Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1952/ Vélbáturinn Veiga fórst 12. apríl 1952
Sjómaðurinn hefir beðið Elias Gunnlaugsson að segja lesendum stuttlega frá síðustu sjóferð m.b. Veigu, sem sökk vestur af Einidrangi á laugardag fyrir páska á síðustu vertíð, en Elías var skipstjóri á bátnum.
Laugardaginn 12. apríl s.l. kl. 9 að morgni lögðum við upp í róður á m.b. Veigu VE 291.
Þá um nóttina hafði verið útsunnan stormur með þungum sjó, en vindur og sjór fór batnandi. Allir netabátar fóru því úr höfn, þeir fyrstu kl. 7½ að morgni og síðan hver af öðrum.
Við áttum net okkar vestur og suð-vestur af Einidrangi. Um það bil er við lögðum af stað höfðum við fregnir af því að komin væri norðanátt á Selvogsbanka, en við Eyjar var VSV 2 vindstig.
— Er á miðin kom var þar norðvestan átt og sjór fór minnkandi. Við vorum með trossu með okkur að heiman og lögðum við hana áður en byrjað var að draga.
Um hádegisbil fórum við að draga og gekk það vel og var afli góður eða um 800 þorskar í þessa fyrstu trossu. Lögðum við hana aftur á sama stað. Síðan var farið í aðra trossu, sem var skammt frá. En þegar hálfnað var að draga hana, syrti í lofti og á skammri stundu rauk upp með svarta útsynnings éli. Þegar eitt net var ódregið af trossunni fengum við það í skrúfuna svo illa, að við vorum með öllu stopp og gátum ekki haft stjórn á bátnum.
Ég kallaði nú í talstöðina og náði sambandi við m.b. Halkion VE 27 og sagði honum hvernig komið var. En hann kvaðst vera vestur við Mel (en þaðan var 1½ klst. sigling til okkar), en kvað sig mundu hlusta á okkur og fylgjast með, hvort við næðum ekki sambandi við einhvern bát, sem nær okkur væri. Litlu seinna kallaði mb.. Emma VE 1 á okkur og sagði, að bátur væri á austurleið á slóð okkar og hlyti hann brátt að sjá okkur.
Við dróum þá upp flagg, til merkis um að við þörfnuðumst aðstoðar. Báturinn kom brátt í ljós, og reyndist það vera m.b. Frigg VE 316. Kom hún nú að okkur og komum við dráttartaug millum bátanna og Frigg hélt okkur upp í veðrið meðan við reyndum að ná netunum úr skrúfunni. Gekk það vel eftir atvikum þar eð á var stórsjór og stormur. Urðum við nú sjálfbjarga á ný. En með því að ég taldi líklegt að einhver buska væri eftir í skrúfunni enn, þrátt fyrir það, að við höfðum náð því mesta, bað ég skipstjórann á Frigg, Sveinbjörn Hjartarson að hlusta eftir okkur á heimleiðinni. Tjáði ég honum, að við myndum leggja trossuna, er við höfðum á þilfarinu, og koma síðan heim á eftir honum. Hann kvaðst skyldi gera það og hélt þar með heim á leið.
Bað ég nú háseta mína að gera sjóklárt, því við myndum ekki draga meira, þar sem vindur og sjór færi versnandi.
En það Ieið ekki nema á að gizka stundarfjórðungur frá því að Frigg fór, þar til gífurlegur brotsjór rís svo sem 30 faðma frá bátnum og hvolfdi hann sér yfir okkur.
Fjórir menn voru við störf á þilfarinu þegar þetta gerðist. Einn þeirra, Pál Þórormsson frá Fáskrúðsfirði tók út og sást hann aldrei síðan. Báturinn lagðist á hliðina og voru þá brotnar í honum allar stunnur stjórnborðsmegin að því er virtist og flest ofanþilja rifið og slitið, en bátinn hálffyllti af sjó.
Ég var í stýrishúsinu ásamt tveim hásetum mínum, þegar þetta gerðist. Brotnuðu þar allar rúður og hurðin gekk úr skorðum og kom inn. Varð stýrishúsið nær fullt af sjó.
Litlu eftir að báturinn kom upp úr sjónum stöðvaðist vélin sökum þess hve mikill sjór var kominn í bátinn. Ég fór nú fram í hásetaklefa til að kalla á hjálp í gegnum talstöðina, þar sem sýnt var að báturinn mundi sökkva. Ég náði strax sambandi við Frigg, sem sagðist mundu koma okkur til aðstoðar. Á meðan náðu bátsverjarnir í gúmmí-lífbátinn, sem var uppi á stýrishúsi og dældu í hann lolti. Þegar þessu var lokið var Veiga tekin mjög að hallast og síga í sjó, og að skammri stundu liðinni var ekkert upp úr af henni nema stjórnborðskinnungurinn. Kom nú á okkur annar sjór, sem tók út vélstjórann, Gest Jóhannesson frá Hvoli hér í bæ.
Við sem eftir vorum héldum okkur nú allir í líflínuna á gúmmíbátnum og komumst nú upp í hann og rétt á eftir hvarf Veiga endanlega í hafið.
Við svömluðum nú á gúmmíbátnum þarna í storminum um það bil stundarfjórðung og varðist hann alveg áföllum.
En nú kom Frigg og bjargaði okkur. Og innan stundar komu fleiri bátar á slysstaðinn og leituðu hinna týndu manna, en þeir fundust ekki, og var það okkur auðvitað mikill harmur.
Þegar vonlaust var með öllu um frekari leit var haldið heim. Skilaði Frigg okkur að landi stundu eftir miðaftan.
Elías Gunnlaugsson