Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Vitinn á Geirfuglaskeri
Eyjólfur Gíslason:
í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja, 15. árgangi 1966, skrifaði ég grein um byggingu Þrídrangavitans, en hér ætla ég að segja frá uppsetningu vitans á Geirfuglaskeri, því þar var ég með og ætti því að geta sagt nokkuð rétt frá, auk þess hefi ég nokkra punkta um það skrifað í gamla vasabók, sem ég styðst við.
Þegar sjómenn höfðu fengið langa og góða reynslu af öryggi Þrídrangavitans og að ekki þurfti að skipta um ljósgjafa (gashylkin) til hans nema einu sinni á ári fóru menn að tala um, að gott væri að koma svona ljósvita upp á Geirfuglaskeri og sennilega væri það framkvæmanlegt.
Þetta mál var svo tekið til umræðu á Verðandifundi og voru allir félagsmenn samþykkir því að fylgja þessu máli fast eftir og að ljósviti yrði settur upp á Geirfuglasker svo fljótt og aðstæður leyfðu. Þegar svo einn Verðandifélagi var kosinn til að mæta á Farmannasambandsþinginu í Reykjavík fyrir félagsins hönd var honum falið að bera þetta mál þar fram og fylgja því þar eftir.
Fulltrúi frá Verðandi á þessu þingi og fleirum var okkar ágæti félagi, Júlíus Sigurðsson frá Skjaldbreið, en hann þurfti ekki mikið að hafa fyrir þessu máli, því þá fyrir stuttu höfðu skipstjórnarmenn í félögum í Reykjavík samþykkt áskorun og beiðni til vitamálastjóra, að ljósviti yrði reistur á Geirfuglaskeri við Vestmannaeyjar eins fljótt og aðstæður leyfðu. Þetta mál fékk því fljóta og jákvæða fyrirgreiðslu hjá Vitamálastjórninni og 26. júní 1956 var vitaskipið Hermóður komið til Vestmannaeyja með vitahúsið fullsmíðað í heilu lagi. Og þó það væri ekki stórt um sig reyndist þó fullerfitt að draga það með handaflinu einu upp á skerið, án þess að geta komið fyrir hjólblökk til að létta mönnum dráttinn.
Vitahúsið er að utanmáli tveir metrar á hæð, 1,3 metrar á lengd og 1,1 metri á breidd. Ekki var hægt að koma fyrir í því nema gaskútum og þó húsið sé ekki stórt er það sterklega byggt og níðþungt.
Þetta erfiða verk hefði varla unnist nema fyrir það að þarna voru til átaka margir úrvalsduglegir menn. Eyjamennimir voru flestir góðir og vanir fjallamenn, en nokkrir skipverjar af Hermóði voru þeim til hjálpar.
Þar sem varð að draga húsið upp á skerið er ekkert loft svo að húsið lá fast við bergið og stoppaði því undir hverri bergnibbu og snös sem útúr því stóð. Varð því einn maður