Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Meða Faxa VE 67 til Skagen árið 1958

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. apríl 2017 kl. 08:37 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. apríl 2017 kl. 08:37 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
MINNINGARBROT EFTIR GÍSLA STEINGRÍMSSON


MEÐ FAXA VE 67 TIL SKAGEN ÁRIÐ 1958


Það var milli jóla og nýárs árið 1957 að ég hitti vin minn, Svein Valdimarsson. Hann sagði mér að það vantaði annan vélstjóra á Faxa VE 67 í siglingu til Skagen í Danmörku þar sem báturinn átti að fara í klössun. Faxi var 89 tonna trébátur sem áður hét Freyfaxi NK 101 og hafði legið í reiðileysi í Hafnarfirði í tvö ár og var orðinn mosavaxinn eftir svona langa legu. Báturinn var keyptur til Eyja af Jóhanni Sigfússyni og Kjartani Friðbjarnarsyni.
Eftir nokkra umhugsun sló ég til og ákvað að fara í þessa ferð. Ég hafði samband við Hauk Jóhannsson sem var skipstjóri á bátnum. Hann sagði mér að mæta hjá bæjarfógeta daginn eftir til skráningar. Freymóður Þorsteinsson sá um að skrá okkur á skipið 30. des. 1957 en leggja átti í hann 2. í nýári kl. 1 eftir hádegi.
Við vorum fimm menn sem sigldum þessa ferð: Haukur Jóhannsson skipstjóri, Sigurður Viktorsson stýrimaður, Sveinn Valdimarsson fyrsti vélstjóri, Gísli Steingrímsson annar vélstjóri og Jón Stefánsson kokkur.
Þegar við lögðum af stað var suð-austan 7-9 vindstig og sjór í samræmi við vind. Staðið hafði til að annar bátur hefði með okkur samflot en það brást. Við bjuggum allir aftur í káetu. Í keisnum var kokkhús og borðsalur svo að við þurftum ekkert að vera að þvælast á milli í pusinu fram í lúkar. Káetan lak svo að maður þurfti að breiða upp fyrir haus til að fá ekki dropana beint í andlitið þegar við lágum í kojunum.
Eins og tíðkaðist á þessum árum vorum við með nokkrar olíutunnur á dekkinu og voru þær bundnar fastar. Þegar við nálguðumst Færeyjar var komin óþverrabræla og aðgæsluveður. Þá slítur ein tunnan sig lausa og skýst út um lunninguna beint á milli stunna, en eftir varð gat á skjólklæðningu eins og eftir stóra fallbyssukúlu.
Í Faxa var þriggja strokka June Munktell-vél. Hver strokkur var festur með fjórum stórum boltum og var hægt að troða sér á milli strokkana. Það eina sem tengdi þá saman var sveifarásinn. Vélin var „snarvent“, það er að segja til þess að bakka þurfti að stoppa hana og skjóta svo á hana afturábak. Enginn rafall var við aðalvél, ekki heldur hleðsla inn á loftkúta sem ræstu aðalvél, heldur var loftpressa við ljósavél notuð til að hlaða þessa ræsiloftskúta.
Á fimmta kvöldi sprakk olíurör við ljósavél þannig að við urðum rafmagnslausir. Nú þurftum við að paufast með vasaljós niðri í vélarhúsi þegar við vorum að smyrja og lensa bátinn. Einnig þurfti vasaljós til að lýsa á kompásinn. Eldavélin var olíukynnt svo að enn þá gat kokkurinn eldað mat í mannskapinn.
Skömmu eftir að við urðum ljóslausir sprakk lensirör frá aðalvél. Það hafði bilað suða við flans og var nær útilokað að þétta þann leka. Við vöfðum gúmmíi og snæri utan um rörið, en samt lak það mikið að við urðum að nota öðru hverju handdælu sem var úti á dekki til að halda í við lekann. Þegar fór að skíma morguninn eftir, og við vorum að nálgast Shetlandseyjar (Hjaltland) í 10 - 12 vindstigum, brá okkur heldur betur að sjá hvað báturinn var orðinn siginn að framan. Engu var líkara en við værum með síldarhleðslu. Hvítfreyðandi sjóskaflarnir gengu yfir hvalbak og þilfar. Vélin erfiðaði og báturinn nötraði stafna á milli, og á stundum lá við að loggið færi fram úr okkur.
Það var ákveðið að halda í var við eyjarnar, og eftir fjögurra tíma barning móti rokinu var orðið það sjólítið að óhætt var að fara fram á dekkið og kíkja niður í lúkarinn. Það var ófögur sjón sem blasti við okkur þegar við komumst frammí. Allmikill sjór var kominn í lúkarinn og ýmislegt lauslegt á floti. Var nú strax farið að athuga hvar þessi leki var, og kom þá í ljós að rör frá klósetti, sem var undir hvalbak, var nánast í sundur. Þegar búið var að loka fyrir krana, sem var á rörinu, hætti lekinn og þegar slétti enn meir var hafist handa við að ausa. Þurfti að nota fötur við það verk þar sem lensirör frammí lúkar var stíflað. Það tók okkur fjóra tíma að þurrausa lúkarinn.
Það hafði lygnt og við lónuðum norður með vesturströnd eyjanna, og um þrjúleytið komum við að nokkrum bátum sem voru á veiðum í skjóli við eyjarnar. Við renndum upp að einum þeirra og höfðum tal af áhöfninni. Varð að samkomulagi að við eltum þá inn fjörð sem þeir töldu varhugaverðan fyrir ókunnuga vegna blindskerja. Tveggja tíma sigling var inn eftir hlykkjóttum firðinum. Var þá komið að smáþorpi með 12 til 15 húsum (en samt var þarna „pöbb“!). Svo grunnt var við bryggjuna að við urðum að leggjast skammt undan og fara í árabát á milli skips og bryggju.
Lensirörið og olíurörið voru lagfærð með hjálp eyjarskeggja sem voru óþreytandi við að gera okkur allt til geðs. Stífla í kjalsogi frá lúkar og aftur í lest var losuð, ljósavél komst í gang og um kvöldið var lagt aftur af stað til Danmerkur.
Við brottför var sæmilegt veður, austan 4-5 vindstig, en hvessti um nóttina og undir morgun var orðið mjög hvasst og krappur sjór. En það sem verra var, ljósavélin hafði bilað aftur. Við uppgötvuðum að sjór var kominn í ferskvatnstankana sem voru undir lúkarsgólfinu. Eftir þetta þurfti kokkurinn ekki að salta í pottinn! Vorum við orðnir aftur rafmagns- og ljóslausir, svo að spara varð rafmagn á geymum við talstöð. Var t.d. bannað að nota útvarpið við talstöðina nema til að hlusta á veðurfréttir og til að nota miðunarstöð, en hún og kompásinn voru einu siglingartækin sem voru um borð fyrir utan vegmælinn (loggið).
Um miðjan dag fer ég niður í vélarrúm til að smyrja. Þegar ég geng fram hjá vélinni fæ ég á mig smurolíuskvettu úr sveifarhúsinu. Miðstrokkurinn hafði slitið báða boltana öðrum megin og strokkurinn sveiflaðist sitt á hvað eftir veltu bátsins. Vélin hékk sem sagt saman á sveifarásnum! Aldeilis ekki fisjað saman þessari gömlu vél því að saman hékk hún þar til við komum til hafnar í Skagen í Danmörku. Það kom sér vel að ekki drapst á vélinni því að eins og áður sagði var ljósavélin biluð og því ekki hægt að hlaða lofti inn á loftkútana sem voru óþéttir og hálftómir.
Þegar við nálguðumst hafnarmynnið í Skagen var farið að huga að akkerinu en þegar átti að láta það falla var það fast í klussinu og varð að grípa til dekkpumpujárnsins til að losa það. Stóðst það á endum að þegar við áttum nokkra metra eftir í bryggjuna losnaði akkerið og við gátum bremsað bátinn svo að höggið á bryggjuna var ekki svo þungt.
Þetta var á laugardegi 12. janúar. Rugholt skipamiðlari var mættur á bryggjuna. Við vorum ógeðslega skítugir, þyrstir og skeggjaðir svo að við vorum fegnir að komast upp á sjómannaheimilið þar sem við áttum að gista. Mér er minnisstæð dúfumynd sem var utan á sjómannaheimilinu. Þegar þangað kom drifum við okkur í kærkomið bað og skipamiðlarinn ræsti út rakara þannig að við urðum eins og nýir menn þegar við höfðum verið snyrtir. Ekki spillti það fyrir þegar danski bjórinn vökvaði skrælnaðan hálsinn.
Viðgerð og vélaskipti tóku sex vikur. Ég fylgdist daglega með gömlum kalli sem smíðaði nýtt formastur úr stóru tré og notaði aðallega öxi við smíðina. Hann var ótrúlega flinkur. Það vann mikill fjöldi manna við viðgerðina enda allt tekið í gegn.
Siggi Viktors kvaddi okkur fljótlega og sigldi nýsmíðuðum báti, Reyni VE 15, heim frá Frederikshavn. Okkur var öllum boðið í mikla veislu hjá þeim bræðrum, Páli og Júlíusi Ingibergssonum, þegar Reynir VE hafði verið prufukeyrður en þeir áttu bátinn.
Við höfðum ekki mikið að gera meðan á þessum lagfæringum stóð. Þó vorum við eitthvað að dúlla við að mála, þannig að ekki höfðum við mikið fé milli handa. Til að bæta úr þessu réð ég mig á trollbát (landróðrarbát) til þess að fá aukapening. Þetta var 30-40 tonna bátur og þrír í áhöfn. Sjómannaheimilið var skammt frá bryggjunni og mér var sagt að mæta kl. 6 árdegis sem ég og gerði. Landfestar voru leystar og siglt eina tvo tíma norður þar sem var kastað og togað í 6 tíma suðvestur af Jótlandi. Þegar híft var kom aflinn í ljós, 10 kassar af „skítfiski“ eins og baunarnir kölluðu það, tómt smælki, ýsa, lýsa, nokkrar síldar og makríll. Sem sagt fjögur til fimmhundruð kíló af drasli sem allt hefði farið í sjóinn á Íslandsmiðum, — en ekki aldeilis! Þau kvikindi sem voru 20 cm eða stærri átti að gera að og raða í trékassa. Aðeins það allra smæsta og tvær málningarfötur og þrír lúnir vinnuvettlingar fóru í hafið aftur. Nú var farið að bræla af norðaustri (4-5 vindstig) og ákvað skipstjórinn (vélstjórinn og kokkurinn, allt sami maðurinn) að halda undan veðrinu (sem ekkert var) til Hirtshals þar sem aflanum var landað. Eftir löndun var farið á hótel og snætt því að um borð var aðeins brauð, álegg og kaffi á boðstólum. Við sváfum í bátnum um nóttina en létum úr höfn snemma næsta morgun.
Skömmu eftir að við fórum fyrir Skagen var farið að kula af norðri og komin slydda. Var þá siglt í land. Skipstjórinn sagði mér að mæta kl. 6 morguninn eftir sem ég og gerði. Þegar ég kom niður á bryggju var mér sagt að það væri bræla (meira en fjögur vindstig). Ég mætti þarna fjóra daga í röð og var jafnoft sendur heim. Á fjórða degi spurði ég skipstjórann hvort ég gæti fengið 100 kall fyrir fram. Hann sagði mér þá að ég skuldaði honum 20 krónur. Þá gaf ég skít í alla danska útgerð.
Í endaðan janúar bauðst okkur að fara til Kaupmannahafnar til að kjósa í íslenska sendiráðinu í bæjarstjórnarkosningunum (síðustu janúar-kosningarnar). Ferðin var kostuð af einum frambjóðanda í Vestmannaeyjum. Þetta var góð tilbreyting. Það var farið með lest og ferju fram og til baka og dvöldumst við tvær nætur á hóteli í Kaupmannahöfn og kíktum á næturlífið. Tívolíið var því miður lokað á þessum árstíma.
Í Skagen var maður frá Siglufirði sem hét Stefán. Hann hafði verið búsettur þar um árabil. Hann átti kælibíla sem hann notaði til þess að flytja fisk til Þýskalands. Hann færði okkur ný íslensk blöð öðru hverju, og einu sinni bauð hann okkur í veislu heima hjá sér þar sem veitingar voru vel útilátnar, bæði í mat og drykk. Hann átti mjög fallegt heimili og stóran hund.
Um 20. febrúar var viðgerð lokið, komin ný þriggja strokka aðalvél af gerðinni Völund-diesel, mun kraftmeiri en sú gamla. Ljósavélin hafði verið tekin í gegn og nýja frammastrið komið á sinn stað ofan á danskri krónu (en það var til siðs að setja mynt undir mastur), allt hafði verið málað utan sem innan. Tveir danskir hásetar höfðu verið ráðnir, Ken og Halgard.
Heimferðin var tíðindalaus, veður hagstætt og siglingin tók aðeins fjóra og hálfan sólarhring.
Gísli Steingrímsson