Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Kiwanis gefur neyðarsíma
Fyrir allmörgum árum voru settir upp nokkrir neyðarhnappar á völdum stöðum umhverfis Vestmannaeyjahöfn í því skyni að auka öryggi sjófarenda og annarra er leið eiga um höfnina. Þetta var gert að frumkvæði félaga í Kiwanisklúbbnum Helgafelli og fjármagnaði klúbburinn verkið. Framtakið vakti talsverða athygli því slík öryggistæki var hvergi að finna í íslenskri höfn og þróunin varð síðan sú að slíkur búnaður, eða svipaður, yrði skylda við stærri hafnir, samkvæmt reglugerð.
Fyrir rúmu ári var ákveðið að endurnýja búnaðinn hér í Eyjum og setja upp neyðarsíma í stað hnappanna, svo að sá sem kallaði eftir hjálp gæti þá talað beint við neyðarlínuna. Notkun símanna er einföld, þeir eru í rauðum áberandi kössum, sem þarf að opna og ýta síðan á hnapp sem þar er og fæst þá beint samband við neyðarlínuna sem leiðbeinir um viðbrögð og kallar til aðstoð. Simarnir eru einnig auðkenndir með áberandi SOS merki. Rétt er að minna á það, að ef maður fellur í sjóinn þá eru mjög víða við höfnina björgunarhringir sem grípa skal eins fljótt og hægt er og koma tii þess er í nauðum er.
MINNING