Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Alfreð Einarsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. mars 2017 kl. 11:25 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. mars 2017 kl. 11:25 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) (Ný síða: <center>'''FRIÐRIK ÁSMUNDSSON'''</center> <big><big><big><center>'''Alfreð Einarsson'''</center></big></big></big><br><br> Alfreð Einarsson fæddist á Búðum í Fáskrúðsfi...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
FRIÐRIK ÁSMUNDSSON
Alfreð Einarsson



Alfreð Einarsson fæddist á Búðum í Fáskrúðsfirði 6. desember 1921. Foreldrar hans voru Einar Björnsson, sjómaður, stýrimaður og skipstjóri og Sigurlaug Guðmundsdóttir, húsmóðir og voru börnin 5 í þessari aldursröð: Guðlaugur, Alfreð, Erla, Stefán og Elsa.
Alli stundaði nám í barnaskólanum á Búðum og 2 vetur í kvöldskóla sem þar var og lærði þar stærðfræði, íslensku og ensku. Þegar hann var 12 ára, reru þeir bræður hann og Lalli (Guðlaugur, faðir Guðmundar, skipstjóra á Þórunni Sveinsdóttur og hans systkina) sem var 2 árum eldri, á skektu sem hafði eina ár á hvort borð. Pabbi þeirra átti færeying sem hafði þrjár árar á hvort borð en þeim bræðrum fannst hann of þungur og fengu skektuna lánaða. Þeir réru með handfæri og flotlínu og fiskuðu oft vel af þorski þarna innan fjarðar.
Flotlínan var hnýtt upp á færin og var alltaf í sjónum, kom ekki um borð í skektuna fyrr en úthaldinu lauk. Þeir drógu sig eftir henni, tóku þorskinn af og beittu síld og skelfiski jafnóðum. Síldina fengu þeir í lagnet í firðinum og skelfiskinn í fjörunni. Á Búðum var gamalt íshús og þar var stundum hægt að fá beitu þegar enga síld var að hafa í lagnetin. Aflinn var oftast ljómandi þorskur sem bræðurnir lögðu upp hjá kaupmanni í þorpinu sem verkaði hann í salt. Enginn peningur var greiddur fyrir innleggið en vöruskipti viðhöfð. Vörur til heimilisins voru því teknar út fyrir afla strákanna.
Fjórtán ára byrjaði Alli að róa upp á hálfan hlut hjá pabba sínum á snurvoð á 10 tonna báti, Heklu, sem gerð var út á voðina á sumrin og línu á veturna. Útgerðarmaðurinn hét Stefán Jakobsson. Þaðan lá leiðin á Kötlu, 11 tonna bát, hjá sama útgerðarmanni. Auk annarra starfa þar var Alli Ijósameistari eins og það var kallað. Ekkert rafmagn var í bátnum og voru siglingarljósin olíuluktir með lampa og kveik. Þegar búið var að bera eldspýtu að kveiknum, var luktinni lokað og mastursljósið híft upp. Hliðarljósin (lanternurnar) voru tendruð á sama hátt, hvort sínu megin og skutljósið aftan á stýrishúsinu. Þetta gat verið skítaverk en það lifði furðu vel á þessu. Auðvitað kom fyrir að ljósin slokknuðu og þá varð að slaka mastursljósinu niður og bera logandi eldspýtu að kveiknum öðru sinni og kannski oftar og bæta þurfti olíu á annað slagið. Eina vinnuljósið var karbítljós aftan við stýrishúsið. Aflinn var seldur sama kaupmanni og bræðurnir höfðu lagt upp hjá og voru hlutir greiddir í vöruútekt eins og áður. Út á það fékk Alli peninga hjá mömmu sinni á böll og skemmtanir. Næst lá leiðin á norskan 14 tonna bát, Höfding. Útgerðarfélagið Stagland átti 2 slíka og var Árni Stefánsson á Búðum skipstjóri á Höfding, Fyrst voru þeir á snurvoð en um sumarið á reknetum Norðanlands og rótfiskuðu, mest á Grímseyjarsundinu. Í áhöfn voru 7 karlar og var Alli kokkur. Síldina lögðu þeir upp hjá Tynesbræðrum á Siglufirði. Hluturinn varð 850 krónur eftir tæpa 2 mánuði og þótti afbragðsgott. Þegar komið var heim eftir úthaldið, gerði Einar upp fyrir son sinn og hélt Alli 50 krónum eftir þegar búið var að greiða fæðið. Þessa hýru notaði hann til þess að kaupa gamlan, handsnúinn, grammifón