Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1954/ Skólamál sjómanna
Margir eru þeir, sem kasta hnjóðsyrðum að núverandi skólalöggjöf okkar íslendinga. Telja þeir allt of miklum tfma og of miklu fé eytt í langa skólagöngu unglinganna. Þetta eru raddir þeirra, sem enn í dag tileinka sér spakmælið!! „að bókvitið verði ekki í askana látið“.
Sem betur fer eru þessar raddir forneskjunnar ekki líklegar til þess að hafa nein áhrif, því það væri illa farið, ef stigið yrði það óheillaspor að draga úr menntun þióðarinnar.
Einn er sá þáttur skólamálanna, sem mjög hefur verið ræddur að undanförnu og þá sérstaklega meðal skipstjórnarmanna, en það er siglingafræðslan.
Með lögum frá 1945 voru lögð niður námskeið, sem veittu rétt til skipstjórnar á skipum allt að 75 smál. — Hið minna fiskimannapróf. — Nú geta þeir einir hlotið stýrimanna- og skipstjóraréttindi á stærri skipum en 30 smál., sem lokið hafa fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum, en það nám tekur í flestum tilfellum hálfan annan vetur.
Aðalrök þeirra, sem beittu sér fyrir þessari breytingu á siglingafræðslunni voru, að með því fengjum við betur menntaða skipstjórnarstétt. Ennfremur var á það bent, að á meðan menn gátu aflað sér réttinda til skipsstjórnar, á allt að 75 smálesta skipum, með því að fara á 3—4 mánaða námskeið, lét mikill meirihluti þeirra, sem sjómennsku stunda á vélbátunum, sér nægja þá fræðslu. Útkoman varð svo iðulega sú, að þegar þessir menn höfðu sýnt dugnað og aflasæld í starfi, urðu þeir að afsala sér gefnum tækifærum til skipsstjórnar á stærri skipum vegna sinna takmörkuðu réttinda, enda þá engin tök á því að fara að setjast á skólabekk, þegar menn eru komnir á fullorðinsaldur.
Nú hefur reynslan sýnt á undanförnum árum, að aukningin í skipsstjórnarstéttinni er hvergi nærri fullnægjandi. Hvað tilfinnanlegast er þetta þó kannske hér í Eyjum, vegna þeirra miklu breytinga, sem hér hafa orðið á flotanum á stuttum tíma, bæði vegna stækkunar og fjölgunar skipanna.
Það var því að vonum, þegar svo er komið, að nær allir stýrimenn bátanna eru á undanþágum og málið hefur þannig tekið þveröfuga stefnu frá upphaflegum tilgangi sínum um meiri menntun, að þá væri farið að ræða fyrir alvöru hverra breytinga væri þörf, en vitanlega eru ekki allir sammála um, hvaða leiðir skuli fara til úrbóta.
Mér virðist að mikill meirihluti þeirra, sem ræða þessi mál, aðhyllist frekar þá leið, að minnkaðar verði aftur kröfurnar, sem gerðar eru til menntunar skipstjóraefna vélbátaflotans, þ. e. að tekið verði upp námskeiða fyrirkomulagið, með takmörkuðum réttindum. Hinsvegar eru þeir margir, sem halda því fram, að það sem gera þurfi sé, að auðvelda ungum mönnum að veita sér þessa fræðslu, því varla sé það sæmandi sjómannastéttinni sjálfri, að halda því fram, að hún hafi ekki hæfileika og getu til menntunar á borð við aðrar stéttir þjóðfélagsins.
Eflaust eru mörg orð enn ósögð um skólamál sjómannastéttarinnar, áður en til framkvæmda koma á þeim verulegar breytingar, og í trausti þess, að allar leiðir verði vel athugaðar, vil ég í örfáum orðum gera grein fyrir mínum hugmyndum, um leiðir til úrbóta, án þess að til þess óyndisúrræðis þurfi að grípa, að fara að draga úr kröfunum um menntun skipstjóraefna.
Ein aðalkrafa sjómannastéttarinnar á að vera sú, að sjómannaskólunum verði fjölgað, að í það minnsta tveir skólar verði staðsettir úti á landi. Mundi þá að sjálfsögðu annar þeirra verða hér í Eyjum, og þá vitanlega kennt þar bæði skipstjóra- og vélstjóraefnum. Það mundi eflaust örva mjög aðsóknina að þessu námi, ef allar leiðir þyrftu ekki að liggja til Reykjavíkur. Þessir skólar utan Reykjavíkur þyrftu ekki að miðast við annað, en að útskrifa menn með fiskimannaprófi.
Nú mun verða á það bent, að slíkt skólahald hafi mikinn kostnað í för með sér, og mun ég því síðar í þessari grein sýna fram á, hve sá kostnaðarauki á mikinn rétt á sér.
Á meðan fullkomnum sjómannaskólum hefur ekki verið fjölgað, verður að gera þá skilyrðislausu kröfu, að fyrir veturinn, sem er fjögra mánaða nám, verði kennt úti á landi, t. d. á tveim stöðum í einu, með svipuðu fyrirkomulagi og haft var með námskeiðin meðan þau voru. Með því mundi tvennt vinnast. Það mundi spara mönnum tiiluvert fé að þurfa ekki að kosta sig í Reykjavík nema annan veturinn og svo mundi skóli heima í héraði ýta undir margan að hefja námið og hálfnað er verk þá hafið er.
Þá tel ég, að það þurfi að breyta inntökuskilyrðunum í Stýrimannaskólann.
Eins og nú er, þarf tveggja ára siglingatíma, eftir 16 ára aldur, til þess að fá inngöngu í skólann. Það þýðir, að undantekningarlítið eru menn orðnir tvítugir og þar yfir, þegar því skilyrði er fullnægt. Þetta atriði eitt út af fyrir sig dregur mjög úr aðsókn að skólanum, þar sem margir, sem komnir eru á þrítugsaldurinn hafa orðið fyrir heimili að sjá, og eiga því mjög erfitt með að fara að setjast á skólabekk. Þá hlýtur það að vera hverjum manni hagkvæmast að slíta sem minnst í sundur lærdómstímann. Til þess að auðvelda sem mest ungum mönnum inngöngu í skólann, þarf því að stytta siglingatímann a. m. k. um helming, í eitt ár, síðan væri hægt að bæta við hálfu ári áður en setzt er í annan bekk.
Að námi loknu er svo hægt að ljúka þeim siglingatíma, sem þá vantar, til þess að fylla þau þrjú ár, sem nú eru og ættu að vera áfram skilyrði þess, að fá stýrimannaskírteini. Hið verklega nám siglingatímans verður að sjálfsögðu engu minna, þó það sé að hálfu tekið eftir að bóklegu námi er lokið.
Þá er eitt mikilvægt atriði þessa máls, en það er námskostnaðurinn. Það er órannsakað, hversu margir verða að fara á mis við að veita sér þessa fræðslu, vegna óvissunnar um það, að geta klofið þann mikla kostnað, sem því er samfara.
Til þess að tryggja fjárhagsgrundvöll efnalítilla manna, sem áhuga hafa á því að kæra til skipstjórnar eða vélstjórnar, þurfa sjómannasamtökin að fara að beita sér fyrir því, að stofnaður verði námslánssjóður til handa sjómannaskólanemum, með svipuðu sniði og nú er við Háskólann fyrir stúdenta.
Þær Ieiðir, sem hér er lagt til að farnar verði í bættum námsskilyrðum sjómanna, bæði kennsla fyrri vetrar fiskimannadeildar úti á landi og stofnun námslánasjóðs og þá ekki sízt það höfuðtakmark, sem stefna ber að, að sjómannaskólunum verði fjölgað, koma auðvitað til með að hafa aukinn kostnað í för með sér, og er því rétt að gera nokkra grein fyrir því, hvort verið er að fara fram á einhverja ofrausn í fjárframlögum til siglingafræðslunnar.
Á fjárlögum fyrir árið 1954 skiptist fé til kennslumála — að barna-, unglinga- og gagnfræðaskólum slepptum þannig niður:
Af þessum rúmum 16 milljónum, sem varið er til kennslumála, fara sem sagt 3-7% til menntunar á öllum skipstjóra- og stýrimannaefnum íslenzka skipastólsins.