Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Sérstakur draumur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. ágúst 2017 kl. 14:14 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. ágúst 2017 kl. 14:14 eftir Valli (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
GÍSLl H. BRYNJÓLFSSON


Sérstakur draumur


Þegar ég var lærlingur hjá Engilbert Gíslasyni, málara, sagði hann mér þennan sérstaka draum. Þennan dag vaknaði Engilbert upp úr kl. sex. Þetta var í janúar 1915 og lítið að gera svo hann lagði sig aftur. En þennan stutta tíma sem hann svaf, dreymdi hann að hann væri staddur í gamla „Gúttó“ sem stóð á svokölluðum Mylluhól þar sem Hvítasunnukirkjan, Samkomuhús Vestmannaeyja, er. Í húsinu var fjöldi fólks og allir sorgmæddir á svipinn. Uppi á sviðinu sat maður klæddur skikkju með samfastri hettu. Hann lék mjög dapurlegt lag og sagði Engilbert að svo greinilegt hafi lagið verið að hann hefði getað skrifað það ef hann hefði haft þekkingu á tónlist. Þegar maðurinn hafði lokið við að spila, snéri hann sér fram í salinn og spurði: „Hvernig líkaði ykkur?“ Þetta var þá dauðinn; einn úr salnum svarar þá: „Ekki vel!“ (það var Árni Filippusson en hann var gjaldkeri Bátaábyrgðarfélagsins.)
Í þessu vaknar Engilbert, klæðir sig og gengur niður hjá Þingholti. Þar mætir hann Kela í Sandprýði (Þorkeli Þórðarsyni) og spyr hann frétta. Keli segir honum að Magnús Þórðarson í Dal hafi farist út af Urðunum með allri áhöfn.
Í bókunum „íslensk skip“, 4. bindi bls. 93, eftir Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð í Vestmannaeyjum segir: „Fram VE 176 smíðaður í Danmörku 1914, 9.brl með 12 hestafla Dan vél.
Eigendur Magnús Þórðarson og Ólafur Auðunsson frá Þinghól. Báturinn kom til Eyja 1914, sem nýsmíði og fórst þann 14. jan 1915 með allri áhöfn, 5 manns. Engilbert málaði litla mynd, lítið eitt stærri en póstkort, af þessum draumi. Mynd þessi hékk lengi á stofuvegg að Hilmisgötu 3, heimili hans. Hún hefur ekki fundist. Mynd þá er hér fylgir, teiknaði Gísli Brynjar Kristinsson skv. lýsingu minni á draumnum.