Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Snemma beygist krókurinn: Rætt við Sigurjón Ingvarsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. október 2015 kl. 15:05 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. október 2015 kl. 15:05 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><center>'''HARALDUR GUÐNASON:'''</center></big><br> <big><big><center>Snemma beygist krókurinn</center></big></big><br> <big><center>Rætt við Sigurjón...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
HARALDUR GUÐNASON:


Snemma beygist krókurinn


Rætt við Sigurjón Ingvason skipstjóra


Það er lokadagurinn 1961. Á þeim gamla merkisdegi heimsótti ég nágranna minn, Sigurjón Ingvarsson, skipstjóra, og bað hann að segja mér eitthvað frá löngum sjómannsferli. Hann tók því vel, en sagði af venjulegu yfirlætisleysi þeirra,sem hafa marga hildi háð við Ægi, að ekki væri frá miklu að segja. En ég var á öðru máli og hófst þá spjall okkar. Við byrjum þá þetta samtal á því, að Sigurjón segir mér aðspurður, að hann sé í heiminn borinn 20. desember 1895, að Klömbrum undir Austur-Eyjafjöllum. Frá Klömbrum er skammt til sjávar. Ég hef orð á því, að hafið muni fljótt hafa seitt til sín huga hins unga Eyfellings. - Jú, rétt mun það vera, að snemma beygist krókurinn til þess sem verða vill. Það skipti í tvö horn með okkur elztu bræðurna; ég ofan í öllum pollum og dælum, en Björgvin á kafi í einhverju moldarstússi. Hann varð seinna bóndi í Klömbrum, en ég fór til sjós. - Fyrst mun ég hafa farið á flot á trékari, sem fé var baðað í, ásamt kunningja mínum á svipuðu reki, Guðjóni Valdasyni, sem seinna varð kunnur sjósóknari og formaður hér í Eyjum. En fyrst settist ég undir stýri uppi á hákambi. Skipið hét „Víkingur" og formaðurinn var Guðjón Jónsson, síðar kenndur við Sandfell hér og varð harðsækinn formaður á mótorbátum. Það átti að fara að setja skipið upp á grös, en öll segl höfðu verið dregin upp til að viðra þau. Nú blöktu þau í golunni og ég horfði hugfanginn á þessa dýrð, en Guðjón segir við mig: Sigldu nú bara beina leið upp! Annars hef ég líklega verið tólf ára þegar ég fékk fyrst að fara á sjó. Formaðurinn var Ólafur Símonarson í Steinum, sem seinna fluttist hingað til Eyja. Um tvítugsaldur fór ég svo að stjórna báti við uppskipun á vörum í sandinn. Það gekk allt vel og var góð æfing. Þá var það næst, að ég fór að verða með bát á vorin. Ólafur á Þorvaldseyri átti sexróið skip, sem gekk undir nafninu „Berti". Sú nafngift stafaði af því, að Albert í Skipagerði hafði átt skipið, en seldi það svo Ólafi. Nú var það einn dag, að Ólafur lánaði skipið, en okkur þótti illt að láta róður falla niður, svo við félagar vorum tilbúnir í sandinum þegar „Berti" lenti. Sjór var farinn að versna, en við félagar allir ungir og nokkuð kappsfullir. Er ekki að orðlengja það, að við rérum, héldum út undir Holtshraun og þar lögðum við eitt bjóð, sem við höfðum beitt með silungi. Vestanátt var, gott veður, en greinilegt, að sjór fór brimandi. En ekki höfðum við áhyggjur af því. Færðist nú heldur betur galsi í mannskapinn og upphófust nú hörkuáflog þarna í bátnum. Nú gengur á þessu nokkra stund, en þá segir Björgvin og ei heldur snöggur upp á lagið: - Ætli þér væri ekki nær að gá að sjónum, heldur en vera í áflogum? Hættum við þá tuskinu og fórum að draga línuspottann. Væntum við góðs afla á línu okkar, er slík tálbeita var í sjó lögð. En það fór á annan veg. Aflinn varð 4 löngur, nokkrar lýsur og eitt skötulok. Var nú haldið til lands, en inn á fimmtán föðmum rennum við færum. Mátti segja, að fiskur væri þegar á hverju járni. Fengum við fimm í hlut af ýsu á fáum mínútum. Björgvin snerti ekki á sínu færi, en ekki varð á honum séð, hvort honum líkaði betur eða verr, að við renndum þarna. Nú er þá róið innundir og gafst þá á að líta. Sjó hafði mjög brimað meðan við vorum úti. Braut utanyfir Rif og alla leið upp í fjöru. Ég hafði nú orð á því við piltana, en beindi þó einkum orðum mínum til Björgvins, hvort ekki mundi ráðlegast að sigla þeg¬ar austur að Jökulsá, því þar mundi lending góð í þessari átt. Svar Björgvins var stutt og laggott: Ert þú ekki formaðurinn? Þykknaði þá nokkuð í mér og ákvað ég þá að leita ekki frekar álits annarra, enda til þess ætlazt, að ég sæi ráð fyrir okkur, sem og eðlilegt var. Sagði ég þá, að við skyldum bíða hér nokkra stund, en ábyrgjast skyldu þeir á sér hendurnar, ef ég kallaði að róa í land. Við liggjum nú um kyrrt nokkra stund og er skarðalaust. Allt í einu kemur lag á Rifið og kalla ég þá, að þeir skuli róa. Þegar við erum lagðir af stað sé ég, að það brýtur aftur á Rifinu, en mér sýndist slarkfært að halda áfram, enda varla annarra kosta völ úr þvi sem komið var. Þegar við erum utantil á legunni kemur stór fylling og ég skipa strákunum, að rista aðeins í. Svo er róinn lífróður og skipið á toppnum upp í þurra f jöru. Við björguðum svo „Berta" okkar undan sjó, og þá var tekið til við áflogin á nýjan leik! Einn strákur var með okkur yfirskips, sem kallað var. Einn hásetinn vikur sér að honum og segir í stríðnisróm: - Þú varst hræddur, þú hélzt þér alltaf í skötuna, ha, ha, ha! Sá, sem lét sér þetta um munn fara, var Valtýr Brandsson á Kirkjufelli. - Já, þetta hefur verið söguleg sjóferð. En hvað svo um framhald róðra frá sandinum? - Svo var það um veturnætur 1918, að mig langaði að komast á flot, en erfitt að fá mannskap. Í þrjá daga komst ég ekki á sjó vegna mannleysis, en vatnsdauður sjór. Fjórða daginn náði ég svo í mann til viðbótar. Hann vildi róa, ef ég gæti lánað honum sjóklæði. Ég lét hann hafa mín sjóklæði og svo var farið fram í snarkasti, enda ekki seinna vænna, því klukkan var orðin þrjú síðdegis. Við fengum 15 í hlut þann daginn þó seint væri róið. Næsta dag voru þrjú skip komin á miðin, því fljótt flýgur fiskisagan. Við fengum þarna 70 í hlut í fjórum róðrum. Svo kom sunnudagur, og þá neituðu allir að róa. Þetta skip er til enn og heitir „Fortúna". - Hvenær fórst þú svo fyrst á vertíð í Vestmannaeyj um? - 1 byrjun desember 1909. Það kom mótorbátur úr Eyjum upp að sandinum og átti að sækja okkur. Þetta var í versta norðanbáli. Léttbátur kom í land og réru honum tveir menn. Aftur er ýtt frá landi og fór þá aðeins einn okkar vermanna um borð. Enn komu þeir félagar í land og gekk vel. En þegar ýtt var úr vör í annað sinn tókst ekki betur til en svo, að bátnum hvolfdi í útróðrinum. Reis hann svo hátt á landsjónum, að hann fór yfir sig. Við vorum níu á og lentum allir undir bátnum í fyrstu, en flestir losnuðu von bráðar og náðu að brjótast upp úr brimgarðinum. Þó fór einn okkar þrjár veltur með bátnum. Hann hélt sér svo fast í þóftu, að erfiðlega gekk að losa hann úr bátnum. - Tveir menn vom eftir í sandinum þegar ýtt var. Annar þeirra gekk mjög vasklega fram í því, að taka á móti okkur, en hinn maðurinn vöknaði ekki í fót. - Nú, svo var hætt við frekari tilraunir við að komast út af sandinum í það skiptið. - Hvenær komuzt þið svo til Eyja? - Við lögðum af stað til Reykjavíkur eftir nokkra daga; vorum sex daga á leiðinni. Fyrsta daginn fórum við ríðandi að Hemlu í Vestur-Landeyjum. Næsta dag gangandi að Varmadal. Það var versta færð, snjórinn víðast hvar í hné. Affallið var vont yfirferðar, en Þverá á ótraustum ís. Ég var í skinnsokkum og svokölluðu skinnhaldi. Einum félaga minna fannst þetta luralegur búningur og hló að. Sjálfur var hann í fínum leðurstígvélum. En hann hætti að hlæja að mér þegar komið var vestur yfir Affall, því þar varð hann stígvélafullur og kól á fótum. Þessa fyrstu vertíð mína í Eyjum var ég hjá Sigurði á Bólstað, sem átti hlut í vélbátnum Ísaki, en formaður var Jón Magnússon á Kirkjubæ. - Annars hafði ég verið hér áður eina vorvertíð, þá innan við fermingaraldur. Það var mikið að gera, stanzlaus vinna frá morgni til kvölds. Vorkaupið var svo einn rúgmjölspoki, sem þá kostaði 9 krónur. - Og svo taka við vertíðirnar hér í Eyjum hver af annarri? - Já, að undanteknum vertíðunum 1916 og 1917; þá réri ég í Grindavík á tólfæringi. Það voru mínar skemmtilegustu vertíðir. Þá stæltist maður við árina. Þar stóð lýsistunna úti í hjalli og kúskel í veggjarholu. Við fylltum skelina áður en við fórum á sjóinn og supum með góðri lyst. - Hvað er þér minnisstæðast frá sjósókninni í Grindavík? - Sjóhrakningarnir 24. marz 1916. Reyndar sluppum við vel, vorum annað skipið, sem náði landi í okkar vör. Það var bezta veður um morguninn, en við f Iýttum okkur að draga línuna, því einn skipverja varð lasinn. Formaðurinn tók frá stýrið og kvaðst ætla að róa með okkur í land. Það var tekið hraustlega til áranna, því á hvorugu borði vildu menn láta snúa á sig. Við höfðum allir farið úr stökkunum, til þess að okkur yrði léttari róðurinn. Allt í einu brast á norðanofsi, svo sjóinn hvítskóf með sama. Vildu þá allir fara í stakka sína, en formaður lagði bann við því: - Þið farið ekkert í stakkana. Ef þið róið ekki í land svona, þá ekki. Hljóp þá enn meiri kergja í okkur og í land börðum við. Við höfum ugglaust verið klukkutíma að róa um tíu mínútna leið, sem við áttum eftir í land þegar hann rauk upp í þennan ofsa. Nú vantaði mörg skip og enginn vissi um afdrif þeirra. Þó var haft eftir vitaverðinum, að hann hefði séð eitt skipanna leggja að skútu í Röstinni. Skipin voru að tínast að frameftir deginum víðsvegar um ströndina, sum brotnuðu í lendingu, en að kvöldi vantaði fjögur og höfðu menn litla von um þau. Þrír sólarhringar liðu og áhafnir skipanna taldar af. En á mánudag kemur kútter „Esther" til Grindavíkur með skipbrotsmennina. Ég hef aldrei séð aðra eins eftirvæntingu í svip fólks og þá, von og kvíða; skyldu nú allir vera um borð í þessu blessaða skipi? Jú, Guðbjartur Ólafsson og menn hans höfðu unnið frækilegt björgunarafrek, hrifið fjórar skipshafnir, alls 38 manns, úr helgreipum hafsins. Það hefði margur átt um sárt að binda, ef ekki hefði svo lánsamlega tekizt til, að Esther var einmitt á þessum slóðum í byrjun veðurofsans. Á einu skipanna var t. d. aldraður maður og synir hans tveir og tveir synir þess sama manns á öðru skipi. Þetta var sannarlega mikill gleðidagur. - Næstu vertíðir? - Var hjá ýmsum formönnum. Mér er t. d. minnisstæð vertíðin 1922. Þá var ég hjá Valdimar Bjarnasyni, miklum aflamanni. Það var 3. eða 4. apríl og við höfðum ekki fengið nema 14 þúsund fiska. Þá segir Valdi við mig: - Þetta ætlar engin vertíð að verða. - Við fáum 50 þúsundir, sagði ég. Valda fannst slík bjartsýni ekki ná neinni átt. - Jæja, viltu veðja wiskíflösku? Já, þó þær væru tvær! svaraði Valdi. En svo fór, að á lokadag höfðum við 56 þúsundir. - Hvenær gerðist þú svo formaður á vélbáti? - Veturinn 1923. Keypti þá einn fjórða í „Þór" og var með hann tvær vertíðir. Stefán í Gerði sá um sölu á mínum aflahlut og ég fékk ágætt verð fyrir fiskinn. Einn sameignarmanna var Snorri í Steini og féll mjög vel á með okkur. Hann drukknaði með Halldóri lækni og fleiri ágætismönnum 1924, og ég seldi minn hluta í bátnum. Þá keypti ég einn fjórða í „Sæbjörgu" og var með hana eina vertíð. Útgerðin gekk erfiðlega og ég seldi minn part í „Sæbjörgu". Eina vertíð var ég i Sandgerði, stýrimaður á báti, sem Gísli J. Johnsen átti. Vertíðina 1930 var ég með „Soffí", sem Gísli átti. Um haustið var hann „gerður upp", sem kallað var. Þá hætti ég formennsku á vetrarvertíð. - Hvað tók þá við? - Ég fór á „Ísleif" og var á honum 14 vertíðir, en 2 eða 3 var ég á „Gísla Johnsen", sem Ársæll Sveinsson hafði þá á leigu. Í sjö vertíðir af þeim fjórtán, sem ég var á Ísleifi, voru á honum allir sömu skipverjarnir. Hygg ég, að þess séu fá dæmi, að engin mannaskipti verði á einum og sama bát í sjö vertíðir í röð. Ég var hjá ýmsum formönnum á þessu tímabili, svo sem Andrési Einarssyni, Ármanni Friðrikssyni, Brynjólfi Brynjólfssyni og Einari Runólfssyni, allir hinir mestu ágætismenn. - Og svo tókst þú upp Stokkseyrarferðirnar, sem árum saman leystu mikinn vanda í samgönguerfiðleikum okkar? Það var árið 1940. Við Jón á Látrum höfðum athugað möguleika á, að hefja þessar ferðir, en ekki blés byrlega fyrir þessari hugmynd okkar, því illa gekk að fá leigðan bát. Það varð því úr, að ég réði mig á síld. Fyrir hádegi þann dag, sem skráning átti að fara fram á síldarbátinn, kemur Jón að máli við mig og segir, að við getum fengið „Skíðblaðni" leigðan hjá Helga Benediktssyni. Nú voru góð ráð dýr og þurfti að hafa snör handtök, ef af þessu átti að verða. Ég bað formann minn að gefa eftir ráðningu mína og gerði hann það. Var svo búið að ganga frá ýmsum formsatriðum um hádegi þennan dag. Og svo byrjuðum við Jón þessar ferðir um vorið og vorum bara tveir á bátnum. Fórum venjulega eina til tvær ferðir í viku og þetta gekk vel. Við höfðum slæðing af farþegum í flestum ferðum og fargjaldið var 4 krónur. - Þið fluttuð oft allmikið af vörum, ef ég man rétt? - Já, mér er t. d. minnisstætt, að einu sinni fluttum við 40 hestburði af heyi og vorum við tveir að stafla því í bátinn, en einn maður velti að okkur. Ég brýt það í blað, hversu hraustlega Jón lóðs gekk að því verki. Það stóð á endum, að við vorum búnir að stafla þessum 80 heyböggum í bátinn um flóðið. Þá var haldið af stað og allt gekk þetta vel. Næsta sumar höfðum við „Herstein" á leigu. Hersteinn er bezti báturinn sem ég hef verið á; hreint afbragðs sjóskip. Þriðja sumarið höfðum við svo „Gísla Johnsen" á leigu og fjórða sumarið keyptum við hann. Þá voru talsverðir heyflutningar og oft margir farþegar. Við settum 44 kojur í lestina; reyndum að búa eins vel að farþegunum og unnt var miðað við aðstæður. Aldrei varð neitt að farþegum okkar í öllum þessum ferðum, og er ég forsjóninni mjög þakklátur fyrir það. - Sitt af hverju mun nú hafa borið við í svo mörgum ferðum? O, jú, ekki er því að neita, svarar Sigurjón og brosir við. Það var stundum dálítið bras í þjóðhátíðarferðunum. Ekki var það þó nema einu sinni, að við þurftum að tylla manni, svona til öryggis. Sveinbjörn á Geithálsi var þá mótoristi hjá mér. Ég kallaði til hans og bað hann að koma með spotta. Hann brá fljótt við, sem hans var von og vísa og svo bundum við piltinn við rekkverkið fram á. Og þá fór nú fljótt að slævast í honum mesti ofsinn. Við vorum í einni þjóðhátíðarferðinni frá Stokkseyri þegar þetta skeði. - Nokkru seinna var ég á ferð í Reykjavík og kom inn á bílastöð. Þá víkur sér að mér ungur maður og segir: Heyrðu, Sigurjón, þú hefur víst engan bandspotta núna? En sá sem bundinn var stóð við hlið hans, prúðmennskan uppmáluð, en dálítið var hann kindarlegur á svipinn! - Ég vil taka það fram, að þessi maður er ekki Vestmannaeyingur. Alvarlegra atvik kom fyrir seinna. Mátti segja, að þá skylli hurð nærri hælum, en allt fór vel. Við vorum þá á leið til Þorlákshafnar á „Gísla Johnsen". Farþegar voru aðeins þrír og tveir þeirra eitthvað við skál. Það var logn, en nokkuð brim í sjó. Allt í einu steypist einn farþeginn fyrir borð. Við snúum bátnum og erum tilbúnir með hakann. Þá kallar mótoristinn, sem var Kjartan Gíslason, nú fisksali: Hitt helvítið er farið út líka! - Láttu djöful eiga sig á meðan! kallaði ég, og rétt í þeim töluðu orðum náðum við þeim fyrri og vippuðum honum niður í lúkar. En ég er ekki alveg viss um, að við höfum tekið neinum silkihönzkum á honum. Sá maður mun eitthvað hafa kunnað í sundi. Hinn maðurinn þóttist víst ætla að hjálpa til við björgun félaga síns, mun hafa ætlað að ná í bjarghring, en steyptist þá sjálfur fyrir borð. Hann var í kuldaúlpu og kom eins og belgur upp af úlpunni þar sem hann maraði í sjónum. Við lögðum svo að honum og hann var dreginn upp líka. Nokkrum dögum seinna hitti ég annan þeirra félaga í Þorlákshöfn. Þá sagði hann: Það ætla ég að biðja þig um Sigurjón, að taka aldrei á mér eins og þú gerðir um borð í Gísla Johnsen um daginn! Já, það var harka í þessu, en það dugði ekki annað. Það er mitt mesta happ í mínum sjóferðum öllum, að okkur skyldi heppnast að bjarga þessum mönnum báðum. - Ekki hefur þú svo „lagt árar í bát" eftir að Stokkseyrarferðunum lauk. - Onei, ég hef róið hverja vertíð síðan, nema tvær, því ég var tvö ár með „Blíðfara" í Reykjavíkurferðum. Þá var ég á „Skógafossi" og „Eggert Ólafssyni" í áætlunarferðum milli Reykjavíkur og Eyja. - Átta sumur hef ég verið á síldarbátum fyrir norðan. Hef alltaf kunnað bezt við mig á sjónum. - Segðu mér að lokum, Sigurjón, hefur þú nokkrar tölur um Stokkseyrarferðirnar og farþegaflutninga? - Ég var í þessum ferðum 14 sumur, byrjuðum 1940 en hættum 1954. Síðast vorum við í mjólkurflutningum frá Þorlákshófn. Ferðirnar milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja urðu alls 730 og farþegar samtals 23.000. - Nokkuð sem þú vilt taka fram að loknu þessu rabbi okkar? Ja, það væri þá helzt, að biðja Sjómannadagsblaðið að flytja öllum mínum ágætu félögum í Stokkseyrarferðunum, svo og öllum mínum gömlu skipsfélögum, mínar beztu þakkir fyrir skemmtilega samveru og ánægjulegt samstarf á sjónum.