Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Sjómannadagurinn 2005

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. mars 2017 kl. 09:30 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. mars 2017 kl. 09:30 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Sjómannadagurinn 2005



Sjómannadagurinn í Eyjum nýtur alltaf jafnmikilla vinsælda. Það sást vel í fyrra, árið 2005, þegar mikill mannfjöldi sótti viðburði daganna sem eru orðnir þrír. Strákarnir í sjómannadagsráðinu eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna, allt starfandi sjómenn, sem stýra þessu af öryggi að sjómannasið.
Föstudaginn 3. júní var sjómannagolf þar sem Gylfi Sigurjónsson á Þórunni Sveinsdóttur varð sigurvegari. Þá var líka keppni í fótbolta og sigraði áhöfnin á Hugni. Um kvöldið hélt Árni Johnsen uppi fjöri með söng og gítarspili í Akóges.
Laugardaginn 4. júní hófst fjörið í Friðarhöfn kl. 1300. Þar var fjöldi manns í indælu veðri. Í upphafi var kappróður áhafna og fiskvinnslustöðvanna. Áhöfn Vestmannaeyjar var með besta tímann. Þar var líka koddaslagur, reiptog, hlaup á karalokum, kararóður og stakkasund. Sæþotuferðir voru fyrir krakkana og handboltadeild ÍBV var með fiskmarkað. Fjöllistahópur var með kennslu á línuskautum, Hildur Vala, idolstjarna, söng og skákmót var á Básum. Um kvöldið var samkoma í Höllinni með fjölda skemmtiatriða og dansað var fram undir morgun. Sunnudaginn 5. júní voru fánar dregnir að húni klukkan 1000. Sjómannamessa var í Landakirkju kl 1300, prestur var séra Kristján Björnsson og organisti Guðmundur Guðjónsson. Eftir messuna var minningarathöfn sem Snorri Óskarsson annaðist við minnismerkið á kirkjulóðinni og hjónin Ágúst Guðmundsson og Ása Sigurjónsdóttir lögðu blómsveig að minnisvarðanum. Klukkan 1500 lék Lúðrarsveit Vestmannaeyja undir stjórn Stefáns Sigurjónssonar á Stakkagerðistúni, Guðjón Hjörleifsson flutti ræðu, sjómenn voru heiðraðir og verðlaunaafhending fór fram. Sjómannadagsráð heiðraði einnig þá Guðjón Ármann Eyjólfsson og Sigmar Þór Sveinbjörnsson fyrir Sögu og efnisskrá Sjómannablaðs Vestmannaeyja 1951-2000 (Sjá bls 79). Snorri Óskarsson sá um það. Þar var líka sérstök barnadagskrá með miklu fjöri og glensi og krakkar úr Fimleikafélaginu Rán sýndu listir sínar.
Á sunnudagskvöldinu var samkoma í Höllinni með fjölda skemmtiatriða, 300 manns voru í mat og 800 alls á skemmtun að loknu borðhaldi til miðnættis þegar hátíðahöldum sjómannadagsins 2005 lauk. Það voru útgerðirnar, Bergur Huginn, Dala Rafn, Þórunn Sveinsdóttir, Glófaxi, Gullberg, Frár, Stígandi, Bylgjan og Bergur ásamt Vinnslustöðinni, Ísfélaginu, Sparisjóðnum og Íslandsbanka sem borguðu allan pakkann. Aðgangur kostaði 500 krónur og nota á hagnaðinn til þess að kaupa nýja kappróðrarbáta. Eftirfarandi listamenn komu fram: Alexander Jarl Þorsteinsson, Silja Elísabet Brynjarsdóttir, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Davíð Ólafs-son, Trillurnar, Jóhannes Kristjánsson, K. K., Ómar Ragnarsson og Ragnhildur Gísladóttir. Allt endaði þetta með sóma fyrir alla sem að komu.