Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1959/ Á leiðinni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. janúar 2018 kl. 15:34 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. janúar 2018 kl. 15:34 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) (Ný síða: <big><center>Á leiðinni</center></big><br> Lestin var í beygju svo að hjólin ískruðu við teinana. Og eimreiðin másaði, því að það var upp í móti.<br> Í einum klefa...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Á leiðinni


Lestin var í beygju svo að hjólin ískruðu við teinana. Og eimreiðin másaði, því að það var upp í móti.
Í einum klefanum í næstaftasta vagni sitja þrír menn. Tveir þeirra skotra augunum til þess þriðja, sem situr í horninu og er að lesa í blaðinu — eða læst að minnsta kosti vera að því. Hann snýr aldrei við blaðinu, en gægist yfir röndina á því.
„Nú er víst ekki langt eftir. Marker.“ segir annar maðurinn.
„Við eigum víst ekki nema hálftíma leið eftir,“ muldrar hinn, hálfgeispandi. „Viltu sígarettu, Hennin?“
„Það væri ráð,“ svarar Hennin og lítur útundan sér til mannsins með blaðið.
„Er yður sama, þó að við reykjum?“
„Já, það gerir ekkert til.“ Maðurinn með blaðið dregur vindil upp úr brjóstvasanum. „Ég reyki sjálfur.“
Marker og Hennin kveikja hvor í sinni sígarettu.
„Það er þægilegt að ferðast í einkaklefa, segir Marker. „Það er ógeðslegt að þurfa að silja i troðfullum klefa, eins og síld í tunnu — en það þekkir þú víst ekki, Hennin?“
„Það getur verið — en ég nýt ferðarinnar ágætlega. Mér þykir bara verst að hafa ekki farseðil til baka,“ segir Hennin og brosir.
„Ég hef ekki heldur farseðil til baka. En það hafið þér víst?“ Marker beinir síðustu orðunum til mannsins með blaðið.
„Já, ég var svo forsjáll að kaupa með farseðil til baka,“ svarar hann og tekur öskuna af vindlinum með vísifingrinum.
„Ég hef aldrei komið í bátinn fyrr,“ segir Marker.
„Það hef ég.“ Hennin geispar. „Hvernig rúm skyldi maður fá í nótt?“ „Þau verða varla verri en í nótt sem leið,“ segir Marker og bætir við, er hann sér Hennin fleygja sígarettustúfnum á gólfið og troða hann undir fætinum:
„Þú ert svoddan eyðslukló — maður má ekki fleygja svona löngum stúf. Ef þú hefðir verið sparsamari . . .“
„Eigum við ekki að sleppa að minnast á það? Við skulum láta fortíðina vera gleymda og njóta þessarar ferðar, meðan hún varir.“
„Og þegar við komum á leiðarenda verður víst nóg að gera hjá okkur.“
Marker talar í þurrlegum tón. „Annars sárhlakka ég til að fara að vinna aftur, eftir þetta langa iðjuleysi. Hvernig er því varið um þig?“
„Hvað áttu við?“
„Mér hefur einhvern veginn fundizt, að þú hefðir andstyggð á öllu, sem heitir að vinna.“
„Þvert á móti. Það er algerður misskilningur.“ „Það held ég nú ekki. Manstu ekki í skólanum, þá reiknaði ég alltaf dæmin fyrir þig, skrifaði stílana þína . . .“
„Þú gerðir það af því, að þú varst svo montinn.“ Hennin talar í þyrkingstón. „Þú þrengdir þér inn á mig — vildir endilega vera vinur minn . . . Gott og vel, ég hef notað þig. En ég hef líka borgað þér vikulega fyrir það.“
„Ég veit ofur vel, hvað ég á þér upp að unna - líka þetta ferðalag og einkaklefa. En gleymdu ekki, hvernig þú hefur alltaf níðzt á mér.“
„Það er þér að kenna, að þú hefur látið níðast á þér.“ tekur Hennin fram í. „Þú kynokaðir þér aldrei við að taka á móti, að láta mig borga fyrir þig . . . að nota budduna mína.“
„Og þú kynokaðir þér ekki við, að taka Kötu frá mér.“
„Kata elskaði þig ekki!“ Það er kominn þorparasvipur á Hennin.
„Hún elskaði þig ekki heldur — þú villtir henni sjónir — á sama hátt og þú villtir mér og svo mörgum öðrum sjónir.“
„Minnstu ekki frekar á Kötu. Þú veizt ekkert . . . þú ert heimskur.“
Hennin reiðist auðsjáanlega síðustu athugasemd Markers. Maðurinn með blaðið ræskir sig, eins og til þess að minna þá á, að hann sé nærstaddur. Hennin spekist aftur.
„Var það ekki hann faðir minn, sem sá þér fyrir menntun í uppeldinu? Var það ekki hann, sem útvegaði þér stöðu?“
„Jú, það gerði hann, og ég hef alltaf kvalizt af því að þurfa að taka á móti. Þú og faðir þinn létu hægri höndina vita hvað sú vinstri gerði. Hversu oft hef ég ekki kreppt hnefann í vasanum og bitið í vörina til að halda mér saman — af þakklæti.“
Marker talar ekki út. Hann lítur á Hennin — horfir ögrand, gráum, stingandi augum.
Hennin segir: „Þú elskaðir óhóf, og fyrir mitt tilstilli gastu fullnægt þrá þinni eftir óhófinu. Þú hoppaðir alllaf yfir garðinn þar sem hann var lægstur. — Þess vegna komstu til okkar. En því að vera alltaf að tala um gömlu dagana? Ég er alveg hissa að þú skulir dirfast að gera það núna — önnur eins lús og þú hefur alltaf verið . . .“

Nokkra mínútna þögn. Mennirnir góna báðir framundan sér. Tilbreytingarlaust skarkið í hjólunum niðar látlaust í eyrum þeirra. Það er Hennin er verður fyrr til að taka til máls:
„Það er miklu nær að hugsa um, hvernig framtíðin muni verða. Við megum víst gera ráð fyrir veglegum móttökum, höfðingjarnir báðir. þegar við komum á stöðina.“
„Vafalaust. Vagn heim að gistihúsinu, þegar opinbera móttökuathöfnin er afstaðin.“ Marker teygir úr sér. „Ég hlakka til að fá að sofa, ég er stirður í öllum liðamótum — skyldum við verða látnir sofa saman, svo við getum haldið áfram samtalinu?“
„Ég vona það verði ekki. Við höfum að vísu verið mikið saman, en samt er það of stórt stökk að eiga að sofa í sama herbergi og þú.“
Hennin brosir. „En við sjáumst líklega á morgun.“
„Eins og við höfum sést á hverjum morgni í þrjátíu og sex ár.“ segir Marker.
„Já, þú varst þar á hverjum morgni þegar ég kom í skrifstofuna — og á hverjum degi nauðaðirðu eitthvað á mér. Þú lézt mig aldrei í friði.“
„Væri ekki réttara að segja, að þú létir mig aldrei í friði? Þú hugsaðir aldrei um annað en að lifa sem þægilegustu lífi. Ef ég sigraði, þá færðir þú þér þann sigur til tekna, en ef ég tapaði, þá léstu mig eiga sökina á því sjálfan.“
„En ég tók afleiðingunum! Ég lét aldrei aðra taka afleiðingunum með mér. — Gleymdu ekki, að þú læddist á burt eins og hundur með rófuna milli lappanna og reyndir að fela þig í skjóli mínu.“
Lestin hægir á sér og rennur inn á stöðina. Klefadyrunum er lokið upp utanfrá. Þrír menn standa á stéttinni.
Tveimur mínútum síðar ganga þeir Marker og Hennin á burt með tveímur af mönnunum. Sá þriðji verður eftir og talar við síðasta farþegann í klefanum — manninn með blaðið.
„Höfðuð þér góða ferð?“ spyr hann.
„Já, það var það,“ segir maðurinn með blaðið og réttir hinum stórt gult umslag.
„Hérna eru plöggin.“
„Farið þér til baka í dag?“
„Já, undir eins og ég hef fengið mér eitthvað að borða uppi í bæ.“
„Voru þeir óþægir á leiðinni?“
„Nei, nei — þetta eru þrátt fyrir allt allra prúðustu menn, bæði bankastjórinn og gjaldkerinn. Þeir verða eflaust allra þægustu langar.“
„Við skulum vona það. Ég fer með vagninum aftur upp í fangelsið. Verið þér sælir. Sjáumst aftur.“
„Verið þér sælir. Næsti maður, sem ég kem með, verður í handjárnum á leiðinni. Hann er stórhættulegur — ha, hvað segið þér? Jú, þetta voru stórfelld fjársvik. — Bankastjórinn fékk átta ár og gjaldkerinn fimm . . .!“

Endursagt af J. R.