Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1974/ Fiskikóngur Vestmannaeyja 1974

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. maí 2019 kl. 14:30 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. maí 2019 kl. 14:30 eftir Valli (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Fiskikóngur Vestmannaeyja 1974


Daníel W. F. Traustason skipstjóri


Aflahæsti bátur á vetrarvertíðinni 1974 í Vestmannaeyjum var Kópur VE 11 undir skipstjórn Daníels Willard Fiske Traustasonar eins og hann heitir fullu nafni, en þekktur er hann í Eyjum undir nafninu Villi Fischer, sem mætti útleggja Villi fiskimaður - og ber hann það nafn með rentu nú, er hann öðlast eftirsóttan en jafnframt torfenginn titil fiskikóngs Vescmannaeyja árið 1974.
Daníel er fæddur í Grímsey 18. júní 1928. Hið erlenda nafn Daníels vitnar um forna og nú getum við sagt nýja frægð Grímseyinga, en Willard Fiske, sem fiskikóngurinn heitir í höfuð á, var velgjörðarmaður þeirra eyjaskeggja; heimsfrægur prófessor í norrænum fræðum, við Cornellháskóla í borginni íþöku í New York-fylki, Vesturheimi, f. 1831 - d. 1904. Fiske kom hingað til lands 1880 og hreifst svo af skákkunnáttu Grímseyinga, að hann gaf hverjum íbúa eyjarinnar tafl og gott safn bókmennta um skák. Halda eyjarskeggjar fæðingardag prófessors Fiske síðan hátíðlegan.
Ekki er vitað, hvort Villi okkar er góður í þeirri klasssíku skák, sem hreif nafna hans, en alla vega hefur hann skákað mörgum á liðinni vertíð og að lokum mátað alla skipstjóra í verstöðinni, sem sóttu eftir þeim gula af kappi. Sjálfur var hann kóngurinn í borði. Þetta hefði nafna hans, margfrægum manninum, líkað.
Hér á síðum Sjómannadagsblaðsins hefur verið venja að rekja feril mikilla aflamanna á sjótrjánum og snúum okkur þá að því.

Daníel Traustason byrjaði ungur til sjós á trillum frá Grímsey. Hann lauk hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum i Reykjavík árið 1955 og það ár kom hann til Vestmannaeyja. Daníel hóf skipstjórn með Ísleif gamla árið 1956, tók síðan við m/b Fjalar og var með hann í þrjú ár. Árið 1960 sótti hann nýjan bát Helga Benediktssonar, Hringver, til Svíþjóðar og var skipstjóri með hann í önnur þrjú ár. Þetta var á þeim árum, þegar síldarævintýrið var að hefjast og síld var mokað upp með hringnót og fiskrita („asdikki“). Villi var fljótur að tileinka sér þessa nýju fiskveiðitækni og rótfiskaði. Réðist hann nú til Einars ríka Sigurðssonar og sótti Engey, nýtt skip til Noregs, fiskaði hann vel á það skip. Þetta árið var ágætur þorskafli í nót og veiddu þeir vel. Tók Villi því við næsta nýju skipi, sem Einar keypti frá Noregi, Akurey RE og var hann með það skip í ár.

Kópur VE 11 - aflahæsti bátur á vetrarvertíðinni í Vestmannaeyjum 1974, afli 974 tonn.


Árið 1965 byrjaði Villi í útgerð og keypti Kóp af Einari Sigurðssyni. Hann hefur átt þann bát síðan og hefur alltaf skilað drjúgum afla og oft prýðilegum. Kópur var t. d. þriðji aflahæsti bátur í Vestmannaeyjum vertíðina 1970 og er mér minnisstætt, að þá vertíð endaði Villi með roktúr á trolli austur við Ingólfshöfða og landaði 40 tonnum daginn fyrir núgildandi vertíðarlok, 14. maí.
Vélbáturinn Kópur er um 100 rúmlestir brúttó, mældur 92 rúmtonn, en er 70 RT nettó. Hann er smíðaður í Svíþjóð árið 1943 og var áður gerður út frá Suðurnesjum og hét Skíðblanir. Árið 1962 var báturinn endurbyggður. í honum er 450 ha. Wichmann vél frá 1968. Á síldarárunum góðu var báturinn gerður út á síld og var alltaf undir skipstjórn mikilla aflamanna. Hefur báturinn því borið margan uggann að landi og oft verið boðið mikið.
Á vetrarvertíðinni 1974 dró Kópur út 1. febrúar, en tók upp netin 15. maí. Þeir voru með net alla vertíðina og var 11 manna áhöfn á bátnum. Það má segja, að áhöfnin hafi í upphafi vertíðar verið allfjölbreytilegur hópur, menn af þremur þjóðernum og sumir sem ekki höfðu verið á sjó áður. Þeir reyndust samt allir harðduglegir og vantaði aldrei einn einasta dag. Er á leið vertíðina var skipshöfnin ein samvinnandi heild, eins og vel stillt hljóðfæri, sem skilar sínu, er strengur er dreginn. Aflinn varð rúm 975 tonn og skiptist þannig, að 733 tonn af aflanum var þorskur, en 242 tonn voru ufsi. Brúttóaflaverðmæti var 20,4 milljónir króna. Hásetahlutur var um 600 þúsund krónur.

Daníel hélt sig alla vertíðina að veiðum skammt fyrir austan Eyjar. Í um tvo mánuði lögðu þeir netin svo til á sama, í Gjánni; en 29. mars flutti hann netin á Holtshraun og þar fengu þeir ágætan afla. Á annan í páskum, 15. apríl, fengu þeir á Holtshrauni sinn stærsta róður á vertíðinni, 45 tonn af ríga þorski.

Skipshöfnin á aflaskipinu Kópi, vetrarvertíðina 1974. Fremri röð, talið frá vinstri: Sigmundur Cæsar Karlsson Vestm., Friðlaugur Friðjónsson Þórshöfn, William S. Becks USA. Aftari röð, frá vinstri: Gísli Ingólfsson 1. vélstj. Kurt Steinborg Danmörku, Daníel W. F. Traustason skipstj., Trausti Bergland Fjólmundsson stýrim., Benedikt Hjartarson Rvík, James E. Burt USA(dóttursonur Sig. Bjarnasonar sjómans hér). Auk þess voru skipverjar Lárus Sæmundsson og steinar Ágústsson matsveinn.)


Daníel Traustason er kvæntur Hildi Jónsdóttur frá Sólvangi í Vestmannaeyjum, eiga þau þrjú stálpuð börn.
Villi Fischer eins og hann er oftast kallaður og þekktur af sjómönnum víða um landið er sérstakur persónuleiki, sem tekið er eftir, myndarlegur sjómaður. Hann hefur verið vaxandi aflamaður og hefur ávallt skilað drjúgum hlut yfir árið. Daníel hyggst nú selja Kóp og vonandi getum við óskað honum til hamingju með nýja fleytu, stærri og burðarmeiri í næsta blaði. Ekki er óliklegt, að fiðringur fari um gamlan síldar- og nótamann, þegar loðnumokið er sem mest í hringnótina.
Vestmannaeyingar óska Daníeli Traustasyni, skipshöfn hans og fjölskyldum, heilla og far­sældar. Heiti fiskikóngs ber gamalreyndur sjómaður með sæmd.