Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Guðjón Jónsson skipstjóri, Heiði, Vestmannaeyjum
<centerHeiði, Vestmannaeyjum
Enn er horfinn úr hópi eldri borgara Eyanna einn þeirra manna, er um áratugi setti svip á bæinn: Guðjón formaður á Heiði. Harðsækinn formaður var hann um fjóra tugi ára, en nokkru lengur en hálfa öld sótti hann sjó — og sótti hann fast. Hann var framarlega í fylkingu þeirra aldamótamanna, sem gerðust brautryðjendur í sjósókn á vélbátum. Það var harðsnúin fylking manna, sem þá voru flestir ungir að árum. Lífsglaðir, bjartsýnir og sókndjarfir. Guðjón var fæddur að Indriðakoti undir Eyjafjöllum 18. maí 1882. Foreldrar hans voru Elín Jónsdóttir. bónda í Indriðakoti, Jónssonar. Hún var systir Þuríðar í Hvammi undir Fjöllum, alkunnrar merkiskonu. Faðir Guðjóns var Jón Arnoddsson frá Hrútafellskoti í sömu sveit. Þröngt var um viðunandi jarðnæði á þessum árum og mun það hafa valdið miklu um, að leiðir þeirra Jóns og Elínar skildu. Síðar giftist Elín Jóhanni bónda í Gerðakoti Árnasyni, síðast bónda í Ormskoti í sömu sveit. Þar ólst Guðjón upp, varð snemma harðger, léttur til verka og óvílsamur. Haustið eftir að Guðjón fermdist fór hann með fjárrekstrarmönnum til Reykjavíkur og þaðan á Suðurnes, þar sem hann réðst til haustvertíðarstarfa. Ördeyða var og gæftaleysi og þótti Guðjóni illt að húsbændum sínum til byrði. Ákvað Guðjón og vinur hans á svipuðum aldri, Guðleifur á Brúnum, sem þá var i Garðinum, að fara fótgangandi austur undir Fjöll og vera heima um jólin. Húsmóðir Guðjóns bjó honum nesti og nýja skó. Löttu þau hjónin ferðarinnar, en piltar þessir létu ekki aftra för sinni, og var þá árnað fararheilla. Er austur í Árnesþing kom lögðu þeir félagar lykkju á leið sína upp í Grímsnes, en þar átti Jón faðir Guðjóns heima og Sigurður bróðir hans. Varð þar fagnaðarfundur; sáust þeir feðgar ekki síðan. — Heim náðu þeir félagar fyrir jól og þótti þetta frækilega gert af nýfermdum drengjum. Á bak jólum var svo hald¬ið af stað fótgangandi, þá í verið til Grindavíkur. — Næstu vertíðir var Guðjón til sjós í Eyjum og réri ,.út frá Sandinum" öðru hvoru, einkum á vorin. Þótt sjórinn heillaði Guðjón, þá gat hann í raun og veru aldrei á heilum sér tekið í átta vertíðir. Loks kastaði svo tólfunum, að í einum róðri spúði Guðjón ákaft blóði. Þá þótti formanni hans nóg komið. Hann sagði, að Guðjón ætti að fara svo langt upp í sveit að hann sæi aldrei sjó! Formaðurinn var sá mikli sjósóknari á tíma opnu skipanna, Friðrik Benónýsson, þá bóndi á Núpi, seinna kenndur við Gröf í Eyjum, faðir hins landskunna aflamanns ..Binna í Gröf". — Næsta morgun fór Guðjón samt í sandinn og spurði, hvort hann mætti ekki ýta. Var hann þá girtur í brók, en skinnstakknum laumaði hann undir handlegg sér. Vatt sér svo upp í um leið og flaut. Var ekki örgrannt, að sumir litu hinn sjálfboðna sjómanni illu auga, en nú brá svo við, að Guðjón kenndi ekki sjóveiki framar. Sýnir þetta viðbragð Guðjóns, að uppgjafarhugur var fjarri honum, og svo var til æviloka. Laust eftir aldamót fluttist Guðjón alfarinn til Vestmannaeyja. Var hann meðal þeirra fyrstu, sem eignuðust hlut í vélbát, „Portlandi". sem kom frá Danmörku haustið 1906. Þetta var rúmlega átta tonna bátur og eigendurnir voru átta. Guðjón tók við formennsku á þessum bát 1910. Var óánægður með aflabrögðin og ákvað, að þetta skyldi verða sín fyrsta og síðasta formennska, og seldi hlut sinn í bátnum. En tveim árum síðar hóf Guðjón aftur formennsku fyrir þrábeiðni Friðriks Svipmundssonar, sem bauð í grun að Guðjón yrði aflaformaður — sem hann varð. Árið 1915 eignaðist hann aftur hlut í útgerð og átti hlut í bátum til 1927, en þá leyfðu heimilisástæður ekki lengur þau umsvif, sem því var samfara, að taka marga sjómenn í heimilið, eins og þá var venja. En formennskuferill Guðjóns var langt frá því að vera á enda. Fjörutíu urðu formannsárin alls, því tvö síðustu árin, sem hann stundaði sjó, var hann formaður á opnum vélbát. Guðjón var aflamaður og harðsækinn. Margir ungir menn ,,lærðu sjó" hjá honum, og þeir sem hann tók að sér voru ekki á neinu flæðiskeri. Maður sagði mér, sem lengi var með Guðjóni til sjós, að aldrei hefði hann varpað hnjóðsyrði að viðvaningum, sem urðu á mistök. Var hann þó maður sízt skaplaus, en hann kunni þá list, sem ekki er öllum gefin. að skilja sálir. Fast sótti Guðjón sjóinn, svo sem háttur var Eyjaformanna, og sjálfsagt hefur stundum verið teflt á tæpt vað. En þannig var sjósóknin í þá daga, á litlum bátum með misjafnlega gangissum vélum. Gat þá borið til beggja vona um landtöku — Sitt stærsta lán í sjósókninni taldi hann jafnan, að hann missti aldrei mann af sínum bátum. — Guðjón var einn þeirra formanna, sem lentu í síðustu útilegunni í Eyjum á öndverðri vertíð 1941. Þá vék hann ekki frá stýrinu í hartnær tvo sólarhringa. Upp frá því kenndi hann þess sjúkdóms, er fylgdi honum síðan til endadægurs. Guðjón á Heiði var þríkvæntur. Árið 1906 kvæntist hann Sigríði Nikulásdóttur, Eiríkssonar úr Hvolhreppi. Sigríður Iézt 1917. Börn þeirra voru tvö: Jóhanna Nikólína. giftist Albert Helgasyni múrarameistara, sem látinn er fvrir nokkrum árum í Revkjavík, og Sigurjón, sem varð aðeins 10 ára gainall. — Árið 1918 kvæntist Guðjón Guðríði Jónsdóttur frá Káragerði í Vestur-Landeyjum, ekkju Sigurðar hreppstjóra Sigurfinnssonar, merkiskonu. Guðríður Iézt fyrir allmörgum árum. Eftirlifandi kona hans er Bjarngerður Ólafsdóttir, ættuð úr Mýrdal. Reyndist hún Guðjóni ómetanleg stoð og stytta, síðasta og erfiðasta áfangann á ævibrautinni. — Þakkir skulu þeim Guðjóni og Gerðu fluttar frá mér og minni fjölskyldu, fyrir margra ára góð kynni og vináttu. Guðjón var hár maður vexti og svipmikill. Í sjómannariti, sem út kom í Eyjum árið 1947, er honum lýst svo: „Kempulegri mann á velli en Guðjón getur ekki og finnst mörgum hann minna á hugmyndir sínar um fornmenn. Harður í horn að taka er karlinn þegar við, en barngóður með afbrigðum og talar það sínu máli." Þessi lýsing mun sönn, svo langt sem hún nær. Gamall Eyfellingur hefur sagt mér, að sú gestakoma var honum minnisstæðust, er þeir hittust á bæ hans sýslumaðurinn Einar Benediktsson og víkingurinn Guðjón Jónsson, þá á bezta aldri, tvíefldur að burðum og manna glæsilegastur yfirlitum. Einar var líka gæddur miklu líkamlegu atgjörvi, en jafnframt víkingur í andans heimi, stórskáld Íslendinga. Guðjóni var ekki lagið að tala tæpitungn við einn eða neinn. Hann var höfðingjadjarfur og hvikaði hvergi frá því. er hann áleit rétt vera. Mildur og hlýr var hann þeim, sem minnimáttar voru, og vinur málleysingja. Guðjón var maður bókhneigður og átti nokkurt safn valinna bóka. Góðar bækur voru honum gleðigjafi, ekki sízt síðustu misserin. er heilsan var þrotin til hinna erfiðari starfa. Andlegri orku hélt hann til hins síðasta og hafði lítt förlazt minni. Gott þótti honum þá að rifja upp gamlar minningar og varð þá sem ungur í annað sinn. Guðjón hafði orð á því við mig skömmu áður en hann lézt, að nú væri gömlum manni mál að ýta báti úr naust, ekki eftir neinu að bíða, verst að vera lengi í vomum. Hann var þá hress og léttur í máli og brosti glaðlega, rétt eins og hann væri að bíða lags til að róa út frá Fjallasandi í gamla daga. Honum varð að þeirri ósk sinni. að hann þurfti ekki lengi að bíða. Að kvöldi næsta dags hafði hann lagt á djúpið mikla. Ég hef engan mann þekkt sem segja mætti um fremur en Guðjón, að hann hafi í orðsins fyllstu merkingu lifað samkvæmt hinu gamalkunna boðorði Hávamála: „Glaður og reifur skyldi gumna hver unz sinn bíður bana."