Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Hugleiðingar um sjávarútvegsmál
Hugleiðingar um sjávarútvegsmál og síðustu vertíð
Síðustu vertíðarpistla hef ég byrja á því að hugleiða nokkuð þær breytingar sem sífellt er verið að gera á lögunum um stjórn fiskveiða. Það er auðvitað ekki óeðlilegt, og var jafnvel reiknað með því þegar fiskveiðistjórnarlögin voru fyrst sett að þau áhrifamiklu og umdeildu lög yrði að endurskoða og að af þeim þyrfti að sníða ýmsa vankanta og misfellur sem í ljós kæmu þegar farið yrði að vinna eftir þeim
Ég hygg að fæsta hafi grunað að á tíu ára afmæli kvótakerfisins væri ennþá verið að boða mjög afgerandi breytingar á þessum lögum. Þessi hringlandi hefur það í för með sér að það er nær útilokað fyrir nokkurt fyrirtæki í sjávarútvegi, hvort sem það er stórt eða lítið, að starfa eftir þessum lögum vegna þess að menn eru ekki fyrr búnir að skipuleggja rekstur sinn á þann hátt sem þeir telja hagstæðast fyrr en öllu er kollvarpað með lagabreytingu og byrja verður upp á nýtt.
Þetta hringl er vatn á myllu þeirra sem leynt og ljóst hafa barist á móti aflamarkskerfinu og jafnvel allri fiskveiðistjórn. Þeim fer fjölgandi sem vilja þetta kerfi út í hafsauga og það er greinilegt að ráðamennirnir sjálfir eru orðnir blendnir í trúnni á kerfið því að þær breytingar, sem nú eru boðaðar, veikja aflamarkskerfið verulega og eru bein undanlátssemi við allfjölmenna þrýstihópa sem eiga sér freka formælendur sem sumir hverjir hafa það að höfuðmarkmiði að sprengja kerfið. Það liggur alveg ljóst fyrir að haldi svona undanlátssemi áfram þá tekst þeim það því það verða ekki margir sem vilja eða geta starfað undir núverandi kerfi án frjáls framsals og þar með er það úr sögunni en enginn veit hvað við tekur.
Þó að þetta sé sjómannadagsblað ætla ég ekki að óska sjómönnum í Vestmannaeyjum til hamingju með það ef sjómannaforystunni í landinu tekst að koma í veg fyrir allt framsal á aflaheimildum svo og þau viðskipti sem kölluð hafa verið tonn á móti tonni því það hlýtur að hafa í för með sér verulega tekjuskerðingu fyrir sjómenn. Strákarnir t.d. á Glófaxa með 168 tonna þorskkvóta, á Valdimar Sveinssyni með 164 tonn og Guðrúnu með 140 tonn af þorski geta hæglega reiknað út árshlutinn sinn og borið saman við það sem þeir hafa haft. Verði öll kvótaskipti aflögð þá liggur enginn viðbótarafli á lausu, heldur mun enn verða veruleg skerðing á þorskkvótanum. Samkvæmt þessum tillögum verður krókaleyfisbátum úthlutað 21.600 tonnum á næsta fiskveiðiári, en það þýðir að verði heildarþorskkvóti óbreyttur þá skerðast allir aflamarksbátar, stórir og smáir, þann 1. september n.k. um 10% af þeim þorskkvóta sem þeir hafa nú.
Þessar tillögur fela einnig í sér mikla mismunun á milli manna og fyrirtækja, en þess háttar boðskap hefur verið reynt að forðast til þessa.
Sá sem á fleiri en eitt skip getur hagrætt aflanum á milli skipa sinna eftir því sem hann telur hagstæðast, en einyrkinn sætir ákveðnum þvingunarreglum þurfi hann að skipta á veiðiheimildum við aðra.
Ég er undrandi á að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli samþykkja svona tillögur. Menn sem til þessa hafa kennt sig við frjálshyggju og hafa boðað að frelsi og framtak einstaklingsins eigi að njóta sín. Nú samþykkja þessir postular meiri miðstýringu og höft, mismunun, boð og bönn. Eru öll pólitísk gildi að snúast við á Íslandi, eða er það rétt sem margir sjávarútvegsmenn halda fram að þorri þessara þingmanna viti ekki og skilji ekki um hvað þessi mál snúast en dansi í sinni afstöðu eftir úreltum kennisetningum og upphrópunum þeirra er hæst hafa?
Eflaust líta einhverjir á þessi skrif sem áróður sem ekki eigi heima í þessu blaði, en þetta eru þó staðreyndir sem ég held að sjómenn þurfi að kynna sér betur.
Þá eru einnig til umræðu breytingartillögur við frumvarp til laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, en allur þorri sjávarútvegsmanna er mjög andvígur þeirri sjóðsstofnun, af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi felur hann í sér aðlindaskatt sem enginn veit hvað verður hár þar sem lögin segja aðeins að frá 1. september 19% skuli Fiskistofa innheimta gjald af úthlutuðu aflamarki sem skuli nema að minnsta kosti 1000,- kr. fyrir hverja þorskígildislest, en ekkert er tilgreint hvert hámark gjaldsins megi vera og geta ráðamenn því verslað með það eftir þörfum. Þá segir einnig að þróunarsjóðurinn taki við öllum eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar og öllum eignum og skuldbindingum hlutafjárdeildar Byggðastofnunar en báðar þessar deildir munu nú þegar hafa safnað miklum vanskilum.
Hér er með lögum verið að skuldbinda einstaklinga og fyrirtæki til þess að taka á sig skilaábyrgð á lánum sem þeir hafa aldrei tekið eða fengið.
Það fylgir því mikið óöryggi að eiga allt sitt undir geðþótta misviturra alþingismanna, sem jafnvel lögbinda mál sem þeir hafa ekki gripsvit á.
Mál er að linni skömmum á kerfiskarla, en árangur og afrakstur vertíðarinnar skoðaður.
Sjómönnum kemur saman um að veðráttan á vertíðinni 1994 hafi verið með besta móti, og mun betri en á síðustu vertíð, lítið um stórviðri og oftast hægt að komast klakklaust sínar sjóleiðir.
Vertíðin hófst með verkfalli 2. janúar á öllum fiskiskipaflota landsmanna nema Vestfirðingar.
Samningaviðræður höfðu staðið yfir í Reykjavík án nokkurs árangurs og áfram héldu þær eftir að verkfall hófst með tilheyrandi stríðsyfirlýsingum og sprengingum á báða bóga. Það mikil harka fór í viðræðurnar að ráðamenn töldu enga lausn í sjónmáli og hjuggu á hnútinn með því að banna verkfallið með bráðabirgðarlögum er tóku gildi þann 14. janúar. Nú er reynt að klóra yfir þá lagasetningu með þeim breytingartillögum sem nú er rifist um. Stór hluti flotans var tilbúinn til róðra, en vegna rysjótts tíðarfars í janúar fór vertíðarflotinn hægt í gang. Loðnuflotinn hóf strax veiðar og þeir sem fyrstir voru á miðin fengu þegar afla austur af Glettingi, en síðan hvarf sá kenjótti fiskur og lét ekkert á sér kræla aftur fyrr en um mánaðamótin og þá á Hvalbakssvæðinu. Tregur afli var í nokkra daga, en þann 7. febrúar gaus upp loðna á því svæði og segja má að frá því hafi verið mokveiði allt til 26. mars. Að vísu komu smáeyður í veiðina og fyrri hluta marsmánaðar var útlit fyrir að aflinn væri að dragast upp, en um miðjan mánuðinn kom aftur gott skot við Snæfellsnes af góðri hryggningarloðnu sem setti endapunktinn á mjög góða vertíð. Allt hjálpaðist að, veðráttan, óvenjulega stór og góð loðna og markaðsaðstæður. Mjög mikið var fryst til manneldis, bæði af loðnu og hrognum, þar sem þessa vöru vantaði á Japansmarkað. Mikil eftirspurn þýddi hagstætt verð og er óhætt að fullyrða að þessi litli fiskur hafi bjargað afkomu margra, bæði til sjós og lands, og það ekki í fyrsta skipti.
Um aðra sjósókn og aflabrögð á þessari vertíð er heldur lítið að segja þar sem fátt var um fína drætti. Mjög lítið barst hingað af síld, eða aðeins 367 lestir. Netabátar leituðu fyrir sér bæði djúpt og grunnt og er ekki hægt að segja annað en að afli hafi verið tregur hjá flestum, og miklu minni en oft áður. Að vísu þurftu margir að fara varlega í þorskveiðina, en ég held að flestir séu sammála um það að fiskgengd á Eyjamið í vetur sé ekki svipur hjá sjón hjá því sem oft hefur verið. Grunnslóðin hefur gefið mjög lítið í netin, en smáskot hafa fengist í kantinum, þó aldrei neitt mok. Svipað er að segja um trollið. Tæpast verður vart á grunnmiðum og hafa litlu bátarnir lapið dauðann úr skel, en þeir stærri og kraftmeiri hafa fengið góðar glefsur af ufsa og ýsu á djúpslóðinni. En þá hefur komið upp sama vandamál með ýsuna og á síðustu árum að stór hluti hennar er undir svokölluðum viðmiðunarmörkum, en það þýðir að viðkomandi svæði er lokað. Þær skyndilokanir eru að vísu algjörlega gagnslausar vegna þess að vinnubrögðin, sem þar eru notuð, eru alröng. Það hlýtur eitthvað í lífríkinu að eiga sök á því hvað ýsunni gengur hægt að stækka því eins og fyrr segir hefur uppistaðan í ýsustofninum á Íslandsmiðum sl. þrjú ár verið 40-50 cm fiskur og er engin breyting sjáanleg á því.
Það er annað í sambandi við ýsuna sem margir telja óeðlilegt. Sjómenn fullyrða, og reyndar hafa vísindamenn sannreynt það, að nú veiðist nokkuð af smáýsu, sögð tveggja ára, en full af hrognum. Sumir vilja meina að eitthvað svipað sé að gerast með þorskinn. Vísindin segja okkur að þessar fisktegundir verði kynþroska fimm ára svo eitthvað óeðlilegt er hér að gerast.
Þegar þessar línur eru settar á blað síðustu daga aprílmánaðar eru veiðar hafnar að nýju eftir hrygningarfriðunina sem að þessu sinni stóð frá II. til 26. apríl. Það var til mikilla bóta þegar ráðamenn féllust á veiðibann, til þess að þorskurinn fengi að hrygna í friði, skyldi ekki endilega bundið við páska heldur vera á þeim tíma er hrygning færi helst fram. Það er vonandi að þessi friðun hafi gert eitthvert gagn þó að vitað sé að hrygning fari fram á löngum tíma og einnig ljóst að t.d. kantafiskurinn skilar þessu frá sér mun seinna en sá á grunnslóðinni.
Aflinn nú fyrstu daga eftir stoppið hefur verið mjög misjafn. Togbátarnir hafa fengið ágætisafla og er verulegur hluti hans ýsa, en sem fyrri daginn mjög misstór og á blettum það smá að skyndilokunum hefur enn verið beitt.
Hjá netabátum hefur aflinn verið mun tregari, þó hafa einhverjir komist í tíu tonn eða góðlega það eftir nóttina og verður það að teljast þokkalegur afli á þessum tíma.
Allur aflasamanburður á milli vertíða er mjög erfiður. Þar sem þessum pistli þarf að skila fyrir apríllok þá er aprílaflinn óuppgerður og auk þess nokkuð eftir af vertíðinni. Séu aflatölur frá marslokum nú skoðaðar og bornar saman við afla á sama tíma 1993 kemur í ljós að þorskafli, sem hér er landað, hefur minnkað um nær þriðjung á milli þessara ára eða úr 3900 lestum í 2799 lestir. Ýsuafli hefur aukist um 300 lestir á sama tíma, ufsinn er einnig drýgri og munar þar 550 lestum, en karfaafli hefur dregist saman um 450 lestir, grálúðuafli svipaður bæði árin en rúm 100 tonn vantar á skarkolaaflann nú.
Þetta yfirlit sýnir að í marslok hafði borist hingað rúmum 900 lestum minna af kvótabundnum botnfiski en á sama tíma í fyrra og að auki um 1500 lestum minna af öðrum botnfiski, en þar munu verðlitlar tegundir svo sem gulllax vega nokkuð. Varla hefur aprílaflinn breytt þessum samanburði mikið þar sem helmingur þess mánaðar fór fyrir lítið. Mjög lítið barst hingað af síld í vetur, eða aðeins 367 lestir á móti 5090 lestum í fyrra. Loðnuaflinn var mikill, sem fyrr segir, og bárust hingað rúmar 96 þúsund lestir á móti 89 þús. 1993.
Verkfallið í janúar á einhvern hlut en ekki stóran í minni botnfiskafla. Aðalástæðan hlýtur að vera minni fiskgengd og svo sú staðreynd að fiskiskipum í Vestmannaeyjum fer fækkandi. Nú í apríl eru gerð út héðan 46 skip yfir 12 rúmlestir en þau voru 52 fyrir ári. Erfitt er að spá í hvað framtíðin ber í skauti sér, en það vegur að sjálfsögðu þungt hvort lífríkið og lífsskilyrðin í hafinu kringum landið verði fiskistofnunum hagstæð, hvort uppbygging fiskistofnanna verður talin meira virði en rányrkja og hvort ráðamönnunum tekst að stjórna sjávarútveginum af einhverju viti.
Skrifað í apríllok 1994
- Hilmar Rósmundsson