsson fékk að líta rauða spjaldið hjá dómaranum á 75. mínútu fyrir brot og léku Eyjamenn því 10 það sem eftir lifði leiks. Njáll Eiðsson, þjálfari ÍBV sagði í viðtali við Morgunblaðið:  „Það er meiri breidd í liðinu en við kannski héldum. Tómas Ingi Tómasson getur nánast spilað heilan leik núna svo það er gott. Ungu strákarnir spiluðu mjög vel, eins og til dæmis Atli Jóhannsson. Auðvitað var slæmt að missa Pál Almarsson út af með rautt spjald en sem betur fer var ekki mikið eftir af leiknum og við héldum þetta út. Það er hins vegar slæmt að missa hann í næsta leik,“ 

2. flokkur í fallbaráttu

2.  flokkur karla er nú kominn í harða fallbaráttu eftir síðasta leik liðsins sem var  gegn Fram.  Fyrir leikinn var ÍBV í þriðja neðsta sæti efstu deildar með tíu stig en Framarar í fallsæti með sex. Framarar unnu hins vegar leikinn 3-1 og er ÍBV því aðeins einu stigi frá fallsæti. Sú staðreynd er mörgum mikil vonbrigði enda endaði flokkurinn í öðru sæti í deildinni í fyrra og þótti liðið vera líklegt til afreka í ár. En Gunnar Heiðar og Atli hafa haft í nógu að snúast með meistaraflokki og hafa því ekki spilað neitt með 2. flokki sem veikir liðið að sjálfsögðu. Árangur liðsins á heimavelli er hins vegar hræðilegur, enginn sigur, eitt jafntefli og fjögur töp er ekki vænlegt til árangurs.

3.  flokkur kvenna lék tvo leiki fyrir skömmu og fóru þeir báðir fram hér í Eyjum. Fyrst var tekið á móti Fylkisstúlkum og endaði leikurinn með tíu marka sigri ÍBV, 11-1. Mörk ÍBV skoruðu þær Margrét Lára (5), Berglind (3), María (2) og Inga Ósk.

4.  flokkur kvenna skrapp í Kópavoginn og lék gegn heimastúlkum. Þessi lið hafa í gegnum tíðina verið erkifjendur í kvennaknattspyrnunni enda bæði félög mjög framarlega þar. En í þetta skiptið tóku Blikastúlkur leikmenn ÍBV í kennslustund og gjörsigruðu bæði í A- og B-liðum. A-liðið tapaði 9-0 en B-liðið tapaði 10-1 þar sem Svava Kristín skoraði eina mark ÍBV. 5. flokkur karla lék gegn Haukum og var leikið í A-, B-, C- og D-liðum. Eyjapeyjar voru ekki í vandræðum með Haukana, sigruðu í þremur leikjum en í einum leik var jafntefli. Úrslitin voru annars þessi, A-liðið vann 11-1, B liðið vann 12-0, C gerði 3-3 jafntefli og D vann 7-1.

Enn í toppslagnum

Karlalið ÍBV tók á móti Grindavík í fjórtándu umferð Símadeildarinnar. Eyjamenn hafa löngum verið í vandræðum með Grindvíkinga en í þetta sinn var strákunum suður með sjó ekki sýnd nein miskunn og ÍBV sigraði örugglega með þremur mörkum gegn engu. Eyjamenn voru í  2. sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir og verða því í toppbaráttunni á lokasprettinum.

Jón Bragi til bjargar

Í sumar hefur handknattleiksráð karla leitað logandi ljósi að markverði til að verja mark ÍBV í handbolta í vetur en þrátt fyrir þrotlausa leit gekk lítið. En á meðan leitað var á fastalandinu var lausnin við bæjardyrnar. Hinn síungi íþróttakappi Jón Bragi Arnarson hefur ákveðið að draga fram handboltaskóna að nýju en síðast lék hann með liðinu fyrir ljórum árum. Jón Bragi hefur hin síðari ár verið betur þekktur sem knattspyrnukappi en þrátt fyrir árin séu að nálgast fjórða tuginn, hefur hann aldei  verið í betra formi og æfir nú af fullum krafti með liðinu. Forráðamenn ÍBV gera ráð fyrir frekari liðsstyrk og samkvæmt heimildum Frétta eiga þeir í viðræðum við litháenska, rétthenta skyttu sem er með einhverja landsleiki að baki.

2. flokkur kvenna í bikarúrslit

ÍBV lék gegn  KR í undanúrslitum bikarkeppninnar. Leikurinn fór fram á Týsvellinum. Veðrið var leiðinlegt en stelpurnar létu það ekki skemma fyrir sér og léku ágætis knattspyrnu. María Guðjónsdóttir kom ÍBV yfir í fyrri hálfleik með sannkölluðu þrumuskoti eftir laglegan undirbúning Margrétar Láru. Í seinni hálfleik bættu stelpumar við tveimur mörkum, fyrst Elva Dögg Grímsdóttir og svo var það Margrét Lára Viðarsdóttir sem innsiglaði þriggja marka sigur á KR. Þar með eru stelpurnar komnar í úrslitaleikinn en flokkurinn varð bikarmeistari fyrir tveimur árum. Þjálfari flokksins er Sindri Grétarsson.

Litháísk skýtta í handboltann

ÍBV handknattleiksráð karla hefur samið við Litháann Vytautas Ziura og mun hann leika með ÍBV á komandi tímabili. Vytautas er 21 ára, hægri handar skytta og á að baki m. a. 15 A-landsliðsleiki með Litháen. Að sögn Jóhanns Péturssonar stjórnarmanns hjá handknattleikráði karla þá líst mönnum vel á leikmanninn. „Við sáum leik með honum á móti ungverska landsliðinu þar sem hann stóð sig mjög vei. Til viðbótar hefur hann góð meðmæli sem sterkur leikmaður." Vytautas mun þó ekki koma til ÍBV fyrr en rétt fyrir Íslandsmót þar sem liðið hans í Litháen, Lusies Kaunas, vill ekki sleppa honum fyrr en eftir fyrstu umferð í Evrópumóti bikarhafa sem þeir taka þátt í. Fyrir í herbúðum ÍBV er sterk vinstrihandar skytta frá Litháen, Mindaugas Andriuska ásamt því sem Arnar Pétursson kom frá Stjörnunni þannig að ljóst er að ÍBV mætir sterkt til leiks á komandi keppnistímabili.

3. flokkur Íslandsmeistari

3. flokkur kvenna lék helgina 25. og 26. ágúst í úrslitum Íslandsmótsins en þau fóru þannig fram að fyrst voru undanúrslit og sigurvegararnir úr þeim leikjum léku svo til úrslita. ÍBV lék gegn Þór Akureyri en í hinum leiknum mættust KR og Breiðablik. Í Fréttum sagði að Eyjastelpur hafi byrjað leikinn eins og þær eiga að sér og voru 3-0 yfir í hálfleik. En Þórsarar jöfnuðu leikinn í seinni hálfleik þannig að grípa varð til framlengingar. Í framlengingunni var hins vegar aldrei spurning hvort liðið myndi sigra en ÍBV skoraði tvö mörk gegn engu marki norðanstúlkna og sigraði því 5-3. Í úrslitaleiknum mættust svo erkifjendurnir ÍBV og Breiðablik og fór leikurinn fram á Valsvelli. Jafnræði var með liðunum í upphafi en ÍBV komst yfir með ágætu marki. Undir lok fyrri hálfleiks fengu stelpumar svo dæmt á sig heldur klaufalegt víti sem Blikarnir skoruðu úr og staðan í hálfleik því 1-1. Í seinni hálfleik mættu stelpurnar mun ákveðnari og uppskáru tvö mörk á meðan Breiðablik skoraði ekkert og Íslandsmeistaratitillinn í höfn.

Stefanía Guðjónsdóttir og Erna Þorleifsdóttir eru þjálfarar flokksins og sagði Stefí að stelpurnar hefðu staðið sig frábærlega um helgina. „Við vorum að spila ágætlega og seinni hálfleikurinn í úrslitaleiknum  var mjög góður. Leikurinn var skemmtilegur á að horfa, bæði lið fengu sín færi en við vorum ákveðnari í seinni hálfleik. Stelpurnar eiga þetta svo sannarlega skilið en þær vilja meina að Rósa frænka, sem gaf þeim tattú á innanvert lærið fyrir úrslitaleikinn, hafí haft mikið að segja." Mörk ÍBV í úrslitaleiknum skoruðu þær Ester, Inga Ósk og Erla Signý.

Mikilvægur sigur

ÍBV spilaði einn af mikilvægustu leikjum sumarsins þegar liðið mætti Keflvíkingum í bítlabænum um mánaðamótin ágúst/september.  Með sigri gat ÍBV komist upp að hlið Skagamanna sem trónuðu á toppi deildarinnar en áttu þó leik til góða. Það tók Eyjamenn ekki nema fimmtán mínútur að gera út um leikinn, fyrst skoraði Tómas Ingi á elleftu mínútu og fjórum mínútum síðar bætti félagi hans í framlínunni, Gunnar Heiðar við öðru marki og þar við sat.

Konurnar í  góðum málum

ÍBV tók á móti Stjörnunni á Hásteinsvellinum. Fyrir leikinn var ÍBV þremur stigum á eftir KR sem er í öðru sæti Símadeildarinnar en Stjarnan gat með sigri og hagstæðum úrslitum í síðustu tveimur umferðum, náð öðru sætinu. Eyjastúlkur voru hins vegar mun grimmari í fyrri hálfleik en þrátt fyrir fjölmörg færi skoraði liðið aðeins eitt mark og það gerði Pauline Hamill eftir að hafa átt tvö skot í slána. Seinni hálfleikurinn vara jafnari en leikmenn ÍBV samt alltaf með undirtökin. Eftir fimmtán mínútna leik tók Nicky Grant sig til, óð upp allan völlinn og sendi á Bryndísi Jóhannesdóttur sem gat ekki annað en skorað og kom ÍBV tveimur mörkum yfir. Eftir það slakaði IBV aðeins á og augnabliks kæruleysi varð til þess að Stjarnan minnkaði muninn tuttugu mínútum fyrir leikslok. Það sem eftir lifði leiks reyndu gestirnir allt hvað þær gátu til að jafna en höfðu ekki erindi sem erfiði og lauk leiknum því með 2 mörkum gegn 1.

Lið ÍBV: Petra Bragadóttir, Elfa Ásdís Ólafsdóttir, Michelle Barr, Sigríður Ása Friðriksdóttir, Berglind Þórðardóttir, Nicky Grant, Lind Hrafnsdóttir, Elena Einisdóttir, Pauline Hamill, íris Sæmundsdóttir, Bryndís Jóhannesdóttir. Varamenn: Sigríður Inga Kristmannsdóttir, Ema D. Sigurjónsdóttir, Elva D. Grímsdóttir (kom inn á 80. mín), Rakel Rut Stefánsdóttir, Svetlana Balinskaya. Mörkin: Pauline Hamill og Bryndís Jóhannesdóttir.

3. sætið

Síðasti leikur  meistaraflokks ÍBV kvenna var gegn Þór/KA/KS og var leikið á Hásteinsvelli. Lokatölur urðu 8-1 fyrir ÍBV. Liðið hafnaði í 3ja sæti Íslandsmótsins. Er þetta besti árangur liðsins frá upphafi, það komst líka í undanúrslit bikarkeppninnar. Heimir Hallgrímsson þjálfari liðsins er ákveðinn í að hætta eftir þriggja ára starf.  „Já alveg harðákveðinn og í sjálfu sér er það engin frétt þar sem það hefur alltaf staðið til." Sagði Heimir við Fréttir.

Lokaleikir 2. flokks kvenna

2.  flokkur kvenna lék tvo síðustu leiki sína í Íslandsmótinu þegar liðið mætti KR og Fjölni í Reykjavík. Úrslit Íslandsmótsins voru þegar ráðin en Valsstúlkur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með því að sigra áður ÍBV 5-0. Stelpurnar stóðu sig hins vegar betur í þessum tveimur leikjum,  því í fyrri leiknum sigruðu þær KR 0-4 og skoruðu þær Margrét Lára (2), Erna Dögg og Elva Dögg mörkin. Seinni leikurinn var á léttu nótunum, enda ekkert í húfi fyrir liðin en stelpumar voru samt sem áður með einbeitinguna í lagi og sigruðu 2-6 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 0-3. Mörk ÍBV skoruðu þær Berglind (2), Margrét Lára (2), Elva Ásdís og Telma.

Eyjastelpur gera það gott með landsliðunum

Elfa Ásdís Ólafsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir léku með U-19 ára landsliði Íslands í knattspyrnu í undanriðli Evrópukeppninnar en leikið var í Búlgaríu. Íslenska landsliðið stóð sig frábærlega, vann alla leikina sína og spiluðu Margrét og Elfa alla leiki liðsins. Stelpurnar gerðu gott betur en að spila leikina, þær stóðu sig einstaklega vel og skoruðu m.a. fimm af þrettán mörkum liðsins, Margrét gerði fjögur og Elfa Ásdís eitt. Þar með komst liðið í milliriðil sem fram fer í Rússlandi í október þannig að það er mikið ævintýri framundan hjá stelpunum.

Þá var Íris Sæmundsdóttir að vanda í liði Íslands, sem vann einn sinn besta sigur frá upphafi þegar liðið lagði Ítalíu að velli, 2-1. Íris stóð sig vel og átti ekki í vandræðum með að stoppa hina léttleikandi Ítali.

Stuðningsmannsklúbburinn lætur undan

Í Reykjavík hefur  verið starfandi mjög öflugur stuðningsmannaklúbbur ÍBV sem hefur reyndar verið svo öflugur að aðrir slíkir klúbbar hafa fetað í fótspor hans. Uppákomur fyrir stórleiki ÍBV hafa alltaf verið veglegar og vakið að jafnaði mikla athygli, eins og fyrir bikarúrslitaleikina undanfarin ár en nú bregður svo við að þátttakan hefur farið minnkandi. Ólafur Friðrik Guðjónsson var í forsvari fyrir klúbbinn. Fréttir leituðu til  hans um skýringu á þessari fækkun.  „Það hefur svo sem ekki verið mikið á döfinni hjá okkur í sumar en fyrir KR-leikinn var ákveðið að hittast á Glaumbar fyrir leik. Þar mætti aðeins einn þannig að við höfum ekki hug á því að leika þann leik eftir aftur. Ég veit ekki hvað veldur þessu áhugaleysi, hvort það var markaleysið eða slæmir skellir á útivelli í upphafi móts. Reyndar hefur ekki vantað fólk á leikina en mér finnst einhver deyfð yfir þessu sem sést kannski best í sölu á ÍBV varningi en hún hefur verið lítil í sumar.“  

Misjafnar aðstæður til knattspyrnu

ÍBV tók á móti Fylkismönnum í byrjun september og fór leikurinn fram við frábærar aðstæður, veðrið var gott og völlurinn enn betri. Enda létu áhorfendur ekki á sér standa og mættu sem aldrei fyrr og langt síðan jafn góð stemmning hefur verið á pöllunum. ÍBV sigraði örugglega með þremur mörkum gegn einu marki gestanna, þrátt fyrir að í liðið vantaði bæði Kjartan Antonsson sem var meiddur og Inga Sigurðsson sem var í leikbanni.

Næsti leikur og sá næstsíðasti í deildinni var gegn Val. Í Morgunblaðinu segir um þann leik að „það væri synd að segja að stórbrotinn sóknarleikur hafi fært Eyjamönnum sigur gegn Val á Hlíðarenda í vatnsveðrinu á sunnudaginn. Þeir innbyrtu sinn fimmta sigur í röð fyrst og fremst á seiglunni og yfirveguðum varnarleik, og höfðu líka heppnina með sér á réttum augnablikum. Meistaraheppnina kunna sumir að kjósa að kalla það – alltént er ljóst að ÍBV á nú gullið tækifæri til að tryggja sér meistaratitilinn í hreinum úrslitaleik gegn ÍA á eigin heimavelli næsta laugardag.“ 

Mikil vonbrigði

Það var mikil stemmning á Hásteinsvelli þegar leikmenn ÍBV tóku á móti Skagamönnum í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Líklega hafa aldrei verið fleiri áhorfendur á Hásteinsvellinum, fjórtán hundruð miðar voru seldir fyrir leikinn en ef flugfært hefði verið bæði á laugardag og leikdegi má ætla að áhorfendafjöldinn hefði farið yfir tvö þúsund. En þeir sem komust á milli fengu góða skemmtun með opnum og skemmtilegum leik, nokkuð sem fæstir áttu von á. Það er yfirleitt í úrslitaleikjum sem þessum að lið leika varfærnislega og fyrir vikið verður leikurinn lokaður og ekki eins skemmtilegur á að horfa. En því var ekki til að dreifa í þessum leik, fjölmörg færi litu dagsins ljós og jafn skemmtilegur knattspyrnuleikur hefur hreinlega ekki sést í háa herrans tíð hér á landi.

Í Fréttum sagði að Skagamenn hafi byrjað leikinn vel og augljóst að þeir voru tilbúnir í slaginn frá fyrstu mínútu. Eftir aðeins sautján mínútur var staðan orðin 0- 2 gestunum í vil og útlitið allt annað en bjart. En hin eina sanna Eyjabarátta kom bersýnilega í ljós það sem eftir lifði leiks, því Eyjamenn voru með undirtökin allt þar til yfir lauk. Staðan í hálfleik var I - 2 eftir að Tómas Ingi hafði skorað gullfallegt mark eftir sendingu Bjarnólfs Lárussonar en undir lok hálfleiksins átti Gunnar Heiðar Þorvaldsson þrumuskot að marki gestanna sem markvörður þeirra varði hreint út sagt frábærlega. Seinni hálfleikur byrjaði á rólegu nótunum en smám saman þyngdist sóknarþungi ÍBV. Eftir tæplega fjórtán mínútna leik hafði Tómas Ingi bætt við öðru glæsimarkinu nú eftir langa sendingu Hjalta Jóhannessonar.

ÍBV lagði allt í sölumar síðustu tuttugu mínútumar og hefðu með smá heppni og réttlátri dómgæslu, segja sumir, náð að setja þriðja markið en allt kom fyrir ekki og jafntefli því niðurstaðan í þessum frábæra knattspyrnuleik.

Hlynur Stefánsson fyrirliði í viðtali við Fréttir eftir  leikinn að hann væri fyrst og fremst stoltur af strákunum. „Það reyndi mikið á liðið að lenda tveimur mörkum undir. Við höfum reyndar lent áður í því í sumar að lenda undir, bæði á móti Fylki og Val þannig að við vissum hvað þyrfti að gera. En í svona mikilvægum leik, þar sem taugarnar eru þandar til hins ýtrasta, þarf kannski lítið til að slá menn út af laginu en við sýndum mikinn karakter að jafna. Við spiluðum vel í sjötíu mínútur en maður var að vona að boltinn dytti á réttan haus undir lokin þegar við vorum að dæla boltunum inn í teiginn hjá Skagamönnum en það gerðist ekki í dag. Ég er bara stoltur af ungu peyjunum, þeir eru að ná toppárangri og fá mikla reynslu út úr því að spila svona leik. Við vissum að það yrði á brattann að sækja í upphafi móts en sýndum framfarir eftir því sem leið á sumarið sem skilaði okkur góðum árangri þegar upp var staðið." Aðspurður um hvort leikurinn gegn ÍA hafi verið síðasti leikur hans með ÍBV sagðist hann ekki vera búinn að taka ákvörðun um það ennþá. „Ég vil ekkert gefa út með það strax, ég er ekki búinn að ákveða það en það eru allar líkur á því," sagði Hlynur að lokum.

Lokahóf knattspyrnufólksins

Knattspyrnufólk var ekki að tvínóna við hlutina og blés til lokahófs strax eftir leik ÍBV og ÍA sem lauk eins og allir vita með jafntefli og þar með sigri gestanna sem héldu héðan með Íslandsmeistaratitilinn upp á arminn. Fjölmenni var á lokahófinu en að því stóðu bæði karla- og kvennafótboltinn og svo KFS sem leikur í 3. deild. Að venju voru þeim sem þóttu skara fram úr veittar viðurkenningar. Hjá körlunum er farin sú leið að láta meðlimi í Stuðningsmannaklúbbi félagsins í Eyjum kjósa hvern þeir álíta besta og líka efnilegasta leikmanninn. Það kom fram að kosningin hafi verið mjög jöfn í báðum tilfellum en hlutskarpastir urðu Hlynur Stefánsson fyrirliði sem var kosinn besti leikmaðurinn sumarið 2001 og efnilegastur var Atli Jóhannsson. Kom hvorugt á óvart en örugglega hafa leikmenn eins og Birkir Kristinsson, Tómas Ingi Tómasson og Kjartan Antonsson verið skammt undan og Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Páll Almar og Unnar Hólm verða líka að teljast til efnilegra leikmanna.

Hjá stelpunum var Íris Sæmundsdóttir, sem hefur leikið frábærlega í sumar og hefur tryggt sér fast sæti í A-landsliðinu, valin best og átti hún það fyllilega skilið. Berglind Þórðardóttir var valin efnilegust og Elfa Ásdís Ólafsdóttir fékk Marteinsbikarinn sem veitt er þeirri knattspyrnukonu sem hefur lagt mest af mörkum, bæði utan og innan vallar. Markahæstar voru Bryndís Jóhannesdóttir og Pauline Hamill. Í yngri flokkunum varð Margrét Lára Viðarsdóttir markahæst.

Að venju voru Fréttabikararnir afhentir leikmönnum sem Fréttir telja efnilegasta í karla- og kvennaknattspyrnunni á lokahófi fótboltans. Þau sem urðu fyrir valinu að þessu sinni voru Berglind Þórðardóttir og Einar Hlöðver Sigurðsson.

Elísabet tekur við af Heimi

Elísabet Gunnarsdóttir hefur yerið ráðin þjálfari kvennaliðs ÍBV  fyrir næsta sumar og tekur við af Heimi Hallgrímssyni sem þjálfað hefur liðið síðustu þrjú ár. Elísabet hefur þjálfað yngri flokka Vals síðustu níu ár með góðum árangri. Á síðasta ári vann 2. flokkur Vals bæði Íslands og bikarmeistaratitil undir hennar stjórn. Guðmundur I. Jóhannesson, formaður knattspyrnuráðs, segist mjög sáttur við þessa ráðningu og býst við miklu af Elísabetu. Leikmannamál ÍBV eru í nokkuð góðum farvegi, aðeins tveir leikmenn eru með lausa samninga og eins er unnið að því að styrkja hópinn fyrir komandi átök.

Áhorfendum fækkar

Í skýrslu KSÍ um áhorfendafjölda á leikjum Símadeildarinnar í sumar, kemur fram að næstfæstir áhorfendur á heimaleikjum liðanna. voru á leikjum karlaliðs ÍBV. Aðeins Keflavík var með færri áhorfendur. Að meðaltali voru 685 áhorfendur á heimaleik ÍBV, á móti 707 í fyrra. Flestir áhorfendur voru á leik ÍBV og ÍA eða 1708 talsins. Fæstir á leiknum við Grindavík eða 373. Samtals mættu 6166 áhorfendur á leiki IBV í Símadeildinni í sumar á móti 6365 í fyrra.

Uppskeruhátíð yngri flokkanna

Mikið var um dýrðir á uppskeruhátíð yngri flokkanna.  Friðrik Friðriksson stjórnarmaður knattspyrnudeildar afhenti viðurkenningarnar sem komu í hlut þeirra í hverjum flokki sem höfðu besta ástundun og sýnt mestar framfarir og einnig var valinn í hverjum flokki besti leikmaðurinn og leikmaður ársins. Á eftir var boðið upp á veitingar.

Karlaflokkar

3. flokkur

Besta ástundun Adolf Sigurjónsson

Mestu framfarir Ágúst Halldórsson

Besti leikmaður Andri Ólafsson

4. flokkur

Besta ástundun Einar Kristinn Kárason

Mestu framfarir  Elvar Björnsson

Besti leikmaður Birkir Ágústsson

Leikmaður ársins Aron  Brynjólfsson

5.flokkur eldri

Besta ástundun Þórarinn Valdimarsson

Mestu framfarir Kolbeinn Aron Ingibjargarson

Prúðasti leikmaður William Möller

5. flokkur yngri

Besta ástundun Björgvin Hallgrímsson

Mestu framfarir Bjarki Ómarsson

Besti leikmaðurinn Bragi Magnússon

6. flokkur eldri

Besta ástundun  Einar Gauti Ólafsson

Mestu framfarir Magnús Karl Ásmundsson

Prúðasti leikmaðurinn Kristján Ágústsson

6. flokkur yngri

Besta ástundun Theódór Sigurbjörnsson

Mestu framfarir Kjartan Guðjónsson

Prúðasti leikmaðurinn Anton Björnsson

7. flokkur eldri

Besta ástundun Guðni Sigurðsson

Mestu framfarir Hannes Jóhannsson

Prúðasti leikmaðurinn Bjarni Kristjánsson

7. flokkur yngri

Besta ástundun Daníel Jónsson

Mestu framfarir Alexander Karlsson

Prúðasti leikmaðurinn Sæþór Hallgrímsson

Kvennaflokkar

3. flokkur

Besta ástundun Thelma Sigurðardóttir

Mestu framfarir Berglind Stefánsdóttir

Besti leikmaður Margrét Lára  Viðarsdóttir

4. flokkur

Besta ástundun Ester  Óskarsdóttir

Mestu framfarir Sara  Sigurðardóttir

Besti leikmaður Lilja Dröfn Kristinsdóttir

5. flokkur eldri

Besta ástundun Svava Kristín Grétarsdóttir, Fanndís  Friðriksdóttir, Sædís Magnúsdóttir

Mestu framfarir Hólmfríður Hartmannsdóttir

Prúðasti leikmaður Hafdís Guðnadóttir

5. flokkur yngri

Besta ástundun Elísa  Viðarsdóttir

Mestu framfarir Aníta Elíasdóttir

Prúðasti leikmaður Fjóla Ríkharðsdóttir

6. flokkur eldri

Besta ástundun Berglind Þorvaldsdóttir

Mestu framfarir Erna Dögg Hjaltadóttir

Prúðasti leikmaður Elín Sólborg Eyjólfsdóttir

6. flokkur yngri

Besta ástundun Silvía Dögg Sigurðardóttir

Mestu framfarir Kristjana Sigurðardóttir

Prúðasti leikmaður Guðný Ósk Ómarsdóttir, Kataryna Hlynsdóttir

7. flokkur

Besta ástundun Fanndís Ómarsdóttir, Bjartey Helgadóttir

Mestu framfarir Svava Tara Ólafsdóttir

Prúðasti leikmaður Sísí Garðarsdóttir 

Fyrsti handboltaleikurinn

Það er aldrei stopp hjá ÍBV íþróttafélagi. Og nú þegar fótboltanum í keppnum er að ljúka, halda æfingar áfram hjá yngri flokkunum og handboltinn tekur flugið.  Fyrsti leikurinn hjá meistaraflokki karla í handboltanum, undir stjórn Sigbjörn Óskarssonar var gegn KA á Eyjum. Leiknum lauk með sigri  ÍBV 30-29. Sigbjörn sagði í viðtali við Fréttir „Við lögðum upp með það fyrir mótið að klára alla leikina hérna heima og við vissum að við eigum góða möguleika í þeim leikjum. Við misstum markmanninn okkar út fyrir leikinn þannig að það kom í hlut tveggja manna sem lítið hafa spilað undanfarin ár, að verja markið sem þeir gerðu ágætlega. Svo vorum við að fá síðasta leikmanninn til okkar fyrir þremur dögum þannig að við eigum eftir að bæta okkur og þróa okkar leik.“ 

Tap gegn Haukum

Það gekk ekki eins vel í öðrum leik liðsins þegar liðið mætti Íslandsmeisturum og bikarmeisturum Hauka á heimavelli meistaranna. Haukar eru án efa með sterkasta leikmannahópinn í vetur enda hafa þeir haldið nánast öllum sínum leikmönnum frá því í fyrra. Eyjamenn tefla hins vegar fram nokkuð breyttu liði enda sáust þess greinileg merki í leik liðanna, þar sem Haukar sigruðu með 36 mörkum gegn 27 mörkum Eyjamanna.  

Héldu ekki meistaratitlinum

Bikarmeistarar ÍBV kvenna í handbolta mættu Íslandsmeisturum Hauka í meistarakeppninni að Ásvöllum í Hafnarfirði. ÍBV átti titil að verja en þrátt fyrir góða byrjun Eyjastúlkna þá töpuðu þær 24:19.

Eyjamaður vann leikinn fyrir Stjörnuna

ÍBV tók á móti Stjörnunni í þriðju umferð Nissandeildarinnar. Í liði gestanna var Eyjamaður, sem átti heldur betur eftir að koma við sögu í leiknum. Sá heitir Birkir Ívar og er Guðmundsson og verður hér með kenndur við Heimaklett, því það var eins og fuglinn fljúgandi væri það eina sem kæmist framhjá honum. Skot Eyjamanna enduðu flest hver á honum enda fór svo að gestirnir sigruðu með tveimur mörkum 25 - 27.

Tap og  sigur og sigur

ÍBV mætti Gróttu/KR í Nissandeild kvenna í fyrsta leik liðsins í Íslandsmótinu. Áður  hafði leik við FH verið frestað vegna samgönguerfiðleika. Leikmenn ÍBV spilaði illa í leiknum, nema þá helst Vigdís Sigurðardóttir sem varði 17 skot í, þar af tvö víti og hélt ÍBV á floti lengst af. Leiknum lauk með sigri Amelu Hegic og félaga, 17-20 en þetta var í fyrsta sinn sem Amela leikur gegn ÍBV.

Nokkrum dögum síðar var svo frestaði leikurinn gegn FH leikinn í Hafnarfirði. Eyjastúlkur áttu ekki í vandræðum með heimamenn, sigruðu með níu marka mun, 23-14 en mestur varð munurinn þrettán mörk í leiknum.

Þá var haldið norður til Akureyrar þar sem ÍBV lék gegn hina unga og efnilega liði Þór/KA en fyrir leikinn höfðu heimastúlkur tapað báðum leikjum sínum í upphafi mótsins. ÍBV hélt hins vegar áfram á sigurbraut eftir útileikinn gegn FH og sigraði með þremur mörkum 16-19, eftir að staðan í hálfleik hafði verið 8-9.

Slæmur fyrri hálfleikur varð liðinu að falli

ÍBV spilaði gegn ÍR í efstu deild karla um miðjan október og fór leikurinn fram í Austurbergi. ÍR-ingar sem mæta B-liði ÍBV í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar, hafa verið á miklu skriði að undanförnu og byrjuðu leikinn af miklum krafti á meðan Eyjapeyjar voru engan veginn klárir í slaginn. Staðan í hálfleik var 21-9 fyrir heimamönnum en leikurinn endaði með átta marka sigri þeirra, 30-22. Arnar Pétursson fyrirliði liðsins sagði að leikmenn ÍBV hefðu einfaldlega ekki verið tilbúnir í slaginn. "Þetta var vægast sagt mjög dapurt hjá okkur. Við vorum bara að spila illa og mér fannst við ekki vera rétt stemmdir fyrir leikinn en á meðan voru þeir á tánum frá fyrstu mínútu. Þeir voru að gera mjög auðveld mörk, enda vorum við ekki að spila neina vörn á þá. Við reyndum öll varnarafbrigði en það lak allt í gegn í fyrri hálfleik. Í ofanálag þá vorum við líka að spila sóknarleikinn illa, vorum að slútta þeim of fljótt og spiluðum of stuttar sóknir. Við settumst niður í hálfleik, róuðum okkur aðeins og sáum að leiðin hlyti að liggja upp á við eftir þetta enda var seinni hálfleikur allt annar og við náðum aðeins að laga stöðuna." Mörk ÍBV: Arnar Pétursson 8, Petras Raupanas 4, Sigurður Ari Stefánsson 3, Mindaugas Andriuska 3, Svavar Vignisson 2, Sindri Ólafsson 2. Varin skot: Jón Bragi Arnarson 13/1, Gunnar Geir Gústafsson 1.

Suðurlandsslagur

Það fór fram sannkallaður Suðurlandsslagur þegar ÍBV tók á móti nágrönnum sínum frá Selfossi í fimmtu umferð 1. deildar karla í handbolta. Gengi liðanna hefur verið upp og ofan í vetur og voru þau bæði í neðri hluta deildarinnar en Selfyssingar höfðu þó tveimur stigum meira en ÍBV. Það var því mikilvægt fyrir ÍBV að sigra til að missa ekki toppliðin of langt frá sér en strákarnir stóðust prófið og sigruðu með tveggja marka mun, 29-27. 

Nú lágu Haukar í því

Kvennalið ÍBV tók á móti Íslandsmeisturum Hauka en þar mættust meistarar síðustu ára því Eyjastúlkur eru ríkjandi bikarmeistarar. Liðin mættust einmitt í meistarakeppninni fyrir tímabilið þar sem Haukar fóru létt með ÍBV en nú var allt annað uppi á teningnum. ÍBV sýndi svo sannarlega styrk sinn í varnarleiknum, því Íslandsmeistararnir skoruðu aðeins fjórtán mörk í öllum leiknum og ÍBV vann leikinn með því að skora átján.

Bæði liðin slegin út úr bikarnum

Karlalið ÍBV fékk verðugt verkefni í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar þegar liðið þurfti að leika gegn HK og fór leikurinn fram á heimavelli þeirra síðarnefndu. Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið í jafnræði til að byrja með þá voru það heimamenn sem sigu framúr í seinni hálfleik og sigruðu með tíu mörkum 23-33. Eyjamenn verða því að bíða í eitt ár í viðbót eftir bikarævintýrinu sem hefur látið á sér standa síðustu tíu árin.

Það var hinsvegar mikið um dýrðir þegar B-lið ÍBV mætti 1. deildarliði ÍR í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar. Fyrirfram var búist við erfiðum róðri Eyjamanna en þeir fylgdu eftir glæsilegri innkomu fyrir leikinn, leiddu fyrstu tuttugu mínúturnar og náðu m.a. tveggja marka forystu um tíma. Dómaraparið, sem lengi hefur verið eitt það lélegasta í Evrópu, gerði í því að dæma með lélegra liðinu og létu Eyjamenn það fara í taugarnar á sér. Þar fór því svo  að B-lið ÍBV mátti þola tap, lokatölur 19-32.

 Sigurinn lenti röngu megin

Á Íslandsmótinu lék ÍBV gegn Aftureldingu á heimavelli þeirra í Mosfellsbænum en leikir liðanna hafa yfirleitt verið jafnir og spennandi. Sú varð einmitt raunin í þetta skiptið, aðeins munaði einu marki í lok leiksins en það lenti röngu megin og því tapaði ÍBV sínum fjórða útileik í röð á þessu tímabili. Lokatölur urðu 27 - 26. 

Varnarleikurinn tryggði sigurinn

Kvennalið ÍBV gerði góða ferð í Safamýrina þegar liðið lék gegn Fram í fimmtu umferð 1. deildar kvenna. Liðið er að spila frábæra vörn um þessar mundir en varnarleikurinn tryggði liðinu án efa stigin tvö á laugardaginn. ÍBV sigraði í leiknum 18-28 en sigurinn hefði getað orðið mun stærri.

Mörk ÍBV: Ana Perez 10, Andrea Atladóttir 9, Ingibjörg Jónsdóttir 3, Milana Mileusnec 2, Elísa Sigurðardóttir 2, Þórsteina Sigurbjörnsdóttir 1, Isabel Ortiz 1. Varin skot: Vigdís Sigurðardóttir 14.

En nú dugði varnarleikurinn ekki

ÍBV mætti Víkingum í 1. deild kvenna  og fór leikurinn fram í Víkinni. Fyrirfram var frekar búist við sigri ÍBV enda eru Víkingar í neðri hluta deildarinnar. En Guðbjörg Guð- mannsdóttir, sem lét reyndar fara lítið fyrir sér í leiknum, og félagar hennar í Víkingi voru á öðru máli og voru yfir í hálfleik. Leikurinn endaði með tveggja marka sigri heimastúlkna, 17- 15.

Og svo small liðið saman

ÍBV tók á móti efsta liði 1. deildar kvenna, Stjörnunni, en Stjarnan hafði fyrir leikinn ekki tapað leik í deildarkeppninni. Það var því mikilvægt fyrir ÍBV að vinna leikinn til að missa Garðbæinga ekki of langt frá sér í toppbaráttunni sem framundan er. Það gekk eftir og sannfærandi sigur á efsta liði deildarinnar hlýtur að gefa liðinu byr undir báða vængi eftir brotlendinguna gegn Víkingi í síðustu viku. Lokatölur urðu 26 - 24 en í hálfleik var staðan 13-12 fyrir ÍBV. 

Bingó

Með reglulegu millibili voru haldin bingó í Þórsheimilinu til styrktar unglingastarfi ÍBV íþróttafélags. 22. nóvember eru þessir munir í vinninga: Vídeo frá Geisla - Peningapottur -Fondu pottur og koníakssett frá Gullbúðinni. - Kertastjaki og skál frá Eyjablóm.- Gjafabréf frá Vöruval og Bifreiðaverkstæði Harðar og Matta. - Lampi og hilla frá Reynistað.

Styrkið unglingastarf ÍBV með því að mæta á reyklaus Bingó. 

Skeljungur endurnýjar samning við ÍBV

ÍBV-íþróttafélag og Skeljungur hf. endurnýjuðu samning um samstarf næstu tvö árin. Með samningnum heldur Skeljungur áfram myndarlegum stuðningi við íþróttahreyfinguna Vestmannaeyjum og verður aðal styrktaraðili meistaraflokks karla og yngri flokka karla í handboltanum, segir í frétt frá ÍBV. Skeljungur er jafnframt aðalstyrktaraðili Shellmótsins sem haldið er árlega í Vestmannaeyjum fyrir 6. flokk karla í knattspyrnu. Samstarfið í handboltanum hófst árið 1997 og hefur verið mjög farsælt. Um leið og Jóhann Pétursson í stjórn handboltans, þakkaði myndarlegan stuðning sagði hann að samstarfið hefði verið betra en besta hjónaband. Friðrik Stefánsson hjá Skeljungi sagði að samstarfíð við ÍBV hefði verið mjög farsælt og ánægjulegt. Vestmannaeyingar hefðu gert sér far um að standa við gerða samninga og yfirleitt gert gott betur.

Á réttri leið

24. nóvember ÍBV tók á móti Gróttu/KR í Eyjum í Essodeildinni eins og efsta deildin heitir þennan veturinn. ÍBV hefur gengið herfilega það sem af er vetrar og fengið mikið af mörkum á sig. Koma Harðar Flóka Ólafssonar til liðs við liðið hefur virkað sem vítamínsprauta á varnarleik liðsins. Nú hefur hann leikið tvo leiki og niðurstaðan er jafntefli á útivelli gegn FH og svo sigur á heimavelli gegn Gróttu/KR. Lokatölur í leiknum urðu 29-27 eftir að ÍBV hafði yfir í hálfleik, 14-10. Það virðist sem Sigbjörn Óskarsson sé á réttri leið með ÍBV. Það er hins vegar ekki Hörður Flóki sem vinnur leikina einn og sér. Ungir leikmenn skera úr um hverjir eru bestir.  Ungir leikmenn hafa verið að koma inn í liðið, Sigurður Ari og Sindri Ólafsson hafa skipt með sér hægra horninu en Sigurður er framtíðarskytta liðsins. 

Heimavöllurinn farinn að skila sér

ÍBV tók á móti næstefsta liði Essodeildarinnar í byrjun desember. Valsmönnum höfðu fyrir leikinn ekki tapað leik í deildinni. Leikir liðanna í gegnum tíðina hafa iðulega verið jafnir og skemmtilegir, þar sem baráttan hefur jafnvel náð út fyrir völlinn. Leikurinn yljaði þeim sem hugsa með hlýhug til gömlu góðu daganna þegar ÍBV náði hvað bestum árangri en liðið varð bikarmeistari 1991. ÍBV sigraði í leiknum, nokkuð sannfærandi með fimm mörkum, 34- 29 en náði mest sjö marka forystu.

Arnar Pétursson sagði eftir leikinn að heimavöllurinn væri loksins farinn að skila hagstæðum úrslitum.

Björn fær viðurkenningu

Á  aðalfundi Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands fékk Björn Elíasson ÍBV viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka félags síns. Hann hefur  lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnu- þjálfarastéttinni til sóma við störf sín segir í frétt frá KÞÍ.

Markverðirnir vörðu yfir 50 skot

ÍBV tók á móti Val í Esso-deild kvenna en þessi lið mættust einmitt í síðasta leik ÍBV sem var í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Þá átti ÍBV ekki í vandræðum með gestina en í þetta sinn var leikurinn ekki jafn auðveldur. Valsstúlkur byrjuðu leikinn mjög vel og markvörður þeirra var leikmönnum ÍBV heldur betur erfiður. Vigdís Sigurðardóttir lét hins vegar ekki sitt eftir liggja og alls vörðu markverðirnir yfir fimmtíu skot í leiknum. ÍBV hafði þrátt fyrir það nokkuð öruggan þriggja marka sigur, 20-17 og kom sér þar með á topp deildarinnar ásamt Haukum og Stjörnunni.

Þetta var síðasti handboltaleikur ÍBV á þessu ári.

Samskip styrkja ÍBV

Rétt fyrir hátíðirnar var undirritaður samningur á milli Samskips og handknattleikshreyfingarinnar í Vestmannaeyjum. Um er að ræða samning við bæði karla- og kvennadeild ÍBV og gildir hann til þriggja ára. Fulltrúar handknattleiksdeildanna lýstu yfir mikilli ánægju með samninginn sem og Björgvin Arnaldsson, forstöðumaður Samskipa í Eyjum. Samningurinn felur í sér beina peningastyrki að upphæð 1,8 milljónir króna sem dreifist á milli deildanna næstu þrjú árin. Eins hljóðar samningurinn upp á ferðir með Herjólfi að upphæð 200.000 krónur á ári, miðað við einingarverð. Í staðinn fær Samskip auglýsingu á gólfi íþróttasalarins, fánar fyrirtækisins og merki verða áberandi á heimaleikjum ÍBV og Samskip verður kynnt sem einn af aðalstyrktaraðilum ÍBV.

Nýtt íþróttahús

Nýtt og glæsilegt íþróttahús var vígt í endaðan desember og lætur nærri að tæplega 1000 manns hafi mætt á vígsluhátíðina. Með þessu húsi eru Eyjamenn komnir í fremstu röð varðandi aðstöðu fyrir íþróttamenn og með þessu húsi ættu æfingatímar ungra íþróttamanna að færast til og er stefnt að því að allir æfingatímar verði búnir klukkan 21.30. Aðstaða fyrir áhorfendur tekur einnig stakkaskiptum og ættu að vera hvati fyrir Eyjamenn að fjölmenna á kappleiki í framtíðinni. Helst má segja að hljómburður í húsinu sé eitthvað sem má laga, en fólk kvartaði undan því að heyra ekki skilmerkilega ræður sumra ræðumanna.

Það voru margir sem tóku til máls við vígslu íþróttahússins, en fyrstur steig í pontu, eftir að Lúðrasveit Vestmannaeyja lauk sér af, var Ársæll Sveinsson framkvæmdastjóri Steina og Olla sem byggðu húsið. Ársæll  lýsti húsinu frá sjónarhóli verktakanna. Í máli hans kom fram að í janúar 2000 hafi verið ákveðið að ráðast í þessa framkvæmd og varð stálgrindahús frá Finnlandi fyrir valinu. Fyrsta skóflustungan var tekin 17. júní og 15. júlí hófst uppgröftur. Að

jafnaði voru 15-20 manns við störf í húsinu en allt upp í fjörutíu manns þegar mest var. Ársæll taldi upp helstu aðila sem komu að verkinu og hvað húsið býður upp á, en þar er einn keppnisvöllur, tveir löglegir handboltavellir, sex minni handbolta- og knattspyrnuvellir, tíu badmintonvellir, þrír blakvellir, tveir körfuboltavellir og fjórir búningsklefar. Sæti og bekkir

eru fyrir 800 manns og húsið er í heild 3100 fermetrar. Síðan afhenti Ársæll Guðjóni Hjörleifssyni bæjarstjóra lyklana að húsinu.

Guðjón sagði að húsið hefði verið á áætlun sem hljóðaði upp á 310 milljónir auk verðbóta. Aukaverk voru 7 milljónir. Guðjón lauk sínu máli með því að kalla fram Andreu Atladóttur formann íþróttaráðs og afhenda henni lyklana.

Björn Bjarnason menntamálaráðherra klippti svo á borðann og tók húsið formlega til notkunar.

Fleiri komu við í pontu og lýstu yfir ánægju sinni með nýja íþróttahúsið, þeirra á meðal voru

Ellert B. Schram formaður ÍSÍ, Ólafur Elísson sparisjóðsstjóri, Birgir Sveinsson formaður ÍBV og Árni Þór Árnason formaður Fimleikasambands Íslands, en hann var eini formaður

sérsambands innan ÍSÍ sem sá sér fært að mæta en Gunnar Gunnarsson mætti fyrir hönd HSÍ.

Eftir ræðuhöldin tók við glæsileg fimleikasýning ungra félaga úr fimleikafélaginu Rán. Eftir sýninguna tók við afhending verðlauna fyrir framúrskarandi árangur í hinum ýmsu

íþróttagreinum og eins var íþróttamaður Vestmannaeyja krýndur, og varð Íris Sæmundsdóttir knattspyrnukona fyrir valinu.

Það var vel við hæfi að stelpurnar í handknattleiksliði ÍBV skyldu leika vígsluleikinn í nýja húsinu, enda hafa þær staðið sig frábærlega undanfarin ár og ekki voru andstæðingarnir af

verri endanum, landslið Íslands. Leikurinn var bráðskemmtilegur allan tímann og skemmtu fjölmargir áhorfendur sér vel, en ÍBV vann leikinn með einu marki og skoraði Dagný Skúladóttir sigurmarkið rétt fyrir leikslok. Því má með sanni segja að byrjunin lofi góðu í nýju húsi.

Æfingar á kristilegum tíma

Magnús Bragason, formaður handknattleiksdeildar karla, segir að nýja íþróttahúsið breyti miklu fyrir allt íþróttastarf í Vestmannaeyjum. „Þetta skiptir miklu máli fyrir handboltann,

sérstaklega fyrir yngri flokkana því við getum haldið fjölliðamót aftur í Eyjum. Æfingatímar allra flokka verða á kristilegum tíma og auðveldara að fá húsið til afnota fyrir æfingaleiki. Síðast en ekki síst er aðstaðan fyrir áhorfendur miklu betri. Nú eru 800 sæti fyrir áhorfendur á móti 120 áður. Nú hefur fólk enga afsökun fyrir því að koma ekki á leiki. Fyrsti leikurinn hjá okkur verður 5. febrúar á móti Haukum."

Magnús segir að með tilkomu hússins verði möguleikar á fjölliðamótum og æfingaleikum miklu meiri. „Mót hefur verið sett á, í fimmta flokki karla, sem við hefðum ekki fengið ef nýja aðstaðan væri ekki fyrir hendi. Við erum þegar búnir með tvo æfingaleiki við Víking og tvö önnur lið hafa haft samband og vilja spila æfingaleiki í janúar. Þetta hefur ekki komið upp áður og við orðið að biðja menn að koma hingað. Funda- og stjórnaraðstaða, sem við höfðum ekki áður, skiptir miklu máli. Nú geta strákarnir haldið myndbandafundi þar sem hvort tveggja er fyrir hendi, sjónvarp og myndbandstæki. Við höfum bestu aðstæður sem

hugsast getur, möguleikarnir miklir og sóknarfæri mörg. Við vonum að fólk hjálpi okkur að gera þetta að sömu ljónagryfju og hinn salurinn var,"

Gamla árið kvatt

Árið 2001 var  svo kvatt með mikilli brennu í Hásteinsgryfjunni, sem ÍBV íþróttafélag stóð að.


Til baka á forsíðu