Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Minning látinna
Andrés Hannesson
F. 1. júní 1924 - D. 20. október 2003
Andrés Hannesson, fæddur í Eyvakoti á Eyrarbakka 1. júní 1924, dáinn 20. október 2003 Foreldrar: Jóhanna Bernharðsdóttir, fædd að Keldnakoti í Stokkseyrarhreppi l.október 1896, dáin 27. september 1970 og Hannes Andrésson, fæddur á Skúmsstöðum á Eyrarbakka 22. september 1892, dáinn 1. mars 1972. Þau voru gefin saman af séra Gísla Skúlasyni hinn 1. nóvember 1919. Systkini Andrésar eru: Gunnlaug f. 17.9.1920, Guðrún Fanney f. 2. 3. 1922, Bernharður f. 6. 11. 1925, Jórunn Ásta f. 3. 4. 1928, Hannes f. 5. 11. 1930, Haraldur Ármann f. 1.1 1932, Svanlaug f. 20.4. 1933, d. 31.1 2003, og Garðar f. 18.2. 1935.
Andrés hóf sjómennsku 14 ára frá Þorlákshöfn. Fór á vetrarvertíð til Vestmannaeyja 1942 og ílentist þar. Kvæntist Guðleifu Vigfúsdóttur frá Holti í Vestmannaeyjum 31. 12. 1947 en höfðu búið hjá Valgerði móður hennar frá vordögum 1944. Þau byggðu sér myndarlegt hús að Birkihlíð 3 í Eyjum og fluttu í það fyrir jólin 1947 og áttu heima þar til 1965 að þau flytja til Reykjavíkur. Synir þeirra eru: Vigfús Valur f. 20.2 1945 og Hannes f. 29. 11. 1946. Hannes fórst með vélbátnum Þráni 5. 11. 1968. Börn Vigfúsar Vals eru: Andrea Heidi, Hanna og Magnús Helgi. Andrés undi sér ekki í höfuðborgarglaumnum og byggðu þau sér einbýlishús að Setbergi 15 í Þorlákshöfn sem þau fluttu í 1971 og þar bjó hann til dauðadags. Meðan þau áttu heima í Reykjavík stundaði Andrés sjóinn frá Þorlákshöfn og eftir það. Hann hafði öðlast vélstjórnarréttindi árið 1945 og tók síðar svokallað pungapróf skipstjórnarmanna. Hann var einstakt snyrtimenni. Vélarrúmin hans þóttu bera af fyrir snyrtimennsku eins og annað sem hann kom nálægt. Í Eyjum var hann vélstjóri lengst af hjá góðum, aflasælum skipstjórum. Árið 1955 lét hann smíða fyrir sig, á Siglufirði, 6 tonna trillu. sem hét Valur VE 279, eins og aðrir bátar hans sem á eftir komu en þeir urðu 4. Á langri viðburðaríkri sjómannsævi lenti hann tvisvar í þeirri miklu lífsreynslu að bátar, sem hann var á, sukku skyndilega. Annar, Valur 29 tonn, var keyrður niður 10. mars 1965. Var það síðast báturinn hans. Hinn var Gautur AR í ágúst 1977. Mannbjörg varð í báðum þessum sjósköðum. Andrés var mjög aflasæll formaður þó vetrarvertíðin 1958 standi þar upp úr en þá fiskaði hann 699 tonn af slægðum fiski á 15 tonna bát og það á handfæri. Þegar hann kom í land eftir 46 ára sjómennsku, gerðist hann hafnarvörður og starfsmaður á hafnarvoginni í Landshöfninni í Þorlákshöfn og vann við það til loka starfsævinnar. Andrés var sæmdur heiðursmerki Sjómanna-agsráðs Þorlákshafnar á sjómannadaginn 1989.
- Haraldur Hannesson.
- Haraldur Hannesson.
Bergur Elías Guðjónsson, útgerðarmaður
F. 10. júní 1913 - D. 7. júní 2003.
Elli Bergur, eins og hann var alltaf kallaður, lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 7. júní 2003 en hann fæddist í Vestmannaeyjum 10. júní 1913.
Foreldrar Ella voru Margrét Símonardóttir, f. 1891 d. 1920 og Guðjón P. Valdason, f. 1893 d. 1989. Seinni kona Guðjóns og fóstra Ella var Guðbjörg Þorsteinsdóttir, f. 1895 d. 1991. Alsystur hans voru Ragnhildur og Klara sem báðar eru látnar. Hálfsystkini hans eru Þorsteinn og Bergrós sem létust ung og Marteinn og Ósk sem lifa bróður sinn. Elli kvæntist 15. maí 1937 Guðrúnu Ágústsdóttur frá Hróarsholti í Flóa, f. 29.01.1916. Börn þeirra eru: 1. Ágúst f. 19.09.1937, kvæntur Stefaníu Guðmundsdóttur, f. 16.01.1941. Börn þeirra eru Bergur Elías og Sigurbjörg. 2. Margrét Klara, f. 13.08.1941, gift Birgi Símonarsyni, f. 16.09.1940 og þeirra börn eru Elva Björk. Jóhanna og Rúnar Þór. 3. Kristín, f. 08.12.1945, gift Kristmanni Karlssyni f. 06.06.1945 og heita börn þeirra Guðrún, Betsý og Elísa.
Elli Bergur hóf ungur sjómennsku með föður sínum á Skíðblani en vegna sjóveiki fór hann fljótt í land. Þegar Guðjón varð skipstjóri á Kap VE 272 hjá Kjartani Guðmundssyni útgerðarmanni og ljósmyndara, sá Elli Bergur um útgerðina. Aflinn var unninn í salt í Geirseyri sem Kjartan átti. Ásamt þeirri vinnu sá Elli Bergur um öll veiðarfæri og beitningu á línuvertíðinni. Árið 1951 keyptu þeir feðgar, Guðjón og Elli Bergur ásamt Magnúsi Bergssyni, bát og hús og Elli Bergur hélt áfram að sjá um verkun aflans og veiðarfærin. Árið 1955 fengu þeir félagar nýsmíðaða Kap VE 272, 52 tonn, frá Danmörku og sú gamla var seld. Þessa nýju Kap áttu þeir í 10 ár. Árið 1964 keyptu þeir 100 tonna stálbát, Halkion, sem fékk nafnið Kap II VE 4 og áttu hana til 1971. Þá hættu þeir feðgarnir útgerð nema óbeint í gegnum Ísfélagið. Eftir að Guðjón hætti skipstjórn 1961, tók Ágúst, sonur Ella Bergs, við af afa sínum og var hjá þeim þar til þeir hættu. Magnús Bergsson var einnig útgerðarmaður Bergs VE 44 ásamt Kristni Pálssyni skipstjóra, tengdasyni sínum. Saman byggðu þessar útgerðir nýja Geirseyri ofan við Básaskersbryggjuna, stórt og myndarlegt hús. Í nokkur ár sameinaðist útgerð þeirra félaga útgerð Tómasar Guðjónssonar í Höfn um verkun afla báta þeirra og var Elli Bergur verkstjórinn. Þegar nokkrar útgerðir, m.a. þessar tvær, eignuðust Ísfélagið árið 1957, varð Elli Bergur verkstjóri þar í saltfiskinum og hætti ekki fyrr en hann varð 76 ára.
Kynni mín af honum voru fyrst er ég, strákur, kom reglulega með föður mínum niður á Gömlu-Geirseyri þar sem Elli var við afskurð neta. Hann sá um afskurð af Kap og Berg á þessum árum ásamt því að beita og hafa eftirlit með beitningunni. Þar var fróðlegt spjall um sjóinn og einnig spurði hann frétta: „Hvernig gengur í Reykjavíkinni, heldur þú að þetta nám gagnist þér við að færa bókhaldið fyrir Kap Ve.“ Hjá honum var alltaf stutt í gamansemina og stríðnina og alltaf var talað tæpitungulaust um hlutina. Sem hluthafi í Ísfélaginu var hann alltaf útgerðarmaður. Elli var elsti hluthafi Ísfélagsins þegar hann lést en hann kom inn sem hluthafi og útgerðarmaður á Kap Ve auk þess sem hann var starfsmaður Ísfélagsins um árabil. Elli var mikil Ísfélagsmaður og fylgdist vel með því sem var að gerast í Ísfélaginu.
Elli Bergur var maður sem setti svip sinn á samfélagið og er sárt saknað.
Fjölskyldu Ella Bergs votta ég samúð við fráfall mikils sómamanns og vinar.
- Magnús Kristinsson
- Magnús Kristinsson
Garðar Sigurðsson
F. 20. nóv. 1933 - D. 19. mars 2004.
Garðar Sigurðsson, stýrimaður, síðar alþingismaður, var fæddur í Reykjavík 20. nóv. 1933. Foreldrar hans voru Klara Tryggvadóttir og eiginmaður hennar, Sigurður Hjálmarsson bifreiðasmiður. Garðar fluttist barn að aldri með móður sinni til Vestmannaeyja og ólst upp með henni og síðari manni hennar, Hallgrími Júlíussyni skipstjóra, sem hann leit á og taldi föður sinn. Hallgrímur, sem var ættaður úr Bolungarvík, fórst í Helgaslysinu við Faxasker í ársbyrjun 1950 og má nærri geta hvílíkt áfall sá hörmulegi atburður hefur verið Garðari sem þá var uppi á landi fyrsta vetur sinn í menntaskóla.
Garðari gekk vel við nám, var bráðskarpur og duglegur eins og fleiri systkini hans. Hann fór fyrst með félaga sínum og jafnaldra, Eyjólfi Pálssyni, í menntaskólann á Laugarvatni, en lauk stúdentsprófí frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1953. Hann innritaðist í verkfræði í Háskóla Íslands, en hætti eftir tvö ár, þá orðinn fjölskyldumaður. Fjárhagurinn var þröngur og Garðar fór til sjós. Hann kenndi svo við Gagnfræðaskólann á Neskaupstað 1957-1960 og eftir það við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1961-1962 og 1963-1971. Hann var settur skólastjóri hans veturinn 1969-1970 í leyfi Eyjólfs Pálssonar.
Garðar var ungur þegar hann fór fyrst til sjós. Það var á Helga með Hallgrími, sumarúthald og hann 14 eða 15 ára. Hann var öll sumur, meðan hann var í skóla, á sjó. Á Guðrúnu var hann 1950 með Óskari Eyjólfssyni sem sagði um Garðar að hann hefði verið „frískur og duglegur“. Tvö sumur var hann með Sigurbirni Sigfinnssyni („Bubba“, föðurbróður Bergþóru), 1951 á Veigu og 1952 á Hugrúnu. Hann var svo tvær vertíðir í Eyjum, 1961 og 1963, m.a. með Helga Bergvinssyni á Stíganda, og á ýmsum bátum yfir sumar eða í afleysingum, t.d. með Þórði Rafn á Jóni Stefánssyni, á Frá með Oskari Þórarinssyni, á Gullbergi með Guðjóni Pálssyni, Mars með Grétari Skaftasyni, Hringver og Kóp, Ófeigi, Vestmannaey o.fl. Meðan hann var í háskólanum fór hann í leyfum túra á togurum, m.a. oft á Karlsefni með Halldóri Ingimarssyni, líka á Keflvíkingi með Ásmundi Friðrikssyni. Öllum ber saman um að Garðar hafi verið harðduglegur sjómaður og góður vinnufélagi; vildi helst aldrei tala um pólitík úti á sjó! Ef stund var milli stríða þá spilaði hann (bridge) eða tefldi skák, stundum blindskák.
Garðar lauk stýrimannaprófi utan skóla í Reykjavík árið 1962 og var eftir það jafnan stýrimaður á þeim bátum sem hann var á.
Garðar varð ungur róttækur í skoðunum, harður sósíalisti. Hann hafði þó ekki bein afskipti af stjórnmálum fyrr en hann var kjörinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja árið 1966 fyrir Alþýðubandalagið með Sigurði Stefánssyni þegar meiri hluti sjálfstæðismanna féll eftir langt stjórnartímabil. Eftir fráfall Sigurðar árið eftir varð Garðar forustumaður Alþýðubandalagsins. Hann gat jafnan treyst á fylgi margra sjómanna og æskufólks sem hann hafði kennt, auk annarra sem að jafnaði studdu flokkinn. Þeim gekk vel, Garðari og Hafsteini Stefánssyni, í bæjarstjórnarkosningunum 1970 og urðu stærsti flokkurinn í meirihlutasamstarfi vinstri manna, en 1974 var hann á sameiginlegum lista með framsóknarmönnum; gekk þá verr og meirihlutasamstarfið slitnaði eftir árið.Mjög dró þá úr afskiptum Garðars af bæjarmálum á vettvangi bæjarstjórnar en hann sótti þó einstaka fundi eftir því sem við var komið út kjörtímabilið, til 1978. Alls sat hann 72 bæjarstjórnarfundi, og á árunum 1968-1978 sat hann 124 bæjarráðsfundi.
Við alþingiskosningarnar í júní 1971 var Garðar í 1. sæti á lista Alþýðubandalagsins í Suðurlandskjördæmi og hlaut glæsilega kosningu þótt fyrri forustumaður Alþýðubandalagsins til margra ára, Karl Guðjónsson, væri í framboði fyrir Alþýðuflokkinn í þessum kosningum. Garðar sat samfellt á þingi 1971-1987. Hann naut álits á Alþingi fyrir þekkingu sína og reynslu af sjávarútvegsmálum og lét sig þau mestu skipta á þingi. Hann þótti öflugur talsmaður síns flokks en var þó sjálfstæður í málflutningi, snjall ræðumaður, og orðheppinn.
Erfiðasta viðfangsefni Garðars, meðan hann var alþingismaður og bæjarfulltrúi, hefur efalaust verði eldgosið 1973 og afleiðingar þess. Hann sat í fyrstu stjórn Viðlagasjóðs sem átti að bæta það tjón sem varð á eignum Vestmanneyinga og til að hefja uppbyggingu að nýju. Margt varð líka mótdrægt, átök innan flokks hans, bæði á þingi og í kjördæminu, erfiðleikar Útvegsbankans þar sem hann var í bankaráði og svo þrálát veikindi hans sjálfs í baki. Allt stuðlaði þetta að því að hann hætti þingmennsku 1987. Hann fór þá á ný á sjó, var hjá veiðieftirliti sjávarútvegsráðuneytisins, en fór í land eftir þrjú ár og varð síðar starfsmaður Landsbanka Íslands, við birgðaeftirlit. Þar vann hann þar til hann lét af störfum sökum heilsubrests, aðeins sextugur að aldri. Sjúkdómur hans var sérstaklega þungbær, lamaði hægt og sígandi líkamlega og sálarlega krafta hans uns hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík 19. mars sl.
Garðar eignaðist tvö börn með fyrri konu sinni. Um 1960 kynntist hann Bergþóru Óskarsdóttur á Neskaupstað. Þau giftu sig 1962 og eignuðust fjórar dætur. Bergþóra á ættir að rekja til Eyja. Faðir hennar var Óskar Sigfinnsson, harðduglegur, heppinn og fiskinn sjómaður, en hann var fæddur í Eyjum, sonur Júlíu í Dvergasteini og fyrri manns hennar sem fórst ungur með mótorbátnum Víkingi. Óskar fór þá austur á land í fóstur. Garðar og Bergþóra bjuggu í Eyjum þangað til hann var kjörinn á þing, fyrst á Faxastíg 33, í sambýli við móður hans, en þau byggðu sér svo hús við Hrauntún 3 sem Garðar teiknaði sjálfur. Bergþóra reyndist Garðari frábærlega vel í langvinnum veikindum hans síðustu ár.
Það var alltaf líf og fjör í kringum Garðar Sigurðsson meðan hann hélt heilsu. Hann var spaugsamur, mikil eftirherma og æringi. Hann gat verið nokkuð óvæginn við pólitíska andstæðinga sína í ræðu og riti en þeim ber saman um að hann hafi verið drengur góður þegar á reyndi, réttsýnn og heiðarlegur.
Við, sem yngri erum, munum Garðar fyrst og fremst sem kennara, góðan kennara, hressilegan og skemmtilegan, hjálpsaman, en hann var ekkert að vanda okkur kveðjurnar þegar þurfti að siða okkur til. Við bárum mikla virðingu fyrir honum, gáfum hans, snerpu og víðtækum fróðleik. Hann var glæsilegur á velli, friður og hraustur, a.m.k. var hann hraustlegur að sjá. Við tókum marga snerruna í tímum um heimsmálin og mál heimabyggðarinnar. Ekki var skafið utan af hlutunum en allt var það í góðu og er ákaflega skemmtilegt í minningunni.
- Helgi Bernódusson.
- Helgi Bernódusson.
Hannes Tómasson
F. 17. júní 1913 - D. 14. október 2003
Hannes Guðjón Tómasson fæddist á Miðhúsum í Vestmannaeyjum 17. júní 1913 en var ætíð kenndur við Höfn. Hann lést á Elliheimilinu Grund 14. október 2003. Foreldrar hans voru Tómas Maríus Guðjónsson f. 13. 1. 1887, d. 14.6. 1958, útgerðarmaður, og kona hans Hjörtrós Hannesdóttir frá Miðhúsum f. 20.2. 1888, d. 26.3 1926. Seinni kona Tómasar var Sigríður Magnúsdóttir f. 4. 10. 1899, d. 18.9. 1968. Albræður Hannesar eru Martin f. 17. 6. 1915, d. 1. 1. 1976 og Jóhannes f. 13. 3. 1921. Hálfsystkini Hannesar eru Guðjón f. 29. 9. 1925, d. 2. 12. 1977, Magnea Rósa, f. 20. 9. 1928, Gerður Erla f. 21. 2. 1933 og Bragi f. 4. 3. 1939, d. 2. 8. 2002.
H. 31. ágúst 1944 kvæntist Hannes Kristínu Jónsdóttur f. 3. apríl. 1919, frá Hraungerði á Hellissandi. Hún lést á Landspítalanum víð Hringbraut 14. júni 2002. Foreldrar hennar voru Jón Valdimar Jóhannesson sjómaður f. 21.9. 1873, d. 15.6. 1959 og Hildur Sigurðardóttir f. 14. 4. 1895, d. 24. 2. 1962, bæði frá Hellissandi. Hannes og Kristín eignuðust 2 syni 1) Sverrir skipstjóri f. 13. 8. 1944, starfar nú sem flutningastjóri hjá Samskipum, kvæntur Helgu Vallý Björgvinsdóttur f. 20. 9. 1945 og eiga þau 2 börn, Hannes verkfræðing og Sigurlaugu flugfreyju, maki hennar er Halldór Hafsteinsson viðskiptafræðingur, 2) Tómas vinnur hjá Þrótti.
Sjómennskan var Hannesi í blóð borin, móðurafi hans var Hannes lóðs í Vestmannaeyjum. Var Hannes fyrst í siglingum á norsku skipi, Bisp, frá Haugasundi í 3 ár, þar til síðari heimstyrjöldin braust út. Þá fór hann í Stýrimannaskólann í Reykjavík. Að því loknu varð hann stýrimaður á Kötlu. Einnig leysti hann af á Sæfellinu í Vestmannaeyjum og á Vatnajökli. Lengst af starfaði Hannes sem stýrimaður og síðar skipstjóri á skipum Sambandsins. Árið 1962 kom Hannes í land og fór að vinna hjá Skeljungi við að lesta og losa olíuskip. Vann hann þar síðan við hin ýmsu störf .þar til hann hætti árið 1999, 86 ára.
Þetta allt varstu vinur búinn að afreka þegar okkar kynni hófust. Langar mig að bæta fáeinum línum við þennan formála Hannes minn. Hér kveð ég kæran vin til margra ára. Það var kvöld, síminn hringdi, Eddi Malla var á línunni og tilkynnti að Hannes vinur minn hefði fengið heilablóðfall þá um daginn og útlitið ekki gott. Tveimur tímum síðar var hringt, það var Eddi að tilkynna mér lát vinar míns. Þarna var mínum rétt lýst. Málið klárað. Það var nú svo, að ég beið eftir símtali þetta kvöld. Beið eftir andlátsfregn af föður mínum blessuðum, sem kom klukkan 4 um nóttina. Það að þú hefðir kvatt var einhvern veginn ekki inni í myndinni. Talaði við þig nokkrum dögum áður og þú varst hress og ánægður með Eyjaferðina. Talað var um að hittast um næstu mánaðamót. Ég yrði þá á ferðinni og þú hafðir orð á því að það væri enn til wisky frá níræðisafmælinu. Því miður verður ekki af þessu spjalli, það bíður betri tíma. Við hittumst fyrst á aðalfundi Ísfélags Vestmannaeyja, þú hluthafi, ég skipstjóri á Bergey, árið 1984. Boðið var upp á mat og drykk, og lentum við hvor á móti öðrum við langborð. Fjörið var svo mikið hjá okkur að hinn endinn var allur kominn á okkar enda eins og þú orðaðir það. Þá ákváðum við að þú kæmir með okkur í næstu veiðiferð og þa hófst vinátta sem stóð fram á síðasta dag. Það leið ekki vika án þess að við töluðum saman í síma og oftar en ekki þrisvar til fjórum sinnum sömu vikuna. Þú þurftir að fylgjast með öllu og vita gang mála. Hvar við værum og hvort einhver afli væri. Eg skráði þig fyrst á sjó hjá mér í júní 1984 og síðan á hverju ári eftir það, fyrst á Bergey, síðan Jón Vídalín til 2001. Það ár komst þú tvisvar, í júní og ágúst 88 ára gamall. Það slær enginn út. Það var líf og fjör þegar þú mættir. Aldrei nein lognmolla. Það var spilað og sagðar sögur úr siglingunum. Stundum kom sérstakt bros og þá grunaði menn að farið væri að krydda en allt var það í léttum húmor, sem fylgdi þér alltaf. Lífsgleðin skein af þér. Það var aldrei neitt vol. Lífið var til þess að lifa því sagðir þú.
Já, Hannes minn, þær voru skemmtilegar veiðiferðirnar og margs að minnast og af mörgu að taka ef tína ætti til. T.d. þegar við á Bergey vorum á Reykjanesgrunni og síminn hringdi. Þú svaraðir, spurt var eftir mér, þú sagðir að ég væri upptekinn við að veiða lax, og það sem var verra, vélstjórinn væri frammi á bakka að skjóta rjúpur. Þá var hlegið.
Það var Hannesi mikið áfall þegar Kristín kona hans, lést skyndilega fyrir rúmu ári og hélt ég um tíma að Hannes myndi ekki ná sér á strik aftur en svo fór nú samt. Þegar hann komst á Elliheimilið Grund voru honum allir vegir færir. „Eins og 5 stjörnu hótel“, sagði vinurinn sáttur við sig.
Ég og hún Kolla mín þökkum þér vinur, samveruna, símtölin sem voru ófá þessi ár. Eg veit að þér hefur verið vel tekið við hliðið og ég tel víst að þú hafir skotið einhverju að Lykla-Pétri ef ég þekki þig rétt en frétti af því seinna.
Kæri vinur, Guð geymi þig, og hafðu þökk fyrir allt.
- Sverrir og Kolla.
- Sverrir og Kolla.
Ágúst Ólafson frá Gíslholti
F. 1. ágúst 1927 - D. 29. júlí 2003
Ágúst Ólafson fæddist l. ágúst 1927. Hann lést þann 29. júlí sl. á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.
Gústi var sonur þeirra hjóna Ólafs Vigfússonar og Kristínar Jónsdóttur frá Gíslholti. Systkini hans voru Vigfús (látinn), Kristný, Jóna (látin), Sigríður og Guðjón. Einnig ólst upp með honum sonur Jónu, Jón Olafur.
Eftirlifandi eiginkona hans er Nanna Guðjónsdóttir. Börn þeirra eru Jóhann Grétar, Jóna Kristín, Ágústa Salbjörg, Jenný, Ólafur Gísli, og Jón Eysteinn. Eignuðust þau alls 17 barnabörn og 7 barnabarnabörn.
Gústi stundaði sjóinn sem ungur maður. Hann byrjaði að beita á Skúla Fógeta VE 16 ára gamall, réri síðan vetrarvertíðina á Skúla með pabba sínum Óla Fúsa frá Gíslholti og síðan með Markúsi á Ármóti á sama báti. Einnig var hann á Hilmi VE með Eyva á Bessa og síðar á Eyjaberginu með Jóni Guðjónssyni þar sem hann var annar vélstjóri . Var á þeim árum oft fiskað í og siglt til Englands eða Þýskalands. Í einni siglingunni varð Gústi fyrir því óláni að falla af bryggjunni niður á dekk og slasaðist hann töluvert, braut á sér hnéskelina á öðrum fæti og átti hann í þeim meiðslum nánast það sem eftir var.
Varð Gústi eftir þetta að hætta til sjós og snéri sér að smíðavinnu í landi. Lærði hann húsasmíði og vann við uppbyggingu margra húsa hér í bænum.
Gústi var liðtækur smiður. Ég man eftir því þegar við strákarnir fórum á Austurveginn að hitta Gústa til að biðja hann um að smíða handa okkur boga og örvar. Hann var mjög barngóður maður hann Gústi og því boðinn og búinn til að hjálpa okkur við bogasmíðina. Smíðaði hann bogana úr eik og örvarnar líka. Man ég eftir einum boganum sem hann smíðaði fyrir Óla bróður minn, hann var mikil listasmíð. Þegar Gústi prófaði bogann á veröndinni á Austurveginum, skaut hann örinni lang leiðina niður að Þurrkhúsi sem var niðri á Urðum. Þeir, sem muna eftir staðháttum fyrir gos, gera sér kannski grein fyrir fjarlægðinni. Við bræðurnir vorum öfundaðir af vinunum vegna boganna frá Gústa.
Gústi var á þessum tíma með smíðaverkstæði í kjallaranum á Austurveginum og man ég eftir stýrishúsinu á Barðann VE 319 sem hann smíðaði fyrir afa.
Eins og fram hefur komið, var hann Gústi afar barngóður maður, það var fastur liður þegar við vorum litlir peyjarnir að þegar lundapysjutíminn rann upp, var Gústi alltaf tilbúinn að fara á veiðar með okkur krökkunum. Þegar skyggja tók, hélt hersingin af stað og auðvitað labbandi eins og ávallt í þá daga. Voru það við frændurnir ásamt Laufásfrændum og fleiri krökkum sem héldu niður á bryggju í pysjuleit. Ég man að Gústi var alltaf með gamla íþróttatösku í hendinni sem hann lét pysjurnar í en við kxakkarnir með kassa. Gústi passaði alltaf upp á það að yngstu krakkarnir hans sem ekki voru með okkur, fengju sínar pysjur. Við krakkarnir furðuðum okkur oft á því hvers konar sjón Gústi væri með því hann var alltaf fyrstur til að koma auga á pysjurnar.
Gústi festi síðar kaup á trillu, frambyggðri c.a. 4-5 tonn að stærð sem hann skýrði Rán VE. og var hann eftir það oft kenndur við hana. Gústi var til margra ára sókningsmaður í úteyjar á Ráninni. Hann þekkti úteyjarlífið vel og vissi að það þurfti að þjónusta þá sem voru úti í eyju. Hann hafði ásamt kunningjum sínum Gunnari Stefánssyni, Bárði Auðunssyni og Skúla Theodórssyni byggt veiðikofa í Suðurey á þeim stað sem núverandi kofi stendur. Eftir að Gústi meiddist á hné hætti hann að stunda úteyjarlífið en snéri sér að þjónusta eyjarnar.
Þær voru margar svaðilfarirnar sem Gústi fór í eyjarnar. Kynntist ég þeim eftir að ég hóf að stunda veiðar í Suðurey. Ekki var nú Ránin alltaf í stakasta lagi en það skipti ekki öllu því ef Gústi var búinn að ákveða að koma út að sækja þá kom hann út . Einhverju sinni kom Gústi í Suðurey að sækja menn og fugl og þá einu sinni sem oftar einn um borð. Þegar við létum fuglinn síga, tókum við eftir því að Gústi raðaði pokunum á allt dekkið en setti þá ekki í hrúgu aftast eins og hann var vanur. Þegar því lauk hélt hann austur fyrir eyju til að sækja okkur og skyldi farið niður að austan þar sem vestanátt var og því ófært á hefðbundna steðjanum. Þegar við komum niður að steðja, sáum við hvar Gústi hringsólaði alltaf framhjá okkur og kallaði eitthvað um leið. Skildum vil loks hvað hann var að segja. Hann var að segja að bakkið væri bilað og við yrðum því að stökka þegar hann sigldi fram hjá steðjanum. Þar kom skýringin á hvers vegna hann hafði raðað pokunum um allt dekk. Við urðum bara að láta vaða þegar hann færi fram hjá. Svona var Gústi. þetta var ekki svo nauið hjá honum. Gústi átti það til æsa sig ef menn voru ekki nógu snöggir að stökkva upp á steðjann á réttu lagi. Eitt sinn er Gústi var að koma manni í land í Suðurey, manni sem var ávallt frekar ragur við steðjann þegar urgaði vel á honum og hafði ekki þorað að stökkva í tvígang og Gústi því þurft að gera 3. tilraun og farið að fjúka í hann. Þegar hann var að nálgast steðjann öskraði hann út um gluggann: „Stökktu maður stökktu“, og manngreyið varð skíthrætt við Gústa og stökk en beint í sjóinn því rúðurnar í Ráninni voru orðnar dálítið mattar þannig að Gústi misreiknaði fjarlægðina.
Gústi sótti stíft til fiskjar á Ráninni og eru til margar sögurnar af honum þar sem hann þrjóskaðist við að fara í land uns veður var orðið rúmlega vitlaust og hann síðastur trillukarla í land og þá jafnvel í fylgd stærri skipa.
Gústa þótti sárt að hætta að snudda í trilluútgerðinni þegar heilsunni tók að hraka því Ránin var hans líf og yndi fyrir utan fjölskylduna sem átti hug hans allan.
Blessuð sé minningin um Gústa frá Gílsholti.
- Hallgrímur Tryggvason.
- Hallgrímur Tryggvason.
Helgi Unnar Egilsson
F. 15. júlí 1929 - D. 3. maí 2003
Helgi Unnar fæddist að Skarði, Þykkvabæ 15. júlí 1929. Hann andaðist, laugardaginn 3. maí 2003. Foreldrar hans voru Egill Friðriksson, f. 15. febrúar 1901 og d. 27. febrúar 1987 og Friðbjörg Helgadóttir f. 27. janúar 1902 og d. 27. október 1979. Eignuðust þau tvö önnur börn. Þau voru Unnur, sem lést á öðru ári og Málfríður Fanney f. 7. apríl 1928, maki Grettir Jóhannesson f. 11. febrúar 1927 og d. 12. apríl 2000.
Helgi giftist þann 8. júní 1957, Guðríði Steinþóru Magnúsdóttur f. 11. júlí 1937 og d. 2. september 1995 og eignuðust þau þrjú börn. Þau eru: Friðbjörg, f. 19. febrúar 1957, gift Árna Björgvinssyni og eiga þau þrjá syni, Ingvar, Guðmund Jóhann og Björgvin. Guðrún, f. 27. apríl 1958, gift Friðbirni Bjórnssyni og eiga þau fjögur börn, Vigni, Baldur, Helga Rúnar og Margréti Rósu; Þorsteinn f. 22. apríl 1968, giftur Sigurbjörtu Kristjánsdóttur og eiga þau eitt barn, Snorra. Sambýliskona Helga, var Sigurbjörg Jóna Árnadóttir.
Helgi lauk barnaskólaprófi frá Djúpárskóla, Þykkvabæ 1942 og tók vélstjórapróf 1964 í Vestmannaeyjum. Hann stundaði sjómennsku frá Vestmannaeyjum frá fjórtán ára aldri bæði sem háseti og síðar vélstjóri. Hann var meðal annars á Ofeigi og síðan á Eyjabergi í ein tíu ár. Árið 1968 hóf hann störf hjá Fiskiðjunni og starfaði þar fram að eldgosi 1973. Þá flutti hann með fjölskylduna til
Keflavíkur. Hann var síðan eina vertíð á Sæunni VE í Vestmannaeyjum. Eftir að Helgi flutti til Keflavíkur starfaði hann sem verkstjóri hjá íslenskum aðalverktökum til ársins 1997 er hann settist í helgan stein. Hann starfaði síðan mikið að félagsmálum og þá helst með eldri borgurum. í púttklúbbi var hann gjaldkeri í mörg ár og var duglegur að ferðast með þeim um landið.
Hin síðari ár komu í ljós miklir matreiðsluhæfileikar Helga og þóttu bæði pönnukökurnar og hin árlega lundaveisla fjölskyldunnar bera gott vitni um það.< Fjölskyldan var Helga mikils virði og var hann ávallt mættur snemma ef einhver átti afmæli þann daginn, bæði til að fagna og til að aðstoða við undirbúning.
- Þorsteinn Helgason
- Þorsteinn Helgason
Jóhann G. Sigurðsson skipstjóri frá Svanhól
F. 30.júní 1930 - D. 17. okt. 2003
Jóhann G. Sigurðsson í Svanhól var fæddur í Vestmannaeyjum 30. júní 1930. Fullu nafni hét hann Jóhann Guðmundur í höfuð móðurbræðra sinna sem báðir drukknuðu sama árið, 1924. Jóhann Guðjónsson tók, ásamt öðrum manni, út af báti, sem var í heyflutningaferð frá Eyjafjallasandi. Þetta gerðist 20. ágúst. Guðmundur bróðir Jóhanns fórst síðan í miklu slysi við Eiðið, hinn 16. desember, þegar 8 menn fórust af opnum báti sem var að leggja út af Eiðinu og ætlaði út í farþega-og flutningaskipið Gullfoss sem lá þar fyrir utan. Guðmundur ætlaði að ná í ljósmynd af Jóhanni heitnum bróður sínum. Sjórinn tók þungan toll af fjölskyldunni í Norðurbænum á Kirkjubæ árið 1924 og átti enn eftir að höggva stórt í þann sama knérunn, þegar bræðurnir Gísli og Gunnar
Guðjónssynir fórust með m/b Víði, 6. febrúar 1938.
Jóhann eða Hanni í Svanhól, eins hann var ætíð kallaður af vinum og vandamönnum, var af gömlum og grónum ættum í Eyjum. Hann átti þar óvenjustóran hóp skyldmenna, bæði í föður- og móðurætt. Foreldrar hans voru hjónin Þórdís Guðjónsdóttir frá Kirkjubæ og Sigurður Bjarnason skipstjóri frá Hlaðbæ. Þórdís var dóttir hjónanna Höllu Guðmundsdóttur frá Vesturhúsum og Guðjóns Eyjólfssonar frá Kirkjubæ sem bæði áttu stóran frændgarð í Eyjum. Sigurður var sonur hjónanna Halldóru Jónsdóttur og Bjarna Einarssonar í Hlaðbæ sem var mikill bústólpi. Bæði voru þau hjón ættuð undan Eyjafjöllum og áttu þar margt skyldmenna.
Bróðir Sigurðar var Björn í Bólstaðarhlíð en systir þeirra, Ingibjörg, varð húsfreyja í Varmahlíð undir Eyjafjöllum. Jóhann ólst upp við gott atlæti í stórum systkinahópi. Systkini hans voru Bjarni Hilmir vélstjóri, Halla húsmóðir, Sigurður vélvirki, og Gunnar vélstjóri og lifa þau öll bróður sinn. Uppeldissystir Jóhanns var Þórey Guðjóns húsmóðir, dóttir Sigrúnar móðursystur Jóhanns, en Sigrún var alla tíð í Svanhól hjá þeim hjónum Þórdísi og Sigurði. Þórey bjó á Selfossi og andaðist fyrir nokkrum árum. Foreldrar Jóhanns, Þórdís og Sigurður í Hlaðbæ, voru sérstakar gæðamanneskjur, gestrisin og höfðingleg og ætíð góð heim að sækja.
Í Vestmannaeyjum og öllu nánasta umhverfi Hanna í Svanhól snerist allt um sjómennsku. Aðeins 14 ára gamall fór hann hálfdrættingur á síld með föður sínum á Kára VE 27 sem var mikið aflaskip undir stjórn Sigurðar sem var um áraraðir einn besti fiskimaður Eyjanna og þá sérstaklega á síld. Þeir voru þarna tveir hálfdrættingar, frændurnir, Jón Bryngeirsson á Búastöðum og Hanni. Síðar fóru þeir, 16 eða 17 ára gamlir, saman á togarann Helgafell VE 32 sem var einn af gömlu síðutogurunum. Árið 1947 lauk Hanni gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum. Eftir það var hann á sjónum árið um kring með föður sínum á Kára VE 47 sem var glæsilegur bátur, byggður í Vestmannaeyjum árið 1945. Hanni var dugnaðarsjómaður og að loknu skipstjórnarprófi varð hann stýrimaður með föður sínum og skipstjóri á Birni riddara og Sigurði Gísla sem hann átti ásamt föður sínum.
Jóhann fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík árið 1952 og lauk þar hinu meira skipstjóraprófi (2. stigi) vorið 1954. Um það leyti sem Jóhann var við nám í Stýrimannaskólanum, kynntist hann eftirlifandi konu sinni, Guðnýju Guðmundsdóttur hárgreiðslukonu. Foreldrar hennar voru Bjarney Andrésdóttir ættuð úr Dýrafirði og Guðmundur Pálmason frá Rekavík bak Látrum.
Þau Guðný og Jóhann, reistu sér hús við Kirkjubæjarbraut 19 í Vestmannaeyjum og áttu þar mikið myndarheimili. Börn þeirra eru þrjú: Þórdís Bjarney, gift Helga Hermannssyni. Þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn; Hrafnhildur, gift Ólafi Bachmann og eiga þau þrjá syni og eitt barnabarn og Sigurður Hilmir, sem er kvæntur Guðbjörgu Guðjónsdóttur. Þau eiga fjóra syni. Fjölskyldan var því orðin stór. Hún var Hanna til ómældrar gleði en hann var sérstaklega barngóður, ljúfur og hægur í lund en gat þó verið fastur fyrir og ákveðinn. Mikill vinur vina sinna, spaugsamur og kátur í félagahópi og kippti þar í kynið til pabba síns sem var rómaður léttleikamaður.
Hús þeirra Hanna og Guðnýjar fór undir hraun og eimyrju í eldgosinu í Eyjum árið 1973. Þau hjón fluttu þá í raðhús að Ljósalandi 6 í Reykjavík þar sem fallegt heimili þeirra stóð fram á mitt sumar 2003 að þau fluttu að Furugrund 6 á Selfossi. Jóhann var á sjónum til 1974. Eftir það vann hann um tíma í Straumsvík. En sjórinn togaði alltaf sterkt í Hanna og var hann um tíma stýrimaður á m.s. Mælifelli. Eftir að hann kom alfarið í land, vann Jóhann áfram hjá Samskipum í Reykjavík til ársins 1994 en þá varð hann að hætta störfum vegna veikinda.
Ég man eftir Hanna í Svanhól þegar við vorum, skari af krökkum, við luktarstaurinn í Hlaðbæ, í frels eða að hverfa fyrir horn á kvöldin. Einnig var ég með honum sem smápolli í hópi brennustráka ofangirðingar, sem afmarkaðist austan Laufáss og ofan við Vatnsdalstúnið. Frá þessum æskudögum minnist ég hans sem hins góða foringja sem fann öllum hlutverk. Þannig var hann einnig í störfum sínum á sjó og í landi, fyrstur meðal jafninga og mannsæll. Hanni í Svanhól var mikið prúðmenni og drengur góður sem öllum þótti vænt um. Við vorum þremenningar að frændsemi og þótti vænt um okkar fólk. Samfundir voru færri en skyldi og er minn skaðinn. Hanni í Svanhól er einn þeirra samferðamanna sem verður lengi saknað.
Andlát Hanna í Svanhól bar brátt að og hann lést á gjörgæsludeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Reykjavík hinn 17. október 2003.
Jóhann G. Sigurðsson frá Svanhól var jarðsunginn frá Bústaðakirkju hinn 27. október að viðstöddu fjölmenni.
Eftirlifandi eiginkonu og stórri fjölskyldu, systkinum Hanna og öllu þeirra fólki sendi ég einlægar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Hanna í Svanhól.
- Guðjón Ármann Eyjólfsson
- Guðjón Ármann Eyjólfsson
Friðrik Friðriksson
F. 4. september 1926 - D. 23. maí 2003
Friðrik Friðriksson var fæddur í Vestmannaeyjum 4. september 1926 og dó 23. maí 2003. Sonur hjónanna Sveinbjargar Sveinsdóttur, fædd 2. apríl 1898 og Friðriks Ingimundarsonar, fæddur 17. september 1894. Þau bjuggu lengst af í Skipholti í Vestmannaeyjum. Systkini Friðriks eru: Elín, fædd 6. október 1922, Svanhvít, fædd 29. janúar 1925 og Matthildur, fædd 27. janúar 1932. Hann giftist 26. febrúar 1949, Sigríði Elísabetu Andrésdóttur, fædd 10. júlí 1924, dáin 20. apríl 2003, hún var frá Stóru - Breiðuvíkurhjáleigu en þau skildu árið 2000.
Börn þeirra eru: 1) Guðrún Valgerður Friðriksdóttir, fædd 31. ágúst 1948, hún er gift Ásbirni Guðjónssyni frá Dölum í Vestmannaeyjum. Þau búa á Eskifirði og eiga þrjár dætur og þrjá dætrasyni. 2) Sveinn Friðriksson, fæddur 3. apríl 1953, giftur Kolbrúnu Sigurðardóttur frá Akureyri og eiga þau þrjár dætur. Sveinn og Kolbrún eru búsett í Kaupmannahöfn.
Friðrik fór ungur að vinna í netum hjá Ingólfi Theodórssyni netagerðarmeistara bæði í Eyjum og á Siglufirði á síldarárunum. Hann var mörg ár á sjó, á Kára VE 47 hjá Sigurði Bjarnasyni í Svanhól, á nýsköpunartogaranum Elliðaey VE 10 hjá Ásmundi Friðrikssyni á Löndum, Frigg VE 316 hjá Sveinbirni Hjartarsyni á Geithálsi, nokkur sumur á Sjöfninni VE 37 hjá Þorsteini Gíslasyni í Görðum og hann var um tíma stýrimaður á Björgu VE 5 hjá Einari Guðmundssyni í Málmey. Einnig vann hann ýmis störf í landi, var m.a. ýtustjóri hjá Vestmannaeyjabæ en lengst af var hann bifreiðarstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja, eða þar til um gos 1973. Þá fluttu þau til Eskifjarðar þar sem hann starfaði hjá Vegagerðinni og Hraðfrystihúsi Eskifjarðar.
Friðriki voru Eyjarnar hugleiknar, hann fylgdist með öllum fréttum þaðan. Knattspyrnan átti hug hans og fylgdist hann vel með í þeim málum ekki síst með ÍBV. Eftir að hann fluttist til Eskifjarðar, minntist hann oft á Tý með stolti enda var félagið honum kært. Friðrik var dagfarsprúður og mátti ekkert aumt sjá, hann var einnig mikill skapmaður á stundum og ræddum við málin oft af festu, hvort heldur voru verkalýðsmál, bæjarmál eða heimsmálin og notaði hann yfirleitt sterk lýsingarorð um hlutina. Megi minning um góðan dreng lifa.
- Ásbjörn Guðjónsson
- Ásbjörn Guðjónsson
Sigurður Jónsson
F. 9. júlí 1919 - D. 23. september 2003
Kær vinur minn og fyrrverandi mágur, Sigurður Jónsson Hásteinsvegi 53 Vestmannaeyjum, kenndur við húsið Engey, Faxastíg 25, er látinn. Hann fæddist að Sperli í Vestur Landeyjum 9. júlí 1919 og lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja þriðjudaginn 23. september 2003. Foreldrar hans voru Jón Jónsson frá Króktúni í Hvolhreppi, sonur Jóns bónda þar og konu hans Helgu Runólfsdóttur, Nikulássonar, hreppstjóra á Bergvaði. Jón var fæddur á Króktúni 13. júní 1887 en lést í Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja eftir erfiða sjúkdómslegu 25. sept. 1951. Móðir Sigurðar var Sigríður frá Ystakoti, fædd þar 17. júlí 1885, dóttir Sigurðar Jónssonar, bónda þar, Guðmundssonar Neðradal, Eyjafjöllum og konu hans Ingveldar Magnúsdóttur frá Dagverðarnesi. Sigríður lést í Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 22. sept. 1972.
Sigríður og Jón gengu í hjónaband 24.júní 1917. Eignuðust þau 7 börn sem öll eru látin. Sigurður var næst elstur. Þau hafa sennilega öll látist úr hinum illvíga sjúkdómi krabbameini utan Gísli Svavar sem var fæddur 1922 og fórst með m.b. Ófeigi 1. mars 1942, tæplega tvítugur.
Sigurður mágur minn var léttlyndur og ljúfur maður. Fór ávallt vel á með okkur. Sigurður var mikill vinnuþræll og vel að manni, meðan heilsan gaf byr. Sigurður vann ýmis störf eftir að hann hætti sjómennsku, s.s. frystihúsavinnu, byggingarvinnu o.fl. Þegar ég var beðinn um að hlaða minningarvörðuna um varð -og björgunarskipið Þór, þá var það Sigurður sem ég vildi fá sem aðstoðarmann. Var varðan hlaðin úr lábörðu grjóti. Fyrst var mikil leit hjá okkur að finna réttu steinana. Búið var að keyra miklu af grjóti inn á flötina þar sem varðan átti að standa. Var megnið af því ónothæft, nema í uppfyllinguna, sem átti að vera í kringum vörðuna. Svo fór að við fórum norður fyrir Eiði og suður í Klauf til að finna rétta grjótið. Megnið af því var svo sótt í Eiðið. Við þessar athafnir sá ég hvað Siggi minn var ötull og hraustur maður. Við Sigurður og Kristborg, kona hans, vorum alla tíð góðir og traustir vinir. Bjó ég hjá þeim um skeið við gott atlæti þar til ég flutti niður á Herjólfsgötu 11 og hef búið þar síðan hjá góðu fólki. Siggi minn var vel kynntur alls staðar. Hann var mjög jafnlyndur. alltaf léttur í skapi. Siggi minn hefði getað orðið stórsöngvari. Hann átti góða náttúrurödd. Söngvagyðjan var greinilega sterk í honum.
Hinn 14. nóvember 2002 varð hann fyrir því áfalli að fá heilablóðfall og lá í dái á aðra viku. Þegar hann rankaði við sér, kom í ljós að hann var málhaltur, átti erfitt með að tjá sig og maður skildi hann ekki. Brosti bara en hætti að syngja, raulaði stef úr kunnri vögguvísu, alltaf sömu stefin.
Kona Sigurðar, Kristborg Jónsdóttir, fæddist að Meðalfelli í Nesjum, Austur Skaftafellssýslu. Kom hún ung til Vestmannaeyja og gerðist ráðskona hjá bankastjórahjónunum. Kynntust þau Sigurður fljótlega eftir komuna, giftust 16. desember 1945 og eignuðust 5 börn. Eitt lést í frumbernsku, annað af slysförum, Jón Viðar 8 ára gamall. Eftirlifandi eru Ægir og Arnþór sem búa í Reykjavík og Guðlaug Björk, búsett í Vík í Mýrdal.
Blessuð sé minning Sigga.
Útgerðar - og sjómennskuferli Sigurðar eru ítarlega skráð í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 2002.
- Runólfur Dagbjartsson.
br>
- Runólfur Dagbjartsson.
Sveinn Hjörleifsson
F. 1. ágúst 1927 - D. 4. janúar 2004
Sveinn Hjörleifsson í Skálholti í Vestmannaeyjum var fæddur 1. ágúst 1927.
Foreldrar hans voru: Hjörleifur Sveinsson frá Selkoti Austur-Eyjafjöllum f. 23. janúar 1901, d. 29. september 1997 og Þóra Arnheiður Þorbjarnardóttir frá Eskifirði f. 18. október 1903, d. 6. júlí 1970.
Systkini Sveins eru: Anna f. 31. mars 1929, Friðrik Ágúst f. 16. nóvember 1930, Guðbjörg Marta f. 20. júlí 1932 og Hjörleifur Þór f. 7. mars 1940, d. 8. mars 1940.
Eiginkona Sveins frá 25. desember 1948 er Aðalheiður Maggí Pétursdóttir frá Ólafsfirði fædd þar 27. september 1930.
Börn Sveins og Aðalheiðar eru: 1) Þóra Sigriður f. 27/9 1948, gift Henrý Ágústi Erlendssyni. Þau eiga 3 börn. 2) Þórey f. 1/9 1951, gift Einari Sveinbjörnssyni. Þau eiga 3 börn. 3) Hjörleifur f. 27/12 1954, hann á 1 son. 4) Ólafur Pétur f. 30/5 1958, d. 12/2 2004 5) Kristbjörg f. 21/5 1965, gift Pétri Fannari Hreinssyni. Þau eiga 3 börn.
Við Sveinn vorum vinir og nágrannar frá fyrstu tíð. Í gamla daga á Landagötunni og síðustu 20 árin á Höfðaveginum númer 1 og 2. Eins og víða á Landagötunni áttu foreldrar hans kýr og kindur. Sveinn varð snemma áhugasamur og duglegur við búskapinn. Ungur að árum fór hann til sumardvalar í sveit austur undir Eyjafjöll til Skærings bónda í Skarðshlíð og líkaði þar vel. Ævistarfið á sjónum átti hug hans lengst af. Hann var mikill aflamaður og hörkusjómaður og átti farsælan skipstjóraferil. Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi heiðraði hann á sjómannadeginum 2002 fyrir þann þátt í störfum hans. Á fyrstu árunum til sjós fékk hann viðurnefnið víkingur og kom það ekki til af engu. Hann var fjallamaður ágætur, að sögn kunnugra, sterkur, snar, léttur og hvetjandi. Strax eftir fermingu fór hann að vinna í fisktökuskipunum sem lestuðu hér fisk á Bretland. Sautján ára, 1945, fór hann að róa á vetrarvertíð á Leó með Júlíusi Hallgrímssyni og var á ýmsum bátum háseti og síðar stýrimaður til 1954. Á þessum árum frá 1947 átti Sveinn trilluna Bláskjá sem hann reri á milli vertíða. Bláskjá notaði hann líka í fýla- og svartfuglaferðir og úteyjasnatt.
Frá 1954 var hann skipstjóri og útgerðarmaður á bátum sem allir báru nafnið Kristbjörg. Í fyrstu voru sameignarmennirnir fjórir en frá 1958 átti Sveinn útgerðina einn. Fyrsta Kristbjörgin VE 70 var 15 tonn. Þá næstu keyptu þeir frá Danmörku 1955, hún var 40 tonn. Þriðju Kristbjörgina, 120 tonn, lét hann smíða í Noregi 1960 og þá fjórðu, VE 71, 270 tonn, keypti hann frá Ísafirði 1973. Hann gerði báðar þessar síðustu út í nokkur ár áður en hann seldi þær um miðjan áttunda áratuginn. Þá eldri var hann síðan með í nokkur haust á síld fyrir þáverandi eigendur. Kappið var alltaf mikið og ekki vantaði dugnaðinn. Vetrarvertíðina 1965 leigði hann Jón Stefánsson af Einari Sigurðssyni og var sjálfur með hann og gerði að auki Kristbjörgina út. Á síðustu útgerðarárunum átti hann Kristbjörgu Sveinsdóttur, 11 tonna dekkbát. Frá 1996 reri hann með Hjörleifi, syni sínum, á trillunni Gými á línu hvert haust fram á vetur að loðnan gekk. Fiskuðu þeir mikið. Oft hringdi hann eftir róður og gaf nákvæma skýrslu, hvar línan var lögð utan í klakka, boða og trintur, tengsli hér og tengsli þar og hvar ástaðan var best hverju sinni. Hann lifði sig svo vel inn í þetta. Hann var ánægður þegar hann var búinn að koma öllum gömlu miðunum inn í GPS-inn og fór þetta allt eftir skjánum.
Skipsrúm á Kristbjörgu voru eftirsótt, alltaf mikil aflavon og talað var um fjör og alls konar sprell þar um borð. Margar sögur eru til af því.
Árið 1970 keypti Sveinn allt sauðfé Einars á Arnarhóli þegar hann flutti til Reykjavíkur og var af lífi og sál við fjárbúskapinn eftir það. Hesta eignaðist hann fyrir gos, hætti með þá um tíma en var byrjaður að stússa í hrossarækt aftur. Hann fylgdist vel með að kindurnar og hrossin væru alltaf í góðum haga og alltaf átti hann mikil og góð hey. Óli Pétur, sonur hans, var honum mikil stoð og stytta við búskapinn. Við áttum mikil samskipti í sauðfjárræktinni. Hann var mikill foringi í hópi kindakarla og var gott að hafa hann sem slíkan. Úteyjaferðirnar útbjó hann vel og stjórnaði. Hafði allt tilbúið áður en farið var enda alltaf eldsnemma á fótum. Gætti að leiði og ræsti þegar fært var. Frábær stjórnandi við steðjann og í smalamennskunni. Hann hafði langa reynslu af úteyjaferðum með fé og við eggjatöku. Í mörg ár eftir að hann hætti að fara í björg fór hann með eggjakörlunum í skerin á vorin, Geirfuglasker, Súlnasker og Geldung. Þeir vildu hafa hann til að stjórna þessum ferðum, klár og kunnugur. Hann vildi nýta gæði lands og sjávar, annað var af og frá.
Frá 1986, þegar Heiða veiktist, hugsaði hann um hana heima til 1999 þegar hún fór á spítalann. Óli Pétur var þá orðinn einn heima með þeim. Það var aðdáunarvert hvernig hann hugsaði um hana, eldaði og gerði allt sjálfur sem gera þurfti. Eldamennskan átti vel við hann. Hann hugsaði alltaf og talaði mikið um mat. Eftir sláturtíð á haustin voru tvær stórar frystikistur fullar af góðmeti. Tunna af söltuðu kindakjöti og önnur af söltuðu hrossakjöti á sínum stað. Saltfiskur, saltaðar gellur og kinnar og saltaður fýll líka á sínum stað. Og stundum ýmislegt fleira sem til féll. Allt útbjó hann þetta sjálfur frá fyrstu hendi og naut þess mikið vel. Megnið af síðasta árinu var víkingnum erfitt, hann greindist með krabbamein í mars 2003 og var oft mikið veikur. Það kom ekki í veg fyrir áhuga hans á fiskiríinu og skepnunum sem hann fylgdist vel með. Hann lést á Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi við Hringbraut 4. janúar s.l. Það er sjónarsviptir að Sveini Hjörleifssyni. Það var alltaf líflegt í kringum hann. Greiðugur var hann með afbrigðum, tilbúinn að leysa hvers manns vanda ef tök voru á svo um var talað. Fjölskyldu hans eru sendar dýpstu samúðarkveðjur.
- Friðrik Ásmundsson
- Friðrik Ásmundsson
Sæmundur Einarsson
F. 27. apríl 1919 - D. 9. september 2003
Sæmundur fæddist á Staðarfelli í Vestmannaeyjum þann 27. aprfl 1919 og lést þann 9. september 2003.
Foreldrar hans voru þau Elín Björg Þorvaldsdóttir f. 29. ágúst 1894, d. 10. september 1973 og Einar Sæmundsson, byggingameistari, f. 9. desember 1884, d. 14. des. 1974.
Sæmundur var næstelstur sjö alsystkina, einnig átti hann einn hálfbróður. Eftir lifa nú tveir bræður, Óskar búsettur í Kópavogi og Einar búsettur í Reykjavík.
Sæmundur á Staðarfelli, eins og hann var almennt kallaður, ólst upp í Vestmannaeyjum. Framan af dvaldi hann allmörg ár að Hofi í Öræfum. Hann talaði oft um þá dvöl sem mun um margt hafa verið öðruvísi en lífið við sjávarsíðuna. Samgöngur voru mjög erfiðar, mikil vinna og töluverð reynsla fyrir ungan dreng. Eftir fermingu kom hann aftur til Eyja og bjó þar lengst af. Eins og venja var til, stefndi hugur hans á sjóinn, þar var mesta tekjuvonin. Hann aflaði sér vélstjórnarréttinda og einnig skipstjórnarréttinda og stundaði sjó á ýmsum bátum. Má þar nefna Gullveigu, Sæfara og Kára.
Árið 1947 urðu þáttaskil í togaraútgerð landsmanna með komu nýsköpunartogaranna. Bæjarútgerð Vestmannaeyja fékk sinn fyrri togara í september það ár og hálfu ári síðar kom sá síðari, Bjarnarey.
Þetta þóttu glæsileg skip, vinnuaðstaða og allur aðbúnaður mun betri en menn höfðu vanist á gömlu togurunum. Um borð í Elliðaey var úrval vaskra drengja og þar hófst vinskapur eiginmanns míns, Jóns Kr. Jónssonar, og Sæmundar. Hann talaði oft um að Sæmundur hefði verið kjarkmikill dugnaðarforkur. Góður andi var um borð í þessu skipi enda skipuðu Eyjarnar stóran sess í huga Jóns og átti hann þar marga góða vini.
Leiðir skildu þegar Jón fór til heimabyggðar sinnar, Ísafjarðar. En fyrir 20 árum fluttum við hjónin suður og keyptum litla matvöruverslun í Laugarneshverfi. Snemma fóru að birtast nokkrir kunningjar Jóns frá Eyjum. Einn af þeim var Sæmundur og endurnýjuðust þá gömul kynni. Ég get ekki sagt að ég hafi kynnst honum neitt að ráði fyrr en við fluttum hingað á Seltjarnarnesið. Við höfðum þá hætt verslunarrekstri. Sæmundur fór þá fljótlega að koma í heimsóknir og varð mikill heimilisvinur okkar. Hann var um margt sérstakur maður, vildi helst ekkert þiggja, alltaf nýbúinn að borða eða sagði: „Ég á kaffi heima.“ Þó kom fyrir að hægt var að freista hans með pönnukökum. Síðustu árin var hann þó farinn að þiggja matarbita og borða með okkur um hátíðir. Fyrsta skiptið sem hann var með okkur á aðfangadagskvöldi, sagðist hann aldrei hafa verið annars staðar en heima hjá sér eða á sjónum á þessu kvöldi. Ég spurði hann stundum hvort hann hefði ekki hug á að fara til Eyja í heimsókn en hann svaraði: „Ég er fluttur en fæ allar fréttir þaðan.“ Enda fór fátt fram hjá honum sem máli skipti um útgerð og aflabrögð og hvernig gömlu félagarnir höfðu það. Þetta lýsir honum vel. Fáorður, nægjusamur og ákveðinn. Hugur hans til heimabyggðarinnar var ávallt hinn sami. Einhverju sinni, er verið var að glettast hérna, brást hann hinn versti við og sagði: „Svona er ekki talað í Eyjum, þetta hlýtur að vera að vestan.“ Heimsóknir Sæmundar voru Jóni mikill styrkur, heilsan var farin að bila hjá báðum og má því segja að samverustundirnar hafi verið báðum til góðs. Lengi var hann hálf feiminn við mig enda mjög dulur maður en með tímanum breyttist það. Hann fór þá að spyrja mig meira, hvað ég væri að gera og segja hvernig ég ætti að gera hlutina, svo sem að rækta kartöflur, sem ég taldi mig kunna en maður þrætti ekki við Sæmund.
Hann greindist með krabbamein í ristli fyrir fáum árum en fékk nokkra bót á því. En stuttu síðar greindist hann með hjartasjúkdóm og þurfti að fara í aðgerð. Kvöldið fyrir hana kom ég og sonur minn til hans. Þá sá ég í fyrsta sinn kvíða hjá honum og tár á hvarmi. Hann tókst á við veikindi sín af krafti og dugnaði og fór í langar gönguferðir, hvernig sem viðraði. Í einni slíkri, hreinlega fauk hann í miklu hvassviðri. Það vildi honum til happs að vegfarandi fann hann af tilviljun og kom honum undir læknishendur. Eftir andlát Jóns hélt hann áfram að koma í heimsóknir, fannst gaman að fylgjast með boltanum í sjónvarpinu með strákunum okkar. Einnig þegar þeir voru að lagfæra húsið hérna. Lagði hann þá ýmislegt til málanna. Hann sagðist hafa mikið fengist við smíðar með föður sínum. Hann fylgdist vel með hvernig börnunum okkar vegnaði. Yngsti sonur okkar, Jón Ingigeir, var mikill vinur hans, fylgdist með honum þegar hann gat og einnig konan hans.
Sæmundur var ókvæntur og barnlaus. Eftir lát foreldra sinn bjó hann einn í íbúðinni sinni og fannst það mikils virði. Að vísu var hann farinn að tala um að það væri ekki nógu mikið öryggi ef hann yrði lasinn.
Nú er gamla kempan farin í ferðina sem við förum öll að lokum. Ég og börnin mín þökkum honum samfylgdina. Hann var Jóni ómetanlegur styrkur í veikindunum, slíkt verður ekki fullþakkað. Við teljum okkur ríkari eftir að hafa kynnst þessum öðlingsmanni.
Megi öldurnar vagga honum við fjarlæga strönd.
Far þú í friði kæri vinur.
- Sigríður Aðalsteinsdóttir
- Sigríður Aðalsteinsdóttir
Elías Baldvinsson
F. 1. júní 1938 - D. 16. september 2003
Elías Baldvinsson fæddist að Hárima í Þykkvabæ 1. júní 1938. Hann lést 16. september síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Baldvin Skæringsson og Þórunn Elíasdóttir. Addi eins og hann var gjarnan kallaður, kvæntist 6. júni 1959 eftirlifandi eiginkonu sinni, Höllu Guðmundsdóttur, dóttur hjónanna Guðmundar Guðjónssonar og Jórunnar Guðjónsdóttur. Addi og Halla eignuðust 8 börn. Þau eru: Þórunn Lind, Unnur Lilja, Kristín Elfa, Guðmundur, Sigrún, Eygló, Elísa og Baldvin. Barnabörnin eru 21 og barnabarnabörnin 2.
Árið 1953, aðeins 15 ára gamall, munstraði Addi sig á bát í fyrsta sinn, vélskipið Vaðgeir VE 7 þar sem skipstjóri var Sigurgeir Ólafsson. Næstu ár var Addi á vertíðum á hinum ýmsu bátum en vertíðina 1960 réði Addi sig á Berg þar sem hann undi hag sínum vel undir stjórn Kristins Pálssonar. 6. desember 1962 sökk Bergur út af Öndverðarnesi en mannbjörg varð. Ekki réðist Addi í skipsrúm eftir þetta þrátt fyrir að hann hafi verið búinn að afla sér 120 tonna skipstjórnarréttinda á námskeiði hér í Eyjum sem Stýrimannaskólinn í Reykjavík hélt hér mánuðina október til janúar 1961 til 1962.
Milli vertíða hafði Addi lært bifvélavirkjun hjá Hreggviði Jónssyni og lauk þaðan sveinsprófi 1959. Addi nýtti sér menntun sína þegar í land kom og hóf að starfa sem bifreiðaeftirlitsmaður 1963 og starfaði við það til ársins 1973. Hann gekk í slökkvilið Vestmannaeyja 1962,varð varaslökkviliðsstjóri 1973 og slökkviliðsstjóri 1984. Addi tók við stjórn Áhaldahússins 1973 og starfaði þar allt til dánardags.
Þegar hugurinn leitar til baka, er margs að minnast. Addi var einstakur maður sem ég var svo lánsamur að eiga bæði sem tengdaföður og ekki síður sem minn nánasta vin. Hann var kjölfesta stórfjölskyldunnar, sá sem við öll gátum leitað til. Það var sama hvað hann tók sér fyrir hendur, allt virtist leika í höndum hans sem oftar en ekki kom sér einkar vel fyrir mig. Hann hafði alltaf mörg járn í eldinum og öll þau ár, sem við vorum samferða, hafði Addi einhver áhugamál sem hann ræktaði af alúð. Minnisstætt er mér þegar Addi keypti sér algerlega strípaðan trilluskrokk, kom fyrir í honum vél, skrúfubúnaði, siglingartækjum og öllu því sem prýða þarf gott skip. En Addi var ekki trillukarl. Skakið heillaði ekki heldur langaði hann að smíða trillu og þegar því var lokið, var hann búinn að landa áhugamálinu. Svona var Addi, hann framkvæmdi það sem honum datt í hug.
Það var svo í kringum 1988 sem við Eygló eiguðumst okkar annað barn og var því orðið þröngt um okkur þar sem við bjuggum á Brekastígnum. Addi var strax komin á útkíkkið að svipast um eftir heppilegu húsnæði fyrir okkur. „Viðar, það er grunnur upp á Nýjabæjarbraut, ég held að það væri sniðugt hjá þér að kaupa hann og fara að byggja,“ sagði hann eitt sinn við mig. Ekki varð úr að ég keypti grunninn en það gerði Addi og tók til við að byggja rúmlega fimmtugur að aldri. Hann varði nánast öllum sínum frítíma í smíðarnar og sóttist verkið vel enda Addi dugnaðarforkur og fluttu þau hjónin á Nýjabæjarbrautina haustið 1994.
Addi var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins Helgafells, forseti klúbbsins starfsárið 1991 og ein af driffjöðrunum í starfi klúbbsins, virkur bæði í starfi og leik. Hann var duglegur að mætta í kjallarann, leika snóker og glettast við félagana. Hann var frábær sögumaður og hafði einstaka frásöguhæfileika og var unun að hlusta á Adda þegar hann komst á flug.
Það var í tengslum við starfið í Kiwanis sem söngsveitin sixpennsararnir var stofnuð. Addi Bald, Hörður Jóns, Óli Svei og Beddi sáu um sönginn en Lalli spilaði undir.
Þetta söngvesen þeirra svínvirkaði og voru þeir farnir að troða upp við hin ýmsu tækifæri. Mest gaman höfðu þeir félagar þó af því að æfa og var oft mikið fjör hjá þeim þar sem æskufélagarnir Óli og Addi fóru á kostum.
En þó að áhugamálin hafi verið mörg og oft unnið meira en góðu hófi gegndi,var fjölskyldan alltaf númer eitt og samband Adda og Höllu einstakt eins og allir, sem til þeirra þekktu, vita.
Elsku Halla, það hafa verið sannkölluð forréttindi að fá að ganga í gegnum lífið með þér og Adda.
Megi Guð almáttugur styrkja þig og blessa minningu Elíasar Baldvinssonar.
- Þó fornu björgin bresti.
- Bili himinn og þorni upp mar.
- Allar sortni sólirnar.
- Aldrei deyr þótt allt upp þrotni.
- Endurminning þess sem var.
- Grímur Thomsen
- Viðar Sigurjónsson
- Viðar Sigurjónsson
- Grímur Thomsen
- Þó fornu björgin bresti.
Ástvaldur Valtýsson
F. 5. febrúar 1941 - D. 27. maí 2003
Ástvaldur Valtýsson eða Valdi eins og hann var ætíð nefndur, var fæddur í Vestmannaeyjum 5. febrúar 1941. Sonur hjónanna Valtýs Brandssonar verkamanns, frá Önundarhorni, A-Eyjafallahreppi og Ástu Sigrúnar Guðjónsdóttur frá Króktúni, Hvolhreppi. Fæddist hann sjöunda barn þeirra hjóna en alls urðu þau þrettán. Tvö barna sinna misstu þau ung.
Heimili Valda var Kirkjuhvoll eða Bragginn sem stóð ofan við malarvöllinn við Löngulág. Þar var margt brallað. Þótti Valdi snemma uppátækjasamur drengur.
Hann var gegnheill Týrari alla tíð og stundaði knattspyrnu með Knattspyrnufélaginu Tý á sínum yngri árum.
Eftir barnaskólanám hóf hann sjómennsku á ýmsum bátum frá Vestmannaeyjum og Keflavík. Hann gerðist fyrsti vélstjóri á mótorbátunum Lagarfossi VE, 1960, á Kapinni '60-62, annar vélstjóri á Árna Geir frá Keflavík frá '64 en síðan aftur fyrsti vélstjóri, á Heimaey VE '71-74. Síðan keypti hann mótorbátinn Árntý VE-115 með Gunnari Árnasyni mági sínum. Var hann þar vélstjóri í áratug til 1984, auk ýmissa starfa í landi. Vélstjóranámi lauk hann 1963.
Ástvaldur kvæntist 6. júní 1964 Halldóru Sigurðardóttur. Foreldrar hennar voru Sigurður Sumarliðason og María Magnúsdóttir.
Eignuðust þau þrjár dætur, Stefaníu, Ástu Maríu og Unu Sigrúnu, sem allar búa hér í bæ með fjölskyldum sínum. Eru barnabörnin orðin níu.
Framan af búskap bjuggu þau Halldóra og Valdi í Keflavík þar sem hann sótti sjóinn auk þess sem hann vann við járnsmíði. Gerðist hann þar félagi í Björgunarfélaginu Stakki. En heim til Eyja skyldi haldið. Árið 1972 keypti þau nýtt hús að Hrauntúni 37.
Gosnóttina 23. janúar 1973 var Valdi við vinnu við lokaundirbúning á smíði Heimaeyjar VE á Akureyri ásamt æskuvini, Sigurði Georgssyni skipstjóra. Eftir að hafa náð að sannfæra flugmann á Akureyri um nauðsyn þess að komast til Vestmannaeyja hið fyrsta, máttu þeir hringsóla yfir Vestmannaeyjum að morgni gosdagsins án þess að fá leyfi til lendingar og án þess að vita afdrif fjölskyldna sinna.
Útgerð stundaði Valdi ásamt mági sínum, Gunnari Árnasyni, á vélbátunum Árntý VE-115 í um áratug. Eftir að útgerðinni lauk hóf hann um 1986 að salta kinnfisk í gömlu matstöðinni við Básaskersbryggju þar sem HSH-flutningar eru nú með aðstöðu. Var þetta smátt í sniðum til að byrja með en vatt upp á sig. Bætti Valdi við þetta söltun á þorski og ufsa. Umsvifin jukust sífellt og flutti hann í húsnæði við Eiðisveg. Svo rammt kvað að þessari útþenslu að þar kom að Coka Cola samsteypunni var komið úr húsi til þess að ná undir sig norðurenda hússins. Mörg handtök liggja að baki vexti fiskvinnslufyrirtækis. Ávallt var Valdi þar fremstur í flokki, laghentur og úrræðagóður. Stóð samheldin fjölskylda hans honum þétt að baki.
Valdi var maður framkvæmda, maður sem kvað að. Hann hafði ákveðnar skoðanir, það gat hvesst þegar hann setti þær fram.
Metnaður hans kom vel fram í því er honum var falið. T.d. er honum ásamt fleiri var falið að hafa umsjón með árlegri skötuveislu Akógesfélagsins á Þorláksmessudag en þar var Valdi félagi. Stóð hann þar fremstur meðal jafningja. Hefur umfang þessa samfagnaðar vaxið ár frá ári þar sem hann beitti sér fyrir því að fleiri fisktegundir væru á borð bornar.
Fyrir nokkrum árum keypti Valdi sér gróðurspildu við Flúðir. Þar reisti hann sumarhús með sömu vandvirkni og framkvæmdagleði og hann byggði upp sitt fyrirtæki. Sýndi hann þar sínar bestu hliðar, jafnt við smíðar sem gróðursetningu trjáa. Búmaðurinn Valdi undi sér þar vel og átti þar góðar stundir og ef svo bar við þá tók hann þátt í bústörfum, slætti, girðingarvinnu og smalamennsku hjá góðum kunningjum sínum þar í sveitinni.
En eftir vel heppnaða aðgerð nú í vor þar sem hann snéri til Vestmannaeyja með endurnýjaðan þrótt, varð Valdi fyrir áfalli sem hann yfirsteig ekki. Lést hann í Reykjavfk 27. maí 2003 eftir stutta sjúkrahúslegu.
Blessuð sé hans minning.
- Guðbjörn Ármannsson
- Guðbjörn Ármannsson
Ólafur Sveinbjörnsson
F. 5. júlí 1938 - D. 9. nóvember 2003.
Það var 5. júlí 1938 sem Ólöf Oddný Ólafsdóttir ól sveinbarn í NA herberginu að Snæfelli við Hvítingatraðir. Sveinninn Ólafur var næstelstur 5 systkina. Elst var Halla f. 1936 d. 1943. Huginn og Valgeir eru fæddir 1941 en Halla 1946. Foreldrar Ólafar Oddnýjar fluttu til Eyja frá Vopnafirði með heilan hóp barna. Þau voru Oddný Runólfsdóttir og Ólafur Oddsson. Faðir Óla var Sveinbjörn Guðlaugsson f. 1914, d. 1994. Afi Óla var Brynjólfur útgerðarmaður frá Lundi.
Það var mikið peyjasamfélag við Hvítingatraðir og ofanverðan Skólaveg þegar Óli var að alast upp. Þarna voru Steingrímsstrákarnir, börnin frá Varmadal, Þrúðvangi og Vegbergi. Allir léku sér saman frá morgni til kvölds. Allt gekk stórslysalaust þar til Óli var 10 ára. Þá voru þeir Atli í Varmadal og Óli að fikta með dínamitshvellhettur og sprenging varð. Atli slapp ómeiddur en Óli missti þrjá fingur vinstri handar. Þetta var mikið áfall fyrir ungan dreng. Þá þegar hafði Óli skorið sundur afltaugar tveggja fingra hægri handar. Þetta átti eftir að baga Ola við dragspilið síðar á lífsleiðinni. Óli var nokkrar vikur á sjúkrahúsi eftir slysið og annað eins heima við.
Nánir æskuvinir Óla voru Svavar Steingríms., Haukur Þorgils., Sævar Jóhannesson, Gulli Axels. og Addi Bald, eftir að Óli flutti á Fífilgötuna. Stutt var á milli Hauks á Grund og Óla á Fífilgötunni enda spiluðu þeir oft saman, Haukur á orgel en Oli á sög. Þá átti Óli ekkert hljóðfæri. Aðalsteinn í Brynjólfsbúð spilaði með Óla í Gaggabandinu.
Fyrir æskusakir varð Óli að fá skriflegt leyfi tengdaforeldra, foreldra og forseta íslands til að fá að eiga æskuvinkonu sína, Kristínu, nú þjónustu-fulltrúa VÍS f. að Reykjum 1939. Faðir Krístínar, var Georg Skæringsson, f. 1915 d. 1988, en móðir Sigurbára Sigurðardóttir, f. 1921. Börn Krístínar og Ólafs eru: Georg Óskar, f. 1957, Oddný Bára, f. 1960, Vignir, f. 1964 og Þórir, f. 1966. Barnabörnin eru 15. Vignir og Georg eru í hljómsveitinni Pöpum.
Eftir tvö ári í Gagganum leist þeim Óla og Adda Bald ekki á að ganga menntaveginn lengra að sinni og skelltu sér á reknet með Fúsa á Ísleifi II. Eitt haustið komst Óli á varðskipið Maríu Júlíu sem viðvaningur en undirmenn bjuggu frammi í. Þá bar svo við í landlegu að skólabræður úr Stýrimannaskólanum voru að skemmta sér aftur í. Þarna hittust Óli og Þröstur Sigtryggson, skipherra, fyrsta sinni en Þröstur notaði þá tækifærið og fékk lánaða nikkuna hans Óla. 40 árum síðar, eða sumarið 2000, tóku þeir lagið saman, Þröstur á gömlu nikkuna hans Óla en Óli á sína nýju. Annars er það að segja um sjómannsferil Óla að hann fór einn túr á togaranum Austfirðingi með frænda sínum, Gvendi-Eyja, en Gvendur er hálfbróðir föður Óla. Þar voru á sömu vakt 5 menn sem allir hétu Ólafur og þurfti að aðgreina hvern frá öðrum. Okkar Óli var kallaður Óli Svei, einn var Óli kvistur (Norðkvist) og einn var kallaður Borgarness blautur. 15 ára komst Óli á Sjöstjörnuna á síld með Ella í Varmadal. Óli rótþénaði enda báturinn efstur Eyjaskipa. Þá keypti Óli sér harmoniku sem kostaði kr. 3.200. Hjá útgerð Tómasar í Höfn var Óli 6 sumur, þrjár vertíðar og tvö reknetaúthöld og líkaði vel. Óli var auk þess með Bjarnhéðni Elíassyni og á Hringveri, nýju skipi Helga Benediktssonar, en skipstjóri var Daníel Willard Fiske Traustason. Óli endaði sjómannsferil sinn sem vélstjóri á nýrri Sjöstjörnu þegar hin fyrri hafði brunnið og eyðilagst í hafi.
Alkominn í land lærði Óli múrverk hjá Hjölla múrara og vann við það meðan heilsan leyfði.
Óli var einn stofnenda Harmonikufélags Vestmanneyja og starfaði þar talsvert. Óskar heitinn ljósmyndari og Óli voru lengi saman í kirkjukórnum og höfðu mikla ánægju af því að takast á við krefjandi verk. Þess utan spiluð þeir mikið saman á harmonikur.
Í Kiwanisfélaginu er oft notast við heimatilbúin skemmtiatriði þegar við á. Brælubellirnir eða Sixpensararnir var söngkvartett. Nafnið var tilkomið vegna þess að þeir gátu aðeins æft í brælum eða í landlegum.
Í hópnum voru: Hörður Jónsson, Elías Baldvinsson, Ólafur Sveinbjörnsson sem allir eru látnir og Bergvin Oddsson, auk undirleikara Ólafs M. Aðalsteinssonar. Óvænt og skyndilega kom sú hugmynd upp að hljóðrita nokkur lög með flokknum og var vægast sagt Iítil von til þess að það myndi takast að koma þessum stórveldum saman en með diplómatískum hæfileikum Adda Bald tókst að fá grænt ljós hjá öllum. Eftir hádegi, föstudaginn langa, árið 2001 var farið að hljóðrita í Kíwanishúsinu. Menn voru óvanir og kunnu því heldur illa að vera algjörlega þurrbrjósta við sönginn en svo vel vildi til að menn fundu einhverjar dreggjar þarna í húsinu. Eftir að hafa fengið í fingurbjörg af hjartastyrkjandi gekk allt betur. Ekki veitti nú af.
Á yngri árum undi Óli sér vel við að teikna en árið 1998 fór Óli að læra hjá Steinunni Einarsdóttur að fara með liti. Myndir Óla bera vitni um listræna hæfileika hans og fágaðan smekk. Eftir að Oli snéri sér að myndlistinni, hafði hann minni tíma fyrir harmónikuna.
Þeir Addi Bald og Óli töldu kjark hvor í annan ef eitthvað bjátaði á. Það hefur ekki verið vanþörf á slíku að undanförnu. Þeir hafa báðir gengið í gegnum erfið og langvarandi veikindi síðustu árin og hafa þau nú lagt þá báða að velli. Það kom reyndar á óvart hve brátt varð um Adda Bald. Talið var að hann væri að ná sér á strik eftir veikindin.
Kristín Georgsdóttir og aðrir aðstandendur. Ég votta ykkur samúð mína.
- Bjarni Jónasson
Jón Oddsson
F. 14. júlí 1958 - D. 3. ágúst 2003
Þann 3. ágúst 2003 lést á Krabbameinsdeild Landspítalans félagi okkar,Jón Oddsson, eftir langa og erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm.
Jón eða Jonni, eins og hann var kallaður, réri með okkur á Sigurði VE 15 síðustu árin og er hann okkur minnisstæður fyrir dugnað og ósérhlífni en ekki síður fyrir jákvæðni og hugrekki sem hann sýndi í baráttunni við sjúkdóm þann sem varð að lokum banamein hans.
Jón fæddist á Siglufirði 14. júlí 1958 og var einn af sjö börnum hjónanna Odds Jónssonar, fyrrverandi útgerðarmanns á Siglufirði, og Svövu Aðalsteinsdóttur. Jón lauk grunnskólanámi á Siglufirði 1975. Hann lærði húsgangnasmíði við Iðnskólann í Reykjavík og lauk sveinsprófi árið 1985.
Jón var kvæntur Sigríði Ragnarsdóttur, leikskólakennara í Vestmannaeyjum, og áttu þau saman þrjú börn: Rögnu Kristínu f. 27. 04. 1982. Hún stundar nám við Kennaraháskóla Islands. Hafþór f. 11. 08. 1988 og Bryndísi f. 09. 01. 1995. Þau hjónin bjuggu í Reykjavík fyrstu árin eða þar til námi lauk er þau fluttu til Eyja og hófu búskap, fyrst í íbúð við Foldahraun en keyptu síðan einbýlishús að Höfðavegi 46 og ber sú eign snyrtimennsku og dugnaði Jonna og Siggu gott vitni.
Jón stundaði lengst af sjómennsku. Eftir að hann kom til Eyja, var hann á Gullberginu, Bylgju, Gandí, Guðmundi og síðustu árin á Sigurði.
Á milli úthalda vann Jonni við smíðar hjá Steina og Olla hf. Hann var eftirsóttur starfskraftur hvort sem var til sjós eða í landi.
Þegar dauðinn reiðir til höggs, eru höggin þung og eftir stöndum við með spurningar sem við fáum ekki svör við. Allir þeir, sem þekktu Jonna, þennan ljúfa mann, munu sakna hans því missirinn er mikill en eftir standa minningar um góðan dreng, minningar sem munu lifa í hjörtum okkar.
Áhöfn Sigurðar VE biður Guð almáttugan að styðja og styrkja eiginkonu, börn og aðra aðstandendur um ókomin ár.
- Áhöfn Sigurðar VE 15
- Áhöfn Sigurðar VE 15
Frá fyrri tíð
Minning tveggja sjómanna
Í Efnisskrá Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja 1951-2000 eru efnisteknir 50 árgangar og skráð nöfn manna og skipa. Samtals eru í skránni um 7.000 nöfn og vísað til um 650 minningargreina í þessum 50 árgöngum blaðsins þar sem er að finna myndir og æviágrip sjómanna, útgerðarmanna og fleiri Vestmannaeyinga. Þegar við höfum verið að vinna að Efnisskránni á undanförnum árum, hefur oft komið í huga mér, „að margir liggja óbættir hjá garði“. Mér var þá hugsað til manna sem ég saknaði í skránni og tel að hefðu átt að vera þar í hópi þeirra sem minnst er. Þetta eru sjómenn sem áttu sín manndómsár í Vestmannaeyjum og höfðu lagt þar fram sinn skerf. Margar ástæður geta verið fyrir þessu. Í fyrstu árgöngunum var ekki komin hefð á þessa minningaþætti um látna sjómenn, en oftast vegna þess að viðkomandi hafði flust frá Vestmannaeyjum í annað byggðarlag og hafði átt þar ævikvöldið. Ég tel verðugt minningu þessara sjómanna að minnast einhverra þeirra í hverju Sjómannadagsblaði þó að eitthvað sé um liðið síðan þeir hurfu af sjónarsviðinu. Í Sjómannadagsblaðinu geymist þá mynd og æviágrip viðkomandi og þar með yrði fyllt í eyðurnar. Nú þegar Efnisskrá Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja yfir fyrstu 50 árgangana er komin út, verða fyrri minningargreinar öllum mun aðgengilegri. Þessari efnisskrá ætti síðan að fylgja eftir með því að efnistaka blaðið 10. hvert ár. Hér verður minnst tveggja sjómanna sem, hvor með sínum hætti, settu svip á mannlífið í Vestmannaeyjum og voru til sjós á Eyjaskipum.
- GÁE
- GÁE
Karl Ólafsson, skipstjóri og útgerðarmaður
F. 30. jan. 1915 - D. 13.júlí 1990
Hann var fæddur í Vestmannaeyjum 30. janúar 1915, sonur hjónanna Sigurjónu Sigurðardóttur og Ólafs Ingileifssonar skipstjóra. Ólafur, sem var á sinni tíð einn af fremstu aflamönnum í Eyjum, var þríkvæntur. Sigurjóna, sem hann missti, var fyrsta eiginkona hans. Auk Karls var dóttir þeirra Sigurjóna, eiginkona Björns Guðmundssonar kaupmanns og útgerðarmanns. Önnur eiginkona Ólafs var Sigurlína Jónsdóttir frá Ólafshúsum. Hún andaðist stuttu eftir að þau Ólafur giftust. Þriðja eiginkona hans var Guðfinna, yngri systir Sigurlínu. Þau Ólafur og Guðfinna Jónsdóttir bjuggu saman langa ævi, fyrst að Víðivöllum og síðar í Heiðarbæ. Synir þeirra voru þekktir dugnaðarsjómenn í Eyjum; þeir Sigurgeir (Vídó), Eggert, sem eru báðir látnir, Einar og Guðni sem er látinn, en dóttir þeirra er Jóna Guðrún sem gift var Eggert heitnum Gunnarssyni skipasmíðameistara. Karl ólst upp með hálfsystkinum sínum á Víðivöllum og var meðal vina og kunningja kenndur við Víðivelli og þekktur sem Kalli á Víðivöllum. Hann tók ungur skipstjórnarpróf og varð formaður með m/b Geir goða árið 1935, síðan var hann með bátana Mýrdæling, Leif, Öldu, Þór, Gísla J. John-sen, Farsæl, Erling og Skúla fógeta. Karl tók einnig þátt í útgerð og átti m.a. í Þór, Farsæl og Skúla fógeta, sem hann átti með Einari bróður sínum. Þeir voru saman á Skúla fógeta, bræðurnir, Karl og Einar. Einnig var Gunnar, sonur Karls. með þeim og fiðu þeir ágætlega, bæði á handfæri og í troll. Karl hætti sjómennsku árið 1963. Hann flutti skömmu síðar til Reykjavfkur og réðst til Tollstjórans í Reykjavfk og varð tollvörður. I nokkur ár var hann skipstjóri með m/b Val, tollbát Reykjavíkurhafnar. Karl var kvæntur Guðlaugu Gunnarsdóttur frá Moshvoli í Hvolhreppi og eign-uðust þau tvö börn, Gunnar og Guðrúnu. Guðlaug dvelur á Dvalarheimili aldraðra á Hvolsvelli og varð nýlega níræð. Karl Olafsson andaðist í Reykjavfk 13.júlí 1990 og er jarðsettur í Fossvogs-kirkjugarði. Kalli á Víðivöllum var hár og mynd-arlegur maður og sérstaklega hlýr í öllu viðmóti, en þó einarður. Ef svo bar undir stóð hann fast á sínu. Mér er það minnisstætt hvað hann vék alltaf vin-
gjarnlega að okkur strákunum uppi á bæjum hvort sem við vorum að sniglast niðri á bryggju eða atast í söfnun fyrir brennu á gaml-árskvöldi, sem í þá daga voru haldnar uppi í Helgafelli. Blessuð sé minning Karls Olafssonar frá Víðivöllum. Guðjón Armann Eyjólfsson
Karl Jóhannsson frá Brekku F. 29. nóv. 1906 - D. 4. feb. 1998 Karl Jóhannsson var fæddur í Vestmannaeyjum 29. nóvember 1906. Foreldrar hans voru hjónin Kristín Arnadóttir og Jóhann Jónsson frá Brekku í Vestmannaeyjum. Jóhann, formaður og trésmiður, sem bjó að Brekku við Faxastíg, var sonur hjón-anna Guðrúnar Þórðardóttur og Jóns Vigfússonar, bónda og lfkkistusmiðs, í Túni, sem var ein Kirkjubæjarjarða. Frá þeim hjónum eru komnar fjölmennastar ættir í Vestmannaeyjum. Meðal barna þeirra voru Vigfús útvegsbóndi í Holti, Guðjón bóndi og líkkistusmiður á Oddsstöðum, Jóhann á Brekku, Sigurlín húsfreyja í Túni og Þórunn veitingakona í Þingholti, sem fóstraði Þorsteinu frá Brekku, systur Karls, sem giftist Páli Jónassyni og mikil ætt er komin frá. Faðir Jóns í Túni, Vigfús Bergsson, var sonur Bergs Brynjólfs-sonar, sem hafði búið í Vestmannaeyjum frá því um 1800, síðast í Stakkagerði. Karl Jóhannsson var fimmti elsti af alls tólf syst-kinum en af þeim komust níu til fullorðinsáfa. Eins og aðrir unglingar í Eyjum í þá daga komst Karl strax í snertingu við sjóinn enda umsvifin í Vestmannaeyjum ótrúleg á uppvaxtarárum hans á fyrri hluta 20. aldar. Auk þess að vera sérstaklega góður og fjölhæfur smiður var faðir hans, Jóhann á Brekku, aflasæll formaður og átti 1/5 hluta í vél-
bátnum Friðþjófi Nansen, VE 102, sem var rúm-lega 7 tonna bátur. Nansen gekk fyrst á vetrar-vertíðinni 1907 en þá voru 20 nýir vélbátar gerðir út í fyrsta skipti frá Eyjum. Samtals voru gerðir út 22 vélbátar 1907 en vertíðina 1906 voru þeir tveir! Knörr og Unnur. Eigendur þessara 22ja báta voru 119 en að Nansen voru sameignarmenn sjö. Jóhann á Brekku var í 12 vertíðir formaður með Nansen en einnig var hann með Ceres og Gdllu. Kalli á Brekku stundaði öll almenn störf sem til féllu en varð fljótt viðurkenndur matsveinn á Vestmannaeyjabátum. Hann var í fjöldamörg ár verslunarmaður í Verslun Brynjdlfs Sigfdssonar, Brynjdlfsbúð, en fór í mörg ár norður til síldveiða á sumrin. Hann var lengi kokkur hjá mági sínum, Páli í Þingholti, á Mugg, einnig með Ásmundi Friðrikssyni á Löndum á Sjöstjörnunni og á Alsey með Óskari Gíslasyni. Sumarið 1934 var hann á Fylki á síldveiðum. Þetta voru síldarleysisár og var til þess tekið hvað Kalli hefði haldið uppi góðum anda um borð með góðu atlæti. Það skiptir alltaf miklu máli að hafa góðan kokk um borð en þó sérstaklega þegar fjarvistir að heiman eru langar. A þeim litlu bátum, sem þá voru, var þetta enn þá mikilvægara. Starf matsveins hefur alltaf krafist dtsjónarsemi og fyrirhyggju, ekki síst í þá daga, ef á að hafa á boðstólum góðan og hollan mat handa mönnum sem vinna mikla og erfiða vinnu. A þessum árum var aðstaða kokksins til sjós ótrúlega léleg og erfið en 16 til 18 menn kúldruðust um borð í þessum litlu bátum sem voru venjulega 30 til 40 tonn. Reynt var að geyma kjöt og halda því fersku með því að hengja það upp í seglddkspoka sem var bundinn upp í afturmastrið þar sem vindur lék um það. Mjólk og nýmeti voru af skornum skammti og grænmeti nær óþekkt. Þegar nýsköpunartogarinn, Bjarnarey VE 11, kom til Vestmannaeyja um miðjan mars 1948, varð Karl matsveinn þar um borð en í áhöfn voru venju-lega 24 til 30 menn og var hann a.m.k. 2 ár matsveinn á Bjarnareynni. Karl Jóhannsson var eins og ættmenni hans og systkini mikill léttleikamaður og bar sterk einkenni ættfólks síns. Hann var kvæntur Kristjönu Oddsdóttur frá Hellissandi og eignuðust þau fjögur börn. Aðeins Hervör dóttir þeirra, f. 1934, komst til fullorðinsára og er hdn gift Geir Oddssyni frá Stykkishólmi, eiga þau þrjd uppkomin börn og barnabörnin eru átta. Eftir að Karl flutti til Reykjavíkur var hann til sjós, bæði á togurum og bátum. Hann var t.d. matsveinn á togaranum Fylki, sem sökk á Halamiðum eftir að tundurdufl sprakk við síðuna þegar þeir voru að taka inn trollið. Meiddist Karl á fæti í þessu slysi. Hann bjó í 30 ár hjá Hervöru dóttur sinni en síðustu æviárin dvaldi hann á Hrafnistu í Hafnarfirði og andaðist þar 4. febrdar 1998. Karl Jóhannsson hvílir í Vestmannaeyjum og var jarð-sunginn frá Landakirkju 14. febrúar 1998. Blessuð sé minning hans. Guðjón Armann Eyjólfsson
SAMVERKAMENN KVADDIR Sigurjón Auðunsson, F. 4. aprfl 1917 - D. 20. febr. 2004. Sigurfinnur Einarsson, F. 3. des. 1912 - D. 23. febr. 2004. Tveir fyrrverandi sjómenn í Vestmannaeyjum, og samverkamenn í nær tvo áratugi hjá Isfélagi Vestmannaeyja, Sigurfinnur Einarsson („Finnur í Fagradal") og Sigurjón Auðunsson („Siggi Auðuns"), létust með þriggja daga millibili í vetur, báðir í hárri elli og vistmenn á Hraunbdðum, dvalarheimili aldraðra í Eyjum, Finnur á 92. ári, en Siggi nær 87 ára gamall. Sigurjón Auðunsson var fæddur á Ljótarstöðum í Skaftártungu 4. apríl 1917. Foreldrar hans voru Auðunn Oddsson (1893-1969) og Steinunn Gests-dóttir (1889-1965), bæði Vestur-Skaftfellingar. Þau fluttust til Eyja 1924. Þau hröktust undan Kötlugosi 1918 og fóru þá fyrst til Reykjavíkur. Auðunn var sjómaður og síðar skipstjóri á mörgum Eyjabátum. Fjölskyldan bjó á Sólheimum, í austurendanum, og voru þau oft kennd við það hús. Sigurjón var næst¬elstur sex systkina. Aðeins Bárður, bróðir hans, sem var skipasmiður, en er látinn fyrir fimm árum, bjó í Eyjum með fjölskyldu, en hin, Gestur, Haraldur (látnir), Kjartan og Magnea Erna fluttust frá Eyjum þegar þau komust til fullorðinsára. Kona Sigurjóns var Sigríður Nikulásdóttir (1914-1973) frá Stokkseyri og eignuðust þau þrjú börn sem öll búa í Vestmannaeyjum, Gylfa (f. 1939), Aðalstein (f. 1942) og Ingibjörgu (f. 1950). Nokkrum árum eftir andlát konu sinnar hóf Sigurjón sambúð með Jóhönnu Einarsdóttur, en hún vann seinni árin á skxifstofu Alþingis. Ungur að aldri byrjaði Sigurjón sjómennsku og var fyrst með föður sínum nokkur ár. Hann var um tíma vélstjóri en tók stýrimannapróf 1939 og var stýrimaður nokkrar vertíðir. Formaður varð hann fyrst, eftir því sem næst verður komist, á Óðni á sfldveiðum 1940, en var síðan á vertíðum með Ófeig II 1941, Erling 1942-1944 og Veigu 1945-1947. Þá fór hann í land, varð eins konar útgerðarstjóri bæjarútgerðarinnar nokkur ár. var síðan eitt ár í Hraðfrystistöðinni hjá Einari rfka, en fór svo þaðan til ísfélagsins þar sem hann var yfirverkstjóri fram að gosi 1973, ákaflega farsæll í því starfi. Sigurjón fylgdi ísfélagsmönnum þegar þeir keyptu Kirkjusand af Tryggva Ófeigssyni veturinn 1973. Hann fór til Eyja á ný á vegum Isfélagsins vertíðina 1974 og vann að því að koma starfseminni í gang á nýjan leik, en þegar Isfélags-menn seldu frystihús sitt í Reykjavfk í nóvember 1974 skildi leiðir með þeim og Sigurjóni. Hann vildi ekki aftur til Eyja. Mikil breyting var orðin á högum hans, hús hans var farið undir hraun og kona hans lést skömmu eftir að þau komu til Reykjavíkur. Hann var verkstjóri á Stokkseyri, síðar um stuttan tíma hjá Bæjarútgerð Hafnar-fjarðar og Isbirninum en fór síðan til Fiskmats rík-isins og ferðaðist þá víða um landið á vegum þess. Loks vann hann um tíma hjá SIS, m.a. við tilrauna-verkefni í frystihúsum, en hætti störfum hálf-áttræður. Sigurjón var mikill á velli og skörulegur, léttur í lund og heilsuhraustur fram á síðustu ár. Hann var ákaflega traustur og reglusamur maður með alla hluti. " Sigurfinnur Einarsson fæddist á Efri-Steins-mýri í Meðallandi 3. desember 1912. Faðir hans var Einar Sigurfinnsson (1884-1979). Einar var síðar bóndi á Iðu í Biskupstungum, frá því um 1930 allt þar til hann fluttist til Vestmannaeyja um miðjan 6. áratug aldarinnar, gerðist póstur og var um tíma meðhjálpari í Landakirkju. Móðir Sigurfinns var Gíslrún Sigurbergsdóttir (f. 1887) en hún lést af brunasárum á nýjársdag 1913 þegar Sigurfinnur var tæplega mánaðargamall. Hann var fyrstu árin á vegum föður síns og föðurafa í Meðallandi, en fór eftir