Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Fiskikóngur Vestmannaeyja 1968

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. janúar 2016 kl. 13:22 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. janúar 2016 kl. 13:22 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big><center>Fiskikóngur Vestmannaeyja 1968</center></big></big><br> Hilmar Rósmundsson skipstjóri á Sæbjörgu VE 56 varð fiskikóngur Vestmannaeyj...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Fiskikóngur Vestmannaeyja 1968


Hilmar Rósmundsson skipstjóri á Sæbjörgu VE 56 varð fiskikóngur Vestmannaeyja vertíðina 1968. Hann er því orðinn hagvanur á síðum þessa blaðs, þar eð þetta er annað árið í röð, sem Hilmar er aflahæstur á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum og hlýtur sæmdarheitið „Fiskikóngur Vestmannaeyja“.
Sá er munurinn frá því í fyrra að Hilmar hlýtur titilinn með enn meiri glæsibrag en áður. Er afli hans nú um 200 tonnum meiri en vertíðina 1967.
Hilmar var hægur að vanda, er rætt var við hann um liðna vertíð. Allt stórtíðindalaust.
Sæbjörgin fékk mest af afla sínum við Eyjólfsklöpp og síðari hluta vertíðar við Drangahraunið.
Hilmar byrjaði róðra 16. janúar með línu og reri mest með 40 stampa, en 400 krókar eru í hverjum stampi. Reru þeir með línu fram til 5. marz og öfluðu 165 tonn á línuna. Tóku þá net og voru með þau til vertíðarloka, 15. maí.
Bezta fiskiríið var hjá Hilmari frá 1. til 20. apríl, en á þeim tíma fengu þeir 500 tonn.
Eftir sumardaginn fyrsta (25. apríl) fluttu þeir netin austur í Meðallandsbugt og fengu þar um 100 tonn til 10. maí. Vertíðina endaði Sæbjörg á heimamiðum.
Á Sæbjörgu var sama einvala lið og sl. vertíð, enda er Hilmar mjög mannsæll. Á netunum voru þeir með 8 trossur, en hver trossa með 15 netum. Eru flest netanna úr nyloni, en nokkur girnisnet.
Hilmar tekur lítið undir það að hann fái sér stærri bát, en viðurkennir þó, að hann hafi sett af sér fisk vegna þess að báturinn sé lítill.
Sæbjörgu telur hann og þeir skipsfélagar hið mesta happaskip. Er báturinn gott sjóskip og prýðilegt að flytja net á honum í brælum.
Samtals bar Sæbjörg 1191 tonn að landi vertíðina 1968.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja óskar Hilmari og skipshöfn hans gæfu og gengis í framtíðinni. Þeim fylgja hugheilar hamingjuóskir með vel unnin störf. Óskum við Hilmari til hamingju með verðskuldaðan titil „Fiskikóngur“ vertíðina 1968. - Það er sannkallað réttnefni þessa ágæta fiskimanns.