Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Vertíðarspjall 1988

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. apríl 2016 kl. 12:36 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. apríl 2016 kl. 12:36 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: '''Hilmar Rósmundsson:'''<br> <center><big><big>'''Vertíðarspjall 1988'''</big></big></center><br> Þegar þessar línur eru settar á blað, í apríllok, eru rúmar tvær vikur...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Hilmar Rósmundsson:

Vertíðarspjall 1988


Þegar þessar línur eru settar á blað, í apríllok, eru rúmar tvær vikur eftir af þeim tíma, sem hefðbundin vetrarvertíð er miðuð við. Engar líkur eru á því afgerandi breytingar verði á rekstri veiða eða vinnslu á þeim tíma, þannig að það sem hér verður skrifað getur eflaust átt við alla vertíðina. Sé litið á afla og afkomu alls flota landsmanna kemur í ljós, að það er mjög misjafnt, hvernig gengið hefur, og fer aðallega eftir skipaflokkum og einnig hafa veiðisvæðin reynst mjög misgjöful.
Togaraflotinn hefur yfirleitt aflað mjög vel. þrátt fyrir að í nokkurn tíma hamlaði ís eðlilegri sókn á vestfjarða- og norðurmið. En það sem skyggir á varðandi afla togaranna, er að uppistaða hans er mjög smár þorskur, sem að flestra dómi hefði átt að lifa miklu lengur. Þeir togarar, sem héðan hafa verið gerðir út í vetur hafa aflað mjög vel, og skilað á land meiri fiski en áður, og mun Breki VE 61 vera einn af aflahæstu togurum landsins það sem af er árinu. ef ekki hæstur. Sjöundi togarinn, Vestmannaey, hefur verið í stórbreytingum í Póllandi í langan tíma, en mun nú vera að losna þaðan, þá siglir skipið til Akureyrar, en þar verður gengið frá búnaði til þess að frysta aflann um borð. Um loðnuveiðarnar er það að segja, að þær gengu mjög vel, þó var afkoma þess flota ekki eins góð og á síðustu vertíð vegna þess að hráefnisverð var í lægri kantinum og einnig var mjög lítið fryst af loðnu til manneldis og hrognataka var hverfandi miðað við síðustu vertíð, en þá voru frystingin og hrognin veruleg búbót, bæði fyrir útgerð og áhöfn. Níu bátar héðan hafa leyfi til loðnuveiða og veiddu allir sinn kvóta nema Heimaey VE 1. sem ekki var gerð út á loðnuveiðar þessa vertíð.
Aflabrögð hins hefðbundna vertíðartlota voru mjög misjöfn og er það ekkert nýtt, en fiskigengd á vertíðarsvæðinu frá Látrabjargi suður um að Eystrahorni var lítil, en þó mislítil. Segja má að Breiðafjarðamið hafi algjörlega brugðist í vetur, þangað gekk aldrei neitt æti og enginn fiskur heldur, og er aflinn ekki svipur hjá sjón, miðað við síðustu vertíð. Faxaflói og miðin norður og vestur af Garðskaga, hafa einnig verið dauð og hefur fiskjar helst orðið vart upp í fjöru. Reykjanesmið og Selvogsbanki hafa lítið gefið af sér þessa vertíð og er aflinn yfirleitt lélegur í þeim verstöðvum er þau mið stunda. Hornfirðingar eru mjög sáttir við sína vertíð, þar sem um tíma var þar ágætis afli í netin, sem varð til þess að vetrarvertíðin er betri en oft áður. Mjög hefur nú dregið úr afla þar og í apríllok eru allmargir hættir á netum og búa sig á togveiðar. fram að humarvertíð.
Óhætt er að segja að vertíðin hér í Vestmannaeyjum hafi verið léleg, þó að vissulega séu bátar og skip, sem mega vel við una og sé aflinn hér borinn saman við aðrar verstöðvar á vertíðarsvæðinu, þá koma Vestmannaeyjar og Hornafjörður án efa best út. Vertíðin hér hófst strax upp úr áramótum. Togarar og loðnuskip héldu mjög fljótlega til veiða að loknu jolaleyfi og fóru strax að rótfiska. Loðnuveiðin var góð þar til þorri skipanna hafði lokið við sinn kvóta. Eftir að loðnan gekk upp að landinu við Stokksnes, fór hún mjög rólega vestur með suðurströndinni og óverulegt magn gekk vestur fyrir Reykjanes og inn í Faxaflóa. Togaraaflinn var ágætur í allan vetur, sem fyrr segir. Þeir fengu góða þorsktúra, ef þorsk skyldi kalla, á Austfjarðamiðum og oft vænar glefsur austur á grunnum og í djúpkantinum.

Fyrstu vertíðarbátarnir hófu róðra strax upp úr áramótum og að venju voru ýmist á netum eða trolli, en þó voru tveir á dragnót. Þeim bátum, er stunda netaveiðar fer heldur fækkandi ár frá ári og í vetur voru þeir aðeins þrettán. Nú eins og á síðustu vertíð fékkst tæpast í soðið á minna en hundrað faðma dýpi og í vetur var á stundum sótt lengra frá Eyjum með netin, en áður hefur tíðkast, jafnvel á Hornafjarðamið, en slíka sjósókn á vetrarvertíð stunda menn ekki, nema á stórum og vel búnum bátum. Aflinn í netin er ekkert til að hrópa húrra yfir, jafnvel þó hann geti talist dágóður miðað við aðrar verstöðvar. Nú í apríllok hefur Suðurey VE 500 losað þúsund tonnin, og er vel hæst. Litlu netabátarnir, sem ekki geta stundað djúpkantinn, hafa lapið dauðann úr skel í allan vetur og nú mörgum blóðugt að þurfa að stoppa loksins þegar aflavon var.
Eftir páska var aflinn allt annar og minni, en reitingur fyrstu dagana, en dró fljótt úr.
Eftir því sem netabátum fækkar, fjölgar trollbátum og í vetur voru tuttugu bátar eingöngu með það veiðarfæri. Stærstu bátarnir, og sér í lagi þeir sem mestan togkraftinn hafa, og geta nánast fylgt togurunum, hafa gert þokkalega vertíð og sumir ágæta. Hjá minni togbátum er aflinn rýr, bæði hefur ótíð hamlað sjósókn þeirra og einnig hitt, að þegar fiskur gengur ekki á grunnslóð. þá ná þeir ekki afla. Þeir hafa því legið mest á kolaskrapi, flutt aflann ferskan á enskan markað og oftast fengið gott verð fyrir, sem bjargað hefur því sem bjargað verður í þeirra rekstri. Háværar raddir hafa verið uppi um það, að takmarka beri eða jafnvel banna alveg útflutning á ferskum fiski. Þessar raddir mögnuðust eftir að verðfall varð á enska markaðnum, aðallega á kola, vikuna eftir páska. Útvegsbændur og sjómenn hér, eru ekki samþykkir því, að verulegar takmarkanir verði settar á þennan útflutning. Þeir benda á að nær alltaf hefur fengist mun hærra skilaverð á enska markaðnum, en hægt hefur verið að greiða hér og hefur kolaverð oftast verið margfalt. Þá benda þeir á að neysla á ferskum fiski er að aukast í viðskiptalöndum okkar á kostnað þess frosna, og að verð á ferska fiskinum hefur haldist óbreytt í erlendum gjaldeyri, á sama tíma og veruleg lækkun verður bæði á frosnum og söltuðum fiski.

Auðvitað verðum við að fara að læra það og beygja okkur undir það, að afhenda þá vöru, sem við höfum til sölu í því ástandi, sem þeir er kaupa vilja hafa hana, og sækjast eftir. Það eitt tryggir verðið. Menn hér hafa ekki áhuga á að gefa Bretum, eða öðrum, fisk og telja eðlilegt af fyrri reynslu, að sérstaklega verði fylgst með markaðshorfum þær vikur, sem kallaðar eru stuttu vikurnar og verði útflutningur á þorski takmarkaður fyrir þær, þyki ástæða til og hafa falið Kristjáni Ragnarssyni formanni L.Í.Ú. að fylgjast með þessum málum fyrir sína hönd. Þá vilja útvegsmenn og sjómenn hér meina, að þessi útflutningur hafi ekki valdið fiskiskorti hjá fiskvinnslunni hér, né að fiskvinnslufólk hafi orðið af atvinnu hans vegna og kemur flestum saman um það, að það sé fólk en ekki fiskur, sem fiskvinnsluna skorti. Að vísu er þessi vertíð ekki marktæk á það, hvort fiskvinnsluhúsin hér hefðu haft nóg hráefni, þrátt fyrir útflutninginn, þar sem ekki hafa enn tekist samningar á milli fiskvinnslufólks og atvinnurekenda og verkföll og yfirvinnubönn hafa orðið til þess að fiskvinnslan er rekin á hálfum afköstum. Vonandi finnst á þessu lausn, sem fyrst, þar sem þetta samningsleysi er búið að skaða bæjarfélagið og bæjarbúa meira en nóg. Ekki skal ég dæma um hver hér á sök, en mér hefur alltaf fundist að það fólk, sem vinnur þessi erfiðu framleiðslustörf, bæði til sjós og lands og sem öðrum fremur skapar þann gjaldeyri, sem þjóðinni er svo nauðsynlegur, ætti að búa við betri kjör, en allur sá fjöldi sem safnast hefur í þjónustustéttirnar.
Auðvitað vinna flestar þær stéttir þjóðnýt störf, sem ekki verður komist hjá í velferðarþjóðfélagi, en það hlýtur að vera stór spurning, ekki aðeins á íslandi, heldur allsstaðar, hve stór hluti hverrar þjóðar getur unnið við það eingöngu, að þjónusta hinn hlutann. Ég gæti vel trúað að væri þetta kannað niður í kjölinn í þessu neysluþjóðfélagi okkar, yrði útkoman dálítið einkennileg.
Engar líkur eru á því að fiskvinnslufyrirtækin geti bætt kjör síns fólks eins og er, þar sem rekstur þeirra nú er erfiðari en oftast áður, en auðvitað gæti hið opinbera lagfært stöðu þessa hóps á ýmsan hátt, t.d. með skattfríðindum og trú mín er sú að margt vitlausara og óarðbærara hafi oft verið framkvæmt á ríkisheimilinu.