Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1952/ Í róðri eins og gengur
Tuttugu ár er ekki langur tími, og vart svo langur að þeir atburðir, sem þá gerðust geti talist til gamla tímans.
Þó hafa breytingarnar á þessu tímabili orðið svo örar, að margt af því sem þá þótti mjög vel við unandi, þykir nú til dags varla nothæft, eða mönnum bjóðandi sem kallað er.
En þrátt fyrir allar breytingar og framfarir er eitt sem stendur óbreytt, en það er kappgirnin, þegar um aflabrögð er að ræða. —
Það koma oft fyrir atvik og atburðir, um borð í bátunum okkar, sem þagað er um, þegar í land kemur. — ef góður félagsskapur er innanborðs.
Þessir atburðir eru oft þess eðlis, að ekki þykir rétt að fleipra með þá, og að þeir komi ekki öðrum við, þótt þeir margir hverjir geti talist til tíðinda, eða séu athyglisverðir þegar betur er að gáð.
Fyrir nálægt 20 árum á laugardagsmorgni fyrir páska var 12 smál. bátur ásamt mörgum fleirum, bæði stærri og minni staddur vestur á Eyjabanka í góðu veðri. Þennan morgun sérstaklega, vildu allir vera komnir tímanlega á miðin, því bæði var það, að stórhátíð var framundan, og mikil aflavon, og þurftu hinir smærri bátar stundum að tvísækja, ef sá guli var vel við.
Aðeins sá, sem verið hefur þátttakandi, getur gert sér í hugarlund, þá fegurðartöfra sem heilla menn, um sólaruppkomu á fögrum aprílmorgni vestur á Eyjabanka og vart held ég að sá maður fyrirfinnist, sem slíkt er hulið fyrir eða verði ekki snortinn af, þótt hann jafnan sé í spenntum veiðihug og netin séu hvít af fiski, svo langt sem sést niður í djúpið.
Sólin hefur lyft sér upp yfir jökulbunguna og glitrar svo einkennilega á hinum ísi þakta fleti að orð fá varla lýst.
Eyjarnar speglast í haffletinum, og er hér sannarlega málverk sem ekki verður gert af mannahöndum, eða nokkuð því líkt, nema sem svipur hjá sjón.
Hérna á miðunum voru fleiri hundruð skipa, af ýmsum stærðum og gerðum. Fyrst eru það bátarnir að heiman, sem flestir eru byrjaðir að draga netin sín, og eru þetta smæstu fleyturnar. Þá koma Færeysku kútterarnir og Frönsku skonnorturnar, og eru þessi skip með handfæri. En nokkru utar og úti við sjóndeildarhringinn eru togarar ýmsra þjóða, sem skrapa og toga látlaust nótt og nýtan dag.
Færaskipin eru sumsstaðar svo þétt hérna á hrauninu, að stundum liggur við að þeim lendi saman. Það má líta 15-20 skip í nær beinni línu, sem snúa stafni í sömu átt, og berast hægt með fallinu, öll eru þau með seglin uppi, nema forseglin, því þeim er fírt þegar færum er rennt, sem kunnugt er.
Frönsku skipin eru frábrugðin þeim Færeyisku, öll eru þau mun stærri, önnur gerð á seglum sem öll eru hvít, og þykja þessi skip ein þau tignarlegustu, þeirra sem þarna er að sjá.
Þegar við erum langt komnir með, að draga fyrstu trossuna, ber mjög nálægt okkur Franska skonnortu; Þarna eru margir menn á borði, þeir draga allir færin upp þegar þeir nálgast netin Og kalla eitthvað yfir til okkar, sem við skildum heldur lítið í, þar næst er hent til okkar kolamola bundnum við segl garn, og af handapati skilst okkur, að við eigum að draga þetta til okkar. Jú það var nú sjálfsagt, við gátum ekki séð að fransararnir hefðu neitt illt í hyggju, bráðlega kemur sverari taug, eða handfærislína, og nú kemur sendingin, fyrsl er það rauðvínsflaska, og þegar við höfum innbyrt hana með mestu nærgætni, kemur á strengnum dálítill böggull, þegar við opnum hann koma í ljós millum 10-20 sendibréf.
Nú er þessum viðskiptum lokið, þeir draga línuna til sín og veifa að skilnaði, þarna skildu hvorir aðra fullkomlega þótt hvorugur kynni stakt orð í annars máli, og bréfunum var að sjálfsögðu skilað til franska ræðismannsins þegar í land kom, sem kom þeim svo áleiðis.
Hvar sem sést til skipa er fiskur á borði að heita má, sama góða veðrið helzt, upp úr hádeginu kaldar lítið eitt af s.v. og sjórinn lifnar. Þetta er sem sagt einn þessara eftirminnanlegu daga þegar allt leikur í lyndi.
Þegar hálfnað er að draga síðustu trossuna, má segja bátinn hæfilega hlaðinn, eitthvað mun hafa verið minnst á það atriði, að skilja nokkur net eftir, en enginn hljómgrunnur var fyrir því, og áfram var haldið að draga, og innbyrða fiskinn, dekkplássið var ekki mikið, en aftur og fram á, var látið, og í gangana, netin voru þá alltaf lögð út af síðunni, nenia á stærri bátunum. Á þeim voru þau greidd jafnóðum niður aftur á, eins og nú er gert.
Og loksins kom stjórinn, en þá var líka drepið í hverja holu að heita mátti, nú var eftir að greiða trossuna niður og leggja hana aftur, en það vildi ekki ganga greitt, tvær atrennur voru gerðar en allt kom fyrir ekki, hún flaut alltaf uppi. Formaður bátsins gaf sig þá í verkið, og viðhafði einhver hvatningarorð, en allt fór á sömu leið, báturinn var orðinn það þungur, að þetta tókst ekki.
Það var því ekki um annað að ræða, en láta draslið fara, stjórinn söng út, og þrjú net á eftir, í göndli, en úr því var hægt að greiða nokkurnveginn þótt mikið vantaði á að það væri gert á nauðsynlegan hátt, en þetta varð að nægja eins og nú stóð á.
Lúgan var skálkuð, og gengið frá öllu eins og vera ber, eða eftir því sem föngvoru á, og haldið heim.
Þegar báturinn var kominn til ferðar virtist allt í góðu lagi, hann fór býsna vel í sjó, og bar ekki á öðru en að um hættulausa hleðslu væri að ræða.
Í lúkarnum varð bráðlega kaffiilmur, og kaffið var sérlega vel þegið, með því sem eftir var í bitakassanum, og allir voru komnir í hátíðaskap.
Og áfram var haldið. Smáeyjar nálgast, og loks rennir báturinn sér um Smáeyjasund.
En þá, rétt þegar hlé er fyrir innan, og sléttur sjór, eins og skáldið kemst að orði, kemur alda, eða öldur, og fyllir það rúm, sem fiskur var ekki í.
Það finnst glögglega að báturinn sígur, og sjór flæðir niður í lúkarinn, og mennirnir sem þar voru, koma æðandi á móti sjógusunni, og upp á þilfarið, eða upp í sjóinn.
Formaðurinn var við stýrið, eins og vera bar og vildi að sjálfsögðu aðhafast eitthvað til úrbóta, honum verður það næst hendi, að grípa. Í olíugjöfina, og hægja ferðina, en á næsta andartaki áttar hann sig, hann eykur olíugjöfina, og öskrar til vélamannsins, að láta nú helvítið hafa það sem hægt er, þetta er betra, báturinn sígur áfram, og uppávið, og eftir nokkrar bátslengdir er komið inn fyrir eyjarnar, inn á sléttan sjó. Sigur hefur unnist, sem ég held, að frekar hafi verið að þakka forsjóninni, en fyrirhyggju ráðamanna bátsins. Það flaut lílið út af fiskinum, eða minna en búast hefði mátt við, og engin ónot, eða ásakanir heyrðust, vegna þessa tilfellis.
Páskahátíðin var byrjuð.