Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2003/ Tveir eftirminnilegir trilluróðrar
Á árum áður sóttu færeyskar skútur mikið hingað til fiskveiða, flestar með handfæri og fáeinar net. Allur afli var saltaður um borð. Þær sóttu þjónustu og læknishjálp hingað til Eyja og alla sunnudaga lágu þær hér inni. Fæeyingarnir héldu hvíldardaginn heilagan á hverju sem gekk. Voru þá oft einir hér í höfn því Eyjaflotinn réri alltaf þegar veður gaf, eftir að netin voru tekin. Þeir voru, blessaðir, áberandi á götunum hérna um helgarnar enda voru þetta 20 til 30 menn í áhöfn hverrar skútu.
Í byrjun mars 1938 gerði mjög vont veður hér við suðurströndina og víðar. Um kvöldið þann 3. fékk Vesturfarið VN 239, 162,8 t., frá Vestmannahavn í Færeyjum, á sig mikinn brotsjó á Selvogsbankanum. Stýrishús og lúkarskappi sópuðust af, allt fór af lestarlúgunni, lífbáturinn brotnaði illa og skútan hálffylltist af sjó. Skipstjórinn kjálkabrotnaði, stýrimaðurinn fótbrotnaði og einn hásetinn lærbrotnaði. Eftir erfiða siglingu náðu þeir hingað til Eyja morguninn eftir, þann 4. Skútan Marite varð líka fyrir alvarlegum áföllum þar sem hún var á leiðinni frá Færeyjum til Íslands. Stýrishúsið brotnaði, og tók skipstjóra og stýrimann útbyrðis. Stýrimaðurinn drukknaði en skipstjórinn náði, á síðustu stundu, í tóg sem hékk útbyrðis og var bjargað um borð. Þá urðu skúturnar Elsa og Atlandsfarið frá Klakksvfk einnig fyrir skemmdum. Allar leituðu þessar skútur hafnar í Vestmannaeyjum. Í þessu veðri fórst skútan Fossanes frá Klakksvík, 158,5 tonn að stærð, skammt norðaustur frá Nýjahrauninu. Með henni fórust 19 menn, þar af 2 Íslendingar, Guðmundur Guðmundsson 32 ára og Jón Magnússon 50 ára, báðir búsettir í Hafnarfirði. Miðið á henni er: Rifar aðeins milli Alseyjar og Suðureyjar (Alsey innan við) og Litli-Þríhyrningur er milli Fosshóls og Fagrafells. Radarmið: Bjarnarey 5,3 sml, Súlnasker 9,2 sml. og dýpið er 86 faðmar.
Þá kom þýski togarinn Hans Lock, hingað til Eyja, með mikið slasaðan stýrimann. Skipið fékk á sig brotsjó þessa sömu nótt og færeysku skipin lentu svona illa í því, nóttina milli 3. og 4. mars 1938. Hann fékk mikið höfuðhögg og var honum komið til Ólafs Ó. Lárussonar héraðslæknis. Hann gerði að sárum mannsins og fjarlægði blóð sem komist hafði inn á heilann. Læknirinn bjó sjálfur til áhöld til að fjarlægja blóðið. Var þessi aðgerð rómuð hér og víða erlendis. Fékk Olafur viðurkenningu fyrir.
4. mars, fékk þýski togarinn Zieten einnig á sig mikinn brotsjó við Vestmannaeyjar. Vélarreistin (keisinn) rifnaði frá og borðstokkurinn bakborðs-megin brotnaði meira og minna. Varðskipið Ægir kom með hann hingað til Eyja, þar sem bráðabirgðaviðgerð fór fram.
Þessar upplýsingar eru skv. Siglingasögu Færeyja eftir Pál J. Nolsöe og úr Þrautgóðum á raunastund, öðru bindi, í samantekt Steinars J. Lúðvfkssonar.
Þessi frásögn er í litlu samhengi við fyrirsögnina hér að ofan. En hún segir okkur hvað Eyjarnar, íbúar hennar og mjög oft læknarnir okkar, blessaðir, hafa verið sjófarendum við suðurströndina mikils virði. Á sama sólarhringnum, 4. mars 1938, komu til hafnar í Eyjum 6 skip, 4 skútur og 2 togarar, brotin og illa farin, með nokkra mikið slasaða menn. Og Fossanesið fórst þá með allri áhöfn, hér rétt við bæjardyrnar að suðaustanverðu. Frásögnin af þessum slysum í byrjun mars 1938, kom til af því að Vesturfarið kom hingað með brotinn lífbát eins og áður segir.
Bræðurnir frá Litlabæ, sem oftast var kallaður Bær, bátasmiðirnir og trillusjómennirnir, Ólafur og Guðmundur í Sjólyst, Astgeirssynir, fengu brakið fyrir lítinn pening og endurbyggðu það. Framendinn var alveg ónýtur og smíðuðu þeir hann alveg nýjan.
Fremst var honum lokað og var þar smáafdrep fyrir einn mann.
Að framan og á bæði borð var sett skjólborð sem gengið var frá á borð, aðeins innan við byrðinginn alveg aftur í skut, líkt og á öllum trillum og var mikil vörn í brælum. Tvær þóftur voru í bátnum. Góðu mastri. sem fylgdi, var stungið niður í gegnum þá fremri og í skorðu í kjalsoginu. Gott segl og fokka fylgdu með frá Færeyingunum. Stórseglið og fokkan voru í einu lagi. Synir þeirra bræðra, Sigurjón Olafsson (Siggi í Bæ) og Jón Guðmundsson í Sjólyst áttu Solovél. Var hún sett í bátinn. Þetta var 4 hesta, sænsk, fjórgengis bensínvél, með rafkveikju, handsnúin í gang með opið svinghjól. Yfir hana var smíðaður voldugur kassi sem ganga mátti með bæði á stjór og bak. Framan við hann, milli hans og aftari þóftunnar var austurrúmið, jafn breitt vélarkassanum. Þar var aldrei látinn fiskur og úr því var vélinni snúið í gang. Þetta varð myndarbátur sem fékk nafnið Öðlingur. Hann bar rúmlega 1,5 tonn af fiski og reyndist mjög góður í sjó að leggja. Sérstaklega var hann góður á mótstími.
Þeir Guðmundur og Ólafur réru á Öðlingi á veturna, með færi, eftir að loðnan var gengin og fram á vor. Þeir gömlu fiskuðu mikið og sóttu fast, þaulvanir, eftir því kunnugir og fisknir. Stundum höfðu synirnir smá áhyggjur af þeim en alltaf skiluðu þeir öllu heilu í höfn.
Á sumrin og haustin reru þeir Jón og Siggi á Öðlingi, ýmist með línu eða færi. Þeir voru þá orðnir miklir aflamenn hvor með sinn mótorbátinn á vetrarvertíðum. Þeir voru líka mikið í lunda í Ystakletti á sumrin. Þá var oft með þeim þriðji upprennandi sjóarinn, Beggi í Hlíðardal (Bergþór Guðjónsson), síðar oft kenndur við Skuldina sem hann átti og var lengi með. Hann var líka oft með þeim á trillunni, þá stráklingur.
Eitt stríðsárið, skömmu eftir áramót, gerði vont veður sem oftar. Gæfa, trilla Kristins á Miðhúsum, lenti undir pöllum og festist þar. Kristinn var bróðir þeirra Ólafs og Guðmundar. Þeir bræður, synir þeirra, o.fl., komu nú til aðstoðar, m.a. Beggi í Hlíðardal. Vel gekk að losa Gæfuna og allt varð í lagi. Einn af köppum kóngs í hópnum, Friðgeir Björgvinsson frægur trillukarl hér til margra ára, fann þarna undir pöllunum stærðar smokkfisk sem var upplagður í beitu. En á þessum tíma var verkfall og enginn mátti róa. Beggi hvatti samt þá, Jón og Sigga, til þess að falast eftir smokkfiskinum, beita og róa á Öðlingi. Alltaf sami áhuginn þar. Það þurfti ekki mikið að brýna þá frændur. Smokkurinn var falur hjá Friðgeiri og strax var farið að beita. Smokknum dreifðu þeir á línuna og síld á milli. Rétt eftir að þeir byrjuðu, kom Hjörsi (Hjörtþór Hjörtþórsson) til þeirra í skúrinn. Hann var einn af þessum föstu punktum í trillumannahópnum. skemmtilegur karl. en frægastur fyrir há hljóð þegar hann snýtti sér. Nánast eins og hátt baul í belju. Hann vissi af glerkút þarna í skúrnum sem var fullur af landa. Rétt á eftir honum komu þeir Dídó á Ásbyrgi (Friðþjófur G. Johnsen lögfræðingur), Freymóður Þorsteinsson lögfræðingur síðar bæjarfógeti og Ási í Bæ (Astgeir Olafsson trillukarl, skáld og gamanvísnasöngvari, bróðir Sigga). Þeir aðkomnu settust nú að sumbli og sátu meðan línan, 5 bjóð, var beitt. Þarna varð því gleðskapur, sögur sagðar og sungið, mikið fjör og mikið drall.
Seinnipart nætur, í hæglætisveðri, réru þeir Jón, Siggi og Beggi. Haldið var suður með Urðum, ákveðið að halda í suðursjóinn og reyna þar einhvers staðar. Þegar þeir komu suður fyrir Hellutá, hún er suðaustan á Stórhöfða, suður í Suðureyjarsund var þar töluverður vestan sjór og mikill straumur. Þeir sneru þar við og stoppuðu austan við Hellutána í vari og fengu sér kaffisopa. Eftir spjall og þegar komin voru fallaskipti, var endabelgurinn látinn fara rétt við Hellutána og lagt með stefnu rétt sunnan við Bjarnarey í átt að Þríhamradýpinu. Þegar Álsey fyllti upp í Aurinn voru þeir komnir þangað. Þá var beygt í stjór og haldið til austurs þar til Þríhamrarnir (vestast á Elliðaey) voru fastir við Bjarnarey að vestan. Undan því miði var haldið þar til bjóðin 5 voru komin í sjóinn. Þá voru þeir komnir að Höfðaklökkunum austanverðum. Þegar þeir fóru að draga var ágætis ástaða, blanda af þorski, löngu, smávegis af ýsu og nokkrar fallegar lúðukolur. Ekkert spil var í Öðlingi og skiptust þeir á við að draga á höndunum, gogga og blóðga. Alltaf var reynt að draga undan fallinu, það var miklu léttara en þegar dregið var á móti því.
Þegar drætti lauk var Öðlingur langt í að vera fullur. Þeir hugsuðu gott til næsta dags, flýttu sér í land, lönduðu og beittu í hvelli.
Þá var mjöðurinn búinn og engir óviðkomandi í skúrnum. Seinnipart nætur, eftir smá svefn, var aftur róið. Þá var björt og falleg norðanátt, aðeins smákul. Aftur var haldið suður með Urðum og frá Stórhöfða var haldið með stefnu rétt fyrir austan Súlnasker. Endabelgurinn var látinn fara þegar Blátindur var yfir miðri Hellisey. Undan því miði var lagt þar til Súlnabælið, austan í Súlnaskerinu, var komið fram þá var beygt til vesturs og lagt í stefnu á Geirfuglasker.
Þegar búið var að leggja, var farið í milli, stoppað við innendann og drukkið kaffi. Siggi renndi færi og varð fljótt var og dró 2 væna ufsa. Meðan þeir drukku sáu þeir þrjú dökk ský á suðausturhimni, 3 hrafna, á leið vestur. Stuttu síðar fór að kalda og síðar bætti ört í vind. Á stríðsárunum voru veðurspár ekki lesnar í útvarpi en ekki fór á milli mála að bræla var í aðsigi. Þeir fóru því fljótt að draga og með það sama var fiskur nánast á hverju járni, vænn þorskur og langa. Drátturinn gekk vel, og þegar honum lauk, var Öðlingur fullur, eins og hægt var á hann að láta. Alls staðar fiskur nema í austursrúminu. Þá var komið vonskuveður, hvasst af suðaustri, álíka sjór og það á slæmum stað þegar hreyfir vind, eins og kunnugir þekkja. Heimstímið, einar 12 til 13 mílur, var ekki árennilegt á þessari litlu fleytu, drekkhlaðinni og nánast allri opinni. En frændurnir voru frábærir sjómenn eins og allir frá Litlabæ. Þeir þekktu trilluna vel og vissu hvað mátti bjóða henni og leiðina og sjólagið eins og lófana á sér. Það er lengi hægt að komast áfram þótt fleytan sé lítil þegar þetta fer saman. Góður bátur og góð sjómennska.
Vel var gengið frá öllu, seglið híft upp og haldið til lands milli Skerja (Geirfuglaskers og Súlnaskers) með stefnu á Álsey, milli Einarsklakks og Olguklakks. Þaðan með stefnu rétt fyrir vestan Álsey. Þegar þeir nálguðust Sviðin, kom slæmur sjór á bátinn að aftanverðu á stjórnborða. Beggi var frammi á en frændurnir aftur á og stóðu allir upp í klof í fiski. Sjórinn steyptist yfir bátinn og braut mastrið við þóftuna. Það lagðist út í sjó, á hléborða með seglin hangandi á sér. Þeim tókst að ná þessu inn og gátu komið mastrinu aftur fyrir á sinn stað. Kveikjan blotnaði og vélin drap á sér. Reynt var að þunka hana við eld frammi í afdrepinu en ekki tókst að koma vélinni í gang þrátt fyrir margar tilraunir. Trúlega hefur það bjargað miklu að trillan var full, sjórinn nánast farið allur yfir hana.
Ferðinni var þá haldið áfram á seglunum einum. Þegar þeir voru á móts við Álsey, sáu þeir bát vera að koma vestan að með stefnu fyrir sunnan Hænu. Það reyndist vera Auður VE 3, eign Helga Benediktssonar útgerðarmanns. Skipstjóri Ingibergur Gíslason á Sandfelli. Aðrir um borð hjá honum voru Sigfús Sveinsson og Ingólfur Gíslason. Engin talstöð eða annað fjarskiptatæki var í Öðlingi en Auðarmenn sáu til hans, komu til hjálpar og komu enda um borð í hann.
Einhvern tímann þennan dag hitti Guðmundur í Sjólyst Sighvat Bjamason skipstjóra og útgerðarmann á Erlingi 2. á Strandveginum. Þegar Sighvatur heyrði af frændunum á sjó á Öðlingi, í þessu veðri, sagðist hann fara strax og ræsa karlana sína til leitar. Þetta var honum líkt. Þegar Auður var að komast austur úr Smáeyjasundi með Öðling í eftirdragi kom Erlingur 2. Sighvatur vildi taka þá trillumenn yfir til sín en það vildu þeir ekki. Hann fylgdi þeim þá eftir til hafnar. Erfið leið var eftir í gegnum Faxasund og fyrir Klettinn. Sem betur fór, hafði aðeins lygnt og vindurinn kominn sunnar á svo þarna varð aðeins betra en við mátti búast. Erlingur 2. hélt sig kulmegin við Öðling og veitti þannig skjól fyrir storminum og verstu sjóunum. Ingibergur á Auði fór mjög gætilega, alréttustu leiðina, fyrir Klettinn, inn Víkina og til hafnar. Smáskvettu fengu þeir skammt austan við Hringskersgarðinn, annars fór þetta vel.
Það voru þreyttir en ánægðir sjóarar sem lögðust að lágbryggjunni á Bæjarbryggjunni, þarna síðdegis, með kjaftfullan bát af fallegum fiski. Annar róðurinn þegar allir aðrir lágu í verkfalli.
Þessu hafði fundur smokkfisksins undir pöllum komið til leiðar. Þeir Beggi, Jón og Siggi áttu oft eftir að sjá hann svartan á löngum sjómannsferli sem skipstjórar til fjölda ára á fiskibátum. En þessir frábæru sjómenn skiluðu öllu sínu heilu til hafnar alla tíð.
Solovélin í Öðlingi fór aldrei aftur í gang svo ný vél var sett í hann. Í mörg ár enn fiskaðist mikið á hann. Löngu seinna átti að hífa hann upp á Bæjarbryggjuna til lagfæringar og málunar. Þá tókst eitthvað illa til með kranann, sem lyfti honum, eitthvað fór úrskeiðis og Öðlingur skemmdist illa við þær tilfæringar. Ekki var talið borga sig að gera við hann. Þau urðu endalok hans.
Ritað eftir frásögn Begga í Hlíðardal, með innskotum frá Jóni í Sjólyst og Sigga í Bæ.
Friðrik Ásmundsson
Sighvatur Bjarnason VE 81. Nútin dregin íhrœlu. Ljósm.: Signrg. SaTuLkwn. 114 SJÓMANNADAGSBLAD VESTMANNA