Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Fiskikóngur Vestmannaeyja 1983
Fiskikóngur Vestmannaeyja og Íslands, vetrarvertíðina 1983 varð Hörður Jónsson skipstjóri á Heimaey VE 1, betur þekktur undir nafninu Hörður á Andvara. Hörður og hans menn öfluðu samtals 1106 smálesta.
Undirritaður átti stutt spjall við Hörð að kvöldi 13. maí síðast liðinn, en einmitt þann dag tóku þeir upp netin á Heimaeynni.
Hörður er maður á besta aldri, 45 ára gamall, fæddur í Reykjavík en alinn upp á Eyrarbakka. Hann hóf sína sjómennsku 1954 en kom hingað til Eyja fyrst 1956 á vertíð og hefur veríð hér nær óslitið síðan. Hann og kona hans Sjöfn Guðjónsdóttir búa í myndarlegu einbýlishúsi að Kirkjuvegi 80 og eiga þau fjögur börn.
Þessi 1100 tonn, Hörður, hvernig er samsetningin?
Það er nálægt 600 tonn þorskur, góður fiskur og gott mat á honum, megnið af honum fengið í mars.
Hvernig var tíðin í vetur?
Mér fannst hún ekki erfið, alla vega ekki þegar upp er staðið. Það kann nú að skipta talsverðu máli að báturinn er stór og góður, maður finnur afskaplega lítið fyrir veðri á honum. En janúar var reyndar erfiður, við náðum ekki nema 13 róðrum í mánuðinum og það voru hrein stórviðri þá og engin spurning um að halda sig í landi.
Við lögðum á nýársdag, vorum í Kantinum með netin frá 17 mílum austur á 23 alveg fram að páskastoppi án þess að hreyfa okkur, seinna færið aldrei dregið. Svo eftir páska vorum við suðvestur úr Einidrangi á hörðum bletti og standi. Það er ekki hægt að segja að það hafi verið mikil ferðalög á okkur í vetur.
Þú varst að hrósa bátnum áðan. Er þetta góður bátur á net?
Alveg listafleyta. Ég hélt nú fyrst í stað að hann væri erfiður svona stór en sú varð ekki raunin á. Báturinn er byggður í Þýskalandi 1967, hann er mældur 247 tonn en þess má geta að hann getur borið milli fimm og sexhundruð tonn af loðnu. Það er í honum 1150 hestafla Lister. Já það er rétt að geta þess að olíumælirinn hefur komið að góðum notum í vetur. Með 200 lítra olíueyðslu gengur hann 11 mílur, en sé notkunin minnkuð niður í 125 lítra nær hann samt sem áður 10 mílna ferð. Þetta er aldeilis lygilegt en engu að síður satt. Ég held hreinlega að það ætti að vera skylda að hafa þessa mæla um borð í öllum skipum.
Dreymir þig fyrir fiskiríi?
Nei ekki svo heitið geti. Alla vega ekki svo mark sé á takandi. Þó get ég ekki svarið fyrir að slíkt hafi komið fyrir og lukkast nokkuð vel. En svona yfirleitt er það nú ekki.
Hver er galdurinn við það að ná 1100 tonnum á vertíð þegar flestir teija sig góða með helmingi minni afla?
Það er nú það. Ég var heppinn í vetur. Heppinn að lenda á réttum stöðum á réttum tíma. Nú, ég er með úrvalsmannskap og útgerðin er góð. Það hefur líka mikið að segja. Öðruvísi væri þetta ekki hægt.
Sjáðu til, vertíðina 1971 vorum við hæstir hér í Eyjum á honum Andvara, fengum 850 tonn og það þótti léleg vertíð. Þá fórum við með 700 netaslöngur. Núna fórum við með helmingi meira magn af netum á þessi 1100 tonn. Þetta er mun meiri netaaustur, en það er tilfellið að það fer alltaf miklu meira af netum í tregfiski.
Þú talar um mannskapinn. Er þetta sama fólk hjá þér frá ári til árs?
Kjarninn hefur verið sá sami í nokkur ár, einstakir dugnaðarmenn. Það hefur að vísu létt mikið vinnuna um borð að við erum eingöngu með flotteina og blýteina, hvorki grjót eða hringi. Það munar geysimiklu að þurfa ekki að hugsa um að leysa af netum um borð og eins að geta lagt netið beint niður. Þetta sparar að minnsta kosti tvo menn. Við vorum 11 á í vetur og það væri hægt að vera á þessu við tíunda mann. Þetta er alger bylting og kemur mest til góða mannskapnum.
Var þessi vertíð að einhverju leyti minnistæðari en aðrar?
Já, það voru óvenjumiklir árekstrar milli togbátanna og netabátanna í vetur. Þetta hefur gengið áfallalítið þangað til núna. Það urðu margir netabátar fyrir stórfelldu tjóni á veiðarfærum í vetur og það er sýnt að þetta getur ekki gengið svona áfram, það verður í framtíðinni held ég að reyna að aðskilja þessi tvö veiðarfæri og úthluta svæðum til beggja. Öðruvísi verður enginn friður.
Þá finnst manni alveg hrikalegt að horfa upp á alla aðkomubátana sem hingað flykkjast á hverri vertíð. Þeir stunda verndaðan veiðiskap yfir sumartímann bæði á rækju og skel og þar fáum við hvergi nærri að koma. En svo yfir vetrartímann geta þeir komið og fiskað hér uppi í fjöru. Þetta er hlutur sem þarf að breyta.
Ert þú bjartsýnn á horfur í sjávarútvegi?
Ég veit það ekki. Ég held þó að maður verði að vera það. Ég vona í það minnsta það besta. Þó er ekki hægt að neita því að það virðast vera blikur á lofti. Það er til að mynda alvarlegur hlutur hvað þorskaflinn hefur minnkað hjá togurunum.
Hitt er svo annað mál að við höfum fengið miklu lélegri vertíðir en þessa. Þorskurinn í ár er óvenju stór, meðalvigt hjá okkur er um 8 kg. og megnið af honum er árgangurinn 73. Einhvern veginn hefur hann nú sloppið fram hjá útrýmingu. Ég vil ekki útiloka þann möguleika að árgangurinn '76 sé ári seinna á ferðinni en búist var við. Við skulum alla vega vona það.
Sko, þetta er allt einhvern veginn samhangandi. Fiskifræðingarnir okkar eru búnir að staðhæfa að loðnan sé að verða búin og það þótt þeir geti ausið henni upp við Skúlagötuna í Reykjavík. Hérna áður fyrr var þetta svona hálfur mánuður sem það tók loðnuna að ganga yfir. Á meðan var þorskurinn alveg einstaklega lítið á fartinni, virtist liggja í loðnunni. Í vetur var loðnan í tvo mánuði á svæðinu enda fiskurinn sérlega rólegur allan tímann. Og þetta var ekkert smávegis magn af loðnu. Trollbátarnir urðu að flýja af ákveðnum svæðum, þeir komu ekki trollinu út fyrir loðnu. Ég sá í vetur það sem ég hef ekki séð fyrr, vaðandi loðnu úti í kanti.
Ég vil ekki vantreysta okkar fiskifræðingum, þeir sjálfsagt segja og gera það sem þeir vita réttast, en stundum efast maður nú um þeirra ákvarðanir. Það er ekki þeirra sök, þeir eru vanbúnir bæði með skipa og tækjakost og það er ekki vansalaust að þjóð sem byggir mestallt sitt á sjávarfangi skuli ekki hafa efni á að búa betur út sína menn til rannsóknarstarfa.
Hvað tekur nú við hjá ykkur eftir vertíð?
Heimaeynni verður lagt í sumar. Það borgar sig engan veginn að gera skipið út í sumar. Það er grátbroslegt að þurfa að leggja stærstu og bestu skipunum yfir sumartímann. Á meðan gera Norðmenn og Færeyingar sams konar skip út á línu og virðast þrífast vel. Það er skrýtið ef þjóðarbúið hefur efni á því að láta svona dýr atvinnutæki liggja bundin við bryggju lungann úr árinu. En ég verð ekki atvinnulaus í sumar. Siggi Einars keypti bát í vetur, Sigurvonina, og ég verð með hann á humar.
Hvaða áhugamál hefur fiskikóngur Vestmannaeyja (og reyndar landsins alls) utan þess að drepa fisk?
Ég er orðinn forfallinn golfmaður, fótboltinn er kominn í annað sæti. Það var reyndar konan sem kom mér út í þetta, hún var og er á kafi í golfinu og annað hvort var að segja skilið við hana eða taka upp sama áhugamál. Nú, ég tók síðari kostinn og sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég væri sennilega úti í Skotlandi núna að spila golf ef Steingrímur hefði ekki tekið upp á því að hafa þessa vetrarvertíð til 15. maí.
Í þessum orðum brosir Hörður Jónsson og Sjöfn rekur upp eina af sínum frægu hlátursrokum. Einhvern veginn finnst undirrituðum eins og Herði sé nokk sama þótt hann hafí misst af golfvertíð í Skotlandi, golfvöllurinn þar hleypur ekki burt um sinn, það er meira en sagt verður um þorsk á Vestmannaeyjamiðum.
Og þegar ég kveð þessi geðþekku og lífsglöðu hjón á Kirkjuveginum er eins og það læðist að mér sá grunur að Hörður Jónsson sé ekki búinn að segja sitt síðasta orð, hann eigi enn eftir að verða með í baráttunni um toppinn á næstu árum.
Sigurg. Jónsson