Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Sérkennilegasta farþegaskipið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. nóvember 2015 kl. 18:39 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. nóvember 2015 kl. 18:39 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (br>)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Sérkennilegasta farþegaskipið


Furðulegasta farþegaskipið í siglingasögunni var 60 lesta hjólaskip, sem var ætlað að halda uppi ferðum á leiðinni Sidney-Parramatta fyrir 130 árum, eða nánar tiltekið árið 1832.
Aflið, sem dreif skipið var framleitt af lifandi hestum, sem voru spenntir fyrir einskonar gangspil miðskips!
Þetta einkennilega skip var smíðað í Clarencetown í Ástralíu og ganghraði þess 6 mílur á klukkustund. Skipið gat flutt 100 farþega og 20 tonn af vörum. Ekki stóð það lengi, að hestarnir legðu til þann kraft, sem knúði skipið. Örðugleikarnir voru margir, sem sízt er að undra.
Skipið hlaut nafnið EXPERIMENT (Tilraun), og gat vart verið betur valið. Raunar sérlega dýr tilraun á þeirrar tíðar mælikvarða. Skipið kostaði 1500 sterlingspund nýsmíðað, en að nokkrum vikum liðnum var útgerð þess hætt og það selt fyrir aðeins 400 pund.
Það má teljast furðuverk, að skipið skyldi ná höfn í Sidney áfallalaust. Tvisvar munaði minnstu að skipið færist á leiðinni frá New castle suður með ströndinni. Skipið hreppti slæmt veður og illt sjólag, en það átti mjög illa við hin lifandi hestöfl skipsins. Fjórum hestum var ætlað að draga gangspil skipsins, gangandi í hring hver á eftir öðrum. En á þeim stutta tíma sem Experiment var í förum, voru sjaldan fleiri en tveir, í mesta lagi 3 hestar, sem raunverulega knúðu skipið áfram. Hestarnir höfðu ekki verið neitt æfðir til þessa óvenjulega starfs, og þeir sjóuðust aldrei. Þeir voru látnir strita hvíldarlaust að kalla, voru alltaf órólegir og hræddir. Skipið var því mjög svo hægfara; varla að það mjakaðist áfram. Aumingja klárarnir þurftu ekki meira með, en að sjá þetta undarlega skip, þá urðu þeir felmtri slegnir. Það var næstum óvinnandi verk, að koma þeim frá hafnarbakkanum niður í skipið. Í „jómfrúferðinni“ í október 1832 varð aðeins tjónkað við tvo hestanna til að drífa skipið. En skipsútgerðin auglýsti með pomp og pragt: Öruggar og fljótar ferðir. Fargjald 2 shillingar á fyrsta plássi, einn shillingur á öðru. Börn innan 10 ára aldurs greiða hálft gjald. Farmgjald 6 shillingar á tonn. Fyrsti brottfarardagur Experiment's hafði verið valinn að vel athuguðu máli. Þann dag var mesti veðreiðadagur ársins í Parramatta. Skipið skyldi leggja af stað frá Sidney klukkan 8 árdegis og snúa þangað aftur að loknum veðreiðum.
Klukkan 8 þustu 80 farþegar um borð, fullir eftirvæntingar flestir þeirra ætluðu að vera viðstaddir veðreiðarnar. En hundruð manna höfðu safnazt saman á hafnarbakkanum til þess að sjá þetta skrýtna fley leggja upp í sína jómfrúreisu.
Merki um brottför nákvæmlega klukkan 8, Iandfestum kastað og húrrahróp kváðu við. En heldur slævðist hrifningin þegar skipið hreyfðist ekki hið minnsta. Mínúturna liðu hver af annari, hestarnir voru svo hræddir, að ógerlegt var að láta þá vinna; hjólin snerust því ekki. Þetta heppnaðist þó eftir hálfrar stundar strit og stríð. En mjög hægt tóku hjólin að snúast. En á meðan þessu fór fram hafði fjöldi farþega gengið á land og svipazt um eftir öruggari farkosti!
En hvað um það. Þeir sem ekki höfðu trú á fyrirtækinu urðu að vissu leyti að láta í minni pokann. Þá er hestarnir fóru loks að spígspora í lest sinni og sinna sínu hlutverki, gekk ferðin þolanlega. Ferðin til Parramatta tók þrjár klukkustundir með sex mílna hraða á klukkustund, sem átti að heita gott, því hámarkshraði hraðskreiðustu skipa var þá 8 1/2 hnútur og hélzt svo til ársins 1840.
Á heimleiðinni flutti Experiment 100 farþega, sem var hámarkstala. Ferðin fór að öllu leyti samkvæmt áætlun. Enda þótt hestarnir væru ærið örðugir viðureignar hélt skip þetta uppi ferðum samfleytt í sex vikur, eina ferð á dag fram og til baka. En svo var siglingum þessum hætt mjög skyndilega. Nokkrum árum síðar fór Experiment samt enn af stað á sæmu áætlunarleið, en nú sem gufuskip. Hélt það uppi þessum ferðum um sinn og allt gekk harla vel.
En um 1840 var farið að smíða járnskip, sem voru mun hraðskreiðari. Þá var þessum ferðum enn hætt og skipið haft til einhverra nota í höfninni í Sidney til ársins 1846. Þá hóf það ferðir á Brisbane-fljóti.
Í rauninni var þessi tilraun ekki eins vitlaus og ætla mætti fljótt á litið. Þess verður að minnast, að þetta var um sömu mundir og fyrstu hjólaskipin hófu ferðir úti fyrir strönd um Ástralíu, útbúin firna þungum velum og kötlum. Þessi skip eyddu óhemju miklu eldsneyti, en þetta til samans olli því, að djúprista skipanna varð mikil. En þetta var hinn mesti ókostur. Það þurfti einmitt umfram allt skip, sem voru létt í vatninu, skip, sem væru heppileg í hinum stöðugt vaxandi siglingum á fljótunum.

H. G. þýddi.