Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2010/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. janúar 2019 kl. 13:42 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. janúar 2019 kl. 13:42 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
MINNING LÁTINNA


Jón Ingi Hauksson
F. 8. maí 1943 - D. 6. júlí 2008.
Jón Hauksson, lögfræðingur var fæddur í Árnessýslu 8. maí 1943. Lauk stúdentsprófi frá Laugarvatni og útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Á námsárunum stundaði hann sjómennsku á sumrin, var t.d. með Friðriki Ásmundssyni á Sindra VE. Hann ákvað að setjast að í Eyjum, enda eiginkona hans héðan, starfaði fyrst sem fulltrúi bæjarfógeta en opnaði síðar sína eigin lögmannsstofu sem hann rak til dauðadags.
Þó svo að Jón starfaði ekki sem sjómaður nema lítinn hluta ævinnar, átti hann þó sinn þátt í sjómannamenntuninni í Eyjum því um áratuga skeið sá hann um kennslu í sjórétti við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og þar vorum við vinnufélagar í mörg ár, auk þess sem hann kenndi mér þau tvö ár sem ég var í skólanum sem nemandi. Hann átti til að gleyma því á þriðjudögum að hann átti að vera að kenna uppi í Stýrimannaskóla en ekki að vinna niðri í Viðskiptaþjónustu. Einn þriðjudaginn var hann ekki mættur og við nemendurnir sátum og slöppuðum af í rólegheitum þegar Friðrik skólastjóri kom fram og spurði af hverju við værum ekki í tíma. Við sögðum sem var að Jón væri ekki mættur. Með það stormaði skólastjórinn inn á kennarastofu og hringdi í Viðskiptaþjónustuna. Þar svaraði Jón í símann af sínu kunna hæglæti. Og skilaboðin voru stutt og laggóð frá skólastjóranum: „Þú þarna og átt að vera hérna“! Svo var tólinu skellt á og nokkrum mínútum seinna var Jón mættur og farinn að kenna sjórétt.
Ég kynntist Jóni gegnum Bridsfélagið en hann var afburða bridsspilari, bar höfuð og herðar yfir aðra spilara í Eyjum. Þá var hann einnig ágætur golfleikari og hvatti mig á sínum tíma til að leggja þá ágætu íþrótt fyrir mig.
En minnisstæðastur er þó Jón mér fyrir góða kímnigáfu sína og snögg og skemmtileg tilsvör. Þau voru mörg og góð, ekki síst þegar setið var að spilum á Skólavegi 7, hjá Bjarnhéðni heitnum Elíassyni sem sjaldan varð heldur orða vant. Þegar Jón var skipverji hjá Friðriki Ásmundssyni gerðist það í einum túrnum að stýrimaðurinn um borð varð fertugur. Þegar hann kom fram í lúkar að morgni afmælisdagsins varð honum að orði: „Jæja, þá er maður kominn á fertugasta tuginn.“ Jón var fljótur til svars og sagði: „Nú, svo að þú manst þá væntanlega eftir Tyrkjaráninu.“
Jón var kvæntur Svölu Hauksdóttur frá Vatnsdal í Vestmannaeyjum og eignuðust þau þrjú börn. Hann lést, langt um aldur fram, þann 6. júlí 2008.

Sigurgeir Jónsson


Jóhannes Esra Ingólfsson
F. 7. október 1948 - D. 23. júlí 2009.
Tengdafaðir minn, Jóhannes Esra Ingólfsson, fæddist hér í Vestmannaeyjum, 7. október 1948. Hann var sonur hjónanna Ingólfs Guðjónssonar frá Skaftafelli hér í bæ og Jóhönnu Hjartardóttur ættaðri úr Dalasýslu. Þegar Esra var þriggja ára, keypti faðir hans húsið Lukku og var hann alltaf kenndur við æskuheimili sitt, þar sem hann ólst upp með Hirti eldri bróður sínum.
Esra byrjaði á sjónum 17 ára á Guðjóni Sigurðssyni með Bóa í Dal (Sigurði P. Oddssyni) en eftir að hafa verið þar í nokkra mánuði, hætti hann á sjónum í bili og fór í nám. Esra lærði jámsmíði í Magna og að því loknu fór hann aftur á sjóinn og reri þá á Blátindi og Emmu. Í gosinu var Esra í Grindavík og reri þá á Hilmi KE. Þegar hann flutti aftur heim til Eyja eftir gosið gerði hann hlé á sjómennskunni og vann í Áhaldahúsinu til ársins 1982, fór þá á sjóinn aftur með Stjána á Emmunni (Kristjáni Óskarssyni) en lengst af sjómennskunni var hann kokkur hjá Bedda á Glófaxa (Bergvin Oddssyni) en matreiðsla var eitt af áhugamálum hans. Síðast var hann á Guðrúnu en varð að hætta sjómennsku þegar hann slasaðist 2007.
Esra kvæntist Báru Guðmundsdóttur frá Presthúsum og eignaðist með henni fjögur börn, þau Ásu, Guðmund, Ingólf og Bryndísi, þau slitu síðar samvistum. Seinni konu sinni, Guðnýju Thórshamar, giftist hann árið 2007, saman eignuðust þau eitt barn, Írenu. Það má segja um Esra að hann hafi alltaf verið að flýta sér, hann var orðinn pabbi 18 ára og ári seinna voru fest kaup á nýlegu einbýlishúsi. Það gekk alltaf mikið á hjá honum og hellti hann sér í hvert áhugamálið á fætur öðru og þá var mikið spáð í hlutunum. Mér er minnistætt hve ákafur hann var þegar við vorum á netavertíð, hann á Glófaxa og ég á Bjarnarey, um leið og maður datt inn úr dyrunum þá gall við. „Hvað voruð þið með?“ og það var ekki leiðinlegt ef Glófaxi var með meira, en þetta var á þeim árum þegar fiskirí var keppni.
Á sjómannadaginn 2008 heiðraði sjómannafélagið Jötunn Esra, var hann stoltur af því. Það er ekki hægt að segja annað um Esra en að hann hafi verið glaðlyndur, hann var allt af í góðu skapi og ekkert að flækja hlutina, það var allt svo einfalt, má með sanni segja að hann hafi lífgað upp á tilveruna og hann var einn af þeim mönnum sem settu svip á mannlífið hér í Eyjum. Blessuð veri minning Jóhannesar Esra Ingólfssonar.

Andrés Þorsteinn Sigurðsson.


Ólafur Helgi Runólfsson
F. 2. janúar 1932 - 1). 7. desember 2009.
Ólafur Helgi fæddist á Búðarfelli, húsinu númer 8 við Skólaveg, 2. janúar 1932. Foreldrar hans voru hjónin Guðný Petra Guðmundsdóttir frá Fáskrúðsfirði og seinni maður hennar, Runólfur Runólfsson, fæddur undir Vestur Eyjafjöllum. Eldri sonur Petru og Ólafs Einarssonar skipstjóra var Einar Guðmundur. Yngri sonur þeirra Petru og Runólfs er Stefán Guðlaugur. Ólafur sleit barnsskónum í Eyjum og átti þar heima fram á sextugsaldur. Hann var lífsglaður og þróttmikill, tók virkan þátt í félagslífi og íþróttum og lék á yngri árum knattspyrnu með íþróttafélaginu Þór og ævilangt varð fótboltinn honum áhugamál bæði sem þáttakandi og sem áhorfandi síðar meir. Hann vann það þrekvirki, aðeins sextán ára gamall, að klífa Þrídranga við Vestmannaeyjar við þriðja mann sem fáir höfðu áður gert og ekki margir leikið eftir, síst svo ungir menn.
Hann fór til sjós sautján ára gamall, fyrst á síld um sumarið háseti á Sjöstjörnunni, sama haust fór hann á samning í húsasmíði. Sveinsprófi lauk hann 1953 hlaut meistarabréf í grein sinni þremur árum síðar og stofnaði þá, ásamt nokkrum félögum sín- um Nýja kompaníið sem þeir ráku um árabil. Ólafur söðlaði um tólf árum síðar og hóf þá nám í Matsveina og veitingaskólanum. Síðan fer hann á sjóinn sem kokkur á Gullborgu, með Binna í Gröf, á Ísleifi IV og Vestmannaey. Kjöthnífurinn lék ekki síður í höndum hans en klaufhamarinn og hann naut sín vel í starfi matreiðslumannsins. Vann hann við þá grein hjá Fiskiðjunni fram að gosi. Fór þá upp á land og dvaldi ásamt fjölskyldu sinni í Hveragerði. Hann fór svo aftur til Eyja eins fljótt og verða mátti og fjölskyldan í kjölfarið. Ári síðan tók Ólafur við framkvæmdastjórn Herjólfs og gegndi því starfi í tæpan áratug.
Ólafur var félagslyndur maður alla ævi, jákvæður og bjartsýnn, og lét um sig muna við ýmis framfaramál í Eyjum. Hann var meðal stofnenda Lions klúbbsins og kunni vel að meta og leggja lið líknarstarfi Lionsmanna. Baráttuna við Bakkus þekkti hann af eigin raun og tók höndum saman við góða menn um að efna til AA-deildar í Vestmannaeyjum, sem reyndist honum sjálfum og mörgum öðrum drjúgt heillaspor og mikilvægur áfangi á bataveginum. Einnig var hann félagi í Oddfellow og Gideon.
Ólafur kvæntist 21. júní 1953 Sigurborgu Björnsdóttur frá Seyðisfirði, hún er úr hópi fimmtán barna hjónanna Grímlaugar Margrétar Guðjónsdóttur og Björns Björnssonar. Ólafur og Sigurborg stofnuðu heimili í kjallaranum á Búðarfelli en reistu sér hús á Fjólugötu 11 þar sem þau áttu heima uns þau fluttust til Reykjavíkur 1988 í kjölfar vanheilsu Sigurborgar en hún lést 1993.
Þau hjón eignuðust fjögur börn, elst er Guðrún Petra gift Jóhannesi Kristinsyni og era börn þeirra: Ólafur Borgar, Íris Dögg og Kristinn Þór. Margrét Birna var önnur í röðinni, hún dó sex mánaða gömul. Þriðja er Ester, gift Einari Bjarnasyni og eru börn þeirra: Kristborg, Elva Björk, Bjarni Rúnar og Sara Rós. Yngstur er Birgir Runólfur, hans kona er Helga Jónsdóttir og börn þeirra Tinna Rós, Eyþór Helgi, Eva Kolbrún, Jón Ágúst, Viktor Ingi og Andri ísak.
Ólafur kvæntist aftur 12.12.01 Ingibjörgu Magnúsdóttur úr Borgarfirði. Hann var húsvörður á Skúlagötu 64 og síðar í Austurbrún 6 uns hann lét af störfum sjötugur að aldri.
Ólafur var kærleiksríkur og umhyggjusamur, snyrtilegur, hress og skemmtilegur, fagurkeri, vandvirkur með afar fallega rithönd og hann hélt dagbók. Alltaf vel klæddur í jakkafötum og skyrtu, teinréttur með vindilinn. Góða skapið var aðalsmerki Ólafs og brosið fylgdi honum gegnum þykkt og þunnt.
Ólafur átti við heilsuleysi að stríða síðustu árin vegna hjarta- og æðasjúkdóma, og fyrir fjórum árum þurfti að taka af honum hægri fótinn af þeim sökum. Þær hindranir sem fylgdu í kjölfarið yfirsteig hann með léttri lund sinni, gamansemi og kímnigáfu, og hann dvaldi aldrei við vandamálin sem upp kunnu að koma, heldur horfði hann björtum augum fram á við í leit sinni að lausnum á því sem leysa þurfti. Þannig varð jafnaðargeð Ólafs og ljúflyndi til að létta honum marga raun, og æðruleysið hjálpaði honum að sætta sig við það sem hann gat ekki breytt.
Elsku pabbi, tengdó og afi, að leiðarlokum langar okkur að þakka samfylgdina.

Ester, Einar og Sara Rós


Victor Hans Halldórsson
F. 26. mars 1921 - D. 1. maí 2010.
Victor Hans Halldórsson var fæddur 26. mars 1921 í Reykjavík, d. 1. maí 2010. Victor var sonur hjónanna Halldórs Einarssonar bifreiðarstjóra f. 25. nóvember 1884 d. 28. ágúst 1948 og Öndísar Kristínar Önundardóttur f. 14. maí 1903 d. 31.mars 1984.
Victor var kvæntur Jóhönnu Guðjónsdóttur f. 5. júní 1922 í Ásbyrgi í Vestmannaeyjum.
Börn Victors og Jóhönnu voru Lilja f. 3.febrúar 1945 d. 3. mars 1945, Lilja f. 18. maí 1946 d. 6. nóv 1953, Vigdís f. 15. september 1950 gift Sigurði Þorvarðarsyni og eiga þau 2 börn. Lilja Dóra f. 19. febrúar 1956 gift Halldóri Frímannssyni og eiga þau 3 börn. Bergþóra f. 17. apríl 1957 gift Ævari Valgeirssyni og eiga þau 3 börn. Guðjón Þór f. 25. nóv 1959 giftur Aðalbjörgu Benediktsdóttur og eiga þau 2 börn.
Áfram rennur tímans elfur og vinir kveðja, þetta er gangur lífsins.
Victor mágur okkar lést á Landakotsspítala á degi verkalýðsins 1. maí síðastliðinn 87 ára að aldri.
Lífsbaráttan hófst snemma hjá Victori eins og hjá mörgum ungum mönnum á þessum árum. Ungur kom hann til Vestmannaeyja og réð sig sem háseta á m/b Atlantis Ve 222. Skipstjóri var Sigmundur Karlsson.
Fljótlega eftir komu hans til Eyja kynntist hann systur okkar, Jóhönnu, er síðar varð kona hans. Þau gengu í hjónaband 4. ágúst 1946.
Victor var síðar með þekktum aflamönnum, Willum Andersen á m/b Skógafossi, Guðmundi Vigfússyni á m/b Voninni, Steingrími Björnssyni á m/b Jökli og síðast með frænda okkar Guðjóni Jónssyni á m/b Skuld Ve.
Eftir að sjómennsku lauk fluttust þau til Reykjavíkur og hóf Victor störf sem leigubílstjóri hjá Bifreiðastöð Steindórs þar sem hann starfaði stutt, festi kaup á fólksbifreið og gerðist meðlimur í Bifreiðastöðinni Hreyfli. Þar starfaði hann í mörg ár, síðar gerðist hann rútubifreiðastjóri hjá Vestfjarðaleið og starfaði þar þar til hann var kominn á aldur. Í öllum störfum var hann lofaður fyrir góða þjónustu og snyrtimennsku.
Það var mikil guðs gjöf þegar Victor varð meðlimur í fjölskyldu okkar, einstakur fjölskyldufaðir, farsælt hjónaband og mikið barnalán en þau urðu fyrir áföllum er þau misstu 2 af börnum sínum á unga aldri.
Hjónaband Victors og Jóhönnu hefur verið einstakt og voru þau alltaf tilbúin að rétta ættingjum aðstoð þegar erfiðleikar steðjuðu að og sjálfsögð gisting.
Síðustu mánuðirnir voru Victori mjög erfiðir. Í veikindum sínum naut hann frábærrar umhyggju konu sinnar og barna og að síðustu Landakotsspítala.
Að leiðarlokum sendum við Jóhönnu, börnum þeirra og fjölskyldu einlæga samúð.
Blessuð sé minning Victors Halldórssonar.
F.h. brœðranna frá Reykjum og fjölskyldna þeirra

Magnús Guðjónsson.


Jón Trausti Haraldsson
F. 16. febrúar 1961 - F. 31. mars 2010
Vinur minn Jón Trausti Haraldsson fæddist í Vestmannaeyjum 16. febrúar 1961. Hann varð bráðkvaddur á heimili sinu í Reykjavík 31. mars 2010. Foreldrar Jóns Trausta eru Edda Tegeder, f. 7. apríl 1939 í Bremerhaven og Haraldur Traustason, f. 22. nóvember 1939 í Vestmannaeyjum, d. 13. júní 1993.
Systkini Jóns Trausta eru, Þóranna f. 1958, Hermann f. 1959, maki Brynhildur Jakobsdóttir, og Haraldur f. 1962, maki Sæunn Helena Guðmundsdóttir.
Jón Trausti eignaðist þrjá syni með sambýliskonu sinni Valborgu Elínu Júlíusdóttur, en þau slitu samvistum.
Synirnir eru Guðmundur Heinrich, f. 1985, giftur Irinu Yurievnu, Sindri f. 1989 og Haraldur Trausti f. 1993.
Jón Tausti ólst upp í Eyjum og bjó þar fram til ársins 2001. Jón Trausti fór ungur á sjóinn með Halla pabba sínum á Sjöstjörnunni, ekki það að hugur hans stæði til sjómennsku, heldur voru það góðar tekjur til að fjármagna mótorhjólakaup sem ýttu honum þangað. Mótorhjól og lyftingar voru hans helstu áhugamál. Jón Trausti fór ungur í vélskólann og aflaði sér vélstjórnarréttinda, starfaði hann framan af við vélstjórn hjá Halla pabba sínum á Síben eins og við peyjarnir kölluðum Sjöstjörnuna þá. Það var einmitt haustið '82 sem við vorum þar saman félagarnir ég, Jón Trausti og Bretinn. Áhuginn á glasalyftingum var nokkuð mikill hjá okkur og spurði Halli gjarnan á föstudögum hvað mikið hefði verið keypt og þegar honum var sagt það sagði hann með bros á vör: „það þýðir þá ekkert að ræsa fyrr en á þriðjudaginn.“ Þetta haust hefur æ síðan verið nefnt „haustið góða á Síben“, af okkur félögunum.
Jón Trausti lærði seinna vélvirkjun og starfaði við það lengi vel ásamt því að skjótast á eina og eina vertíð með pabba sínum.
Árið 1993 féll Halli, faðir Jóns Trausta frá, rétt rúmlega fimmtugur. Hafði fráfall hans slæm áhrif á Jón Trausta og var hann aldrei samur maður eftir það.
Jón Trausti var ákaflega heiðarlegur og traustur maður, enda hændust bæði börn og fullorðnir að honum, hann var góður vinur vina sinna. Er mér í því sambandi minnisstætt að hann var fyrstur manna tilbúinn til að gefa frænku sinni nýra úr sér. Það gekk þó ekki eftir af líffræðilegum ástæðum.
Að endingu vil ég þakka þér fyrir margra áratuga vináttu, allar góðu stundirnar, ferðalögin, og heimsóknirnar síðustu ár.
Far þú i friði vinur minn.

Laugi.


Sigurður Ólafsson
F. 20. október 1920 - D. 3. mars 2010
Sigurður Ólafsson fæddist á Eyrarbakka 20. október 1920. Hann lést 3. mars 2010. Foreldrar hans voru Jenný Dagbjört Jensdóttir f. 12.05.1887, d.2.12.1964 og Ólafur Engilbert Bjamason, f. 13.1.1893, d. 2.10.1983. Systkini hans eru: Sigrún f. 1917 d.2001; Bjarni, f. 1918, d.1981; Ólafur f. 1922, d. 2001; Eggert, f. 1924, d. 1980; Sigurður, f. 1925,d. 1943; Guðbjörg, f. 1926, d. 1994; Margrét Elín, f. 1929, d.2003; Bryndís, f. 1930; Guðrún, f. 1934; Sigríður Dagný, f. 1939; og Áslaug, f. 1941. Uppeldissystir Margrét Ólafsdóttir, f. 1943, d. 1995.
Hinn 22. janúar 1944 giftist Sigurður Málfríði Jóhönnu Matthíasdóttur frá Patreksfirði, f. 7.6.1920, d. 11.4 2003. Foreldrar hennar voru Steinunn Guðbjörg Guðmundsdóttir, f. 1894, d. 1967 og Matthías Pétur Guðmundsson, f. 1888, d. 1964. Dóttir Sigurðar og Málfríðar er Rut Sigurðardóttir, f. 17.1.1954. Eig- inmaður hennar er Bjarni Sigurðsson, f. 23.3.1955. Synir hennar eru þrír: Sigurður f. 1973; Sigurjón Magnús f. 1977 og Frímann Dór f. 1984. Synir Bjarna eru tveir: Páll Viggó f. 1982 og Sigurður Haukur f. 1984. Barnabörnin eru sex.
Sigurður fæddist á Þorvaldseyri á Eyrarbakka. Hann var einn úr stórum systkinahópi. Í þá tíð þurftu allir að leggjast á eitt til þess að hlutirnir gengju upp. Krakkarnir byrjuðu snemma að vinna, allir voru þátttakendur. Sex ára gamall fór hann til ömmu sinnar og afa á Stokkseyri og var þar næstu sjö árin, eða þar til afi hans dó og hann flutti til Reykjavíkur með ömmu sinni. Fermdist hann þar, en síðan tók við vinna við ýmis störf. Á unglingsárum var hann í vegavinnu með föður sínum m.a. við hleðslu varnargarða á Markarfljótsaurum.
Sigurður fór í mótorista nám í Reykjavík og stundaði sjómennsku upp frá því, seinna lauk hann námi í Stýrimannaskóla Vestmannaeyja. Sigurður hóf sjómennskuferil, á 12 lesta bát frá Vestmannaeyjum, Hjálparanum VE 232, í febrúar 1938. Skipstjóri var Þórður Þórðarson. Svo fór hann yfir á Hilmi VE 282 árið 1940 og reri á síld frá Siglufirði. Skipstjóri var Bjarni E. Þorsteinsson. Árið 1941 var hann á síldveiðum á Gaut EA 669 og var þar vélstjóri. 1942 ræðst hann á Gísla J. Johnsen VE 100 og var vinur hans, Arnoddur Gunnlaugsson, skipstjóri. Næst ræður hann sig á Sjöstjörnuna VE 92 undir stjórn Ásmundar Friðrikssonar. Frá þessum tíma að hans eigin formennsku reri hann á nokkrum bátum meðal annars með Willum Andersen á Metunni VE 236 og einnig með Arnoddi á Suðurey VE 20.
Hann kynntist Málfríði, konu sinni, á síldarvertíð á Siglufirði. Árið 1943 flytja þau til Vestmannaeyja, hefja þar búskap og byggja sér hús að Hólagötu 17, vandað hús og snyrtimennska þeirra beggja naut sín í glæsilegum og vel hirtum garði með trjám og rósum. Þar bjuggu þau í yfir 50 ár. Árið 1954 bætist dóttirin Rut í tjölskylduna, sem var mikill gleðigjafi þeirra hjóna, að ég tali nú ekki um þegar hún eignaðist sína drengi.
Það leist ekki öllum vel á það þegar Siggi ákvað að fara í útgerð árið 1956 og kaupa gamlan bát, Ingólf (Tanga) VE 216, sem legið hafði nokkum tíma. Annað átti eftir að koma í ljós. Þarna hófst glæsileg útgerðarsaga sem vannst á dugnaði og eljusemi. Bátarnir urðu fleiri. 1960 kaupir hann Skúla fógeta VE 185 og á hann til ársins 1969. Kaupir sama ár (seinni) Ingólf VE 216 og á hann til ársins 1976. Síðast kaupir hann annan Skúla fógeta VE 185, árið 1984 og gerir hann út til ársins 1989 er hann hættir útgerð. Sigurður var hluthafi í Vinnslustöð Vestmannaeyja hf. um árabil.
Bátar í eigu Sigurðar voru einhver snyrtilegustu skip Eyjaflotans um áraraðir. Aflabrögð voru góð og skil til áhafnar og viðskiptaaðila alltaf eins og stafur á bók. Þetta var Siggi frændi, alltaf eins og klettur. Það gat stundum hvinið í karli þegar honum mislíkaði eitthvað, en það var ekki langvinnt. Honum þótti gaman að gleðjast á góðum stundum í góðum félagsskap og var eftirsóttur dansherra. Hann gekk í Oddfellowstúkuna Herjólf, eignaðist þar góða félaga og var virkur þátttakandi. Hann kynntist ungur stefnu jafnaðarmanna og var dyggur stuðningsmaður hennar alla tíð.
Árið 1989 gekkst Sigurður undir hjartaaðgerð og hætti útgerðinni í kjölfarið. Eftir það stundaði hann ýmsa landvinnu, m.a. hjá Skipaviðgerðum hf. og Nethamri hf. Árið 1997 ákváðu hjónin að flytja á fastalandið nær dóttur sinni sem bjó í Hafnarfirði. Þau keyptu sér raðhús við Hrafnistu í Hafnarfirði. „Er ekki kominn tími til að fara að leika sér,“ sagði Siggi, en í það hafði hann ekki eytt miklum tíma. Þau hjónin tóku þátt í því starfi sem í boði var á Hrafnistu. Hann vann til margra verðlauna í golfkeppnum, eitthvað sem var ansi langt frá hugsun sjóarans á árum áður - - að elta lítinn hvítan bolta eins og hann sagði, en svona breytist lífið. Það var mikið áfall þegar Fríða lést árið 2003 en eftir það fluttist hann inn á Hrafnistuheimilið. Þar naut hann góðrar aðhlynningar frábærs starfsfólks.
Sigurður átti afar farsælan starfsferil. Hann lýsti því best sjálfur þegar hann sagði: „Það er mikið lán að hafa stundað sjó í yfir 50 ár og hafa aldrei lent í neinu óhappi, varla fengið skeinu á fingur.“ Þetta lýsir vel dugnaðar- og snyrtimenninu Sigurði Ólafssyni, föðurbróður mínum.
Blessuð sé minning hans.

Kristján G. Eggertsson


Pétur Andersen
F. 16. desember 1943 - D. 1. nóvember 2009
Pétur Andersen fæddist í Vestmannaeyjum 16. desember 1943. Foreldrar hans voru hjónin Jónína Rakel Friðbjarnardóttir húsmóðir frá Vestmannaeyjum, f. 19. ágúst 1918, d. 23. maí 1993 og Knud Kristján Andersen vélstjóri, formaður, útgerðarmaður og síðar verkstjóri, frá Vestmannaeyjum f. 23. mars 1913, d. 13. desember 2000. Systur hans eru Ingibjörg Jóhanna Andersen f. 14. desember 1939 og er hún gift Óskari Þórarinssyni f. 24. maí 1940. Börn þeirra eru Rakel og Sindri, fyrir á Ingibjörg þau Kristínu og Knút, Óskar á Sigmar. 2) Hafdís Andersen f. 21. desember 1949, hún lést langt fyrir aldur fram 11. nóvember 1997, Hafdís var gift Sigurbirni Hilmarssyni f. 3. janúar 1954. Böm þeirra eru Sædís, Dröfn og Sif. Pétur kvæntist aldrei og var barnlaus.
Þegar Pétur var ungur drengur tíðkaðist að börn hjálpuðu við hin ýmsu störf. Pétur var um sjö ára þegar hann var kúasmali hjá Gvendi Bö. Pétur hóf eiginlegan starfsferil þegar hann komst á táningsárin í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, þar var Knud faðir hans verkstjóri. Það er skemmtileg saga innan fjölskyldunnar af því þegar Pétur var 13-14 ára og gekk um sali Hraðsins sperrtur og rogginn, reykjandi sígarettur, sem var að sjálfsögðu bannað, framhjá kellunum og tækjastrákunum. Einn af þesssum strákum var Óskar á Háeyri og fannst honum þessi peyi vera ansi góður með sig. Þeir urðu síðar mágar og það sem meira er, sannir vinir. Tæplega tvítugur hóf hann störf hjá Netagerðinni Ingólfi, þar lærði hann þá list sem netagerðin er undir dyggri handleiðslu góðra manna.
Árið 1966 var hafið farið að kalla sem aldrei fyrr, Pétur svaraði því kalli. Hann fór sem háseti 12. apríl á millilandaskipið Langjökul (1987 rúml.). í október sama ár fór hann yfir á Hofsjökul (2361 rúml.), þar var hann háseti fram í miðjan apríl ‘67. Þá var kominn tími til að prófa fiskveiðar. Pétur var II. vélstjóri á mótorbátnum Öðlingi (52 rúmlestir) í mai '67 undir stjórn Óskars á Háeyri. Í ársbyrjun 1968 fór hann aftur í millilandasiglingar á Hofsjökli, nú sem smyrjari. Eitthvað hefur það kveikt áhugann því um sumarið voru stórar ákvarðanir teknar. Hann hóf nám við Vélskólann í Vestmannaeyjum og lauk því árið '69. Á vertíðinni það ár reri hann á Sindra VE 203 hjá Óskari mági sínum. Um mitt sama ár fór Pétur til Noregs og var þar á millilandaskipum skipafélagsins Norvegian American Line, Frierljord (5231 tonn) og Lyngenfjord (3800 tonn). Á þessum skipum sigldi hann um allan heim. Árið '71 kom hann til Eyja og var II. vélstjóri á Frá VE 208, sem var í eigu Fiskiðjunnar og var Óskar skipstjóri. Hann var á Frá einungis í tvo mánuði, þá bauðst honum I. vélstjórastaða hjá föðurbróður sínum, Emil Marteini Andersen, sem gerði út Danska Pétur VE 423. Árið '72 var hann vélstjóri á Metu VE hjá öðrum föðurbróður sínum, Jóhanni Júlíusi Andersen.
Um mitt ár var hugurinn eitthvað farinn að reika eins og gerðist eflaust hjá mörgum Vestmannaeyingum í gosinu. Þráin að kanna víðáttur heimsins varð sterk á ný. Á þessum árum voru engir gámar heldur stykkjavara. Þetta þýddi að það tók marga daga að ferma og afferma millilandaskipin, þar af leiðandi höfðu skipverjar nægan tíma til að kynnast hinum ýmsu stöðum. Pétur fór utan til Noregs og gerðist „maskinassistant“ á nýjum Lyngenijord, smíðaár 1971 (6467 tonn). Næstu árin sigldi hann um öll heimsins höf. Hann kunni vel við sig hjá Norðmönnum. Þeir hugsuðu vel um sína sjómenn. Sjómannasambandið norska starfrækti sjómannaheimili (sjómannakirkjur einsog þeir kölluðu þau) um allan heim. Þangað gátu þeirra sjómenn ávallt leitað hvort sem þeir voru í vanda staddir eða bara til að glugga í blöðin.
Pétur flutti aftur heim til Eyja árið 1981. Haustið eftir komuna heim var hann á reknetum á Frá VE 78. Árið 1982 hættir hann á sjó og hóf störf í versluninni Brimnesi og þar vann hann til ársins 2001. Eftir það vann hann hjá Ingibjörgu systur sinni og Óskari mági sínum. Þar kom vel í ljós hversu nákvæmur og mikið snyrtimenni hann var. Króin var tekin í gegn frá a-ö án þess þó að tapa þeim eiginleikum sem alvöru kró hefur. Þegar Frár kom að landi mætti hann um borð, skráði hjá sér það sem þurfti að laga fyrir næsta túr og reddaði því. Pétur rölti um bátinn, gjóaði augunum í hvern krók og kima, tók út þrifin í hljóði. Þegar haldið var til hafs á ný var búið að setja upp miða á nokkrum stöðum í bátnum sem á stóðu vinsamleg tilmæli til áhafnar um bætta umgengni, undir þessa miða var ávallt ritað Áhafnarhrellirinn!
Eftir að sjómennsku Péturs lauk hætti hann ekki að ferðast, hann dvaldi á hverjum vetri um tveggja mánaða skeið í austurlöndum fjær. Þessar ferðir stundaði hann í rúma tvo áratugi. Það er óhætt að segja að hann hafi tileinkað sér ýmislegt úr menningar- og trúarheimi austurlanda. Til að mynda hafnaði hann hinu innihaldslausa veraldlega lífsgæðakapphlaupi. Pétur hafði mikla innri ró, elskaði og bar mikla virðingu fyrir jörðinni og lífinu.
Pétur bjó að Hásteinsvegi 27 ásamt foreldrum sínum. Herbergi hans var ævintýraheimur út af fyrir sig. Þar voru veggir þaktir bókum, fullt af hlutum frá framandi löndum víðs vegar um rýmið sem systrabörnunum þótti gaman að skoða. Garðurinn var annálaður fyrir snyrtimennsku. Pétur lét ekki sitt eftir liggja til að halda honum sem slíkum. Eftir að Rakel móðir hans dó bjó hann þar ásamt Knud föður sínum. Pétur hugsaði um föður sinn af ást og alúð allt þar til Knud fór á elliheimili árið 1998. Þá festi Pétur kaup á íbúð að Faxastíg. Hann bjó þar í nokkur ár þar til hann veiktist en þá flutti hann í íbúð á jarðhæð húss systur sinnar og mágs. Þar var hann í góðum höndum systur sinnar sem „passaði“ uppá hann eins og hún hafði gert forðum, þegar Pétur var lítill drengur. Heilsunni hrakaði, hjartað var veikt eftir mikið áfall og Pétur Andersen lést 1. nóvember 2009.
Blessuð sé minning þín, elsku frændi minn.

Sindri Óskarsson


Jón Ragnar Björnsson
F. 3. janúar 1940 - D. 20. október 2009
Jón Ragnar Björnsson fæddist á Baldursgötu í Reykjavík 3. janúar 1940, sonur Unnar Guðjónsdóttur leikkonu og Björns Björnssonar. Slitnaði upp úr þeirra sambandi og fór Raggi í fóstur á Hásteinsveginn til þeirra heiðurshjóna Þuríðar Guðjónsdóttur, móðursystur Ragga og mann hennar Magnúsar Kristleifs Magnússonar. Var hann alinn upp af hlýju og ástúð. Uppeldissystkini Ragga voru Kristleifur Magnússon, Ingveldur Kristjana Magnússdóttir og Guðjón Magnússon. Seinni maður Unnar var Sigfús Sveinsson og eignuðust þau Katrínu Sigfúsdóttur. Mikill samgangur var í þessum fjölskyldum og Fúsi reyndist Ragga mjög vel.
Raggi fór snemma til sjós og var á mörgum skipum, m.a. Birni Riddara VE og Ágústu VE með Guðjóni Ólafssyni frá Landamótum. Hann giftist Hildi Hilmarsdóttur árið 1963 og eignuðust þau 3 börn; Hilmar Ragnarsson fæddur 14. ágúst 1962, dáinn 7. janúar 2008, Unnur Ragnarsdóttir fædd 20. júní 1964 og Ingveldur K. Ragnarsdóttir fædd 29. mars 1974. Hildur og Raggi slitu samvistum 1979, tók Raggi þá við uppeldi barnanna og gerði vel. Raggi var vel liðinn í vinnu og vann í Álverinu í Straumsvík í 30 ár og var leystur út með gullúrinu góða. Áhugamál Ragga var fjölskyldan og fótbolti og alltaf vissi hann stöðu mála hjá ÍBV og Chelsea. Matartímar vom mjög mikilvægir hjá Ragga nema á laugardögum þá voru pulsur enda bar enska boltann upp á matartíma.
Raggi var mikill húmoristi og sá spaugilegu hliðarnar við allt. Raggi gekk undir mörgum nöfnum, hann var kallaður Raggi hjá fjölskyldunni, Vestmannaeyja viðurnefni hans var Raggi „saumó“. Hann var einnig kallaður Jón Ragnar og Jón.
Raggi var hlýr og góður maður og mátti ekkert aumt sjá. Raggi greindist með krabbamein í júlí á síðasta ári og ef maður spurði hann um líðan, svaraði hann um hæl „mér líður vel“, þar kom Sandfellsættin sterk inn.
Hann lést á líknardeild Landspítalans 20. október 2009.

Unnur Ragnarsdóttir