Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Lítill þáttur um færi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. desember 2015 kl. 19:21 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. desember 2015 kl. 19:21 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big><center>LÍTILL ÞÁTTUR UM FÆRI</center></big></big><br> Á fyrri öldum áttu íslendingar það undir náð Dana, hvort þeir fengju færi til að draga fisk úr sjó. ...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
LÍTILL ÞÁTTUR UM FÆRI


Á fyrri öldum áttu íslendingar það undir náð Dana, hvort þeir fengju færi til að draga fisk úr sjó. Þá er öll sund lokuðust stálu menn stundum færi og voru dæmdir í dýflissu ef upp komzt.
Árið 1633 horfði til vandræða í Eyjum vegna færaskorts. Kom mál þetta fyrir Alþingi og flutti Kláus Eyjólfsson það í lögréttu þann 1. júlí. Kláus bjó að Hólmum í Landeyjum, hinn merkasti maður. Hann var uppi 1584-1674. Var lögsagnari í Eyjum 1635 og aftur 1658.
Bónarskjal (supplicatia) það, sem Kláus las upp í lögréttu hljóðar svo: „Vér Vestmannaeyja innbyggjarar og búendur auglýsum og opinbert gjörum fyrir guði og voru æðsta yfirvaldi, síðan þeim þar næst yfir oss settir eru, það vér í vorri fátækt, öreigð og áliggjandi nauðsyn höfum leitað kaupmannsins hér í greindum stað, það hann vildi oss lána eður selja vora sérlegasta nauðsyn, sem er mjöl, salt og færi. En hann hefur oss alvarlega andsvarað, að hvorki þetta né annar útlenzkur varningur væri sér í hendi, sem hann kynni öðrum með aðstoð að veita. Nú höfum vér í öðru lagi heyrt, að hér í landið skuli vera komið konunglegrar majestet bréf, hvar út í oss skuli fyrirmunað vera að víxla oss eður höndla við aðrar þjóðir. Hverju hans náðar bréfi vér viljum með allri undirgefni gegna og með auðmýkt til vor meðtaka, en í öngvan máta og allra sízt hans hylli og náð af oss brjóta eður hans boðorð í neinni ofdirfsku né mótvilja að yfirtroða eður óvirða. En með því vér stöndum í stórri hættu vors bjargræðis vegna, þar vér fáum ekki vora af hans majestet tilskikkaða nauðsyn, hvað vér klögum fyrir þeim æðsta yfirherra, svo og fyrir hans kónglegu majestet, þar sem þessi vor harmaklögun neyðist til víðar fram að koma, einkanlega þar ei fást færin, með hverjum menn draga arð og fóstur að sínum húsum og heimilum, svo vel sem reiðurunum og öðrum innlenzkum og útlenzkum til gagns og uppheldis, hvar á mestur fjöldi þeirra, sem sjóinn brúka og hér í sveit síns bjargræðis leita, hafa stóran skort og vanefni. En sjórinn má þó reiknast hér bæði fyrir vera akra, kýr og ær, sérdeilis í þessum harðindum og hallæri, sem nú er yfir komið og framvegis yfir hangir (hvað guð náði og forbetri), þá þrengir oss vor áliggjandi nauðsyn annara meðala að leita, oss með vorum fátækum kvinnum og börnum til uppheldis og lífsbjargar, svo vér hans majestets fátækar skepnur og vesælir undirsátar eigi með öllu eyðileggjumst, sem er að útvega oss færin (sérdeilis) hjá hverri kristinni þjóð vér hitta kunnum, þó í engri ofdirfsku né öfugleika, heldur fyrir þá aura og landsins vöru, sem kaupmennirnir eður reiðararnir ei hafa vilja og þeim ei þóknanleg er, heldur af þeim með öllu foraktanleg vera kann, þar til hans náð álítur þessa vora nauðsyn með meiri miskunn og föðurlegu hjarta, hvert vér felum guði, ásamt öllu voru ærlegu yfirvaldi nú og eilíflega.“
Það verður að hafa í huga, að sá auðmjúki tónn, sem kemur fram í þessu merkilega bréfi, er einkenni aldarinnar. Ekki er ólíklegt, að Kláus hafi samið skjalið sjálfur, en hann var jafnan boðinn og búinn að leysa vanda nauðstaddra eða a.m.k. gera tilraun í þá átt. Það verður og að hafa í huga, að skammt er liðið frá hörmungum Tyrkjaráns er þetta gerist, eða aðeins sex ár og þar að auki hallæri í landinu.
Þá má og benda á, að svo virðist sem með nokkrum klókindum sé hér að unnið, því reynt er að kría út leyfi til að verzla við útlendinga á þeim forsendum, að það sem Eyjamenn hafi að bjóða þeim, sé eiginlega rusl eitt sem sá hámektugi danski höndlunarmaður vilji ekki líta við.

H.G