Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Stýrimannaskólinn 1994-1995
Verkfall kennara einkenndi skólaárið 1994 - 1995. Það hófst 17. febrúar og því lauk 23. mars og hafði þá staðið í 28 kennsludaga. Þessari töf á starfseminni var mætt með kennslu á laugardögum og styttingu páskaleyfis. Skólaslit urðu þó seinna en venjulega eða 3. júní 1995.
Á þessu skólaári eignaðist skólinn GMDSS-fjarskiptatæki. Slík tæki eiga að vera komin í flotann fyrir febrúar 1999. Það var ánægjulegt að vera svona snemma á ferðinni í skólanum með þennan tækjabúnað. Nú þegar hefur skólinn haldið tvö námskeið fyrir skipstjórnarmenn sem fengið hafa að þeim loknum skírteini sem skilyrt verða fyrir starfi þeirra.
Á skólaslitunum gaf Radíómiðlun í Reykjavík skólanum hugbúnaðarforritið Macsea sem er eitthvert fullkomnasta forrit sinnar gerðar. Það var tengt inn á hermi skólans. Og fyrirtækið Friðrik A. Jónsson í Reykjavík gaf skólanum GPS-tölvu og „plotter" af fullkomnustu gerð. Skólinn er nú mjög vel tækjum búinn en fyrir er fullkominn fiskveiði- og siglingahermir.
Átta nemendur luku I-stigs prófi. Hæstur var Sindri Óskarsson frá Vestmannaeyjum með meðaleinkunn 9,30. Annar var Kjartan Guðmundsson frá Egilsstöðum með 8,95 í meðaleinkunn og þriðji Eyjólfur V. Gunnarsson frá Grindavík með 8,72 í meðaleinkunn.
Níu nemendur luku II.-stigsprófi. Hæstu einkunn fékk Haraldur Hermannsson frá Akureyri með 8,39. Annar varð Guðjón Þór Tryggvason frá Húsavík með 8,35 og þriðji Haraldur Bergvinsson Vestmannaeyjum með 8,04.
Eins og áður komu góðir gestir á skólaslitin og gáfu verðlaun. Sigurður Einarsson útgerðarmaður veitti Haraldi Hermannssyni loftvog fyrir hæstu einkunn í II.-stigi. Útvegsbændafélag Vestmannaeyja veitti Haraldi Hermannssyni og Guðjóni Þór Tryggvasyni vandaðan sjónauka fyrir hæstu einkunn í siglingafræði. Kristjana Þorfinnsdóttir afhenti viðurkenningu frá Eyjabúð fyrir reglusemi og ástundun í námi og hlaut þau Lúðvík Friðbergsson frá Sauðárkróki. Bjarni Jónasson veitti Atla Kárasyni frá Sauðárkróki verðlaun fyrir hæstu einkunn í veðurfræði. Og á sjómannadaginn veitti Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi Haraldi Hermannssyni Verðandaúrið fyrir hæstu einkunn í II.-stigi. Þessum gefendum er öllum færðar alúðarþakkir fyrir þessi verðlaun og þann hug til skólans sem að baki býr. Líka fyrir árnaðaróskir þeirra til skólans á skólaslitum. Einnig til Óskars Þórarinssonar skipstjóra og
útgerðarmanns fyrir góða ræðu og árnaðaróskir á skólaslitum, en hann er faðir Sindra sem var dúx í I.-stigi.