Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Á fiskimarkaði í Bretlandi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. mars 2016 kl. 13:15 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. mars 2016 kl. 13:15 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ólafsson


Á fiskimarkaði í Bretlandi


Hafnarborgirnar Grimsby og Hull eru sennilega þeir staðir á Englandi, sem Íslendingar kannast einna bezt við, og þá að sjálfsögðu vegna þeirra viðskipta, sem við höfum átt við þessar borgir. Þangað siglir árlega fjöldinn allur af togurum og bátum, er selja afla sinn þar á frjálsum markaði.
Þar eð ég dvaldist í Hull á síðastliðnu sumri, fór ritstjóri blaðsins þess á leit við mig, að ég segði lesendum hvernig þessir markaðir fara fram í aðalatriðum.
Áður en ég hef frásögn mína af fiskimarkaðnum ætla ég að minnast lítillega á borgina sjálfa.
Íbúar Hull eru um 300.000 og byggja flestir afkomu sína á verzlun og fiskveiðum. Þaðan er gerður út fjöldinn allur af togurum, sem þeir eru alltaf að stækka og endurnýja. Fyrstu kynni sjómannsins af borginni eru óneitanlega ekki glæsileg, en þegar komið er upp úr hafnarhverfunum, þá er þetta mesti myndarbær, fallegar götur með trjágróðri til beggja handa, stórir og fallegir skrúðgarðar, þar sem fólk getur sólað sig og leikið eftir eigin geðþótta. Í görðum þessum eru t. d. tennisvellir, sundlaugar, krikketvellir o. m. fl.
Snúum okkur þá að fiskmarkaðnum. Löndun úr togurum og bátum hefst um miðnætti og lýkur kl. 6—7 á morgnana. Ekki er hægt að segja, að verkamenn þeir, sem landa fiski úr skipum í Hull, hafi látið glepjast af tækni nútímans, því að öllum fiskinum er skipað upp í tágakörfum. Þykist ég vita, að svo hafi verið frá fyrstu tíð. Ekki er ég samt viss um, að tækni nútímans myndi standa þeim snúning, því að leikni þessara manna er undraverð, og landa þeir úr fullfermdum togara á 6—7 klst. Hvolfa þeir úr körfunum í stampa (kit), sem eru vigtaðir jafnóðum á bryggjunni, eftir því sem fiskinum er landað úr skipinu. Hvert „kit“ tekur 63,5 kg (10 stone). Um kl. 6.30 fara uppboðshaldarar og kaupmenn að streyma á markaðinn og fá þeir allir lista með nöfnum skipanna, hvar þau hafi verið á veiðum og aflamagn hvers um sig. Síðan ganga þessir menn um allan markaðinn, skoða fiskinn og telja kassana og stampana (kittin) nákvæmlega, því að uppgefið aflamagn á listunum eru ágizkanir skipstjóranna.
Eftir að fiskkaupmenn hafa skoðað og metið fiskinn, koma þeir saman á smáskrifstofu, sem hvert fyrirtæki hefur á markaðnum og ræða þar væntanleg fiskkaup, verð og magn. Kl. 7:30 heyrast köll mikil — uppboðið er hafið — og hraða menn sér á eftir uppboðshaldaranum, hlaupa jafnvel á stömpunum.
Fannst mér ótrúleg leikni þeirra að stikla á þeim. Ég reyndi þetta einu sinni og þóttist góður að sleppa óbrotinn úr þeirri ferð. Allir eru á leðurklossum með trésólum og veljárnaðir. Sögðu þeir mér að slíkur fótabúnaður reyndist bezt á hálum gólfum og ekki síður á stömpunum.
Hjá stærri fyrirtækjum annast margir menn kaupin, einn kaupir stórþorsk, annar smáan.
þriðji ýsu o. s. frv., síðan koma hjálparmenn. 2—3 með hverjum kaupmanni. Starf hjálparmanna er að telja „kittin“, sem keypt hafa verið og merkja þau viðkomandi fyrirtæki. Fjöldi þessara rnanna skiptir hundruðum með öllu fylgdarliði. Uppboðshaldarinn byrjar á einhverri hámarkstölu, og heldur síðan niður á við og þylur hann þetta með slíkum hraða, að illmögulegt er fyrir útlending að skilja orðaflauminn.
Þegar einhverjum kaupmanni þóknast að segja stopp, þá oft á tíðum með ýmsum handatilburðum eða annarlegum hljóðum, þá spyr uppboðshaldari, hvað hann vilji mörg „kitt“. Þegar kaupmaður hefur svarað því og valið bezta fiskinn, er uppboðinu haldið áfram og svona gengur koll af kolli, þar til allt hefur selzt. Auðvitað kemur það fyrir, að ekki tekst að selja allan fiskinn. Sá fiskur, sem eftir er, fer þá í fiskimjöl eða til skepnufóðurs. Alltaf er nokkurt magn af fiski, sem ekki dæmist hæft til manneldis, en eingöngu til skepnufóðurs. Sá fiskur, sem fer til útflutnings er yfirleitt á föstu verði. Er það verð lægra en fyrir fisk, sem fer á frjálsan markað, þar sem verðið fer eftir framboði og eftirspurn. Er útflutningsfiskur á sanmingsbundnu verði við erlenda aðila, eins og við seljum allan okkar fisk. Oftast er uppboðinu lokið um kl. 9—10 á morgnana, en það fer auðvitað eftir aflamagni. Nokkurt magn af fiskinum er flakað strax á staðnum og komið til neytenda eins fljótt og auðið er; afgangi er síðan ekið í fiskvinnslustöðvar og hann unninn þar. Þegar kaupmenn hafa lokið störfum sínum á markaðnum, hraða þeir sér til fyrirtækja sinna og nú hefst annar þáttur í daglegu starfi þeirra, en það er að selja þann fisk, sem þeir hafa keypt á markaðnum um morguninn. Þeim hluta sölumennskunnar verður ekki lýst hér. Að afloknum góðum söludegi er gjarnan gott að setjast inn á næstu bjórstofu, slappa af og teyga nokkra bjóra. — „Pint of bitter, please“ hljómar þá víða.
Að lokum vil ég ráðleggja fólki, ef það á eftir að heimsækja þessar borgir, að láta ekki hjá líða að skoða fiskimarkaðinn eina morgunstund. Er þeim tíma vel varið og eftir því mun enginn sjá.