Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Frá Þorlákshöfn til Eyja fyrir tuttugu árum
HARALDUR GUÐNASON:
FRÁ ÞORLÁKSHÖFN TIL EYJA FYRIR TUTTUGU ÁRUM
MARGAR ferðir hef ég farið milli Eyja og Þorlákshafnar áður fyrr með Sigurjóni, svo og til Stokkseyrar, sumar slarkferðir eins og gerðist í þá daga. Síðasta mótorbátsferðin mín var farin frá Þorlákshöfn til Eyja 28. janúar 1973. Frá henni segir hér í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá Heimaeyjargosi.
Ferðin var farin til þess að vinna að flutningi úr Bæjarbókasafninu. Hinn 27. jan. fékk ég reisupassa, eins og Sölvi Helgason forðum, hjá Georg bæjarlögfræðingi til þess að veifa framan í ráðamenn heima, ef á þyrfti að halda. Til þess kom þó ekki. Almannavarnir í Reykjavík tóku sér það vald að reka Eyjamenn burtu, en senda hingað utanbæjarmenn.
Að kvöldi 27. fréttist að væntanlegt væri varðskip til Þorlákshafnar um hádegi næsta dag.
Var svo haldið austur að morgni 28. Eiginlega undir fógetavernd því með í för var Freymóður Þorsteinsson, þáverandi bæjarfógeti, með aðstoðarmanni allhressum, sem kannski trúði á Þór til stórræða. Gamall sveitungi minn úr Landeyjum bauðst til að skutla okkur austur. Hann lét sig ekki muna um að setja bílinn sinn út í kuldann til þess að koma þar inn ýmsum hlutum frá okkur hjónum.
Ekki var sjólagið frýnilegt að sjá frá Þorlákshöfn. Hittum tvo karla í bryggjuskúr og sögðum að við ættum von á varðskipi:
„Hér er bara ófært öllum skipum inn í höfnina og út.“
Ég spurði þá hvort einhvers staðar í plássinu mundi fást keypt kaffi handa flóttamönnum. Var ekki talið líklegt, þó mætti reyna í Meitlinum. Þar var ekki deigan dropa að fá.
Þá sagði einhver að reynandi væri að banka upp á í Glettingi, matstofu fiskverkunarinnar.
Í Glettingi hittum við fyrir konu miðaldra og myndarlega, ráðskonu.
„Jú, þið getið fengið kaffi, piltar, en ég gef ykkur líka súpu.“ Við aldeilis hissa, súpufundur í Höfninni óforvarendis.
Var nú framborin kjötsúpa ríkulega og var hin besta veisla. Gerðust menn saddir og sælir, gleymdu ófærum sjó og eldgosi.
Loks rís ég upp frá því góða borðhaldi svo segjandi:
„Ég ætla að rölta niður eftir og gá hvort slegið hefur á brimið. Einhvern tíma deyr sjóskrattinn, sagði karl í Landeyjunum.“
Niðri á bryggju var eitthvað um að vera. Ekkert sást þó varðskip. En þarna lá vélbáturinn Stígandi VE 77 með vél í gangi. Ég næ tali af skipstjóranum, Erni Friðgeirssyni.
„Jú, við erum um það bil að fara til Eyja.“
Bið um far og var það meira en sjálfsagt. Nú stóð svo á að ég var með í farteskinu, eins og sagt er á fínu máli, nokkur hundruð umbúðakassa sem forstjóri Kassagerðarinnar gaf Bókasafninu og lét sína menn flytja austur í Þorlákshófn. Farþegar til Eyja voru allmargir. Bíllinn frá Kassagerðinni stóð á bryggjunni. Farþegar nokkrir hjálpuðu mér að drífa kassana um borð.
Það var útsynningsruddi. Samkvæmt bókum Veðurstofu þennan dag snerist vindur til suðvesturs um nóttina. Um hádegi suðvestanátt, 7-11 vindstig og skúrir, og hélst svo til kl. 3. Klukkan 7 um kvöldið sljákkaði í veðri og voru þá 6-9 vindstig og skúrir.
Eftir þesa sjóferð þóttist ég viss um að Stígandi VE-77 væri afburða sjóskip. Þessi fallegi bátur var smíðaður í Svíþjóð 1946 og var í fyrstu stjórnarskip (ríkissjóðs). Var seldur til Norðfjarðar 1958 og síðan til Seyðisfjarðar. Þá nokkur viðdvöl í Keflavík.
Í febrúar 1971 keypti Helgi Bergvins, Lea Sigurðardóttir og Viktor sonur þeirra skipið og hét þá Stígandi VE 77. Fjögur nöfn bar þetta góða skip á sinni tíð. Var svo tekið af skrá sem ósjófært 1981 og sökkt norðvestur af Stóra-Erni (heimild: Jón Björnsson, íslensk skip).
En áfram með sjóferðina. Líklega hefur verið lagt í hann um kl. 2. Sjór var nokkuð úfinn. Menn, sem stóðu eftir á bryggju, sögðu að stundum hefði bara sést í masturstoppana þegar haldið var út fyrir hafnargarðinn. Farþegar hurfu brátt undir þiljur. Við Sigurjón í Hraungerði leituðum skjóls í hliðargangi innst, sátum á málningardollum og yfir þeim netadræsur. Þóttu okkur þetta þægileg sæti eftir atvikum. Ekki minnist ég þess að fleiri hafi verið ofanþilja utan karlar í brúnni. Sátum við þarna í hálftíma á að giska, afslappaðir, fjarri gosáhyggjum um sinn.
Allt í einu tekur Stígandi á sig sjó og flýtur nú inn ganginn svo við félagar verðum sjóblautir upp í mitti. Ekki brá Sigurjóni hið minnsta við þessa skvettu, enda trilluformaður til margra ára eða áratuga. Mér fannst hvílan á blautum netunum ekki fýsileg öllu lengur og segi sisona:
„Ekki er okkur til setu boðið hér öllu lengur, Sigurjón frændi (þremenningar), og hörfum sem skjótast.“
Við leitum nú í vistarverur aftur í sem mun kallast káeta. Þar var setinn bekkur og menn í miklum samræðum. Við Sigurjón stóðum við uppgönguna því okkur sýndist ekkert seturými.
Sigurjón stóð í eldhúsdyrunum. Þar inni stóð pottur á hlóðum. Nú var sem mikill sjór kæmi á bátinn. Við það helltist sjóðheitt vatnið í pottinum á Sigurjón með þeim afleiðingum að hann brenndist illa á öðru lærinu. Átti hann í þessu í nokkrar vikur. Fór nokkrum sinnum í Landspítalann til að láta gera að brunasárinu.
Í káetunni voru fjórar kojur, ef ég man rétt. Sigurjón lagðist nú fyrir eftir þessa ákomu, en ekki var hugað neitt að brunanum enda óhægt um vik. Ég átti fullt í fangi að standa í veltingnum.
Þá segir einhver: „Farðu bara þarna upp í efri kojuna, Halli.“
„Ég fer ekki upp í koju svona rennandi blautur.“
„Skiptir ekki máli í gosi,“ segir maðurinn, og lét ég ekki segja mér tvisvar.
Þetta var nú orðinn fyrsti klassi eftir þilfarsvistina. En víst hef ég bleytt bólið en það var þá hreinn sjór úr Atlantshafinu. Fór vel um mig, gosdressið þornaði hægt og hægt og að lokum alveg. Ég hlustaði á spjall manna, en svo fór að á mig sótti svefn og „drap á mér“ áður en lauk. Vaknaði þá er við nálguðumst Eyjar. Það mun hafa verið um kvöldmatarleytið eins og þeir segja í útvarpinu. Þá var náttúrlega myrkur og vikurhríð með eldglæringum. Enginn mátti fara frá borði fyrr en hann fengi úthlutað hjálmi.
Lokið var þeirri sjóferð.