Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Aflakóngur 1962

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. júní 2016 kl. 13:48 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. júní 2016 kl. 13:48 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Aflakóngur 1962


Sjómannadagsblaðið hefur haft þann hátt á að minnast með nokkrum orðum undangenginnar vertíðar og á þann formann, sem hlýtur sæmdarheitið aflakóngur Vestmannaeyja. Er það vel og kann síðar meir að revnast skemmtileg og gagnleg heimild.
Vertíðin 1962 mun á margan hátt geymast í hugum manna sem minnisstæð vertíð. Veturinn var kaldur og stormasamur, afli var með eindæmum misjafn og sennilega aldrei eins langsóttur og væri ærin ástæða að staldra þar við og hyggja að betur, hvað veldur þeirri miklu aflatregðu, sem nú virðist hafa heimsótt fiskimið okkar Vestmannaeyinga. Þar sem öll okkar áður beztu og nærtækustu fiskimið virðast nú upp urin, væri fróðlegt að fá að vita, hvað okkar ágætu fiskifræðingar hafa gert til samanburðar á skilyrðum fiskjarins á þeirn svæðum, þar sem verið hefur allmikill fiskur undangengnar vertíðir og t. d. Eyjabanka o. fl. stöðum í nánd við Vestmannaeyjar, sem nú virðast búnir sem fiskipláss.
Eins og fyrr segir var afli á vertíðinni fádæma misjafn. Sótt var mest vestur á Selvogsbanka og austur í Meðallandsbugt og jafnvel lengra. Skæð inflúensa herjaði og dró mjög úr afköstum til sjós og lands.

Stefán Stefánsson.

Því ber að fagna, að mannskaðar urðu engir á sjó við Vestmannaeyjar. Einn bátur strandaði og bjargaðist skipshöfnin við hinar erfiðustu aðstæður.
Gerðir voru út á vertíðinni 70 línu- og netabátar, 18 færabátar, auk nokkurra opinna. Heildarafli var 36.119 tonn í 4605 róðrum.
Í bæ eins og Vestmannaeyjum snýst hugur allra um það, sem úr sjónum fæst. Jafnt hvort menn eru í landi eða á sjó. Oft fylgjast þeir, sem í landi eru, mun betur með aflabrögðum en þeir, sem á sjónum eru. Þegar líða fer á vertíð og nálgast fer lok, fara menn að tala um sín á milli, að þessi eða hinn verði nú hæstur í vetur. Ef margir bátar hafa líkan afla, eykst spennan og oft má segja, að keppnin um það, hver verði aflakóngur, sé skoðuð sem spennandi kapphlaup, sem engum sé óviðkomandi.
Allir fylgjast með og allir vita hvað þeir bátar, sem um er að ræða, hafa mikinn afla. Oft er endasprettur þessa hlaups hlaupinn af miklu fjöri, en alltaf ríkir sannur keppnisandi og drenglyndi.
Fyrir nokkrum árum gáfu niðjar Hannesar heitins lóðs fagurt silfurskip, sem afhendast skyldi á sjómannadaginn þeim manni, sem mestan afla færði að landi á undangenginni vertíð, og ber skip þetta í hugum Vestmannaeyinga heitið aflakóngur Vestmannaeyja.
Vart held ég, að hægt hafi verið að reisa Hannesi lóðs veglegri minnisvarða en þann að láta okkar fræknustu formenn etja kappi saman um sæmdarheitið aflakóngur Vestmannaeyja og hljóta að launum grip gefinn til minningar um hann.

M/b Halkion, aflabesti báturinn í Vestmannaeyjum á vertíðinni 1962.

Á síðastliðinni vertíð voru það einkum þrír, sem næstir stóðu aflakónginum, þeir Stefán á Halkion, Jón á Eyjabergi og Binni frá Gröf, sem allra manna oftast hefur verið aflakóngur í Vestmannaeyjum og er einn af þekktustu fiskimönnum Íslands. Eins og oft áður mátti lengi vel vart á milli sjá, hver þeirra þremenninganna yrði hlutskarpastur, enda allir hinir mestu dugnaðar- og aflamenn. Svo fór þó, að Stefán á Halkion reyndist þeim hinum ofjarl.
Stefán er kornungur maður, aðeins 31 árs gamall, sonur hins kunna aflamanns Stefáns frá Gerði Guðlaugssonar. Má með sanni segja, að honum ætli að kippa til kynsins, því að ég held, að á engan sé hallað, þó sagt sé, að Stefán Guðlaugsson í Gerði sé einn sá snjallasti sjósóknari, sem Vestmannaeyjar hafi átt.
Stefán byrjaði ungur til sjós á sumrum, en stundaði nám á vetrum. Strax að loknu gagnfræðaprófi innritaðist hann í Verzlunarskólann og vantaði aðeins einn vetur til að ljúka þaðan stúdentsprófi, þegar hann hætti. Margur skyldi nú halda, að stúdentshúfan væri mun girnilegri ungum manni en derhúfa sjómannsins. En fyrir Stefán var hún það ekki. Hann tók sér sæti á bekkjum Stýrimannaskólans og brautskráðist þaðan með góðum vitnisburði, svo sem vænta mátti, 1957 bvrjaði Stefán formennsku á Halkion, þó ekki þeim Halkion, sem hann stýrir nú. Hann kom nýr til landsins 1960 og er hin mvndarlegasta og eins og raun ber vitni happifleyta.
Á Halkion var á vertíðinni valinn maður hverju rúmi og öfluðu þeir 924 tonn og við það 50 tonnum meiri afli en hjá næsta bát. Afli Halkions var tvöfaldur meðalafli.
Ég vil fyrir hönd Sjómannadagsblaðsins óska Stefáni og skipshöfn hans til hamingiu með aflakónginn, sem þeir hafa maklega til unnið, og vona að hann megi enn um ókominn ár vaxa í sínu starfi Vestmannaeyjum til hróðurs og heilla.

S. O.