Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Myndir Vestmannaeyjabáta

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. mars 2017 kl. 11:07 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. mars 2017 kl. 11:07 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
MYNDIR VESTMANNAEYJARBÁTA


ÚR SAFNI JÓNS BJÖRNSSONAR Í BÓLSTAÐARHLÍÐ


Þær þrjár myndir sem birtast hér eru úr safni Jóns Björnssonar og voru á sýningunni hans Sjósókn í Vestmannaeyjum á sjómannadaginn 1992. Bjarni Jónsson listmálari teiknaði myndirnar fyrir Jón eftir gömlum myndum og tilsögn Eyjólfs Gíslasonar frá Bessastöðum og eru myndirnar settar inn í eðlilegt umhverfi, gömlu Víkina og innsiglinguna inn til Vestmannaeyja fram til 1973. Hér á eftir er nánari lýsing á bátunum og er þar m.a. stuðst við hina merku bók Þorsteins Jónssonar í Laufási, „Aldarhvörf í Eyjum“, sem kom út árið 1958 og er ómetanleg heimild um fyrstu vélbátana í Vestmannaeyjum og útgerðarhætti í Eyjum frá 1890 til 1930.
G.Á.E.

Friður VE-156
Súðbyrtur mótorbátur, smíðaður í Frederikssundi í Danmörku árið 1911 og gekk fyrst á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum árið 1912. Hjörtur Einarsson í Þorlaugargerði (síðan á Geithálsi, faðir Sveinbjörns, Alfreðs, Einars og þeirra systkina og afi Guðmundar Sveinbjörnssonar skipstjóra á ms. Sighvati Bjarnasyni) var lengst af formaður með Frið eða í sjö vertíðir. Friður var 10,37 brúttólestir, smíðaður úr eik og furu með 12 hestafla Gideonvél.
Að baki Frið liggur varðskipið Þór, fyrsta varð- og björgunarskip Íslendinga sem kom til Vestmannaeyja 26. maí 1920.
Vélbáturinn Friður var seldur til Stokkseyrar árið 1921, en á tímum áraskipanna fram til 1905 gekk þekkt áraskip frá Vestmannaeyjum sem hét Friður. Það var áttæringur og stýrðu því m.a. þeir nafnar og frændur Gísli Lárusson í Stakkagerði og Gísli Eyjólfsson á Búastöðum. Friður var frægt hákarlaskip í Eyjum og fór t.d. í 13 hákarlalegur frá 1872-1883, en um 1890 var hákarlalegum frá Vestmannaeyjum að mestu hætt. Áraskipið Mýrdælingur fór í síðustu hákarlaleguna frá Vestmannaeyjum fyrir réttum hundrað árum, hinn 14. apríl 1893.

Jóhanna VE-148
Súðbyrtur mótorbátur, smíðaður í Vestmannaeyjum úr eik og furu af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ (föður Ólafs bátasmiðs, Kristins á Miðhúsum og þeirra systkina og afi Ása í Bæ). Jóhanna var smíðuð haustið 1910 undir Skiphellum eins og flestir fyrstu mótorbátarnir sem smíðaðir voru í Vestmannaeyjum og gekk fyrst á vetrarvertíðinni 1911. Jóhanna var 9,8 tonn að stærð með 10 hestafla Danvél. Formaður var Stefán Þórðarson í Hlaðbæ.
Árið 1914 var sett stýrishús á Jóhönnu og var það annar Vestmannaeyjabáturinn sem fékk stýrishús. Sama ár var smíðað stýrishús á Gnoðina sem var fyrsti vélbáturinn sem fékk þessa þörfu og algjöru nýjung segir Þorsteinn í Laufási í Aldahvörfum í Eyjum. Jóhanna var seld til Reykjavíkur eftir vetrarvertíðina 1914.

Elliði VE-96
Mótorbáturinn Elliði var 7,33 tonn, súðbyrtur og smíðaður í Frederikssundi í Danmörku árið 1906, með 8 hestafla Danvél. Eins og aðrir mótorbátar sem voru smíðaðir í Frederikssundi á þessum árum var hann fluttur til landsins með flutningaskipi. Elliði gekk fyrst á vetrarvertíðinni 1907 og reyndist hin mesta happafleyta. Samfleytt gekk Elliði í 19 ár frá Vestmannaeyjum, en var árið 1926 seldur norður á Langanes.
Það var algengast á fyrstu árum vélbátanna í Vestmannaeyjum að margir slógu sig saman og keyptu bát frá Danmörku eða létu smíða í Eyjum. Iðulega voru fimm og sex eigendur um hvern bát. Fyrstu eigendur Elliða voru t.d. fimm talsins og áttu þeir allir jafnan hlut. Fyrsti formaður með Elliða var einn eigendanna, Magnús Tómasson, síðar bóndi að Steinum undir A-Eyjafjöllum og var hann í sex vertíðir formaður með bátinn. Það var ólíkt auðveldara fyrir unga og duglega sjómenn að hefja útgerð í þá daga en er nú á því herrans ári 1993. Nú verður helst að giftast inn í einhverja kvótaættina ef ungir menn eiga að gera sér von um að geta orðið útgerðarmenn fyrir stærri skip eins og duglegur Eyjaskipstjóri komst að orði. Gott dæmi um fjölmenna félagsútgerð í þá daga var útgerð mb. Portlands VE 97 sem Friðrik Benónýsson, faðir Binna í Gröf og þeirra systkina, átti í og var formaður með, en samtals voru átta einstaklingar eigendur að Portlandinu sem var 8,45 tonn að stærð.
Breytingin frá árum og seglum til véla var sannkölluð bylting atvinnuhátta í Vestmannaeyjum. Árið 1907 voru gerðir út 22 vélbátar frá Vestmannaeyjum og voru eigendur þeirra skráðir 119 einstaklingar.

Vertíðina 1908 voru mótorbátarnir orðnir 40 að tölu.