Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1981/Skvettur, pus og brim mörkuðu dagbókina

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 1. mars 2016 kl. 12:34 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 1. mars 2016 kl. 12:34 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: <center><big><big>'''„Skvettur, pus og brím mörkuðu dagbókina"'''</big></big></center> <center><big><big>'''Rætt við Sigurjón á Þórunni Sveinsdóttur, aflakóng yfír land...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
„Skvettur, pus og brím mörkuðu dagbókina"
Rætt við Sigurjón á Þórunni Sveinsdóttur, aflakóng yfír landið með 1539 tonn.


„Ég sá það á útliti dagbókarinnar hjá mér hvernig vertíðin hefur verið, ef dagbókin er þokkaleg útlits þá hefur vertíðin verið gæf, en ef kjölurinn og kápan eru hvorki fugl né fiskur þá hefur verið erfitt að sækja og þannig er dagbókin eftir þessa vertíð, ekkert nema skvettur, pus og brim, alversta dagbókin mín. Það var afskaplega erfitt að sækja framan af, sérstök ótíð og því erfitt að sækja austur eftir," sagði aflakóngurinn Sigurjón Óskarsson á Þórunni Sveinsdóttur í samtali við Sjómannadagsblaðið, en Þórunn er sem kunnugt er aðeins 124 tonna skip og varð aflahæst yfir landið í vertíðarlok 15. maí með 1539 tonn. Er það glæsilegur árangur sem Eyjamenn geta verið stoltir af og sama er að segja um hinn góða árangur fjölmargra báta á vetrarvertíðinni 1981. Það var erfið sókn lengst af og þó að tíð sé þolanleg þá má ekki mikið út af bera þegar t.d. skip eins og Þórunn kemur með 76 tonn að landi í einum róðri.
„Þennan mikla afla í vetur," sagði Sigurjón, „vil ég þakka friðunum á miðunum, stærri möskvum í trollinu og lokun svæða, og það má gera meira af því. Þá hefur hitastigið í sjónum haft sitt að segja, hlýtt sunnanlands en kalt fyrir norðan.
Annars var fiskurinn nú smærri en að undanförnu, '76 árgangurinn hefur líklega verið ráðandi, 5 ára fiskur sem er að koma til hrygningar í fyrsta sinn. Svo bar við nú að fiskurinn hrygndi mjög seint og væntanlega hefði páskastoppið komið hrygningarfiskinum betur ef það hefði verið síðar á vertíðinni en ekki samkvæmt kokkabókum af skrifborðum í Reykjavík löngu áður en vitað var hvenær fiskurinn myndi hrygna."

„Þú hélst því fram í vertíðarbyrjun að þú yrðir ekki aflahæstur á þessari vertíð eins og þeim síðustu, hvað hafðir þú fyrir þér?"
„Ég var harður á því að Hörður yrði hæstur og vildi setja nafnið hans í umslag upp á það í vertíðarbyrjun þegar verið var að spjalla um vertíðina, en hann brást mér, blessaður. Ég var viss um þetta vegna sérstæðs atviks með myndir. Þannig var að ég fékk senda mynd af mér sem ég hafði lánað og í umslaginu var einnig óvænt mynd af Herði. Þetta var rétt eftir áramótin og ég hafði á orði að svona fengi ég að vita vertíðarúrslitin. Ég setti myndina af Herði upp á ísskáp í eldhúsinu og var alveg klár á því að hann yrði efstur, enda var hann 70-80 tonnum hærri en ég um páskana. En svo stokkaðist þetta svona eftir að hafa getað farið hvernig sem var. Þetta varð svolítill sprettur í lokin og mér hafði aldrei dottið í hug að þetta yrði barátta um toppinn. Við og Jón á Hofi vorum líkir um páskana og þó að keppnin hafi eiginlega verið búin í netalokin þann 8. maí þá höfðu þeir ekki virt helgarleyfi svo við töldum ekki óréttlátt að eiga einn róður inni og þar með var það afgreitt.
Í upphafi vertíðar hugsar maður aðeins um að gera sitt besta, en svo kemur kappið í þetta, án þess myndi lítið ganga, en það var verulega leiðinlegt á lokasprettinum að nokkrir efstu bátanna skyldu svindla á helgarleyfunum og einnig það að menn skyldu fara í orðaleiki með það hvenær vetrarvertíð lýkur. Ég tel það ekki fara neitt milli mála hvenær vertíðarlok eru, 15. maí. Það er ógerlegt að miða við netin eingöngu ef eitthvert samræmi á að vera í þessu. Miðað við venjulegt árferði fer að draga úr afla í net 20. apríl og þá fara margir á troll og engum dettur í hug að vertíðinni sé lokið. Auðvitað verður að miða við ákveðinn dag, annars verður þetta bara hringl og vitleysa frá ári til árs.

„Er ekki einvala lið um borð hjá þér?"
,,Jú, það er einvala lið, samtaka strákar ár eftir ár og oft er meira kapp í þeim en mér sjálfum. Það hjálpast margt að, alltaf nóg af veiðarfærum, góður mannskapur og vel gert út. Maður fær líka meira með því að draga netin daglega í stað þess að láta þau verða tveggja nátta reglulega eins og hjá mörgum. Það er nú svo að menn eru misjafhlega viljugir, sumir vilja fara snemma í land, sumir setja dauðblóðgað undir á bílana, en það er hins vegar oft mikill áróður á þá báta sem eru á toppnum, að þeir séu með fleiri net í sjó en hinir og svo framvegis. Tvisvar komu eftirlitsmenn með mér og ekki kvörtuðu þeir. Á þessari vertíð fórum við með 1100 net og það er klárt að ég hef engan áhuga á að vera að draga þetta eldgamalt."

„Setti keppnin um titilinn bæði hér í Eyjum og einnig yfir landið ekki sérstakan svip á vertíðarlokin?"
„Ég fann það framan af í vetur að menn vildu gjarnan að einhver tæki af mér titilinn og það er bara eðlilegt, það er margir sem eiga hann skilinn, en ég hef aldrei fundið eins mikið fyrir spennu í sambandi við aflatitilinn og nú í vetur og síðan tók við fjörið um titilinn yfir landið, en þótt við séum efstir í aflaskýrslunni sem við er miðað urðum við ekki efstir í fjölmiðlum. Það er hins vegar ekki okkar mál, við erum sáttir við vertíðina og ánægðir með gott gengi svo margra sem raun ber vitni."
á.j.