Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/Á Eyjamiðum 1905. Eyjólfur Gíslason samdi skýringar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. mars 2016 kl. 13:59 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. mars 2016 kl. 13:59 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Á Eyjamiðum 1905


Myndin gefur gott útsýn yfir Fjallasjóinn og Leirinn stuttu eftir aldamótin. Oft mátti sjá þar á góðviðrisdögum fjölda seglskipa, sem ýmist lágu þar á fiski, renndu og drógu eða kipptu á, það er: sigldu í hæglætiskalda undir fullum seglum, til að komast á þau mið, þar sem þeir höfðu orðið bezt varir.
Margir horfðu á þessi glæsilegu skip með hrifningu, en drengjum, sem þá voru að alast upp, varð þessi sýn ógleymanleg.
Frönsku skipin voru flest hvítmáluð og frá Bretaníuskaganum, frá borgunum Paimpol, Dunkerque og Gravelin. Harða brauðið, sem Eyjasjómenn fengu stundum í þessum skipum í skiptum fyrir róna sjóvettlinga eða þann greiða að taka af sjómönnum bréf 1 póst, var í daglegu tali nefnt eftir borgum þessum, t. d. Pompólabrauð, Grafilínkökur o. s. frv.
Þegar frönsku skipin lágu á fiski höfðu þau uppi afturseglið og halað svolítið upp í hálsinn, eins og sést á myndinni yzt til vinstri. Íslenzku kútterarnir (Reykjavíkurskúturnar) höfðu aftur á móti bæði stórsegl og mesansegl uppi, en forseglin, fokku og klýfi, hefluð, þegar þeir voru á fiski. Voru segl þessara skipa og skipin sjálf dökkleit, seglin brún, skipin oftast svört, með hvítum fleyg. Sést þannig kútter á færum á myndinni til hægri (milli mastra á áraskipinu), framan við sama skip sést íslenzkur kútter á siglingu, og þá frönsk skúta með drifhvít segl á siglingu.
Þegar þessi mikli fjöldi skipa var búinn að kveikja olíu- og karbítljósin á kvöldin og þeir fóru að gera að dagsveiðinni, gat þarna að líta eitt ljósahaf, eða eins og til stórborgar sæi.
Eyjaskip sóttu oft á sömu mið og skúturnar, og sjást tvö þeirra, sitt með hvoru byggingarlagi, á myndinni.
Fremra skipið er með gamla íslenzka laginu eins og Ísak, Gideon og fleiri skip, hið aftara er með færeyisku lagi, sem þá var nýlega tekið upp hér (árið 1901). Skip með því lagi voru t. d. Immanuel, Fálki o. fl.
(Eyjólfur Gíslason samdi skýringar).