Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2003/ Stelpa, sjór og kjölfar Guðrúnar Símonardóttur
Eg er af sjómönnum komin. Alin upp við sjávarsíðuna á úrgu nesi. Akranesi.
Sunnan megin á nesinu er löng og rennislétt sandströnd, sem heitir Langisandur. Þar þótti mér barni gaman að leika mér í flæðarmálinu, láta ölduna elta mig, byggja sandkastala, teikna hús og landaparís, tína skeljar, telja hrúgurnar eftir sandmaðkinn, skoða dauða sjófugla. I góðu veðri að kasta mér til sunds. Leggjast svo í sólbað undir bakka og brenna.
Mér þykir gaman að þessu öllu enn, þótt kulvísin aukist með árunum.
Og mér þótti og þykir svo gaman að fylgjast þaðan með skipakomum, sama hvort um er að ræða litlar trillur, drekkhlaðin fiskiskip, úthafsveiðitogara. sanddælupramma, eða farþegaferjur. Sjórinn heillar mig í öllum sínum tilbrigðum, lognaldan jafnt og brimaldan, sú tilkomumikila áminning um háskann sem býr í hafinu. Ein óhugnanlegasta minning mín úr bernsku snýst um sjávarháska. Ég fór á fætur um niðdimma vetrarnótt með foreldrum mínum til að horfa á strandaðan togara í varnargarðinum austur af höfninni. Ég hef verið sex eða sjö ára. Það var slagviðri og mér var hræðilega kalt, þó varla jafn kalt og mönnunum sem verið var að bjarga í land. Ég man hvernig skipið hallaðist og járnskrokkurinn lamdist við eggjagrjótið í brimrótinu. Ég man hróp og köll í myrkrinu, kuldann, óttann, blauta, uppháa ullarsokka sem stungu mig og heiftarlega, viðþolslausa tannpínu. Skemmdur jaxl var dreginn úr mér þegar dagur rann.
Laxfoss og Boggurnar
Þegar ég var barn ferðaðist ég mest á sjó. Leiðin til hennar ömmu minnar í Reykjavík lá annars vegar um langan og hlykkjóttan veg fyrir Hvalfjörð, sem hossast varð tvo og hálfan tíma í rútu, (við áttum ekki bíl), hins vegar í klukkutíma siglingu beina sjólínu utan við minni fjarðarins. Amma átti lengstum heima í námunda við höfnina. Fyrst sigldi ég til hennar með Laxfossi. Þá með Eldborginni sem mér þótti ákaflega fallegt skip. Þá með Akraborginní fyrri, sem mér þótti notaleg. Og að lokum Akraborginni síðari sem mér fannst alltaf heldur hráslagaleg og ekki gott sjóskip en sakna samt þegar búið er að leggja henni sem farþegaferju.
En þótt ég væri vön að ferðast á sjó fann ég oft fyrir sjóveiki, sérstaklega ef hann var á suðvestan, þá er ylgja í straumröstinni út af Hvalfirðinum og skipið tók að velta meira en maginn í mér þoldi. Eg ældi þó ekki oft. Fékk bara óbragð í munninn og sjóriðu þegar í land var komið. Eg var alltaf jafn fegin því að vera ekki þerna. Þær þurftu að standa uppi og selja kaffi og sælgæti hvernig sem viðraði og þrífa æluna sem farþegarnir skildu eftir í döllum og pokum eða bara á gólfinu í farþegasalnum. En ég hefði ekki heldur viljað vera háseti, né nokkur annar með starfsheiti um borð.
Hamona og Höfrungur III
Svo gerðist það að pabbi fór til sjós eftir margra ára landlegu. Hann var af fræknum vestfirskum sjómönnum kominn og hafði stundað sjó sem ungur maður, var meðal annars í áhöfn skonnortunnar Hamonu, sem siglt var til Íslands frá Kanada í miðri seinni heimsstyrjöldinni vorið 1941. Pabbi sagði okkur stundum frá þessari sjóferð og ég hafði sérstakt yndi af að fletta gömlu albúmi með myndum úr ferðinni. Á einni þeirra stóð pabbi yst á bómu aftursegls Hamonu hátt yfir haffletinum. Það þótti mér í meira lagi glæfralegt. Bómumyndin og mynd af honum að leika á mandólín og fleiri myndir úr þessari háskaför birtust í bók Vestfirska forlagsins, Frá Bjargtöngum að Djúpi, sem út kom 2001. En pabbi hafði sem sagt hætt á sjó, gefist upp fyrir sjóveikinni og sjúkum maga, farið í Samvinnuskólann og gerst skrifstofumaður og kórsöngvari með meiru. Svo fór hann aftur á sjó. Yngri bróðir hans var landsfræg aflakló og síldarkóngur, Garðar Finnsson, og hann bauð honum skipsrúm, fyrst á Höfrungi II. ef ég man rétt. En í febrúar 1964 tók Garðar við glæsilegasta skipi í flota Haraldar Böðvarssonar & Co, Höfrungi III. Höfrungur III. var smíðaður í Noregi og var á sínum tíma merkilegasta fiskiskip íslendinga, fyrsta fiskiskip í heiminum með hliðarskrúfu og stýrisskrúfu „sem átti eftir að gerbreyta allri aðstöðu til síld- og loðnuveiða" er haft eftir Garðari í bókinni Til fiskiveiða fóru 1. Í sömu bók er sagt frá því að svo mikil hafi aflasæld hans verið að á fyrstu níu mánuðunum sem hann var með skipið hafi hann aflað fyrir tvöföldu kaupverði þess. Þeir byrjuðu á þorskanetum um veturinn en um sumarið var farið norður á síld. Og nú var orðið langt að sækja silfrið. Alla leið til Jan Mayen.
Jan Mayen og Surtsey
Undir haust var aftur komið til Akraness og tvennt er mér sérlega minnisstætt við heimkomu pabba. Hann hafði meðferðis tvo ófleyga mávsunga, sem hann hafði hænt að sér, og kallaði Jan og Man til að minna á uppvaxtarslóðir þeirra. Þeir vöppuðu um grasflötina fyrir utan húsið okkar í nokkra daga áður en hann tók þá með sér aftur út á sjó. Hitt sem ekki gleymist var frásögn hans af siglingunni fram hjá Surtseyjargosinu, sem þá hafði staðið frá því í nóvember árið áður og ekkert lát var á. Eyjarnar tvær, Jan Mayen og Surtsey, önnur ísköld og hin rauðglóandi heit, sveipuðust ævintýraljóma í huga mér og ég fylltist óstjórnlegri löngun til að komast í langa siglingu á sjó. Og ég bað um að fá að fara með ef þeir færu á veiðar undan Suðurlandi. Garðar leyfði krökkum oft að koma með í róður. Pabbi lofaði að kanna málið. Ég hafði lokið landsprófi um vorið og var á leiðinni í Menntaskólann á Akureyri í lok september, tíminn var því naumur. Leó bróðir minn, sem var að verða þrettán ára, vildi líka fá að fara. Ekkert varð þó úr suðursiglingu því síldin var komin inn á Faxaflóa. En einhvern tíma síðla í september varð okkur að ósk okkar. Við máttum fara með.
Á haustsíld
Við lögðum af stað í dögun og veðrið var svalt og gott. Pabbi tók strax til starfa eins og aðrir um borð en við systkinin stóðum við borðstokkinn og horfðum út á víðáttumikinn bláan hafflötinn og hvítt löðrið freyða um kinnunga skipsins. Að baki okkur minnkaði Akrafjallið uns það virtist hafa fengið sjó upp í miðjar hlíðar. Þegar kokkurinn var kominn með heitt á könnuna kom pabbi og sótti okkur í morgunkaffi. Mér fannst matsalurinn ótrúlega fallegur. Veggirnir voru klæddir ljósu viðarlíki og mikið má vera ef ekki var rautt leðurlíki á bekkjunum. Allt var svo hreint og fágað. Ég hef aldrei fundið betri lykt í nokkru skipi. Kaffið og kexið bragðaðist dásamlega og mér fannst gaman að hlusta á skrafið í köllunum yfir krúsunum. En svo vildi ég fara aftur upp á dekk að horfa á himininn og hafið og fjöllin sem sífellt tóku á sig nýja mynd eftir því sem skipið sigldi vestar og norðar. Og ég lagðist niður í svartan nótarbing sem angaði af tjöru og horfði á skýin á sinni siglingu og lét mig dreyma og gleymdi mér.
Bræla
Undir kvöld var farið að bræla. Skýin höfðu sortnað og sigið niður að haffletinum sem orðinn var grár og báturinn var tekinn að velta á úfnum öldunum. Eftir kvöldmat vildi pabbi að við Leó færum í koju niðri í lúkar og fengjum okkur blund. Bráðum yrði kastað og hann lofaði að vekja okkur ef þeir fengju síld. Lúkarinn var jafn snyrtilegur og annað um borð í þessu glæsta skipi. Eg fór í pabba koju, sem var efrikoja, en bróðir minn fékk lánaða koju eins félaga hans fyrir neðan mig. Það var hægt að draga tjöld fyrir.
Mér leið einkennilega, bæði vel og illa. Eg fann hvernig skipið tók alltaf stærri og stærri dýfur og höfuðið á mér hallaðist ýmist upp eða niður. Maginn fór á hreyfingu og ég óttaðist að verða sjóveik. En ef ég lá alveg slök á bakinu gat ég haldið aftur af þeirri leiðu tilfinningu. Við bróðir minn mösuðum eitthvað saman í fyrstu, en svo náði syfjan tökum á mér og ég sofnaði. Eg vaknaði við að pabbi stóð hjá mér með fullt mjólkurglas og þykka rúgbrauðssneið með smjöri og rúllupylsu. Hann sagði mér að borða þetta, klæða mig svo vel og koma upp, því nú væru þeir að fá hana. Leó væri löngu kominn upp í brú til Garðars. Það væri bræluskratti og hann hefði orðið hræddur, fyndist betra að fylgjast með því sem væri að gerast úr brúnni.
Veiðihljómkviðan
Sú sjón sem mætti mér þegar ég kom upp á dekk rennur mér seint úr minni. Sterkur ljóskastari klauf svart myrkrið umhverfis og lýsti upp þilfarið og spriklandi síldina í nótinni á stjórnborða. Nótin var full af síld. Það stirndi á iðandi kösina í ljóskeilunni. Hún féll eins og silfurlitur foss úr háfnum niður í lestina. Eg fékk nánast ofbirtu í augun. Þungur niður öldunnar og gargið í sjófuglinum skall á eyrunum. Vængjasláttur fuglanna, hífopp sjómannanna og köll frænda míns úr brúarglugganum blönduðust garginu, síldarkliðnum og veðurhljóðunum í magnaðri hljómkviðu. Það rigndi og baksviðs gnæfði Jökullinn. Mér virtist við vera alveg uppi undir honum, en hér leit hann allt öðru vísi út en sú prúða, hvíta keila sem Snæfellsjökull er séður frá Akranesi. í þessari miklu nálægð var hann svartrákóttur, úfinn og hrikalegur. Það lá við ég yrði hrædd. Samt varð ég hvorki hrædd né fann til sjóveiki lengur. Eg var algjörlega uppnumin af öllu sem fyrir augu og eyru bar, hávaðanum í náttúrunni og agaðri veiðigleðinni í skipshöfninni. Eg hef sjaldan skynjað jafn sterkt hver var undirstaða lífs míns og landsins. Björg úr sjó.
Fundinn samferðamaður
Þessi tveggja daga síldartúr á Höfrungi III. er minn sjómannaskóli og jók enn á aðdáun mína á Garðari föðurbróður mínum. Mér fannst pabbi líka flottur í sjógallanum. Ferðin treysti kærleiksböndin milli okkar og ég fór reynslunni ríkari norður í Menntaskólann á Akureyri. Þar gleypti skólinn og félagslífið mig fljótlega, ég hellti mér út í bókmenntalestur og leiklist og lenti strax fyrsta veturinn minn í leikferðalagi með Drangi til Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Það var eins og hver önnur lystireisa að sigla út frostkyrran Eyjafjörðinn undir stjörnuhimni samanborið við brælugjarnan Faxaflóann og sérstaklega spennandi að koma inn til Siglufjarðar, norðlægasta kaupstaðar á öllu Íslandi. Mig hafði lengi langað til að sjá þetta fræga pláss þar sem mamma hafði saltað síld sumarið sem allt varð vitlaust. Í einni landlegunni hafði lögreglan stöðvað slagsmál á dansleik með því að varpa táragasi inn í samkomuhúsið. Í æðinu sem greip um sig var mömmu varpað út um glugga. Nú var allt með kyrrum kjörum og okkur var frábærlega vel tekið. Við fórum aftur í leikferð til sömu plássa veturinn eftir og lentum í íshröngli á leiðinni inn til Ólafsfjarðar. Eða kannski var ísinn fyrra veturinn. Eg man það ekki. Hitt man ég, að á þessum siglingum um Eyjafjörð vorum við farin að gefa hvort öðru auga, ég og Einar Karl Haraldsson, sem seinna árið lék unnusta minn í ítölskum ærslaleik. 17. september 1967 opinberuðum við trúlofun okkar, 19 ára bæði, og ég hringdi í pabba til Jan Mayen til að láta hann vita fyrstan allra. Ef honum fannst við of ung, var hann ekkert að hafa orð á því.
Með Smyrli til Færeyja
Sumarið 1975 hófust ferjusiglingar milli Íslands og Færeyja með Smyrli og við Einar ákváðum að heimsækja frændþjóð okkar á eyjunum 18, ásamt góðum vini, vikuna fyrir Ólafsvöku. Hluta leiðarinnar út hrepptum við vonskuveður og ég varð í fyrsta og eina skipti hrædd á sjó. Þetta voru líka mín fyrstu og einu kynni af úthafsöldunni og þegar ég var komin í koju um nóttina, djúpt í skrokki skipsins, fannst mér það taka svo brattar dýfur niður í öldudalina að ég varð efins um að það hefði sig aftur upp. Svo hafði það sig aftur upp en skall þá aftur niður svo ég tókst á loft og skipið nötraði. Ég var ákaflega glöð þegar við sigldum inn til Þórshafnar og fegin að eiga vikudvöl fyrir höndum í eyjunum og þurfa ekki að halda siglingunni áfram til Noregs eins og sumir farþeganna. Dvölin í Færeyjum varð eitt samfellt ævintýri og við sigldum milli stærstu eyjanna, klifum fjöll og hittum gestrisið og elskulegt fólk. Flestir karlmenn sem við tókum tali á götum úti höfðu verið á vertíð við Ísland. A heimleiðinni fengum við rjómablíðu alla leiðina. En þegar við nálguðumst land skall á niðdimm þoka svo varla sá handa skil. Okkur virtist skipið hætta að hreyfast og það var eins og maður missti allt tímaskyn. Þokulúðurinn vældi án afláts og var svarað með væli einhvers staðar úti í hvítri móðunni. Þótt það væru vissulega vonbrigði að verða af tilkomumikilli landsýn varð þessi sigling í Austfjarðaþokunni mögnuð á annan hátt.
Farþegi skráir reynslu sína
Það fór svo að samanlögð reynsla mín af sjónum og hafinu kæmi að notum, þótt ég hafi aldrei stundað sjó í atvinnuskyni. Ég hef ævinlega verið í hlutverki farþegans og þannig séð án ábyrgðar í hverri minni sjóferð. En ég hef ekki verið alveg án hlutverks. Eg hef skráð í minnið og að lokum á bók það sem fyrir augu, eyru og nef hefur borið.
Þegar ég tók til við að rita Reisubók Guðríðar Símonardóttur, sem að hálfu leyti gerist á sjó og að hálfu leyti meðal framandi þjóða og að nær öllu leyti í löngu liðnum tíma, þá vissi ég að ég ætti mikla rannsóknarvinnu fyrir höndum. Þrennt yrði ég að gera áður en ég settist niður við skriftir. Eg yrði að lesa reiðinnar býsn af bókum, gömlum bókum frá tíma sögunnar og nýjum bókum um sama tíma. Eg yrði að heimsækja sögustaðina og kanna hvað til væri af byggingum og öðrum minjum frá því að Guðríður Símonardóttir og samferðafólk hennar átti leið þar um. Og ég yrði að kynna mér skipakost 17. aldar manna og sigla um sömu höf og fljót og hún gerði forðum tíð, helst á sama árstíma.
Siglingin suður í heimildum
Þetta var mín aðferð. Eg gat ekki látið ræna mér í Vestmannaeyjum og loka mig niðri í lest á gömlu sjóræningjaskipi til að liggja þar eins og síld í kös fangaðra samferðamanna. Til að lýsa slíkri reynslu hafði ég m.a bréf Guttorms Hallsonar frá Djúpavogi, sem er einn hinna merku heimildamanna okkar um Tyrkjaránið 1627. Hann segir svo: „Í siglingunni áttum vér auma ævi og sorglega; fólkið var hrakt úr öðrum stað í annan, og hver varð nálega að liggja ofan á öðrum í barlestinni; á því skipi sem ég var, var 400 fólks með ungum og gömlum. Slík óp og hróp, vein og kvein var að heyra á sálunum guðs, að þú varst nálega hlessa, því enginn getur sig ræktað eður nokkurn hlut til góða gert. Tvær konur sofnuðu á því skipi, sem eg var á, kona Rafns og konan frá Gautavík. En kerlingunni gömlu frá Búlandsnesi snöruðu þeir út lifandi."
Síra Ólafur Egilsson prestur á Ofanleiti lýsir sömu siglingu suður Atlantshafið og allt til Algeirsborgar í sinni frægu Reisubók: „Þann 19. júlí, sem að var fimmtudagsmorguninn, um miðjan morgun, þá rippuðu þeir upp sín akkeri. Þessi í 11 -menni vundu þá upp segl undir eins og það stóra skipið, sem austar lá, þá þeir sáu Krabbann út koma, sem þeir ræntu frá Dönskum. Og nær eð þeir gengu til segls, þá skutu þeir af ix [9] fallstykkjum og slógu sér svo til samans og fóru svo fyrir innan Elliðaey, og svo settu þeir sinn kóss í hádegisstað, og þann kóss héldu þeir í fullar og fastar iij [3] vikur með þann besta og beinasta byr, sem þeir sér óska kunnu eða hafa vildu. „Og Ólafur lvsir ýmsu sem fyrir bar á siglingunni, m.a. þessu: „A þann 30. dag Julii, þá fæddi mín fátæka kvinna barn til ver-aldarinnar eftir tímans hentugleikum."
Stormurinn
Þessi barnsfæðing um borð í ræningjaskipinu varð mér efni í nokkurra blaðsíðna frásögn í Reisubók Guðríðar. Sömuleiðis óveðrið sem skipið hreppti og Ólafur lýsir svo: „Að nokkrum dögum liðnum af Augusti-mánuði, sem var sá 5., kom þá á oss stór stormur af landnyrðingi, svo lá við töpun, svo að það eina skipið hrakti frá því öðru. Þar af fengu illmennin stóran ótta, svo sem að væru þeir dauðvona, og um miðnætti nærri, þá gekk svo yfir þetta stóra skip, að þann stóra bátinn, sem þeir kalla slúffur, sleit upp undan öllum festum á þiljum og keyrði út á hlé og þar með í sundur, og þar með fór út einn af þeim kristnu, sem að var spanskur, en annar lestist í handlegg og mátti þó samt fara út á rámúlann. og þaðan datt hann út í sjó, og meina eg
Menn hanga í snörum í höfninni í Alsírborg. Úr bókinni Historie van Barbaryen eftir Pieter Dan.
að þýskur væri, því hann sagði með upplyftum höndum og augum: „Hilf mir, herr gott!" Þarna vissi ég að söguhetja mín, Guðríður Símonardóttir, engdist í barlestinni sjóveik og skelfingu lostin ásamt barnungum syni sínum. Og ég kallaði frain minn eigin ótta í dimmum skrokki Smyrils, bætti nokkrum hnútum í vindinn og afli í ölduna, breytti járnskrokki í marrandi tréskrokk. Og rýndi í Olaf Egilsson: „Og á þeirri vorri mánaðarreisu önduðust 2 eða 3 konur gamlar, sem að voru teknar þar eystra, og um þeirra lfkami voru vafðir gamlir segldúkar og snarað svo fyrir borð. En það kristna fólkið var þá vel til friðs og margir af þeim með hjartans góðum orðum báðu guð um burtför á þeirri sömu stundu, ef honum þóknaðist. En illmennin tóku það til ráðs á því skipinu, sem eg var, að þeir slátruðu einum hrút mjög svo feitum sér til offurs, annaðhvort djöflinum eða einhverjum sínum afguði, hvað mér var óvitanlegt, hvern þeir skáru í tvo parta og kös-tuðu svo sínum helmingi á hvert borð við skipið, og stormurinn stilltist innan fárra tíma." Sjómenn hafa löngum verið taldir hjátrúarfullir. Margir eru einlægir trúmenn. Svo var siglt í flasið á öðrum ræningjaflota. Ræningjaflotar á höfunum „Á þann 9. Augusti komum vér undir Hispanien. Þar mættu fríbýtarar á 6 skipum. Þá urðu þessi ill-menni geysihræddir við þá um sín efni, svo að nær þeir uppbundu sínar verjur, þá hristust þeir upp og niður, svo sem hundar upp úr köldu vatni. En þá að fram kom, þá voru það Tyrkjar, hinum að öllu líkir, orðum og illskuverkum, þeir eð út voru farnir af þeim illvirkjastað Asser [Algeirsborg] fyrir 14 dögum á 27 skipum til að stela og ræna, drepa og myrða þá kristnu. - Þann 11. dag Augusti, þá sigldu þessir illvirkjar gegnum það mjóa sund, sem þeir kalla Strát, hvert að er4 mílna breitt á milli Spanien og Barbariens, hjá þeim stað, sem Grindavfkurfólk var flutt til [Salé], og fyrir þeirri ferð báru þeir stóran kvíða, því að þeir Spanier höndla þá oft. En þeir fengu svo stóran storm og beinstan byr, að ekki mátti hönd á festa. Þann 16. eður 17. Augusti
Waddenzee seint íjúlí. Það kular þegar norðar dregur.
komum vér til þess staðar Asser, þangað sem þeir áttu heima." Siglt í kjölfar leysingjanna frá 1636 Þetta eru að vísu ekki miklar heimildir um langa sjóferð, en þær urðu mér ðmetanlegar við ritun Reisubókar Guðríðar Símonardóttur. Þegar kom að heimferðinni eftir níu ára ánauð í Alsír var úr enn minnu að moða, engar beinar frásagnir varðveittar frá neinum ferðalanganna, en í Tyrkjaránssögu Björns Jónssonar á Skarðsá er stuðst við glataða ferðalýsingu Einars Loftssonar. Heimildaskort-urinn gerði að mér þótti þeim mum mikilvægara að reyna að sigla í kjölfar leysingjanna ef ég ætlaði mér að endurskapa heimreisuna með trúverðugum hætti. Fólkið lét úr höfn í Algeirsborg 22. júní 1636 og áfangastaðirnir voru kunnir, hvenær þeim var náð og hversu lengi var staðið við á hverjum stað. Að auki voru nokkur orð höfð um borgirnar, Palma á Mallorca, Marseille, Narbonne, Toulouse og Bordeaux í Suður Frakklandi, Sophire á Suður Englandi, Texel og Amsterdam í Hollandi, Gliickstadt í Norður-Þýskalandi og Kaupmanna-höfn sem komið var til í lok ágúst. Eg gerði mér ekki ljóst fyrirfram að siglingum milli landa við Miðjarðarhafið hefði hnignað svo mjög sem raun var á. Eg vissi að samgöngur við Alsír voru miklum takmörkunum háðar, jafnt í lofti sem á legi, vegna blóðugra og mannskæðra átaka sem stóðu í landinu allan tíunda áratug nýliðinnar aldar. Eg neyddist því til að geyma mér Alsírferðina þar til síðast. En um Miðjarðarhafið var ég staðráðin í að sigla. Við Einar Karl flugum því til fyrsta áfangastaðar Guðríðar og félaga, Palma á Mallorca, og tókum ferju þaðan, sigldum yfir spegilsléttan hafflötinn undir stjörnubjörtum himni og höfðum landsýn við sólarupprás. Eg reyndi að festa hina „rósfingruðu gyðju morgun-roðans" á filmu, en ljósmyndirnar geta aldrei orðið meira en áminning um fegurðina og kyrrðina sem ég nam. Og ég hugsaði; skipin eru öðruvísi nú, en stjörnurnar, hafið og sólarupprásin eru óbreytt frá því þennan sama dag fyrir 361 ári. Um lýsingu á innsiglingunni til Marseille sá Olafur Egilsson, því hann var þar á ferð níu árum fyrr. Olafur var sendur til Danmerkur að afla lausnargjalds fyrir konu sína og börn eftir aðeins um mánaðardvöl í herleiðing-unni í Alsír. Massillia „Staðurinn Massillia er byggður í kringum fjörð einn kringlóttan, sem er mjðr framan, að eg hygg ei fulla xi faðma yfir fjarðarkjaptinn. í það sund eru settir stólpar fjórir af múr í sjóinn, og millum allra þeirra eru járnhlekkir furðu sterkir, og svo stórir járnbroddar niður úr hverjum hlekk, svo hvorki komast skip né bátar út né inn með nokkru móti. Öðru megin fjarðar er staður með kastala, en þrjú stór tré á floti, föst á endanum við þann innra staðinn, en annar er læstur hjá þeim í kastalanum og staðnum, hvar fyrir innan skipin liggja öll saman, hver eg hygg aldrei færri en 1000. Það er mikill kaupstaður, fimm húsa hár eða nærri 6, allur varinn fallbyssum svo stórum, að hvergi sá eg slíkar á minni aumu reisu. Fer þar enginn út eður inn, nema með leyfi þeirra í kastalanum."
REISUBÓK
GUÐRÍÐAR SÍMONARDÓTTUR
1 . - 1 Bókakápa Reisubókar Guðríðar Símonardóttur.
Það var enginn smá floti sem þeir áttu Massilliumenn og lýsing Olafs á víggirtum fjarðarkjaftinum kemur fyllilega heim við samtíma teikningu sem birt er í Reisubók Guðriðar Símonardóttur.
Fljótasigling
Það er utan við efni þessarar greinar að rekja landleið leysingjanna, en næsti áfangi sem ég lét mig dreyma um að komast á báti var frá ferju-læginu á ánni Garonne neðan við Bazaclestífluna í Toulouse áleiðis til Bordeaux. Það voru vonbrigði að komast að því að langt er síðan fljótaprammar hættu að sigla eftir þessari fornu lífæð milli háskólabæjarins og hafnarborgarinnar. Nú eru það aðeins ævintýramenn á gúmmítuðrum sem leggja á fjótið sjálft en flutningaprammar og litlir sportbátar og húsbátar fara um skipaskurðinn sem grafinn var til hliðar við Garonne. Það eina sem ferðalöngum af okkar tagi stóð til boða var að fara í skemmtisiglingu á fljótinu ofan við stífluna. Við sigldum undir fornan steinboga, síðustu leifar horfinnai" brúar yfir fljótið, sem hafði verið í smíðum hátt í öld þegar íslensku leysingjarnir gistu Toulouse snemma í júlí 1636. Lokið var við brúarsmíðina um áratug síðar. Ný steinbrú hefur fyrir löngu leyst þá fyrri af hólmi en gamli brúar-sporðurinn fær að standa til minja um mikilvægt samgöngumannvirki. Og eins og jafnan þegar ég taldi mig vera að horfa á sama hlut og Guðríður, meira en hálfri fjórðu öld fyrr, fylltist ég gleði.
Það var síðan dapurlegt að koma með lest til hinnar sögufrægu hafnarborgar Bordeaux og uppgötva að hlutverki hennar sem slfkrar er lokið. Höfnin í ósnum, þar sem fljótin Garonne og Gironde renna saman, er dauð. Steindauð. Þar sem áður var iðandi athafnalíf og allt fullt af bátum og skipum, líkt og í Marseille, var ekki skip að sjá nema eina uppgjafa freigátu sem breytt hafði verið í safn. A löngum hafnarbakkanum voru langar vöruskemmur í löngum röðum en brotnar rúður og önnur spellvirki leiddu í ljós að þær voru allar tómar. I stað þess að vörum sé skipað upp eða út eins og var til skamms tíma, fara þær nú með flutn-ingabílum með tengivagna á hárri brú yfir ósinn. Við fundum þó um síðir bát sem bauð upp á skemmtisiglingu og út af fyrir sig var gaman að skoppa þar á morrauðum öldunum. sem framburður ánna gerir eins á litinn og íslenskt jökulfljót. En skipalaus höfnin var nöturleg og sterk tengsl við fortíðina var erfitt að finna í Bodeaux nema í hinum stóru og fornu kirkjum staðarins. I Tyrkjaránssögu er talað um Bordeaux sem „veglegan stað" og þar höfðu leysingjarnir forðum tíð lengsta viðdvöl; í heila ellefu daga.
Blíða í Blaye
Frá Bordeaux héldum við til virkisbæjarins Blaye. Heimildir greina frá því að siglt hafi verið með fólkið til ónafngreinds bæjar norðar við ósinn, þar sem stórskip lágu við akkeri, og þar hafi leysingjunum verið komið í hollenskt kaupfar á leið til Englands. Við töldum að átt væri við Blaye. Þar gnæfir mikið og fagurt miðaldavirki upp af ströndinni og býður upp á vítt útsýni yfir Gironde-ósinn sem á þessum stað er orðinn að breiðum firði. Liturinn á vatninu er enn aurgulur af framburði svo langt sem augað eygir og við sigldum út í skógi vaxnar sandeyjar á miðjum firðinum. Hvergi átti veðrið jafn vel við okkur, ferðalúna Islendingana, og í Blaye. Það var ekki of heitt og ekki of svalt. Það var algjörlega mátulegt eins og í himnaríki ef marka má hugtakið himnaríkisblíða. Þar hefði verið notalegt að dvelja fáeina daga. Okkur var þó ekki til setunnar boðið ef við ættum að ná til Englands í tæka tíð. En hnignun farþegasiglinga náði til fleiri bæja á vesturströnd Frakklands en Bordeaux og við áttum fárra kosta völ. Það varð úr að sigla yfir Ermasund frá St. Malo á norðanverðum Bretagneskaga.
Andvari - kul - strekkingur
Við lögðum af stað í ljúfum andvara en fljótlega fór að kula og ég fór í jakka. Veðrið var orðið býsna kunnuglegt sem og kaldblár liturinn á sjónum. Við komum til Englands undir kvöld og þar með lauk einum áfanga reisunnar í kjölfar Guðríðar. Svo var flogið heim. Seinni hluta júlí árið eftir héldum við ferðinni áfram þar sem frá var horfið, byrjuðum á vikudvöl í Amsterdam, jafn langri dvöl og leysingj-arnir nutu þar á sínum tíma. Við ferðuðumst á sömu borgarssíkjunum, ókum út til strandarinnar og sigldum um Waddensjó í vindstrekkingi. A leið út í Frísaeyjar hneppti ég að mér kápunni og dró hattinn niður fyrir eyru. Og aftur hafði Ólafur Egilsson verið fyrr á ferð og lýst bæði innsiglingunni til Hollands og því tækniundri sem uppþurrkun landsins var og er. [Þá] „komum vér svo nærri Hollandi að vér sáum fyrst turn á borgunum, og var þá ekki meira en 4 faðma djúp. Því verður Holland aldrei unnið vegna útgrynnis. Standa á því grunni meira en 100 skipsskrokkar óhræranlegir." Já, það er vandasamt að sigla um þetta grunnsævi og bátinn, sem Guðríður og félagar sigldu brott á, tók tvisvar niðri samkvæmt heimildum.
Amsterdam
Dvölin í Hollandi var mér á margan hátt opin-berun. Amsterdam sjálf er til vitnis um forna frægð Hollendinga, gullöld þeirra og yfirburði í verslun og siglingum á 16. og 17. öld og margt í borg-armyndinni er óbreytt frá þeim tíma. Söfn og bækur geyma mikinn fróðleik um lífshætti manna og mik-ilvægast fyrir mig reyndist Sjóminjasafnið þeirra vera, Nederlands Seheepvaartmuseum. Þar liggur við kaja endurgerð gamals Indíafars, sem hét Amsterdam. Og þó að frumgerð þess, sem sökk í jómfrúrferð sinni á hinu hættulega grunnsævi sem Olafur lýsir, hafi verið hundrað árum yngri en þau víkingaskip sem „Tyrkir" sigldu á til Islands, þá voru þau skip mjög svipuð að gerð og útbúnaði öllum. Þó með þeirri undantekningu að á eldri skipunum voru ekki stýrishjól á þilfari, og því var enn vandasamara að sigla þeim. Báðum gerðum var þó aðallega stýrt með því að aka seglum eftir vindi.
Það var áhrifamikið að fara um þetta stóra og búkmikla skip, með þilförum á þrem hæðum og djúpa og ógnvekjandi lest og ímynda sér hana fulla af fönguðu fólki, liggjandi nánast hvert ofan á öðru í kæfandi þrengslum og myrkri. ímynda sér loft¬leysið og ólyktina vegna takmarkaðra möguleika til þess að þrífa sig eða „rækta", eins og Guttormur Hallsson komst að orði í bréfi sínu. Skip á safni er þó aldrei meira en leiktjöld um atburði sem skoðandinn sviðsetur innra með sér. Til að undirstrika það var boðið upp á litla leiksýningu um lífið og störfin um borð.
Saga Barbarísins og sjóræningjanna sjálfra
I bókadeild Sjóminjasafnsins fannst mér það nánast helgiathöfn þegar ég fékk að snerta og fletta einni af gersemum þess, grundvallarriti um Barbaríið svokallaða, Historie van Barbaryen en des zelfs Zee-Roovers eftir Pieter Dan í mynd-skreyttri hollenskri útgáfu frá 1684. Bókin er svo mikill dýrgripur að safnvörðurinn bar hana til mín með hvíta hanska á höndum og lagði hana á þar til gerðan púða á borðinu til að verja hana hugsanlegu hnjaski. Það fór lítið fyrir hollenskukunnáttu minni en mikilvægi myndanna lá í augum uppi. Þær sýndu skip og borgir og fólk að störfum, fyrirmenn jafnt sem þræla, opinberar athafnir, aftökur og pyntingar og upplýstu mig um svo margt sem mig þyrsti í að vita um þennan horfna tíma. Nokkrar þeirra prýða nú Reisubók Guðríðar Símonardóttur.
Ferðafélagar yfir aldirnar
Þannig hef ég safnað saman brotum hér og þar á löngum tíma, fléttað gamlar heimildir saman við reisur mínar á sjó og landi í því skyni að draga sögu Guðríðar Símonardóttur og annarra sem lentu í Tyrkjaráninu upp úr djúpi gleymskunnar. Sigling með Páli Helgasyni umhverfis Heimaey að morgni kvenréttindadagsins 19.júni 1994 er einn þáttur í þeirri fléttu. „Fannhvít súla steypti sér úr háalofti niður í höfrungavöðu" stendur á bls. 58 í Reisubók G.S. Páll sagði að það vissi á sfld. Eg legg þau orð öðrum í munn.
Við Einar lukum siglingunum í kjölfar leysingj-anna í ósi Saxelfar við Gluckstadt norðan Hamborgar. Þá átti fólkið ófarinn lokaáfangann út á Norðursjó um Skagerak og Kattegat suður Eyrarsund til Kaupmannahafnar. Þangað náði það í lok ágúst 1636. Þann hluta leiðarinnar þekktum við nær allan frá fyrri tíð.
Stelpan sem lék sér á Langasandi forðum og fylgdist með skipum koma og fara hafði auðvitað ekki minnsta grun um að löngu liðin kona úr Vestmannaeyjum myndi seinna senda hana í reisu um fjarlæg höf og lönd. Hvort sem það er forsjóninni eða flókinni röð tilviljana að þakka, og þrátt fyrir að aldir skilji, þá er það eitt víst, að í Guðríði Símonardóttur eignaðist hún fágætan ferðafélaga.
1 Til fiskiveiða fóru 70 ár á sjó og landi. Safnað hafa og skráð Haraldur Sturlaugsson og Sigurdór Sigurdórsson. Akranes 1977